Ferill 894. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Prentað upp.

Þingskjal 1773  —  894. mál.
Leiðrétting.
Frumvarp til lagaum Grænlandssjóð.

Frá allsherjar- og menntamálanefnd.


1. gr.

Hlutverk.

    Hlutverk Grænlandssjóðs er að efla samskipti Grænlands og Íslands í samræmi við ákvæði þessara laga.
    Grænlandssjóður veitir styrki til kynnisferða, námsdvalar, listsýninga, íþróttaviðburða og annarra málefna á sviði menningar, menntunar og vísinda sem geta stuðlað að auknum samskiptum Grænlendinga og Íslendinga.

2. gr.

Sjóðstjórn.

    Ráðherra skipar þrjá menn í sjóðstjórn Grænlandssjóðs, einn samkvæmt tilnefningu Alþingis, einn samkvæmt tilnefningu utanríkisráðuneytis og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
    Sjóðstjórn hefur á hendi stjórn sjóðsins og gerir tillögur til ráðherra um styrkveitingar.
    Ráðherra úthlutar styrkjum úr Grænlandssjóði að fengnum tillögum stjórnar sjóðsins.
    Ráðherra er heimilt að semja við þar til bæran aðila um að annast umsýslu Grænlands­sjóðs.
    Ríkissjóður annast fjárreiður Grænlandssjóðs. Kostnaður af starfsemi Grænlandssjóðs greiðist úr sjóðnum sjálfum.

3. gr.

Úthlutun.

    Til styrkveitinga skal verja allt að 3 millj. kr. á ári miðað við verðlag ársins 2016 þar til sjóðurinn er uppurinn.
    Gjafir til sjóðsins skulu leggjast við höfuðstól hans.
    Auglýst skal eftir umsóknum um fjárveitingu úr sjóðnum í dagblöðum eða á sambærilegan hátt, bæði á Íslandi og í Grænlandi, í upphafi hvers almanaksárs.

4. gr.

Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara í heild eða einstakar greinar þeirra.

5. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi taka þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um Grænlands­sjóð, nr. 102/1980.

Greinargerð.

    Þrátt fyrir að höfuðstóll Grænlandssjóðs sé nú um 70 millj. kr. (í ársreikningi 2013 kom fram að eigið fé í árslok nam 63.230.000 kr.) hafa ekki verið veittir styrkir úr sjóðnum frá árinu 2011. Ástæða þess er hvernig gildandi lög um Grænlandssjóð, nr. 102/1980, eru úr garði gerð. Skv. 5. gr. laganna má aðeins veita 9/10 hlutum af vaxtatekjum í styrki. Frá árinu 2010 hefur ávöxtun sjóðsins verið lítil sem engin og jafnvel neikvæð. Það er mat nefndar­innar að þessu þurfi að breyta svo að hægt verði að úthluta úr sjóðnum á nýjan leik.
    Skv. 4. gr. gildandi laga er heimilt að breyta framlögum og öðrum tekjum sjóðsins í „grænlenskan gjaldeyri“, þ.e. danskar krónur. Sú heimild hefur verið nýtt frá upphafi, þ.e. umsýsluaðili sjóðsins, Seðlabanki Íslands, hefur geymt höfuðstól sjóðsins á dönskum gjaldeyrisreikningi. Ekki verður séð að ástæða sé til að halda í þá framkvæmd enda eru styrkir úr sjóðnum veittir í íslenskum krónum og því að öllu leyti eðlilegt að umbreyta þeim úr íslenskum krónum í danskar krónur miðað við gengi þeirra gjaldmiðla á úthlutunardegi.
    Frumvarp þetta er lagt fram með það að markmiði að úthlutun úr Grænlandssjóði hefjist á ný, svo að hægt verði að stuðla að því lögbundna markmiði sem sjóðurinn hefur. Verði frumvarp þetta að lögum má gera ráð fyrir að sjóðurinn dugi í 30–40 ár áður en hann verður uppurinn að því gefnu að engar fjárveitingar renni í sjóðinn á þeim tíma.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er fjallað um tilgang Grænlandssjóðs sem er að efla samskipti Grænlands og Íslands.
    Greinin fjallar einnig um hlutverk Grænlandssjóðs sem er að veita styrki til kynnisferða, námsdvalar, listsýninga, íþróttaviðburða og annarra málefna á sviði menningar, menntunar og vísinda er geta stuðlað að auknum samskiptum Grænlendinga og Íslendinga.
    Báðar þessar greinar eiga sér hliðstæðu í 1. og 2. gr. gildandi laga um Grænlandssjóð.

Um 2. gr.

    Samkvæmt gildandi lögum er stjórn sjóðsins skipuð fimm mönnum sem Alþingi kýs í hlutfallskosningu og skipar ráðherra formann stjórnarinnar. Með frumvarpi þessu er lagt til að fækka stjórnarmönnum í þrjá og fela ráðherra að skipa í stjórnina í samræmi við flestar stjórnir, ráð og nefndir á stjórnsýslustigi. Ráðherra skipar í stjórn, m.a. að fengnum tillögum hagsmunaaðila. Ákvæðið gerir ráð fyrir að varamenn verði skipaðir með sama hætti.
    Hlutverk sjóðstjórnar er að meta og gera tillögur til ráðherra um afgreiðslu umsókna og styrkveitingar. Ráðherra úthlutar styrkjum að fengnum tillögum sjóðstjórnar. Ráðherra getur falið þar til bærum aðila að annast umsýslu sjóðsins. Að lokum er kveðið á um að ríkissjóður annist fjárreiður Grænlandssjóðs og að kostnaður af starfsemi hans greiðist úr sjóðnum, þar á meðal þóknun til sjóðstjórnar, auglýsingakostnaður og ferða- og fundakostnaður.

Um 3. gr.

    Greinin kveður á um að til styrkveitingar skuli verja allt að 3 millj. kr. á ári miðað við verðlag ársins 2016 og að gjafir til sjóðsins skuli leggjast við höfuðstól hans. Í 3. málsl. 5. gr. gildandi laga er mælt fyrir að gjafir til sjóðsins leggist við stofn hans, nema stjórn sjóðsins sé sammála um að verja ákveðnum gjöfum eða framlagi til einstaks verkefnis sem hún telur að sé sérstaklega þörf fyrir. Ekki þykir ástæða til að hrófla við þeirri meginreglu að gjafir leggist við stofn sjóðsins en hins vegar verður ekki séð að ástæða sé til að fela stjórn sjóðsins völd til að ákveða að gjöfum verði varið til einstaks verkefnis sem hún telur að sérstaklega sé þörf fyrir. Því hefur sá hluti núgildandi ákvæðis verið felldur brott.
    Lagt er til að í ákvæðinu verði kveðið á um að auglýst skuli eftir umsóknum um fjár­veitingu úr sjóðnum ár hvert. Bæði skal auglýst á Íslandi og Grænlandi og skal auglýsingin vera aðgengileg almenningi.

Um 4. gr.

    Með greininni er mælt fyrir um heimild ráðherra til setningar reglugerðar.

Um 5. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.