Ferill 7. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 46  —  7. mál.

3. umræða.
                        

Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um kjararáð.

Frá minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin fjallaði um málið milli 2. og 3. umræðu. Minni hlutinn leggur til breytingar sem hann telur brýnt að verði samþykktar.
    Lagt er til að mælt verði fyrir um að ráðsmenn hafi menntun og/eða reynslu við hæfi. Einnig er lagt til að hagsmunaskráning ráðsmanna verði birt opinberlega og að ráðið setji sér sjálft reglur um slíka skráningu. Til viðmiðunar má hafa hagsmunaskráningu Hæstaréttar og telur minni hlutinn eftirfarandi atriði koma til skoðunar: Hvort ráðsmaður sinni öðrum störf­um og hvort greiðsla komi fyrir þau og þá frá hverjum, að skráðar séu fasteignir í eigu ráðs­manns sem eru ætlaðar til annars en eigin nota og fjölskyldu hans og að eignarhlutir í hvers kyns félögum séu skráðir sem og skuldir ráðsmanns sem tengjast ekki beint því að afla sér fasteignar til eigin nota. Þá komi fram aðild ráðsmanns að félögum sem starfa ekki með fjárhagslegu markmiði. Þá leggur minni hlutinn fram breytingartillögu um að fundargerðir ráðsins skuli birtar, sbr. breytingartillögu á þskj. 14 sem var kölluð aftur til 3. umræðu.
    Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftir­farandi

BREYTINGU:


     1.      Við 2. mgr. 2. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þeir skulu hafa menntun og/eða reynslu við hæfi.
     2.      Við 5. gr.
                  a.      Á undan 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Ráðsmenn skulu birta hagsmunaskráningu sína opinberlega og með aðgengilegum hætti og setja sér reglur þar um.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                    Fundargerðir kjararáðs skulu birtar opinberlega og með aðgengilegum hætti.

Alþingi, 21. desember 2016.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.