Ferill 6. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 18  —  6. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins,
nr. 1/1997, með síðari breytingum (breyting á A-deild sjóðsins).

Frá 3. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Þriðji minni hluti er hlynntur markmiðum frumvarpins. Ekki hefur þó tekist að mynda viðunandi sátt um þá nálgun sem valin er frumvarpinu. Að störfum nefndarinnar ólöstuðum hefur málshraðinn auk þess verið allt of mikill miðað við umfang og stærð málsins. Mjög stuttur tími var gefinn til að veita umsagnir og keyrslan í nefndarvinnunni gaf ekki ráðrúm til að vinna bakvinnuna faglega og með upplýstum hætti.

Óskýr efnahagsleg áhrif.
    Efnahagsleg áhrif þess að samþykkja frumvarpið eru óljós. Samkvæmt mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefur tilfærsla á um 130 milljörðum kr. úr ríkissjóði inn í ofþanið lífeyrissjóðskerfi, sem er um 4% stækkun á því kerfi samkvæmt áætlun 3. minni hluta, lítil efnahagsleg áhrif. Á sama tíma halda virtir hagfræðingar á borð við Gylfa Magnússon, Gunnar Tómasson og Ólafur Margeirsson því fram að þetta sé stórhættuleg aðgerð. Gunnar og Ólafur benda á eftirfarandi í bréfi sínu til nefndarmanna frá 17. desember sl.: „Þessi aukning peningamagns í umferð getur leitt til óstöðugleika og verðbólgu á eigna- og vörumarkaði. Þessi umrædd 108,5 milljarða króna greiðsla, sem fjármögnuð skal verða með stöðugleikaframlagi föllnu bankanna til ríkissjóðs, vinnur því beinlínis gegn markmiðum stöðugleikaframlagsins sjálfs sem var að stuðla að stöðugleika á innlendum eigna- og vörumarkaði. Bent er á að um er að ræða tæplega 7% aukningu peningamagns í umferð. Bjartsýnt væri að gera ráð fyrir að slík aukning peningamagns í umferð hefði ekki afleiðingar.“
     Seðlabankinn segir á móti að þetta muni engu síður hafa óveruleg áhrif og rökstyður það með því að aðeins séu um 25 milljarðar kr. fluttir til í peningum. Eftirstöðvarnar komi í formi skuldabréfa og annarra eigna sem komu inn í gegnum stöðugleikaframlög. Ekki er ljóst hvaða eignir þetta eru, og því er mjög hæpið að áætla efnahagsleg áhrif af tilfærslu þeirra með þessum hætti.
     Hvernig sem horft er á málið hljóðar þetta upp á töluverða stækkun á nú þegar afar stóru lífeyrissjóðskerfi.

Ógagnsæi varðandi uppruna tilfærðra fjármuna.
    Fjármagna á stærstan hluta framlags ríkisins með öðrum eignum en peningum. Gríðarlega mikilvægt er að fram komi með hvaða hætti þessar eignir voru valdar, hverjar þær eru og hversu mikils virði þær eru hver um sig. Það að færa til svona svakalegt magn eigna í einu skrefi er hættulegt því að það er nánast ógerlegt að staðfesta að ekki sé um einhverjar óeðlilegar tilfærslur að ræða. Án þess að ætla að herma upp á neinn glæpsamlega tilburði er nauðsynlegt að taka af allan vafa um að allar staðreyndir svona mála liggi fyrir.

Ófullnægjandi lausn.
    Færð hafa verið rök fyrir því að umrædd aðgerð muni að öllum líkindum ekki duga til að laga þann vanda sem orðinn er til innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, og enn fremur að vandinn sé víðtækari í lífeyrissjóðskerfinu almennt. Fjáraustur í þetta núna er ekki líklegt til að skila árangri til lengri tíma. Verðmiði upp á á annan hundrað milljarða kr. til að kaupa sér tíma í þessu samhengi er frekar hár.
     Eins og segir í fyrrnefndu bréfi Gunnars Tómassonar og Ólafs Margeirssonar:
    „Vandamál íslenska lífeyriskerfisins er ekki og verður aldrei skortur á peningum, hvort sem um 100% gegnumstreymis- eða sjóðsöfnunarkerfi er að ræða, heldur, líkt og er vandamál allra, skortur á raunverulegum verðmætum og framleiðslu. 108,5 milljarða króna framlag ríkissjóðs til sérstaks lífeyrisaukasjóðs bætir ekki úr þeim skorti, hvorki nú né í framtíðinni. Framlagið er því tilgangslaust með öllu sé markmiðið að tryggja lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna og kaupmátt þeirra.“
     Það liggur því beinna við að leggja áherslu á heildarendurskoðun lífeyrissjóðakerfisins með það að markmiði að tryggja að hegðun þess og umfang sé nær því sem þurfa þykir til að geta tryggt framtíðarlífeyrisréttindi allra í reynd, án þess að reglulegra inngripa sé þörf af hálfu ríkisins.

Skerðing á áunnum réttindum.
     Af frumvarpinu getur leitt töluverða skerðingu á áunnum réttindum. Það er óljóst hvort það sé í samræmi við eignarréttarákvæði stjórnarskrár. Einnig, óháð því hvort það sé samrýmanlegt stjórnarskránni eður ei, er óljóst hvort það sé siðferðislega réttlætanlegt. Í því felst hluti af meginvanda lífeyrissjóðskerfisins.
    Einnig er óljóst hvort heimilt sé að skerða lífeyrisréttindi með þessum hætti án allsherjaratkvæðagreiðslu í viðkomandi stéttarfélögum, líkt og fjallað er um í lögfræðiáliti Gísla Tryggvasonar lögmanns um málið frá 1. desember sl.

Brot á samkomulagi við samtök á vinnumarkaði.
     Frumvarpið byggist á forsendum samkomulags stjórnvalda og heildarsamtaka á opinberum vinnumarkaði frá 19. september sl. Umdeilt er hvort frumvarpið samræmist samkomulaginu. Eðli málsins er þannig að óeðlilegt er að Alþingi byggi eingöngu á túlkun fjármála- og efnahagsráðuneytisins á samkomulaginu en líti fram hjá jafnrétthárri túlkun annarra aðila samkomulagsins.
    Ekki hjálpar að mörg aðildarfélög aðila að samkomulaginu gáfu ekki heimild til að gera slíkt samkomulag.

Engan veginn trúverðugt að jafna skuli launakjör eftir á.
    Fyrir frumvarpinu standa þau rök að með skerðingu lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna sé hægt að ganga skref í átt að því að jafna launakjör opinberra starfsmanna við það sem almennt gengur og gerist á almennum vinnumarkaði. Þótt jöfnun kjara milli almenns og opinbers vinnumarkaðar sé bæði jákvæð og eftirsóknarverð er ekki með nokkru móti augljóst að seinna skrefið verði stigið. Gylfi Magnússon bendir á í umsögn sinni um frumvarpið frá 15. desember sl.:
    „Á móti þessu koma ekkert nema loðin fyrirheit um að laun í opinbera geiranum verði hækkuð til samræmis við almenna vinnumarkaðinn á tíu árum. Slíkt loforð er í eðli sínu haldlaust og fjölmörg fordæmi fyrir því sama hversu góðan hug loforðsgjafinn kann að hafa þegar loforðið er gefið.“
     Vert er að athuga að með samþykkt frumvarpsins verður til klemma þar sem hægt verður að rökstyðja afturhald launa á almennum vinnumarkaði með tilvísun til þess stöðugleika sem hafi verið skapaður með því að jafna lífeyrisréttindin, og að þangað til búið sé að jafna launakjör á móti megi laun á almennum vinnumarkaði ekki hækka umtalsvert. Þessi rök gætu t.d. verið notuð til að réttlæta inngrip Alþingis í kjarabaráttu sjómanna, en það er algjörlega óásættanlegt að gefa kost á slíkri réttlætingu.

Vistarband í formi framtíðarógnunar.
    Samkvæmt frumvarpinu fellur réttur sjóðfélaga til lífeyrisauka almennt niður falli iðgjaldagreiðslur þeirra niður til lengri tíma en tólf mánaða. Af því leiðir að opinber starfsmaður, sem hefur þurft að sætta sig við jafna ávinnslu réttinda fyrri hluta starfsævinnar, getur ekki gert meira en árs hlé frá störfum hjá hinu opinbera vilji hann ekki glata réttinum. Því má segja að hann sé í reynd í vistarbandi út starfsævina. Það er sérstaklega einkennilegt í ljósi þess að eitt markmiða frumvarpsins er að auðvelda flæði starfsfólks milli opinbera og almenna markaðarins.
    Í ljósi framangreinds leggur 3. minni hluti til að frumvarpið verði ekki samþykkt.


Alþingi, 20. desember 2016.

Smári McCarthy.