Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 13  —  7. mál.
Leiðréttur texti. Viðbót.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um kjararáð.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Rögnvaldsson og Sigurð Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Hennýju Hinz frá Alþýðusambandi Íslands, Önnu Hermannsdóttur og Jónas Þór Guðmundsson frá kjararáði, Hjört Braga Sverrisson fyrir hönd kærunefndar útlendingamála, Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Magnús K. Hannesson og Ólaf Sigurðsson fyrir hönd sendifulltrúa í utanríkisþjónustunni og Nönnu Magnadóttur frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Frumvarp sama efnis var lagt fram á 145. löggjafarþingi (871. mál) en varð ekki útrætt og bárust þá umsagnir frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bankasýslu ríkisins, Félagi forstöðumanna ríkisstofnana, Félagi háskólamenntaðra starfs­manna Stjórnarráðsins, Félagi starfsmanna Alþingis, Fjármálaeftirlitinu, formönnum yfir­skattanefndar, úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kærunefndar útlendingamála og úrskurðarnefndar velferðarmála, Háskóla Íslands, hópi sendiherra, kjararáði, Lögreglu­stjórafélagi Íslands, Prestafélagi Íslands, ríkislögmanni, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins, sendifulltrúum í utanríkisþjónustunni og Seðlabanka Íslands.
    Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um kjararáð auk þess sem lagðar eru til nauð­synlegar breytingar á öðrum lögum, svo sem lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkis­ins. Lagt er til að þeim verði fækkað verulega sem kjararáð ákvarðar laun og önnur starfskjör. Því verði laun embættismanna, forstöðumanna og annarra sem falla undir úrskurðarvald kjararáðs ákveðin með öðrum hætti en nú er. Markmið frumvarpsins er annars vegar að fjölga þeim sem taka laun samkvæmt samningum á hefðbundinn hátt og hins vegar að þeir sem ekki geta samið um laun á venjulegan hátt hafi meiri aðkomu að málum þegar ákvarðanir eru teknar um laun og starfskjör þeirra.
    Rökin fyrir því að tiltekin embætti falla undir ákvörðun sjálfstæðs úrskurðaraðila eru sérstaða þeirra samkvæmt stjórnarskrá eða að eðli starfsins er þannig að ekki er talið æskilegt að handhafi framkvæmdarvalds fjalli um launakjörin. Verði frumvarpið að lögum mun kjara­ráð áfram ákveða laun og starfskjör þjóðkjörinna manna, dómara, ráðherra, ráðuneytisstjóra og forsetaritara. Jafnframt mun kjararáð ákveða laun og starfskjör saksóknara, seðlabanka­stjóra, aðstoðarseðlabankastjóra og ríkissáttasemjara. Skv. 1. gr. frumvarpsins eru það því æðstu ráðamenn þjóðarinnar sem falla undir launaákvörðun kjararáðs auk þeirra embættis­manna sem svo háttar til um að launakjör þeirra geta ekki ráðist af samningum á venjulegan hátt vegna eðlis starfanna eða samningsstöðu.
    Frá því að frumvarpið var síðast lagt fram hefur forsetaritara verið bætt við upptalningu þeirra sem falla undir ákvörðun kjararáðs enda ber hann í umboði forseta ábyrgð á starfsemi embættisins og er helsti trúnaðarmaður forseta og talsmaður. Aðrar breytingar frá því að frumvarpið var síðast lagt fram eru að fella brott heimild sem var í 5. gr. frumvarpsins um að kjararáð geti ákveðið að laun taki árlega breytingum í samræmi við vísitölu sem lýsi þróun launa opinberra starfsmanna. Einnig er lagt til breytt orðalag 1. tölul. g-liðar 1. tölul. 8. gr. sem m.a. fjallar um samráð við Félag forstöðumanna ríkisstofnana um flokkun starfa o.fl. Jafnframt er lögð til lagfæring á orðalagi ákvæðis til bráðabirgða og lagt til að við það bætist málsgrein um rétt núverandi seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra til biðlauna og eftirlauna.
    Sú breyting er lögð til að kjör skrifstofustjóra í Stjórnarráði Íslands og sendiherra ráðist af kjarasamningum. Þó munu þeir skrifstofustjórar falla undir ákvörðun kjararáðs sem heyra undir þann ráðherra sem fer með starfsmannamál ríkisins og fara með fyrirsvar fyrir hönd ráðherra við gerð kjarasamninga. Einnig er lagt til að ráðherra eða sérstök eining á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra ákvarði grunnlaunaflokkun og forsendur fyrir undirflokkun auk forsendna fyrir viðbótarlaunum embættismanna og forstöðumanna.
    Lagt er til að forstöðumenn félaga einkaréttareðlis sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins verði ákveðin af viðkomandi stjórn á grundvelli starfskjarastefnu og eigendastefnu ríkisins.
    Jafnframt er lagt til að kjör biskups, vígslubiskups, prófasta og presta þjóðkirkjunnar ráðist af samningum innan kirkjunnar en þó er í ákvæði til bráðabirgða lagt til að þeir heyri undir kjararáð þar til samkomulag hefur náðst við þjóðkirkjuna um nýtt launafyrirkomulag.
    Í 3. gr. frumvarpsins er ákvæði sem er sambærilegt og í gildandi lögum og skal tryggja fagleg vinnubrögð kjararáðs. Kveðið er á um að kjararáð afli sér nauðsynlegra gagna og geti krafist munnlegra og skriflegra skýrslna af starfsmönnum og launagreiðendum þeirra sem heyra undir ákvörðun ráðsins. Þá getur ráðið kvatt sérfróða menn til starfa í þágu ráðsins.
    Í frumvarpinu er lagt til nýtt launafyrirkomulag vegna embættismanna sem eru skipaðir af ráðherra og njóta ekki sérstöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu og forstöðumanna stofnana sem eru skipaðir af ráðherra eða stjórn og eru birtir á svokölluðum forstöðumannalista. Kveðið er á um hið nýja launafyrirkomulag í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkis­ins og felst það í því að ráðherra eða sérstök starfseining ákveði fjölda grunnlaunaflokka starfa. Jafnframt eru lagðar til frekari breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og má þar helst nefna ákvæði sem miðar að því að auka hreyfanleika starfsmanna og embættismanna í starfi og ákvæði um hæfnisnefndir um skipun í embætti.
    Meiri hlutinn leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Í fyrsta lagi er lagt til, í því skyni að árétta stöðu kjararáðs, að tekið verði fram í 1. gr. að kjararáð sé stjórnsýslunefnd sem ákveði laun og starfskjör þeirra sem þar eru taldir upp. Í öðru lagi er lagt til að kjararáð ákveði laun og starfskjör sendiherra og formanna sjálfstæðra úrskurðarnefnda. Í þriðja lagi er lögð til lagfæring á 8. gr. frumvarpsins sem lýtur að því að bæta forsætisnefnd við upptaln­ingu í a- og b-lið 1. tölul. g-liðar 1. tölul. (sem verði ný 39. gr. a laganna). Í fjórða lagi er lagt til að ríkisendurskoðandi og umboðsmaður Alþingis verði felldir brott úr upptalningu í 2. mgr. 1. tölul. g-liðar 1. tölul. 8. gr. Áfram gildir það fyrirkomulag að forsætisnefnd ákveði laun umboðsmanns Alþingis, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um umboðsmann Alþingis, auk þess sem í 20. tölul. 8. gr. frumvarpsins er lagt til að forsætisnefnd ákveði laun ríkisendurskoð­anda. Í fimmta lagi er lögð til breyting á h-lið 1. tölul. 8. gr. í því skyni að sendifulltrúar verði embættismenn út starfstíma sinna.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Í stað orðanna ,,Verkefni kjararáðs er að ákveða“ komi: Kjararáð er stjórnsýslunefnd sem ákveður.
                  b.      Á eftir orðinu ,,ráðuneytisstjóra“ komi: sendiherra.
                  c.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Kjararáð ákveður einnig laun og starfskjör formanna yfirskattanefndar, úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kæru­nefndar útlendingamála og úrskurðarnefndar velferðarmála.
     2.      Við 8. gr.
                  a.      Á eftir orðunum ,,hlutaðeigandi ráðherra“ í a-lið 1. tölul. komi: forsætisnefndar.
                  b.      Við a-lið 1. tölul. bætist: nema annað leiði af lögum.
                  c.      Á eftir orðunum ,,hlutaðeigandi ráðherra“ í b-lið 1. tölul. komi: forsætisnefnd.
                  d.      Orðið ,,sendiherra“ í síðari málslið f-liðar 1. tölul. falli brott.
                  e.      Orðin ,,ríkisendurskoðanda og umboðsmanns Alþingis“ í 2. mgr. 1. tölul. g-liðar 1. tölul. falli brott.
                  f.      Efnismálsgrein h-liðar 1. tölul. orðist svo:
                      Þeir sem skipaðir hafa verið sendifulltrúar fyrir gildistöku laga þessara njóta áfram sömu réttinda og bera sömu skyldur og embættismenn skv. II. hluta laga þess­ara.
                  g.      5., 6., 10. og 16. tölul. falli brott.

    Brynjar Níelsson ritar undir álit þetta með fyrirvara.
    Vilhjálmur Bjarnason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. desember 2016.

Benedikt Jóhannesson,
form.
Björt Ólafsdóttir,
frsm.
Brynjar Níelsson,
með fyrirvara.
Elsa Lára Arnardóttir. Katrín Jakobsdóttir. Logi Einarsson.
Sigríður Á. Andersen.