Ferill 878. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1815  —  878. mál.




Svar


iðnaðar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Ögmundi Jónassyni um stöðu áforma um stórskipahöfn í Finnafirði.


          1.      Í eigu hverra er þýska hlutafélagið Bremenports GmbH & Co. KG sem hefur lýst áhuga á að koma upp stórskipahöfn í Finnafirði?
    Bremenports er hlutafélag í fullri eigu Bremenhafenborgar.

          2.      Hafa íslensk stjórnvöld gert samninga við fyrirtækið um undirbúning eða framkvæmd slíks verkefnis og ef svo er, felast í þeim opinberar fjárskuldbindingar?
    Hinn10. maí 2016 undirritaði iðnaðar- og viðskiptaráðherra viljayfirlýsingu um samstarf við Bremenports, sveitarfélögin Langanesbyggð og Vopnafjörð og verkfræðistofuna Eflu. Viljayfirlýsingin fjallar um forvinnu sem nauðsynlegt er að sinna áður en ákvörðun verður tekin um uppbyggingu í Finnafirði. Miðað er við að forvinnunni verði lokið fyrir árslok 2018. Verkefnunum má skipta í þrjá hluta: Í fyrsta lagi eru verkefni sem Bremenport mun annast til að meta aðstæður fyrir höfn og aðliggjandi iðnaðarsvæði. Hér er m.a. um að ræða rann­sóknir á náttúrufari og aðstæðum en einnig verkefni sem eru viðskiptalegs eðlis. Verkefni sem sveitarfélögin sinna tengjast m.a. skipulagsmálum, kynningum fyrir heimamenn, vatns­öflun og athugun á mannvistarummerkjum. Ráðuneytin munu á tímabilinu fela stofnunum sínum að forkanna vegtengingu svæðisins, flutningskerfi raforku, ýmis lagaleg málefni og undirbúa samfélagslega greiningu. Ekki er reiknað með sérstökum útgjöldum ríkisins vegna þessa. Reiknað er með að við árslok 2018 liggi fyrir nægar upplýsingar til að unnt verði að taka ákvörðun um hvort af uppbyggingu í Finnafirði verði eða ekki.

          3.      Hafa stjórnvöld gefið fyrirheit um að liðka fyrir verkefninu og þá hvernig?
    Stjórnvöld hafa ekki gefið nein fyrirheit um að liðka fyrir verkefninu á samningstíma­bilinu til ársloka 2018. Ef niðurstöður forkönnunar verða á þá leið að fjárfestar og sveitar­félögin ákveði að halda áfram með verkefnið fellur á ríkið að styrkja vegakerfið og bæta raf­orkuflutning inn á svæðið eins og almennt er gert í tengslum við atvinnuuppbyggingu.

          4.      Hverjar eru helstu forsendur opinberra aðila á Íslandi fyrir því að ganga til samvinnu við fyrirtækið um þetta verkefni?
    Forsendur aðkomu stjórnvalda tengjast mikilvægi þess að viðhalda byggð í landinu og treysta undirstöður að fjölbreytni atvinnulífsins. Ábyrgð og ákvörðunartaka um framkvæmd og framhald verkefnisins er í höndum heimamanna. Stjórnvöld vilja sýna stuðning við eflingu byggða í landshlutanum, einkum þeirra sem eiga í vök að verjast vegna samdráttar í atvinnu­lífi og fólksfækkunar.

          5.      Hafa opinberir aðilar gert skuldbindingar við aðra en Bremenports GmbH & Co. KG vegna áforma um stórskipahöfn og fela þær í sér fjárskuldbindingar?
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki haft aðkomu að öðrum sambærilegum verkefnum, en er engu að síður meðvitað um áhuga annarra byggðalaga á þátttöku í ýmsum verkefnum á norðurslóðum.

          6.      Hver eru markmiðin með stórskipahöfn í Finnafirði? Hafa fjármögnunar- og við­skiptaáætlun eða aðrar áætlanir verið kynntar íslenskum stjórnvöldum?
    Markmiðið er að geta annast þjónustu við vinnslu jarðefna á Norðurslóðum og geta þjónað sem umskipunarhöfn fyrir siglingar um Íshafið ef af þeim verður. Verkefnið er á algeru frum­stigi og eru fjármögnunar- og viðskiptaáætlanir ekki tilbúnar til kynningar fyrir stjórnvöld.

          7.      Hver eða hverjir yrðu eigendur hafnarinnar ef af verður og í hvaða hlutföllum?
    Þegar fram líða stundir er reiknað með að sveitarfélögin stofni hafnarfélag um eignarhald hafnarinnar og rekstur hennar. Ef til vill gætu fleiri komið að því félagi ef sveitarfélögin telja sér það hagkvæmt – en engar umræður hafa verið um það. Ákvörðun um hvort af þessu verður er að miklu leyti háð niðurstöðu þeirra forathugana sem ljúka á 2018.

          8.      Er talið til hagsbóta að erlend fyrirtæki eigi íslenskar hafnir að hluta eða í heild og annist rekstur þeirra?
    Engin ákvörðun liggur fyrir um mögulegt eignarhald Bremenports að hafnarfélaginu.

          9.      Hver er talinn verða fjárhagslegur ávinningur af stórskipahöfninni fyrir íslenskt sam­félag? Er talið að eignarhald á höfninni skipti máli í því samhengi?
    Ekki liggur fyrir greining á fjárhagslegum ávinningi íslensks samfélags af stórskipahöfn­inni og ekki er búist við að slík greining verði til fyrr en á seinustu stigum forathugunar eða jafnvel síðar. Ekki er vitað hvort fyrirkomulag eignarhaldsins skipti þar máli.

          10.      Hefur mannaflaþörf vegna hafnarinnar verið metin miðað við áform um hana? Er talið unnt að manna reksturinn með innlendu vinnuafli eða mun þurfa erlent vinnuafl og þá í hvaða mæli?
    Reiknað er með að auk hafnarstarfsemi verði talsverð iðnaðarstarfsemi í tengslum við hana. Þegar mynd hefur komist á starfsemina verður ráðist í mat á mannaflaþörf og hún tíma­sett.

          11.      Hafa verið metin áhrif hafnarinnar á nærsamfélagið, innviði þess og íslenskt samfélag í heild? Er talið að opinberir aðilar geti byggt upp nauðsynlega innviði nægilega hratt til að mæta áhrifum af höfninni?
    Áhrif hafnarinnar á nærsamfélagið hafa ekki verið metin en reiknað er með að byrjað verði á því á árinu 2018 að því tilskildu að forsendur hafi þá skapast til þess.

          12.      Hefur mengunarhætta af starfsemi stórskipahafnarinnar verið metin og hver eru við­horf stjórnvalda til þess hvort slíkur rekstur samræmist alþjóðlegum skuldbindingum um mengunarvarnir, verndun hafsins og samdrátt í útblæstri gróðurhúsalofttegunda, m.a. með tilliti til fyrirætlana um þjónustu við skip sem sigla um norðurpólssvæðið?
    Athugun á mengunarhættu og losun gróðurhúsalofttegunda fer eftir þeirri starfsemi sem valin verður inn á svæðið. Aðstandendur verkefnisins hafa rætt umhverfismálin með það að markmiði að umhverfisáhrif rekstursins verði sem minnst. Þegar skýrari mynd verður til af líklegri starfsemi verður jafnframt unnt að skilgreina nauðsynlegar takmarkanir og mótvægis­aðgerðir.

          13.      Hvaða kröfur mun starfsemi hafnarinnar gera til íslensks samfélags með tilliti til upp­byggingar mengunarvarna, dráttarskipa, björgunarbúnaðar og ýmiss viðlagabúnaðar?
    Ekki liggur fyrir hvaða kröfur hafnarfélagið og aðrir þurfa að uppfylla með tilliti til þessara þátta fyrr en skýrari mynd fæst af starfseminni.

          14.      Liggur fyrir hversu víðáttumikið svæði færi undir samgöngumannvirki, gámavelli, vöruskemmur, eldsneytisbirgðastöðvar og önnur mannvirki sem tilheyrðu stórskipa­höfninni ef af henni verður? Hefur verið lagt mat á líkleg áhrif slíkra mannvirkja á líf­ríki og náttúrufar á svæðinu?
    Verkefnið er á byrjunarreit og frumdrög að skipulagningu og rýmisþörf eru aðeins á mót­unarstigi. Áhrif starfseminnar á lífríki og náttúrufar verða metin samkvæmt lögum, t.d. sam­kvæmt mati á umhverfisáhrifum.

          15.      Hvernig samræmast áform um stórskipahöfn í Finnafirði landsskipulagi?
    Eftir er að vinna svæðis- og aðalskipulagsáætlun fyrir Finnafjörð og verður það gert þegar fyrir liggja nauðsynlegar forrannsóknir til hönnunar og stærð og lega mannvirkja verður ákveðin. Fram til þess tíma verður unnið að mati á landnotkun, nýtingu lands og landgæða sem tryggir öryggi og heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana og stuðlar að sjálfbærri þróun og skilvirkri áætlanagerð eins og landsskipulagsstefnu er ætlað að gera.