Ferill 857. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1807  —  857. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum (einföldun bótakerfis, breyttur lífeyristökualdur o.fl.).

(Eftir 2. umræðu, 12. október.)


I. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
     a.      Orðin „elli- og“ í a-lið 2. mgr. falla brott.
     b.      Í stað „17.–19. gr.“ í a-lið 2. mgr. kemur: 18.–19. gr.
     c.      2. málsl. b-liðar 2. mgr. fellur brott.
     d.      Á eftir „18. gr.“ í 3. mgr. kemur: og ráðstöfunarfé skv. 48. og 56. gr.

2. gr.

    Í stað 1. og 2. mgr. 17. gr. laganna koma átta nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 70 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 18 til 70 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 18 til 70 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reikn­ast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. öðlast þeir sem fæddir eru árið 1950 rétt til ellilífeyris frá 67 ára aldri. Ellilífeyrisaldur þeirra sem fæddir eru árið 1951 og síðar skal hækka um tvo mánuði á ári frá 1. janúar 2018 þar til ellilífeyrisaldurinn verður 69 ár og síðan um einn mánuð á ári þar til hann verður 70 ár.
    Heimilt er að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs gegn varanlegri hækkun lífeyr­isins, sbr. 2. mgr. 23. gr. Heimildin er bundin því skilyrði að viðkomandi hafi ekki fengið greiddan ellilífeyri frá almannatryggingum eða skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóð­um, sbr. þó 5. mgr. Umsækjanda skal þó vera heimilt að draga umsókn sína til baka innan 30 daga frá afgreiðslu umsóknar án þess að það hafi áhrif á rétt til hækkunar lífeyris. Hafi greiðsla lífeyris átt sér stað er full endurgreiðsla forsenda afturköllunar.
    Heimilt er að hefja töku ellilífeyris frá 65 ára aldri gegn varanlegri lækkun lífeyrisins, sbr. 3. mgr. 23. gr.
    Heimilt er að greiða hálfan áunninn ellilífeyri samkvæmt lögum þessum frá 65 ára aldri til þeirra sem eiga rétt á ellilífeyri frá skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafa fengið samþykki viðkomandi sjóða til að taka hálfan lífeyri hjá þeim og fresta töku lífeyris að hálfu.
    Heimildir skv. 4. og 5. mgr. eru bundnar því skilyrði að samþykkt hafi verið umsókn um áunnin réttindi hjá öllum skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og samanlagður áunninn réttur til ellilífeyris frá lífeyrissjóðum og frá almannatryggingum, sbr. einnig 2. mgr. 52. gr., að teknu tilliti til hinnar varanlegu lækkunar skv. 3. mgr. 23. gr., verði að lágmarki jafnhár fullum ellilífeyri skv. 1. mgr. 23. gr.
    Ákvæði 1.–6. mgr. eiga einnig við um heimilisuppbót samkvæmt lögum um félagslega að­stoð.
    Ráðherra skal setja reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessarar greinar, m.a. um réttindaávinnslu og búsetutíma og sveigjanlega töku ellilífeyris.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „eru á aldrinum 18 til 67 ára“ í 1. mgr. kemur: eru 18 ára eða eldri en hafa ekki náð ellilífeyrisaldri, sbr. 17. gr.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                 Fullur örorkulífeyrir skal vera 478.344 kr. á ári. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 17. gr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna:
     a.      3. málsl. 1. mgr. orðast svo: Ákvæði laga þessara um lækkun bóta vegna tekna hafa ekki áhrif á rétt til greiðslu barnalífeyris.
     b.      2. málsl. 6. mgr. fellur brott.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a.      Orðin „elli-“ í 1. málsl., „og 1. mgr. 17. gr.“ í 3. málsl. og „1. mgr. 17. gr.“ í 4. málsl. 1. mgr. falla brott.
     b.      2. mgr. fellur brott.
     c.      Orðið „elli-“ í 1. málsl. 4. mgr. fellur brott.

6. gr.

    23. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Fjárhæð ellilífeyris og sveigjanleg starfslok.

    Fullur ellilífeyrir skal vera 2.553.312 kr. á ári. Ellilífeyri skal lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Ellilífeyrisþegi skal hafa 25.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris. Lækkun vegna tekna tekur þó ekki til hálfs ellilífeyris sem greiddur er skv. 5. mgr. 17. gr. þar til lífeyristaka að fullu hefst.
    Hafi töku ellilífeyris verið frestað, sbr. 3. mgr. 17. gr., skal fjárhæð ellilífeyris hækka hlut­fallslega til frambúðar, byggt á tryggingafræðilegum grunni, reiknað frá ellilífeyrisaldri skv. 17. gr. fram til þess tíma er taka lífeyris hefst.
    Hafi töku ellilífeyris verið flýtt, sbr. 4. og 5. mgr. 17. gr., skal fjárhæð ellilífeyris lækka hlutfallslega til frambúðar, byggt á tryggingafræðilegum grunni, reiknað frá þeim tíma er taka lífeyris hefst og til ellilífeyrisaldurs skv. 17. gr.
    Þegar hálfur áunninn ellilífeyrir er greiddur skv. 5. mgr. 17. gr. skal fjárhæð hans lækka í samræmi við 3. mgr. og fjárhæð hins frestaða hluta lífeyrisins hækka í samræmi við 2. mgr. þessarar greinar.
    Ráðherra skal setja reglugerð um einstök atriði er varða framkvæmd þessarar greinar, m.a. um breytingar á hlutfalli vegna frestunar eða flýttrar töku lífeyris sem byggjast skulu á trygg­ingafræðilegum forsendum.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. mgr. 48. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „28.951 kr. á mánuði“ í 1. málsl. kemur: 766.464 kr. á ári.
     b.      Í stað orðsins „skerða“ í 2. málsl. kemur: sbr. 8. tölul. 2. gr., sbr. einnig 3. mgr. 16. gr., lækka.
     c.      Í stað „641.146 kr.“ í 3. málsl. kemur: 1.179.180 kr.
     d.      4.–6. málsl. falla brott.

8. gr.

    Í stað orðanna „67 ára aldri“ í 2. málsl. 1. mgr. 52. gr. laganna kemur: ellilífeyrisaldri, sbr. 17. gr.

9. gr.

    Við 2. mgr. 53. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Bætur og greiðslur sam­kvæmt lögum þessum skulu greiddar inn á reikning hjá viðskiptabönkum eða sparisjóðum í eigu greiðsluþega eða umboðsmanns dánarbús.

10. gr.

    2. mgr. 54. gr. laganna fellur brott.

11. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætast fjórir nýir töluliðir, svohljóðandi:
     19.      Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 17. gr. gildir heimild til að fresta töku ellilífeyris til allt að 80 ára aldurs aðeins um þá sem fæddir eru árið 1952 eða síðar. Þeir sem fæddir eru árið 1951 eða fyrr hafa heimild til að fresta töku ellilífeyris til 72 ára aldurs samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi fram að gildistöku laga þessara.
     20.      Þrátt fyrir 2. mgr. 23. gr. skal fjárhæð ellilífeyris á árinu 2017 hækka um 0,5% fyrir hvern mánuð sem töku ellilífeyris er frestað.
     21.      Þrátt fyrir 3. mgr. 23. gr. skal fjárhæð ellilífeyris á árinu 2017 lækka um 0,5% fyrir hvern mánuð sem greiddur er fyrir ellilífeyrisaldur skv. 17. gr.
     22.      Við útreikning ellilífeyris skal Tryggingastofnun gera samanburð á útreikningi greiðslna til þeirra ellilífeyrisþega sem fá greiddan ellilífeyri við gildistöku laga þessara. Skal stofnunin bera saman annars vegar ellilífeyri, tekjutryggingu, heimilisuppbót og sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ellilífeyrisþega, samkvæmt þeim reglum sem voru í gildi á árinu 2016, uppreiknað samkvæmt raungildi hvers ár, og hins vegar ellilífeyri og heimilisuppbót samkvæmt þeim reglum sem gilda frá 1. janúar 2017. Leiði samanburð­urinn til hærri bóta samkvæmt eldri ákvæðum laganna skal stofnunin greiða mismuninn með þeim hætti að séu heildartekjur ellilífeyrisþega, sbr. 8. tölul. 2. gr., sbr. einnig 3. mgr. 16. gr., 100.000 kr. á mánuði eða lægri skal greiða mismuninn að fullu. Greiðslufjárhæðin skal lækka um 1% fyrir hverjar 1.000 kr. umfram það uns hún fellur niður þegar heildartekjur lífeyrisþega nema 200.000 kr. á mánuði.

II. KAFLI
Breyting á lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum.
12. gr.

    Í stað orðanna „grunnlífeyri og tekjutryggingu almannatrygginga“ í 1. málsl. 5. gr. laganna kemur: fullum örorkulífeyri og tekjutryggingu skv. 18. og 22. gr. laga um almannatryggingar.

13. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
    Full heimilisuppbót til ellilífeyrisþega skal vera 583.994 kr. á ári. Uppbótin skal lækka um 11,9% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr. laga um almannatryggingar, uns hún fellur niður. Um útreikning heimilisuppbótar vegna búsetu fer skv. 1. mgr. 17. gr. laga um almannatrygg­ingar.
    Full heimilisuppbót til örorkulífeyrisþega sem fær greitt skv. 18. gr. laga um almanna­tryggingar og endurhæfingarlífeyrisþega sem fær greitt skv. 7. gr. laga þessara skal vera 444.852 kr. á ári. Uppbótin skal lækka eftir sömu reglum og tekjutrygging samkvæmt lögum um almannatryggingar.
    Hafi ellilífeyrisþegi nýtt sér heimild 3.–5. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar til að fresta eða flýta töku lífeyris að fullu eða hluta gildir það einnig um heimilisuppbót. Um áhrif á fjárhæð heimilisuppbótar fer skv. 23. gr. sömu laga.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kostnaður sem kemur til álita í þessu sambandi er einkum umönnunarkostnaður, sem heimilishjálp eða aðrir opinberir aðilar greiða ekki, sjúkra- eða lyfjakostnaður og kostnaður vegna kaupa á heyrnartæki sem sjúkratryggingar greiða ekki, rafmagnskostnaður vegna súrefnissíunotkunar, húsaleigu­kostnaður sem fellur utan húsaleigubóta og dvalarkostnaðar á dvalarheimilum, stofnun­um svo og sambýlum og áfangastöðum sem fengið hafa starfsleyfi frá ráðuneyti eða reka sambærilega starfsemi.
     b.      Í stað orðsins „lífeyrisþega“ í 1. málsl. 2. mgr. kemur: örorkulífeyrisþega sem fær greitt skv. 18. gr. laga um almannatryggingar og endurhæfingarlífeyrisþega sem fær greitt skv. 7. gr. laga þessara.
     c.      Í stað „184.140 kr.“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 280.000 kr.; og í stað „157.030 kr.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 227.883 kr.

15. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 8. gr., sbr. 23. gr. laga um almannatryggingar, skal samanlögð fjárhæð fulls ellilífeyris og heimilisuppbótar vera 300.000 kr. á árinu 2018.
    Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sér­stakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir 300.000 kr. á mánuði árið 2018.

III. KAFLI
Breyting á lögum um málefni aldraðra, nr. 125/1999, með síðari breytingum.
16. gr.

    Orðin „og tekjutryggingu“ í 3. mgr. 25. gr. laganna falla brott.

17. gr.

    Í stað orðanna „tekjumörkum ellilífeyris skv. 17. gr.“ í 4. mgr. 26. gr. laganna kemur: fjárhæð ellilífeyris skv. 23. gr.

18. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ráðherra skal skipa starfshóp til að útfæra og koma á tilraunaverkefni í samvinnu við eitt eða fleiri hjúkrunarheimili um nýtt fyrirkomulag greiðsluþátttöku íbúa á dvalar- og hjúkr­unarheimilum.
    Starfshópurinn skal skipaður fulltrúum frá Landssambandi eldri borgara, Samtökum fyrir­tækja í velferðarþjónustu, sjúkratryggingastofnuninni, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Tryggingastofnun og velferðarráðuneytinu.
    Hjúkrunar- og dvalarheimilum sem rekin eru af opinberum aðilum og taka þátt í verkefn­inu er heimilt að innheimta þau gjöld sem nýtt fyrirkomulag greiðsluþátttöku kallar á, enda liggi fyrir samningur þar að lútandi við hlutaðeigandi íbúa.

19. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2017. Þó skulu 2. málsl. 2. efnismgr. 2. gr., 4. efnismgr. 2. gr. og 4. efnismgr. 6. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2018.