Ferill 2. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 44  —  2. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2017.

Frá 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Vinnan við gerð fjárlaga og tekjuöflun fer fram við nokkuð sérstakar aðstæður. Ríkisstjórn landsins er starfsstjórn þar sem ekki hefur tekist að mynda ríkisstjórn. Hún reiðir sig því ekki á neinn sérstakan meiri hluta á þingi. Því hefur verið reynt að vinna málið í nokkuð þver­pólitískri sátt inni í nefndinni. Frumvarpið var lagt fram samhliða fjárlögum en hvort tveggja byggist á ríkisfjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar sem samþykkt var 30. júní sl. Það er því er ómögulegt að nálgast frumvarpið eins og um ópólitískt plagg sé að ræða. Það byggist á ríkisfjármálaáætlun fallinnar ríkisstjórnar. Að mati Samfylkingarinnar er þörf á meiri fjárfestingu í heilbrigðis- og menntakerfinu og sérstaklega þarf að huga að því að bæta kjör barnafjölskyldna, leigjenda, fyrstu kaupenda, aldraðra og öryrkja. Allt of margir í þessum hópum búa við kröpp kjör. Auðvelt er að fjármagna þessi brýnu verkefni með því að auka tekjur ríkisins af auðlindum með því að innheimta hærri veiðigjöld og/eða bjóða út kvóta, auka tekjur af þeim ferðamönnum sem koma til Íslands, af áður óþekktum fjölda, innheimta meiri tekjur af stórnotendum raforku og auka jöfnunarhlutverk skattkerfisins.
    Við afgreiðslu á slíku frumvarpi birtast skýrar áherslur flokka, hvernig afstaða þeirra er í útgjalda- og skattamálum. Þar kemur gleggst fram hvernig samfélag þeir vilja byggja upp, hvaða aðstöðu þeir vilja búa borgurunum, hver skipting eigna og tekna eigi að vera og með hvað hætti skattar skuli lagðir á hvern og einn.
    Þannig birtast í þessu frumvarpi flatar krónutöluhækkanir á ýmsar vörur, svo sem bensín, tóbak og áfengi. Sumar þeirra verða seint taldar til nauðsynjavarnings og einhverjar kannski beinlínis hættulegar. Markmiðið virðist þó ekki vera það leggja þær á vegna lýðheilsu­sjónarmiða; þá ætti líka að leggja aftur á sykurskatt. Þeim er fyrst og fremst ætlað að afla tekna. Þessar skattahækkanir bitna mest á tekjulægstu heimilunum á sama tíma og aðrar skattbreytingar sem nýttust tekjuhærri heimilum eru látnar eiga sig. Mun betur færi á því að skattbreytingarnar sem nú er verið að gera legðust á breiðu bökin í samfélaginu, á þá sem best standa. Rifjum upp að stórútgerðin hefur hagnast um mörg hundruð milljarða króna á síðustu árum og skattar hafa lækkað á þau 20% sem mestar tekjur hafa. Samfylkingin vill snúa frá þessari skattastefnu sem hefur verið rekin sl. þrjú ár. Samfylkingin tekur heils hugar undir umsögn Alþýðusambands Íslands, en þar segir að fjárlagafrumvarp fyrir árið 2017 sé hvorki til þess fallið að styðja nægilega vel við hinn efnahagslega stöðugleika né hinn félagslega.

Efnahagsleg áhrif.
    Seðlabankinn benti á í sinni umsögn um fjármálastefnuna, sem bankinn sendi fjárlaga­nefnd 21. maí sl., að ef ekki væri talið álitlegt að draga úr fjárfestingum opinberra aðila þyrfti að draga úr öðrum útgjöldum eða afla hinu opinbera aukinna tekna, t.d. með hærri sköttum. Þessi boðskapur á við enn í dag.
    Það var ljóst fyrir samþykkt Alþingis í lok maí að veikleikar fjármálastefnunnar og fjármálaáætlunarinnar væru á tekjuhliðinni og tilkomnir vegna þess að ríkisstjórnin hafði lækkað ýmsa skatta og gjöld á kjörtímabilinu. Veiðigjöld voru lækkuð umtalsvert, auðlegðar­skattur afnuminn og orkuskattur líka. Dregið var úr jöfnunarhlutverki tekjuskattskerfisins og ferðamenn héldu afslætti sínum af virðisaukaskatti þrátt fyrir mikla fjölgun sem kallar á uppbyggingu. Þá var sérstakur bankaskattur innheimtur sem gekk þó beint til lánastofnana til að niðurgreiða verðtryggð húsnæðislán sumra heimila, mest þó hjá efnamestu skuldur­unum. Þetta var gert á sama tíma og fjárfestingarþörf var mikil í samgöngukerfinu og bót á velferðarþjónustu og í skólakerfinu afar aðkallandi. Ekki hefur verið snúið af þessari braut með fjárlagafrumvarpinu og Samfylkingin gagnrýnir harðlega þessa forgangsröðun eftir sem áður.
    Annar minni hluti leggur áherslu á að breytingar verði gerðar á sköttum og gjöldum þann­ig að svigrúm myndist fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins og betri skóla, bætt samgöngu­kerfi og löggæslu en ekki síst fyrir þá sem reiða sig á greiðslur frá Tryggingastofnun og fyrir barnafjölskyldur.
    Nýtt þing hefur tækifæri til að tryggja félagslegan stöðugleika, til jafns við þann efnahags­lega, og auka jöfnuð í samfélaginu. Það er besta leiðin til þess að bæta lífskjörin í landinu og stuðla að friði á vinnumarkaði.

Auðlindagjöld.
    Mikilvægt er að arðurinn af auðlindum landsins nýtist til að lækka tekju- og neysluskatta landsmanna og standa undir fjármögnun öflugs velferðarkerfis. Þar þarf að horfa sérstaklega til þess að ríkið innheimti sanngjarna auðlindarentu í sjávarútvegi, orkuvinnslu og af tekjum ferðamanna. Þær eiga að standa undir uppbyggingu við ferðamannastaði og öðrum kostnaði vegna komu þeirra, svo sem í heilbrigðiskerfinu, við löggæslu og björgunarstörf.
    Líkt og sl. ár er ekki gengið nógu langt í að leggja á sanngjörn auðlindagjöld. Þar verður að horfa til útboðs aflaheimilda, álagningu nýrra raforku- eða umhverfisskatta og afnáms undanþágu ferðamanna frá almenna virðisaukaskattsþrepinu.
    Við í Samfylkingunni höfum áætlað að með útboði aflaheimilda sé auðveldlega hægt að hækka auðlindarentu í sjávarútvegi um sem nemur 15 milljörðum kr. á ári. Við teljum sömu­leiðis að hægt sé að ná í 10 milljarða kr. með því afnema undanþágu seldra gistinátta frá almennu virðisaukaskattsþrepi en í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að skattastyrkir ferða­þjónustu nemi 20 milljörðum kr. árið 2017.
    Hægt er að auka tekjur ríkisins af auðlindum landsmanna um a.m.k. 30 milljarða kr. og það hlýtur að vera eitt mikilvægasta verkefni næstu ríkisstjórnar.

Barna- og vaxtabætur.
    Ungt, skuldsett fólk eða fólk á leigumarkaði býr margt við erfiðar aðstæður. Leigu­markaður er dýr og ekki allir sem hafa efni á útborgun á íbúð og margir geta ekki stutt nógu vel fjárhagslega við börnin sín. Yfir 6.000 börn bjuggu við fátækt árið 2014. Þess vegna er brýnt að styðja betur við þessa hópa. Skilvirkasta leiðin til þess er að hækka barnabætur sem eru tekjutengdar og vaxtabætur sem eru bæði tekju- og eignatengdar. Þannig væri stuðningn­um beint þangað sem þörf er fyrir hann. Bæturnar hafa lækkað að raunvirði á undanförnum árum og færa þarf aukið fjármagn í málaflokkinn til þess að hækka viðmiðunarfjárhæðir og draga úr tekjuskerðingum.

Tryggingagjald.
    Mikilvægasta skattalækkunaraðgerðin er lækkun tryggingagjalds sem leggst á launa­greiðslur. Hún gagnast litlum og meðalstórum fyrirtækjum best, en þau byggja mörg hver á hugviti og bjóða upp á vel launuð og fjölbreytt störf. Góð starfsskilyrði þessara greina eru lykilatriði í þróun íslensks atvinnulífs. Í þeim felst líka mikilvæg byggðastefna þó að það fái oft á tíðum ekki mikla athygli.

Vinnum gegn misskiptingu.
    Mikilvægt er vinna gegn aukinni misskiptingu. Það gerum við með því að tryggja öllum jöfn tækifæri og með rekstri á öflugu opinberu velferðarkerfi. Nýlegar rannsóknar viður­kenndra erlendra aðila, t.d. Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), sýna að þeim hagkerfum sem búa við minnsta misskiptingu farnast best. Beita þarf skattkerfinu hér á landi betur til þess að auka jöfnuð. Þar þarf sérstaklega að horfa á þá sem mest eiga, en ríkasta 1% landsmanna á 20% af öllum eignum og ríkustu 5% landsmanna næstum helming allra eigna. Til að fá meiri tekjur í ríkissjóð af þessum eignum er skynsamlegt að leggja á stóreignaskatt yfir tilteknum mörkum þar sem ein húseign væri undanþegin. Loks þarf að hækka fjármagns­tekjuskatt.
    Til að auka tekjujöfnuð og tryggja ríkissjóði meiri tekjur telur 2. minni hluti mikilvægt að hér á landi sé þrepaskipt skattkerfi. Þar þarf sérstaklega að horfa til þess að taka upp nýtt skattþrep á laun þeirra sem hæstu launin hafa.
    Í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunnar er eitt skattþrep fellt út og er áætlað að kostn­aður vegna þess nemi 3,8 milljörðum kr. Breytingar gagnast best þeim sem eru með 700 þús. kr. í mánaðarlaun – skattbyrði þeirra lækkar um 6.000 kr. Betur hefði farið á því að nýta þetta svigrúm til þess að lækka tryggingagjald og/eða styðja betur við barnafjölskyldur og þá sem eru í vandræðum á erfiðum húsnæðismarkaði með hærri framlögum í barna- og vaxtabóta­kerfin. Þá þyrfti að ráðast myndarlegar í uppbyggingu almennra leiguíbúða eins og kveðið er á um í samkomulagi við aðila vinnumarkaðarins.

Alþingi, 21. desember 2016.

Logi Einarsson.