Ferill 832. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 1832  —  832. mál.
Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Elsu Láru Arnardóttur um opinbert mótframlag til húsnæðissparnaðar að breskri fyrirmynd.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra mögulegt að innleiða í húsnæðiskerfið opinbert mótframlag til húsnæðis­sparnaðar að breskri fyrirmynd samhliða þeim úrræðum sem þegar eru fyrir hendi og þeim áætlunum sem fyrir liggja?

    Ekki er fyllilega ljóst hvaða breska húsnæðissparnaðarkerfi fyrirspyrjandi er að vísa til þar sem slík kerfi eru fleiri en eitt. Það sem nýjast er þar í landi eru sérstakir húsnæðissparnaðar­reikningar fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð og tekur svarið mið af því kerfi. Regl­urnar sem um það kerfi gilda eru að einstaklingur eldri en 15 ára, sem ekki hefur átt íbúðar­húsnæði, stofnar sérstakan húsnæðissparnaðarreikning í því skyni að safna fyrir útborgun í eigin húsnæði. Þetta kerfi kom til framkvæmda seinni hluta ársins 2015 og gildir í fjögur ár. Hámarksinnlegg í fyrsta mánuði eru 1.000 bresk pund, eða um 143 þús. kr., en eftir það er hámarksinnlegg 200 bresk pund á mánuði, eða tæplega 29 þús. kr. Árlegt innlegg er því um 348 þús. kr. á einstakling. Stjórnvöld bæta síðan 25% við innleggið (opinber húsnæðisstuðn­ingur), eða að hámarki 3.000 breskum pundum, sem samsvarar 429 þús. kr. á einstakling. Það þýðir að hámarksinnlegg er 12.000 bresk pund sem við bætast 3.000 bresk pund í formi opin­bers húsnæðisstuðnings. Útborgun einstaklings við fyrstu íbúðarkaup geta samkvæmt því numið 15.000 breskum pundum, eða samtals 2.144 þús. kr. Sú fjárhæð er talin vera ca. 10% af meðalhúsnæðisverði í Bretlandi. Hjón og sambýlisfólk er meðhöndlað sem tveir einstak­lingar. Umræddur húsnæðisstuðningur er bundinn ýmsum fleiri skilyrðum, eins og hámarki kaupverðs sem er mishátt eftir því hvort húsnæðið er í London eða utan höfuðborgarinnar.
    Nýverið voru samþykkt lög á Alþingi sem heimila nýtingu séreignarsparnaðar til kaupa á fyrstu íbúð. Þar kemur fram að hver einstaklingur getur ráðstafað að hámarki 500 þús. kr. af iðgjöldum séreignarsparnaðar á hverju tólf mánaða tímabil á samfelldu tíu ára tímabili til kaupa á sínu fyrsta íbúðarhúsnæði. Framangreind úttekt á sérsparnaði er skattfrjáls, en skatt­frelsið er opinber stuðningur stjórnvalda við umræddan einstakling. Sé miðað við árlega há­marksfjárhæð nemur opinber stuðningur ríkis og sveitarfélaga um 230 þús. kr. á ári, eða 2,3 millj. kr. á tíu ára tímabili, á hvern einstakling. Af þessu má sjá að opinbera húsnæðisstuðn­ingskerfið á Íslandi er mun ríflegra við þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð en það breska. Fá rök standa því til þess að taka upp nýtt húsnæðisstuðningskerfi til viðbótar því sem nýlega var lögfest.