Ferill 13. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 21  —  13. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks og lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum (framlenging samninga um notendastýrða persónulega aðstoð og skipun þingmannanefndar).

Frá efnahags- og viðskiptanefnd.


I. KAFLI
Breyting á lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum.
1. gr.

    2. málsl. 5. mgr. ákvæðis til bráðabirgða IV í lögunum orðast svo: Heimilt er að fram­lengja samninga sem gerðir hafa verið árið 2016 til ársloka 2017.

II. KAFLI
Breyting á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum.
2. gr.

    2. mgr. bráðabirgðaákvæðis 9 í lögunum orðast svo:
    Ákvæði þetta gildir til ársloka 2017 eða þar til lög verða sett um notendastýrða persónu­lega aðstoð.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Í ákvæði til bráðabirgða IV í lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, með síðari breytingum, er kveðið á um að sérstöku samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildar­samtaka fatlaðs fólks skuli komið á um innleiðingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar. Í 5. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að ráðherra skuli eigi síðar en í árslok 2016 leggja fram frumvarp til laga þar sem lagt verður til að lögfest verði að persónuleg notendastýrð aðstoð verði eitt meginform þjónustu við fatlað fólk og að þá skuli verkefninu formlega vera lokið.
    Ljóst er að ekki næst að klára verkefnið fyrir lok árs 2016 og telur nefndin því nauðsynlegt að leggja fram frumvarp þetta til að veita heimild til að framlengja samninga sem gerðir hafa verið á grundvelli framangreinds bráðabirgðaákvæðis út árið 2017. Þá er nauðsynlegt að framlengja ákvæði 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis 9 í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, með síðari breytingum, sem kom inn með lögum nr. 80/2015, út árið 2017 eða þar til lög um notendastýrða persónulega aðstoð taka gildi.