Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1781, 145. löggjafarþing 631. mál: skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða).
Lög nr. 113 19. október 2016.

Lög um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, með síðari breytingum (fjárfestingarheimildir).


1. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     9. tölul. 3. mgr. 29. gr. laganna orðast svo: að setja áhættustefnu og móta eftirlitskerfi með áhættu sjóðsins, sbr. 36. gr. e.

3. gr.

     Á eftir 35. gr. laganna kemur ný grein, 35. gr. a, svohljóðandi:
     Lífeyrissjóður skal tilnefna starfsmann hjá sjóðnum til að bera ábyrgð á greiningu, mælingu og skýrslugjöf um áhættu og skal tilnefningin tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Láti sá starfsmaður af störfum skal það jafnframt tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. Ábyrgðaraðila áhættustýringar verður hvorki sagt upp störfum né hann færður til í starfi nema að fengnu samþykki stjórnar.
     Áhættustýring lífeyrissjóðs skal vera óháð öðrum starfseiningum sjóðsins. Lífeyrissjóður skal tryggja að áhættustýring hafi nægilegt fjármagn og heimildir, m.a. til þess að afla gagna og upplýsinga sem nauðsynlegar eru í starfsemi áhættustýringar. Tryggt skal að ábyrgðaraðili áhættustýringar hafi milliliðalausan aðgang að stjórn lífeyrissjóðs.
     Sé ekki unnt að tryggja aðskilnað starfa, sökum smæðar lífeyrissjóðs, skal lífeyrissjóðurinn sjá til þess að innra eftirlit sé nægilega ítarlegt til að lágmarka líkur á hagsmunaárekstrum.

4. gr.

     36. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, verður svohljóðandi:
Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðs.
     Stjórn lífeyrissjóðs skal móta og kunngera fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn og einstakar deildir hans og ávaxta fé sjóðsins og einstakra deilda hans í samræmi við eftirtaldar reglur og innan þeirra marka sem tilgreind eru í þessum kafla:
  1. Lífeyrissjóður skal hafa hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.
  2. Lífeyrissjóður skal horfa til aldurssamsetningar sjóðfélaga og annarra tryggingafræðilegra þátta sem áhrif hafa á skuldbindingar.
  3. Allar fjárfestingar skulu byggðar á viðeigandi greiningu á upplýsingum með öryggi, gæði, lausafjárstöðu og arðsemi safnsins í heild í huga.
  4. Lífeyrissjóður skal gæta þess að eignir sjóðsins séu nægilega fjölbreyttar til að komið sé í veg fyrir samþjöppun og uppsöfnun áhættu í eignasafninu, m.a. með því að gæta að fylgni áhættu einstakra eigna og eignaflokka.
  5. Lífeyrissjóður skal setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum.

     Fjárfestingarstefna lífeyrissjóðs skal byggð á flokkun eigna skv. 2. mgr. 36. gr. a. Hver tegund innlána og fjármálagerninga skal jafnframt sundurliðuð eftir því sem við á með tilliti til gjaldmiðlaáhættu og stærðar einstakra innlánsaðila eða útgefenda. Fjárfestingarstefnu lífeyrissjóðs skal fylgja greinargerð um það hvernig sjóðurinn fylgir reglum 1. mgr.
     Lífeyrissjóður skal senda upplýsingar um fjárfestingarstefnu sína fyrir komandi ár til Fjármálaeftirlitsins eigi síðar en 1. desember ár hvert.

5. gr.

     36. gr. a laganna, ásamt fyrirsögn, verður svohljóðandi:
Fjármálagerningar og innlán.
     Lífeyrissjóði er heimilt að ávaxta fé, sem ætlað er til að veita lágmarkstryggingavernd, í innlánum viðskiptabanka og sparisjóða, fjármálagerningum og fasteignum, að uppfylltum skilyrðum þessa kafla.
     Lífeyrissjóður skal flokka eignir sjóðsins í eignaflokka A–F, sem hér segir:
  1. Eignaflokkur A.
    1. Fjármálagerningar sem aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) eða aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða Færeyjar gefa út eða ábyrgjast.
    2. Skuldabréf tryggð með veði í fasteign, enda fari veðhlutfall ekki umfram 75% af markaðsvirði íbúðarhúsnæðis eða 50% af markaðsvirði annarra fasteigna við lánveitingu.
  2. Eignaflokkur B.
    1. Fjármálagerningar sem sveitarfélög eða Lánasjóður sveitarfélaga ohf. gefa út eða ábyrgjast.
    2. Innlán viðskiptabanka og sparisjóða.
    3. Skuldabréf samkvæmt lögum um sértryggð skuldabréf og samsvarandi skuldabréf útgefin í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
  3. Eignaflokkur C.
    1. Skuldabréf og peningamarkaðsskjöl útgefin af lánastofnunum og vátryggingafélögum, að undanskildum kröfum sem um hefur verið samið að víki fyrir öllum öðrum kröfum.
    2. Hlutir eða hlutdeildarskírteini verðbréfasjóða samkvæmt lögum um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði eða tilskipun 2009/65/EB um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum að því er varðar verðbréfasjóði (UCITS).
  4. Eignaflokkur D.
    1. Skuldabréf og peningamarkaðsskjöl félaga.
    2. Skuldabréf og peningamarkaðsskjöl annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
  5. Eignaflokkur E.
    1. Hlutabréf félaga.
    2. Hlutir eða hlutdeildarskírteini annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu.
    3. Fasteignir í aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) eða aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins eða Færeyjum.
  6. Eignaflokkur F.
    1. Afleiður sem draga úr áhættu sjóðsins, enda sé viðmið þeirra fjárfestingarheimildir samkvæmt þessari grein, neysluverðsvísitölur, verðbréfavísitölur, vextir eða gengi erlendra gjaldmiðla.
    2. Aðrir fjármálagerningar, þó ekki afleiður.


6. gr.

     Á eftir 36. gr. a laganna koma fimm nýjar greinar, 36. gr. b – 36. gr. f, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
     
     a. (36. gr. b.)
Vægi eignaflokka, skráning og útgáfa.
     Lífeyrissjóður skal tryggja að vægi eignaflokka skv. 2. mgr. 36. gr. a sé innan eftirtalinna marka:
  1. Eignir skv. 3.–6. tölul. skulu samanlagt vera innan við 80% heildareigna.
  2. Eignir skv. 4.–6. tölul. skulu samanlagt vera innan við 60% heildareigna.
  3. Eignir skv. 6. tölul. skulu samanlagt vera innan við 10% heildareigna.

     Fjármálagerningar skv. 2.–6. tölul. 2. mgr. 36. gr. a skulu skráðir á skipulegum verðbréfamarkaði innan aðildarríkja OECD eða ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, sem starfar reglulega, er opinn almenningi og viðurkenndur á þann hátt sem Fjármálaeftirlitið metur gildan, eða markaði utan ríkja OECD eða ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, enda hafi Fjármálaeftirlitið viðurkennt hann. Þrátt fyrir 1. málsl. er lífeyrissjóðum heimilt að fjárfesta í hlutum og hlutdeildarskírteinum sjóða um sameiginlega fjárfestingu ef kveðið er á um heimild til innlausnar þeirra að kröfu lífeyrissjóðsins á hverjum tíma.
     Þrátt fyrir 2. mgr. er lífeyrissjóði heimilt að binda allt að 20% heildareigna í fjármálagerningum sem ekki eru skráðir á skipulegum verðbréfamarkaði. Að því viðbættu er heimilt að binda allt að 5% heildareigna í fjármálagerningum sem eru skráðir á markaðstorg fjármálagerninga (MTF) í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, sem starfar reglulega, er opið almenningi og viðurkennt á þann hátt sem Fjármálaeftirlitið metur gildan.
     Fjármálagerningar sem ekki eru skráðir á skipulegum verðbréfamarkaði skulu gefnir út af aðilum innan aðildarríkja OECD eða ríkja Evrópska efnahagssvæðisins.
     Séu afleiður skv. 6. tölul. 2. mgr. 36. gr. a ekki skráðar á skipulegum verðbréfamarkaði skal mótaðili lífeyrissjóðs lúta eftirliti sem Fjármálaeftirlitið metur gilt. Þá skal vera unnt að reikna verðmæti slíkra samninga daglega með áreiðanlegum hætti og skal tryggt að unnt sé að selja, gera upp eða loka slíkum samningum samdægurs á raunvirði hverju sinni.
     
     b. (36. gr. c.)
Mótaðilaáhætta.
     Lífeyrissjóði er heimilt að binda allt að 10% heildareigna í fjármálagerningum sama útgefanda sem falla undir 2.–6. tölul. 2. mgr. 36. gr. a. Þar af er lífeyrissjóði óheimilt að binda meira en 5% af heildareignum í fjármálagerningum sama útgefanda sem falla undir 6. tölul. 2. mgr. 36. gr. a.
     Þrátt fyrir 1. mgr. er lífeyrissjóði heimilt að binda allt að 10% heildareigna í sértryggðum skuldabréfum sama útgefanda skv. c-lið 2. tölul. 2. mgr. 36. gr. a.
     Samanlögð eign lífeyrissjóðs í fjármálagerningum skv. 1. og 2. mgr. og innlánum sama viðskiptabanka eða sparisjóðs skal vera innan við 25% heildareigna.
     Lífeyrissjóður skal tryggja að mótaðilaáhætta, sem leiðir af afleiðu, falli undir takmarkanir 1. og 3. mgr.
     Aðilar sem teljast til sömu samstæðu eða tilheyra hópi tengdra viðskiptavina, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, skulu teljast einn aðili við útreikning samkvæmt þessari grein.
     Lífeyrissjóði er ekki heimilt að eiga meira en 25% af hlutdeildarskírteinum í verðbréfasjóðum eða einstakri deild þeirra.
     Lífeyrissjóði er ekki heimilt að eiga meira en 20% af hlutafé í hverju félagi eða hlutdeildarskírteinum eða hlutum annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu eða einstakri deild þeirra.
     Þrátt fyrir 7. mgr. er lífeyrissjóði heimilt að eiga stærri hluta en 20% í félagi sem eingöngu sinnir þjónustuverkefnum fyrir lífeyrissjóði.
     
     c. (36. gr. d.)
Gjaldmiðlaáhætta.
     Lífeyrissjóður skal takmarka gjaldmiðlaáhættu sína með því að tryggja að að lágmarki 50% af heildareignum sjóðsins séu í sama gjaldmiðli og skuldbindingar hans.
     Lífeyrissjóði er heimilt að fullnægja skilyrði 1. mgr. með afleiðum sem takmarka gjaldmiðlaáhættu með sambærilegum hætti.
     
     d. (36. gr. e.)
Áhættustýring.
     Lífeyrissjóður skal á hverjum tíma hafa yfir að ráða tryggu eftirlitskerfi með áhættu í tengslum við alla starfsemi sína. Hjá lífeyrissjóði skulu vera til staðar fullnægjandi og skjalfestir innri ferlar sem gera honum kleift að greina, meta, vakta og stýra áhættu í starfsemi sjóðsins. Innri ferlar skulu endurskoðaðir reglulega.
     Áhættustýring skal taka virkan þátt í mótun áhættustefnu lífeyrissjóðs og hafa aðkomu að viðameiri ákvörðunum um áhættustýringu. Áhættustýringu skal gert viðvart um öll meiri háttar eða óvenjuleg viðskipti lífeyrissjóðs áður en þau fara fram.
     Lífeyrissjóður skal, a.m.k. árlega og í hvert sinn þegar mikil breyting verður á áhættusniði hans, framkvæma eigið áhættumat. Í áhættumatinu skal horft til helstu áhættuþátta sem greindir hafa verið í starfsemi lífeyrissjóðsins, möguleg áhrif þeirra metin og greint frá þeim aðgerðum sem lífeyrissjóðurinn hyggst grípa til ef áhætta raungerist. Skýrsla um framangreint áhættumat skal kynnt stjórn og henni skal skilað til Fjármálaeftirlitsins.
     
     e. (36. gr. f.)
Undanþágur.
     Nú greiðir sveitarfélag, sem er bakábyrgðaraðili lífeyrissjóðs, inn á skuldbindingu sína við sjóðinn með því að gefa út skuldabréf sem ekki eru skráð á skipulegum verðbréfamarkaði, og skal sjóðnum þá heimilt að eiga slík verðbréf óháð takmörkunum samkvæmt þessum kafla.

7. gr.

     37. gr. laganna orðast svo:
     Fari fjárfesting lífeyrissjóðs fram úr leyfilegum mörkum samkvæmt lögum þessum skal Fjármálaeftirlitinu án tafar tilkynnt um það og skulu þegar gerðar ráðstafanir til úrbóta. Lögmæltu hámarki skal náð í síðasta lagi innan þriggja mánaða. Fjármálaeftirlitið getur þó heimilað lengri frest enda sé það augljóslega í þágu sjóðfélaga.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 38. gr. laganna:
  1. Orðin „fasteignum eða“ í 1. mgr. falla brott.
  2. 5. mgr. fellur brott.


9. gr.

     Á eftir 39. gr. laganna kemur ný grein, 39. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Reglugerðarheimild.
     Ráðherra skal setja í reglugerð nánari ákvæði um form og efni fjárfestingarstefnu, úttekt á ávöxtun lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar og framkvæmd áhættustýringar, m.a. um umfang hennar í hlutfalli við stærð lífeyrissjóðs, stöðu þeirra sem stýra áhættu í skipuriti lífeyrissjóðs, útvistun áhættustýringar, áhættumat og skýrslugjöf.

10. gr.

     Fyrirsögn VII. kafla laganna verður: Lágmarkstryggingavernd. Fjárfestingarheimildir og fjárfestingarstefna lífeyrissjóða.

11. gr.

     Á eftir VII. kafla laganna kemur nýr kafli, VII. kafli A, Viðbótartryggingavernd. Fjárfestingarheimildir og fjárfestingarstefna, með einni nýrri grein, 39. gr. b, svohljóðandi:
     Þeir sem ávaxta fé, sem ætlað er til að veita viðbótartryggingavernd, skulu móta og kunngera fjárfestingarstefnu fyrir hverja fjárfestingarleið þar sem eignir eru sundurliðaðar með hliðsjón af 36. gr. a. Áhættustýring skal vera í samræmi við 36. gr. e.
     Ákvæði 36. gr., 2.–5. mgr. 36. gr. b og 37. gr. gilda að breyttu breytanda um fjárfestingar þeirra sem veita viðbótartryggingavernd.
     Samanlögð eign hverrar fjárfestingarleiðar í fjármálagerningum sem falla undir 2.–6. tölul. 2. mgr. 36. gr. a, útgefnum af sama aðila, skal ekki vera meiri en 20% af heildareignum. Aðilar sem teljast til sömu samstæðu eða tilheyra hópi tengdra viðskiptavina, sbr. lög um fjármálafyrirtæki, skulu teljast einn aðili við útreikning samkvæmt þessari grein.
     Samanlögð eign hverrar fjárfestingarleiðar í afleiðusamningum skal vera innan við 10% heildareigna. Tryggja skal að mótaðilaáhætta, sem leiðir af afleiðu, falli undir takmarkanir 3. mgr.

12. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Eigi lífeyrissjóður eða vörsluaðili séreignarsparnaðar eignir umfram þau takmörk sem sett eru í 36. gr. b, 36. gr. c og 36. gr. d er honum heimilt að eiga þær áfram en hann skal leitast við að uppfylla ákvæði laganna eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 31. desember 2020. Fjármálaeftirlitið getur þó heimilað lengri frest enda sé það augljóslega í þágu sjóðfélaga.

13. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2017.

Samþykkt á Alþingi 11. október 2016.