Ferill 812. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1831  —  812. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Sigríði Á. Andersen um skattundanþágur vegna innflutts lífeldsneytis.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hve háum fjárhæðum nema undanþágur frá sköttum, þ.e. hvers kyns niðurfelling eða endurgreiðsla á vörugjöldum, olíugjaldi og kolefnisgjaldi að viðbættum virðisaukaskatti, vegna innflutnings á lífeldsneyti á borð við etanól og hvers kyns lífdísil á árunum 2012–2015?

    Við vinnslu svarsins var lagt til grundvallar að með lífeldsneyti væri átt við eldsneyti sem fellur undir skilgreiningu 3. tölul. 2. gr. laga nr. 40/2013, um endurnýjanlegt eldsneyti í sam­göngum á landi, þ.e. endurnýjanlegt eldsneyti í formi vökva eða gass sem er unnið úr líf­massa. Í þessu samhengi er rétt að taka fram að endurnýjanlegt eldsneyti er í sömu lögum skilgreint sem eldsneyti sem er unnið úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Með endurnýjanleg­um orkugjöfum er átt við orkugjafa sem ekki eru jarðefnaeldsneyti heldur eru af endurnýjan­legum uppruna, hvort heldur er af lífrænum eða ólífrænum, þ.e. vatnsorku, vatnsvarmaorku, jarðvarma, vindorku, sólarorku, sjávarorku, lífmassa, hauggas, lífgas og gas frá skólphreinsi­stöðvum.
    Fyrirspurnin er afmörkuð við vörugjöld, olíugjald og kolefnisgjald vegna innflutnings og af því leiðir að hún nær aðeins til:
     1.      Íblöndunarefnis í bensín sem ekki er af jarðefnauppruna, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.
     2.      Olíu sem ekki er af jarðefnauppruna, sbr. 1. málsl. 3. mgr. 1. gr. laga nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald.
     3.      Eldsneytis sem ekki inniheldur kolefni af jarðefnauppruna, þ.e. annars eldsneytis en gas- og dísilolíu, bensíns, brennsluolíu og jarðolíugass og annars loftkennds kolvatnsefnis.
    Skilningur ráðherra er að markmið fyrirspurnarinnar sé að draga fram hverjar viðbótar­tekjur ríkissjóðs hefðu orðið ef undanþága frá skattlagningu á lífeldsneyti nyti ekki við. Rétt er að hafa í huga að orkuinnihald lífeldsneytis er annað en jarðefnaeldsneytis og því vart rétt­lætanlegt að gera ráð fyrir því að skattlagning á hvern lítra af lífeldsneyti hefði orðið sam­bærileg skattlagningu á hvern lítra af jarðefnaeldsneyti. Til hægðarauka og til að sem réttust mynd fengist var magn lífeldsneytis í lítrum umbreytt þannig að orkuinnihaldi jarðefnaelds­neytis yrði náð. Útreikningurinn miðast því ekki við rauntölur innflutnings og notkunar líf­eldsneytis. Í fyrirspurninni er tekið fram að kolefnisgjald skuli tekið með í reikninginn og var það gert. Rétt er að setja þann fyrirvara að kolefnisgjald er lagt á miðað við kolefnisinnihald eldsneytis af jarðefnauppruna og hefði því að óbreyttu ekki verið lagt á lífeldsneyti. Sá hluti tekna sem reiknast samkvæmt svarinu hefði því ekki raungerst þó undanþága lífeldsneytis frá vörugjaldi og olíugjaldi hefði ekki notið við nema því aðeins að lífeldsneyti hefði alfarið verið skipt út fyrir jarðefnaeldsneyti.
    Við vinnslu svarsins reyndist nokkuð örðugt að komast að haldbærri niðurstöðu og eru ástæður þess einkum tvær:
     A.      Við innflutning á lífeldsneyti sem er undanþegið sköttum er ekki gerður greinarmunur á því hvort eldsneytið er flutt inn sem eldsneyti eða sem efni til iðnaðarnota eða nota í iðnaðarframleiðslu. Þannig má sem dæmi nefna að verulegur hluti innflutts etanóls er nýttur í iðnaðarframleiðslu.
     B.      Engar upplýsingar liggja fyrir um magn lífeldsneytis sem nýtt er til íblöndunar í dísilolíu sem er undanþegin olíugjaldi og væri þar með undanþegin olíugjaldi óháð því hvers konar eldsneyti er um að ræða.
    Vegna óvissuþáttanna hér á undan leitaði ráðuneytið upplýsinga hjá Orkustofnun sem gefur út yfirlit um heildarsölu eldsneytis og notkun endurnýjanlegs eldsneytis. Telja verður að upplýsingar stofnunarinnar séu nokkuð áreiðanlegar enda er söluaðilum eldsneytis skylt að gera henni grein fyrir magni og hlutfalli alls endurnýjanlegs eldsneytis sem selt er til sam­gangna á Íslandi. Umtalsverðu munar hins vegar á innflutningstölum og notkunartölum frá Orkustofnun og eru á því ýmsar skýringar. Þar sem fyrirspurnin beinist einkum að inn­flutningi er í svarinu bæði byggt á upplýsingum frá tollstjóra, þ.e. innflutningstölum, og á notkunartölum frá Orkustofnun.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Að framangreindu sögðu er sundurliðað svar ráðherra, ásamt ítarupplýsingum, birt í eftir­farandi töflu. Þar kemur m.a. fram að áætlaðir eldsneytisskattar og -gjöld, að viðbættum virð­isaukaskatti, á það magn jarðefnaeldsneytis sem svarar til orkugildis þess magns lífeldsneytis sem flutt var inn eða notað á árinu 2015 hefðu numið 1,1–1,3 milljörðum kr.