Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 45  —  7. mál.

3. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um kjararáð.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin fjallaði um málið milli 2. og 3. umræðu og fékk til sín Björn Rögnvaldsson og Sigurð Helga Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Skúla Magnússon frá Dómara­félagi Íslands, Gylfa Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins.
    Fyrir nefndinni komu fram athugasemdir um breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar við 1. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að kjararáð skuli vera stjórnsýslunefnd. Athugasemdirnar lutu einkum að því að stjórnsýslunefndir taki almennt ákvarðanir um réttindi og skyldur manna og að slíkar nefndir falli undir stjórnsýslulög, nr. 37/1993. Meiri hluti nefndarinnar tekur undir þessar athugasemdir en telur mikilvægt að kveðið verði á um að ráðið skuli falla undir stjórnsýslulög eftir því sem við á sem og upplýsingalög, nr. 140/2012. Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis.
    Jafnframt leggur nefndin til breytt orðalag á síðari málslið 1. gr. í því skyni að kjararáð fjalli um starfskjör nefndarmanna í fullu starfi hjá þeim úrskurðarnefndum sem þar eru til­greindar. Þá leggur nefndin til að dómarar í Félagsdómi falli undir ákvörðun kjararáðs um laun og önnur starfskjör til að tryggja betur sjálfstæði dómsins.
    Nefndin ræddi ákvæði 4. gr. frumvarpsins og áréttar að kjararáð skuli í úrskurðum sínum ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjara á vinnumarkaði.
    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Við 1. gr.
                  a.      Síðari málsliður orðist svo: Kjararáð ákveður einnig laun og starfskjör nefndarmanna yfirskattanefndar, úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, kærunefndar útlendingamála og úrskurðarnefndar velferðarmála sem eru í fullu starfi.
                  b.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í störfum sínum skal kjararáð fylgja ákvæð­um stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eftir því sem við á, sem og ákvæðum upplýsinga­ laga, nr. 140/2012.
     2.      Við 21. tölul. 8. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: 1. mgr. 66. gr. laganna orðast svo:     Allur kostnaður við Félagsdóm greiðist úr ríkissjóði eftir ákvörðun ráðherra. Kjararáð ákveður þó þóknun til dómara.

Alþingi, 21. desember 2016.


Benedikt Jóhannesson,
form.
Björt Ólafsdóttir,
frsm.
Brynjar Níelsson.
Elsa Lára Arnardóttir. Katrín Jakobsdóttir. Logi Einarsson.
Sigríður Á. Andersen. Vilhjálmur Bjarnason.