Ferill 866. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1772  —  866. mál.




Svar


mennta- og menningarmálaráðherra við fyrirspurn frá Svandísi Svavarsdóttur um málefni trans- og intersex-barna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er stefna ráðherra í málefnum transbarna?
     2.      Hafa verið gerðar einhverjar ráðstafanir, og þá hverjar, til að tryggja stöðu transbarna, m.a. með því að fræða kennara og annað starfsfólk skólakerfisins um málefni þeirra og með því að taka þau með í jafnréttisfræðslu nemenda? Óskað er eftir að í svarinu verði fjallað um fræðslu sem starfsfólki og nemendum er veitt.
     3.      Hefur ráðherra aflað upplýsinga um stöðu transbarna í skólum, sbr. 2. mgr. 38. gr. grunnskólalaga og 2. mgr. 20. gr. leikskólalaga þar sem segir að ráðuneytið geri áætlun til þriggja ára um kannanir og úttektir sem miði að því að veita upplýsingar um fram­kvæmd laganna og aðalnámskrár og aðra þætti skólastarfs? Ef ekki, eru uppi áform um að afla slíkra upplýsinga?
     4.      Hvernig taka leik- og grunnskólar á móti transbörnum?
     5.      Er sérstaklega gert ráð fyrir hinsegin börnum í aðgerðaáætlunum gegn einelti í skólum og er einhver stefna fyrir hendi varðandi andlega heilsu og félagslega stöðu hinsegin barna?
    Einnig er óskað eftir upplýsingum um öll ofangreind atriði að því er varðar intersex-börn.

Svar við 1. tölulið.
    Ráðherra hefur ekki sett sérstaka stefnu í málefnum trans- og intersex-barna en í aðalnám­skrám leik-, grunn- og framhaldsskóla má finna stefnu ráðherra í jafnréttismenntun og um­fjöllun um mismunun í skólastarfi, þar með talið mismunun vegna kyns eða kynhneigðar. Í aðalnámskránni er því ekki sérstaklega fjallað um stöðu transbarna, intersex-barna eða hinsegin barna vegna mismununar frekar en annarra hópa, svo sem vegna aldurs, búsetu, fötl­unar, kyns, kynhneigðar, litarháttar, lífsskoðana, menningar, stéttar, trúarbragða, tungumála, ætternis eða þjóðernis.
    Vegna fyrirspurnarinnar má vísa í umfjöllun um jafnréttismenntun í aðalnámskrá grunn­skóla en þar segir: „Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu, námsaðferða og náms­umhverfis. Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta. Hér á eftir er upptalning nokkurra þeirra í stafrófsröð: Aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni, þjóðerni. Á öllum skólastigum á að fara fram menntun til jafnréttis þar sem fjallað er um hvernig ofangreindir þættir geta skapað mis­munun eða forréttindi í lífi fólks. [...] Undir jafnréttismenntun fellur m.a. nám um kyn og kynhneigð. Með grunnþættinum jafnrétti er einnig lögð áhersla á að fram fari nám um menningu, þjóðerni, tungumál, trúarbrögð og lífsskoðanir. Eitt af viðfangsefnunum er þróun Íslands sem fjölmenningarsamfélags. Með jafnrétti er einnig lögð áhersla á félagslegan skiln­ing á því hvað felst í fötlun. Áskoranir fólks með fötlun eiga ekki síður rætur í umhverfinu en í skerðingu einstaklings. Leggja skal áherslu á skóla án aðgreiningar í öllu skólastarfinu.“
    Um skóla án aðgreiningar segir í aðalnámskrá grunnskóla: „Með skóla án aðgreiningar er átt við grunnskóla í heimabyggð eða nærumhverfi nemenda þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir hvers og eins með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi. Í skóla án aðgreiningar er gengið út frá því að allir fái jöfn eða jafngild tækifæri til náms og að námið sé á forsendum hvers einstaklings.“

Svar við 2. tölulið.
    Kennaramenntun er á forræði háskóla á grundvelli aðalnámskráa þar sem fjallað er um málefni sem snúa að kynhneigð og kynvitund í grunnstoðum menntunar, þá sérstaklega í grunnstoðinni jafnrétti. Þar af leiðandi lítur ráðuneytið svo á að málefnið sé hluti af jafnréttis­fræðslu allra skólastiga.
    Ráðuneytið hefur hvatt framhaldsskóla til að skipuleggja kynjafræðiáfanga fyrir alla nem­endur skólanna og er samstarf við jafnréttisfulltrúa allra framhaldsskóla um ýmis mál sem snúa að jafnrétti í skólunum.

Svar við 3. tölulið.
    Ráðuneytið hefur ekki aflað upplýsinga um stöðu transbarna í skólum, hvorki á leik-, grunn- né framhaldsskólastigi. Ráðuneytið hefur engar skráðar upplýsingar um kynhneigð eða kynvitund barna í leik-, grunn- eða framhaldsskólum. Slík könnun er ekki á þriggja ára áætlun ráðuneytisins.

Svar við 4. tölulið.
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um móttökuáætlanir einstakra skóla vegna transbarna, intersex-barna eða hinsegin barna. Skipulag og framkvæmd skólastarfs í leik- og grunn­skólum er á forræði sveitarfélaga en í aðalnámskrá grunnskóla segir: „Við framkvæmd sér­fræðiþjónustu skulu sveitarfélög leggja áherslu á forvarnarstarf til að stuðla markvisst að almennri velferð nemenda og til að fyrirbyggja vanda.“

Svar við 5. tölulið.
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um aðgerðaáætlanir einstakra skóla gegn einelti. Slíkar aðgerðaáætlanir eiga að snúa að einelti óháð uppruna eða tilurð þess.