Ferill 861. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1796  —  861. mál.
Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Katrínu Jakobsdóttur um friðlýsingar og virkjunarkosti.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hefur verið lokið við friðlýsingu einhvers svæðis eða virkjunarkosts í verndarflokki sam­kvæmt samþykktri áætlun frá árinu 2013 um vernd og orkunýtingu landsvæða?

    Umhverfisstofnun hefur unnið að undirbúningi að friðlýsingu landsvæða í samræmi við lög um náttúruvernd eins og lögin um verndar- og orkunýtingaráætlun kveða á um.
    Sú undirbúningsvinna er mislangt á veg komin og hvað varðar vinnu við einstök friðlýs­ingarverkefni vill ráðuneytið benda á svar við sambærilegri fyrirspurn frá því haustið 2015 (þskj. 415 í 135. máli), en þar var fjallað ítarlega um stöðu vinnu við friðlýsingar á öllum svæðum sem eru í verndarflokki áætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ráðuneytið telur rétt að benda á að vinna við friðlýsingu svæða er umfangsmeiri en talið var í fyrstu, m.a. þar sem ekki liggja fyrir landfræðilegar afmarkanir á þeim landsvæðum sem friðlýsa þarf til þess að ná fram verndarmarkmiðum.
    Samkvæmt uppfærðri stöðu verkefna er vinna við friðlýsingu fimm svæða lengst komin, þ.e. fjögurra svæða í Kerlingarfjöllum (79 Hverabotn, 80 Neðri-Hveradalir, 81 Kisubotnar og 82 Þverfell) og svo við Geysi (Geysissvæðið, 78 Geysir). Friðlýsingarskilmálar fyrir þessa fimm virkjunarkosti í verndarflokki verndar og orkunýtingaráætlunar liggja fyrir og verður væntanlega hægt að ljúka þeim sem fyrst. Beðið er eftir afgreiðslu Hrunamannahrepps.
    Upplýsingar um vinnu við friðlýsingar, þar á meðal friðlýsingar á grundvelli rammaáætl­unar, má finna í skýrslum Umhverfisstofnunar til umhverfis- og auðlindaráðherra. Skýrslurn­ar er að finna á heimasíðu Umhverfisstofnunar.