Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 17  —  6. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum (breyting á A-deild sjóðsins).

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Frumvarpið er mikilvægt til þess að mæta halla á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna og tryggja að á landinu sé eitt lífeyrissjóðakerfi og að starfsfólk á almenna vinnumarkaðnum og þeim opinbera njóti sambærilegra lífeyrisréttinda. Það auðveldar hreyfanleika á vinnu­markaði sem verður sífellt mikilvægari og algengari eftir því sem tíminn líður. Auk þess er mikilvægt að launakjör séu gagnsæ og samanburður milli stétta og vinnuveitenda sé auð­veldur.
    Ójöfn réttindaávinnsla launþega í almenna lífeyrissjóðakerfinu annars vegar og hinu opin­bera hins vegar hefur verið bitbein aðila á vinnumarkaði um langan tíma. Því er mikilvægt að jafna lífeyrisréttindi til að tryggja sambærileg kjör og sveigjanleika á vinnumarkaði. Þá er aldurstengd réttindaávinnsla í opinberum sjóðum, sem frumvarpið kveður á um, sann­girnismál fyrir yngri kynslóðir þar sem núverandi fyrirkomulag felur í sér tilfærslu réttinda frá yngri sjóðfélögum til hinna eldri. Loks er rétt að ítreka að lífeyrissjóðir opinberra starfs­manna eru ekki sjálfbærir með óbreyttu fyrirkomulagi og nauðsynlegt að bregðast við því. Svigrúmið sem ríkissjóður hefur nú árið 2016 er einstakt og óvíst hvenær ríkið gæti mætt skuldbindingum sínum við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Brú, verði tekin ákvörðun um að nota svigrúmið í önnur verkefni.
    Ef frumvarpið verður samþykkt er ljóst að hækkun launa opinberra starfsmanna, sem njóta ekki samkeppnishæfra kjara samanborið við almenna vinnumarkaðinn, verður að vera for­gangsmál í opinberum rekstri. Þessi jöfnun launa er hluti af samkomulagi sem BHM, BSRB og KÍ annars vegar og fjármála- og efnahagsráðherra og Samband íslenskra sveitarfélaga hins vegar gerðu sín á milli um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna. Frum­varpið byggist á þessu samkomulagi og við það verður að standa. Jafna þarf launamun ein­stakra hópa á milli almenns og opinbers vinnumarkaðar, svo sem kvennastétta í heilbrigðis­kerfinu og kennara.
    Það er gagnrýnisvert hvernig sitjandi ríkisstjórn hefur haldið á málinu. Rétt áður en frum­varp sama efnis var lagt fram í haust kom í ljós að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafði ekki sama skilning og viðsemjendur á málinu. Ekki var reynt að leysa úr þeim ágreiningi með fullnægjandi hætti en það kom skýrt í ljós á fundum nefndarinnar að ekki hefur verið unnið nægjanlega að sátt í málinu á árinu sem er að líða. Því til viðbótar er óvíst hvaða áhrif samþykkt frumvarpsins hefði á samskipti á vinnumarkaði. Það er bagalegt vegna þess að jöfnun lífeyrisréttinda hefur verið ein af forsendum fyrir sameiginlegri vinnu aðila vinnu­markaðarins og ríkisins að heildarsamkomulagi á vinnumarkaði um bætt kjör. Þessi vinnu­brögð eru óásættanleg og ólíklegri til að skapa nauðsynlegan frið á vinnumarkaði en ella hefði verið.
    Annar minni hluti styður breytingartillögu meiri hlutans en telur nauðsynlegt að gera tvær breytingar til viðbótar þannig að frumvarpið verði ásættanlegt.
    Sú fyrri lýtur að geymdum réttindum. Ástæða er til að tryggja öðrum sjóðfélögum lífeyris­auka en þeim einum sem hafa greitt til sjóðsins síðustu 12 mánuði. Þá er horft til þeirra einstaklinga sem greitt hafa til sjóðsins, jafnvel í mjög langan tíma, en ákveðið að færa sig yfir á almenna vinnumarkaðinn og fá ekki lífeyrisaukann þó að þeir færi sig aftur yfir í opin­bera kerfið. Það er réttlætismál að þeir séu jafnsettir þeim sem starfa innan opinbera kerfisins núna (eða 12 mánuðum fyrir gildistöku laganna) þegar kemur að áunnum lífeyrisréttindum í framtíðinni. Breytingin miðar að því að þessi hópur geti fært sig aftur yfir á opinbera markaðinn og njóti þess þá að hafa lagt þar af mörkum áður. Í greinargerð með frumvarpinu er hreyfanleika á milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins lýst sem einu af markmiðum frumvarpsins. Þessi rýmkun mun ýta enn á þennan hreyfanleika.
    Síðari breytingin lýtur að c-lið 7. gr. (X.) 2. minni hluti leggur til að a-liður 3. mgr. verði eins og hann var í frumvarpi því sem lagt var fram í haust, enda er það í samræmi við lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997. Þar var kveðið á um að verði tryggingafræðileg staða lífeyrisaukasjóðs neikvæð sem nemi 10% eða meira samkvæmt árlegu mati verði greitt úr lífeyrisaukasjóði til að mæta neikvæðu stöðunni. Í viðauka við samkomulag BHM, BSRB og KÍ annars vegar og ríkissjóðs og Sambands íslenskra sveitarfélaga hins vegar kom einnig fram að þessi háttur yrði hafður á. Í frum­varpinu sem nú hefur verið lagt fram er gert ráð fyrir að horft sé til fimm ára tímabils í stað eins árs. Mikilvægt er að samkomulagið um að horft sé til eins árs sé virt til þess að rýra ekki traust milli aðila. Þá má halda því fram, komi sú staða upp sem lýst er í breytingartillögunni, að tryggingafræðileg staða sé neikvæð um 10% samkvæmt árlegu mati sé full ástæða til að grípa til aðgerða, enda hefðu þá stórkostlegar breytingar orðið á stöðu sjóðsins.
    Annar minni hluti telur mikilvægt að að koma til móts við gagnrýni sem hefur komið fram í störfum nefndarinnar og leggur því til eftirfarandi

BREYTINGU:


     a.      B-liður 7. gr. (IX.) orðist svo:
             Ríkissjóður skal eigi síðar en 31. desember 2016 greiða 106,8 milljarða kr. framlag til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins sem ætlað er til þess að standa undir líf­eyrisauka til sjóðfélaga sem rétt eiga á honum skv. 3. og 4. mgr. Framlagið er ákvarðað á grundvelli tryggingafræðilegrar stöðu A-deildar í lok september 2016 og miðað er við lífslíkur byggðar á reynslu áranna 2010-2014. Greiðsla framlagsins er bundin því skil­yrði að tekin verði upp í A-deild aldurstengd réttindaávinnsla og 67 ára lífeyristöku­aldur.
             Lífeyrisauki er sá mismunur sem er á annars vegar réttindum sjóðfélaga samkvæmt jafnri réttindaávinnslu og 65 ára lífeyristökualdri og hins vegar réttindum sjóðfélaga samkvæmt aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri. Lífeyrisaukann skal reikna mánaðarlega til réttinda hjá sjóðfélaga. Þó er sjóðnum heimilt að færa líf­eyrisauka til réttinda vegna ársins 2017 í lok þess árs.
             Sjóðfélagar eru greiðendur, lífeyrisþegar og þeir sem eiga geymd réttindi í A-deildum.
             Þeir sjóðfélagar sem eru virkir greiðendur á síðustu 12 mánuðum fyrir gildistöku nýrra samþykkta og starfa hjá öðrum launagreiðendum en ríkisaðilum og sveitarfélögum eiga því aðeins rétt á lífeyrisauka að launagreiðandi þeirra hafi samþykkt að greiða sérstakt iðgjald fyrir sjóðfélaga í samræmi við 6. mgr.
             Þeir sjóðfélagar Brúar lífeyrissjóðs sem rétt eiga á lífeyrisauka hjá Brú skulu eiga rétt á lífeyrisauka hjá A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins skipti þeir um starf og verði sjóð- félagar í A-deild að því tilskildu að ekki hafi liðið lengri tími en tólf mánuðir á milli starfa, sbr. þó einnig 4. mgr. Tilskilið er að sambærilegt ákvæði sé sett í samþykkt­ir Brúar, að breyttu breytanda, og að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Brú lífeyrissjóður geri með sér samkomulag um kostnað við lífeyrisauka vegna sjóðfélaga sem færast milli sjóðanna.
             Launagreiðendur sem ekki eru einkanlega fjármagnaðir með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum skulu greiða ríkissjóði til baka þann hluta af framlagi því sem ríkissjóður greiðir skv. 1. mgr. og fer til þess að greiða lífeyrisauka starfsmanna þessara launagreiðenda. Þessi endurgreiðsla fer fram þannig að launagreiðendur, aðrir en ríkisaðilar í B- og C-hluta ríkisreiknings, greiða sérstakt iðgjald sem standa á undir lífeyrisauka þessara starfsmanna. Iðgjald þetta skal endurskoða árlega í samræmi við tryggingafræðilega athugun og skal ákvörðun um hækkun þess eða lækkun liggja fyrir eigi síðar en 1. október fyrir komandi almanaksár. Ríkisaðilar í B- og C-hluta ríkisreikn­ings endurgreiða ríkissjóði árlega lífeyrisauka starfsmanna sinna á grundvelli útreikn­ings Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, enda séu þeir ekki einkanlega fjármagnaðir með skatttekjum, lögbundnum þjónustutekjum eða framlögum.
             Nánar skal kveðið á um framkvæmd þessa ákvæðis í samþykktum sjóðsins.
     b.      A-liður 3. mgr. c-liðar 7. gr. (X.) orðist svo: Sé tryggingafræðileg staða lífeyrisauka­sjóðs samkvæmt árlegu mati neikvæð um 10% eða meira í lok næstliðins árs eða hafi hún haldist neikvæð um a.m.k. 5% samfellt í meira en fimm ár, sbr. 39. gr. laga nr. 129/1997, skal leggja höfuðstól varúðarsjóðsins í heild eða að hluta, í báðum tilvikum þar til að 5% viðmiði er náð, við eignir lífeyrisaukasjóðs og fjármunirnir nýttir til að mæta skuldbindingum hans. Komi til breytinga á ákvæðum almennra laga um lífeyris­sjóði um vikmörk breytast vikmörk þessi til samræmis.

Alþingi 20. desember 2016.

Logi Einarsson.