Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 48  —  1. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2017.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið eftir að því var vísað til hennar 7. desember sl. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytis og kallaði einnig til full­trúa allra ráðuneyta sem bera ábyrgð á einstökum málaefnasviðum og málaflokkum. Einnig hafa fulltrúar Seðlabanka Íslands, Vegagerðarinnar, Landspítalans, Ríkisendurskoðunar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins og Hag­stofu Íslands komið á fund nefndarinnar.
    Gerðar eru breytingartillögur við tekjuáætlun frumvarpsins sem nema 3.846,3 millj. kr. til hækkunar tekna og einnig breytingartillögur við sundurliðun 2, þ.e. fjárheimildir málefna­sviða eftir málaflokkum og ráðuneytum sem samtals nema 11.335,1 millj. kr. til hækkunar gjalda. Á rekstrargrunni verða því heildartekjur ársins 779.007,1 millj. kr., gjöldin 754.764,4 millj.kr. og heildarafkoman þar af leiðandi 24.242,7 millj. kr. afgangur. 1. minni hluti gerir einnig breytingartillögu við númer greina. Þannig verður 5. gr. frumvarpsins t.d. að 6. gr. og við hana eru gerðar breytingartillögur sem varða heimildir til handa fjármála- og efnahags­ráðherra um kaup og sölu eigna.

Frumvarp Breytingartillögur Samtals
Frumtekjur 753.529,5 7.045,3 760.574,8
Frumgjöld 662.609,3 11.335,1 673.944,4
Frumjöfnuður 90.920,2 -4.289,8 86.630,4
Vaxtatekjur 18.432,3 0,0 18.432,3
Vaxtagjöld 80.820,0 0,0 80.820,0
Vaxtajöfnuður -62.387,7 0,0 -62.387,7
Heildartekjur 771.961,8 7.045,3 779.007,1
Heildargjöld 743.429,3 11.335,1 754.764,4
Heildarjöfnuður 28.532,5 -4.289,8 24.242,7

    Ein af þeim breytingum sem kveðið er á um í lögum um opinber fjármál er að reiknings­skil fyrir ríkissjóð skuli byggð á alþjóðlegum reikningsskilastaðli um opinber fjármál og er þar gengið út frá svokölluðum IPSAS-staðli. Reikningsskil einstakra ríkisaðila skulu hins vegar vera í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga. Jafnframt er kveðið á um að fram­setning og flokkun upplýsinga um fjármál A-hluta ríkissjóðs skuli vera samkvæmt alþjóð­legum hagskýrslustaðli, GFS-staðli, þar sem sýna skuli meginstærðir ríkisfjármála, áætlun um tekjur og gjöld sundurliðaða eftir hagrænni flokkun, ásamt helstu breytingum á eignum og skuldum og stöðu þeirra. Í frumvarpinu er 1. gr. birt samkvæmt GFS-staðlinum. Í því felast allnokkrar breytingar frá framsetningu fyrri fjárlaga bæði á tekju- og gjaldahlið. Fyrir vikið verður samanburður milli ára torveldari en áður og t.d. eru heildargjöld málefnasviða og málaflokka skv. 2. og 3. gr. ekki þau sömu og skv. 1. gr. Samtals eru tekjur ríkisins 6,6 milljörðum kr. hærri nú en samkvæmt eldri framsetningu og útgjöldin eru 19,3 milljörðum kr. lægri en áður. Frávikin eru skýrð nánar í greinargerð frumvarpsins.

Efnahagsforsendur frumvarpsins.
    Sökum þess hve frumvarpið kemur seint fram á Alþingi í þetta sinn hefur nú þegar verið tekið tillit til nýjustu þjóðhagsspár Hagstofu Íslands frá því í nóvember sem hefur veruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs og einnig nokkra útgjaldaliði, svo sem atvinnuleysisbætur. Það er skemmst frá því að segja að nær allir lykilþættir þjóðhagsspárinnar hafa þróast í jákvæða átt. Samanburður við spá Hagstofunnar frá febrúarmánuði sýnir m.a. eftirfarandi:
          Einkaneysla er nú áætluð 7,1% eða 2,4% hækkun frá febrúarspá. Það er mesti vöxtur einkaneyslu frá árinu 2007. Gert er ráð fyrir að hún aukist um 5,7% á næsta ári.
          Hagvöxtur verður 4,8% í ár eða 0,6% hærri en í febrúarspánni. Gert er ráð fyrir að hag­vöxtur verði 4,4% á næsta ári.
          Fjárfesting er talin aukast um 21,7% á árinu sem er 2,6% hækkun frá febrúarspánni. Hins vegar er spáð samdrætti á næsta ári eða 5,9% vexti árið 2017.
          Atvinnuleysi hefur minnkað mikið á síðustu árum og er nú gert ráð fyrir að það verði um 3% á árinu sem er 0,9% lægra en spáð var í febrúar. Gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði því sem næst óbreytt á næstu árum eða um 3%.
    Það sem einkum knýr fjárfestinguna áfram er fjárfesting tengd stóriðju, ferðaþjónustu, skipum og flugvélum. Vöxtur íbúðafjárfestingar hefur verið mun meiri en spár gerðu ráð fyrir á yfirstandandi ári og gert er ráð fyrir að hún verði áfram þróttmikil á næsta ári. Í ríkis­fjármálaáætlun er gert ráð fyrir að fjárfesting hins opinbera vaxi stöðugt á tímabilinu og haldi 1,3–1,5% af vergri landsframleiðslu.
    Gangi spáin eftir verður yfirstandandi áratugur lengsta samfellda hagvaxtarskeið í nútíma­hagsögu Íslands.

Verklag nefndarinnar.
    Í ljósi þess hve seint frumvarpið var lagt fram á Alþingi hefur nefndin breytt nokkuð vinnubrögðum sínum frá því sem áður hefur verið. Hún ákvað að eiga ekki fundi með full­trúum einstakra sveitarfélaga og takmarka mjög fundi með stofnunum. Aðeins fulltrúar frá Landspítala og Vegagerðinni komu á fund nefndarinnar ásamt fulltrúum viðkomandi ráðuneyta og var það að frumkvæði nefndarinnar.
    Sú óvenjulega staða er nú uppi að á meðan nefndin hefur haft frumvarpið til úrvinnslu hefur ekki verið starfandi ríkisstjórn sem hefur formlegan stuðnings meiri hluta Alþingis. Frumvarpið er lagt fram af starfsstjórn og það hefur óhjákvæmilega haft áhrif á störf nefndar­innar. Við þessar aðstæður, þar sem fjárlagafrumvarp hefur ekki skýran meiri hluta Alþingis á bak við sig heldur byggist á fjármálastefnu starfsstjórnar, hafa nefndarmenn lagt á sig mikla vinnu við að komast að niðurstöðu sem Alþingi getur samþykkt. Þrátt fyrir stuttan tíma hefur tekist ágætur samhljómur um megináherslur í umfjöllun, greiningu og tillögugerð. Samkomu­lag var milli nefndarmanna um að fjalla einkum um fjögur málefnasvið í vinnunni. Rétt er að taka fram að sú tillögugerð sem 1. minni hluti stendur að endurspeglar ekki sérstaklega áherslur viðkomandi stjórnmálaflokka heldur er um að ræða málamiðlun í því skyni að tryggja samþykkt fjárlaga fyrir áramót og taka breytingartillögur mið af því samningaferli. Samkvæmt stjórnarskrá er ekki heimilt að greiða fé úr ríkissjóði nema fyrir því sé heimild í lögum. Það er á ábyrgð Alþingis að samþykkja fjárlög svo að ekki komi til þess að starfsemi hins opinbera verði fyrir hnökrum eða stöðvist. Undir þessari ábyrgð ber þingmönnum að leita allra leiða til að fá fjárlög samþykkt.

Fjármálaáætlun og fjárlagafrumvarp.
    Eftir samþykkt laga um opinber fjármál árið 2015 er nú í fyrsta sinn lagt fram fjárlaga­frumvarp með gerbreyttu sniði og áherslum. Stefnt er að því að framvegis verði umfjöllun um allar meginlínur og stefnumörkun ríkisfjármála að finna í fjármálaáætlun sem lögð verður fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu á vorþingi. Áætlunin verður til fimm ára í senn og þar kemur fram stefnumörkun ríkisstjórnar hverju sinni um ríkisfjármálin og þróun opin­berra fjármála.
    Hlutverk fjárlagafrumvarpsins verður þá fyrst og fremst að sundurliða betur það sem fram kemur í voráætluninni auk þess að taka tillit til breytinga, svo sem endurskoðunar tekna ríkis­sjóðs og annarra forsendubreytinga.
    Það er reynsla nefndarinnar eftir umfjöllun um frumvarpið að fjölmargir aðilar, bæði innan og utan ríkisgeirans átta sig ekki fyllilega á breyttum áherslum í kjölfar laga um opinber fjármál. Margir umsagnaraðilar átta sig ekki á því að ríkisstjórn leggur fram fjár­málastefnu í upphafi kjörtímabils og síðan fjármálaáætlun til fimm ára á vorþingi í formi þingsályktunar. Með stefnunni og áætluninni eru lagðar allar meginlínur í stefnumörkun ríkisfjármála og gerð áætlun um heildarstærðir opinberra fjármála. Hlutverk fjárlagafrum­varpsins er nú og verður framvegis takmarkaðra en áður var Þar er fyrst og fremst útfærð stefna og sundurliðaðar fjárhæðir í fjármálaáætluninni.
    Stefnubreytingar og nýjar áherslur í ríkisfjármálum bíða því næstu ríkisstjórnar og nýs meiri hluta fjárlaganefndar.

Útgjaldabreytingar á milli ára.
    Fjárlaganefnd hefur varið mestum tíma sínum í umfjöllun um gjaldahlið fjárlaga. Á bls. 128 í frumvarpinu sjást helstu breytingar milli ára. Með því að bæta gjaldatillögum sem nema 11,3 milljörðum kr. við töfluna í frumvarpinu verður hún svona.

Frumgjöld 2016 663.249,3
Breytingar á útgjaldaskuldbindingum 21.292,0
Ný og aukin framlög 25.636,0
Ný og aukin fjárfestingarframlög 9.793,0
Aðhaldsráðstafanir -994,0
Niðurfelld tímabundin útgjöld -23.728,3
Breytt framsetning fjárlaga -19.320,0
Launa- og verðlagshækkanir 23.173,6
Frumgjöld 2017 699.101,6

    Hækkunin er 35,7 milljarðar kr. en þá er búið að draga úr henni um 19,3 milljarða kr. vegna breyttrar framsetningar fjárlaga. Því til viðbótar eru 16,8 milljarðar kr. innifaldir í niðurfelldum útgjöldum sem tengjast niðurfærslu á verðtryggðum húsnæðisskuldum heimil­anna en því verkefni er nú lokið. Ef sú fjárhæð er tekin út úr samanburði milli ára hækka útgjöld málefnasviða um tæpa 72 milljarða kr. milli ára en þar af eru 23,2 milljarðar kr. launa-, gengis- og verðlagsbreyting.
    Eftir stendur þá 48,6 milljarða kr. raunhækkun sem er 7,3% hækkun á milli ára. Er það miklu meiri hækkun en sést hefur um árabil. Því er ljóst að stjórnvöld stórauka framlög til fjölmargra málaflokka að raungildi.
    Í töflu á bls. 133 í frumvarpinu koma fram útgjaldabreytingar milli ára sundurliðaðar á 34 málefnasvið og sýnd breyting frá fjárlögum fyrir árið 2016 að raungildi. Í fylgiskjali er svipuð tafla nema hún sundurliðast á málaflokka en ekki aðeins málefnasvið. Þá hefur breytingartillögum nefndarinnar verið bætt við fjárhæðir frumvarpsins og kemur þá enn betur fram stefna stjórnvalda sem miðar að því að forgangsraða heilbrigðismálum, samgöngu­málum, menntamálum og löggæslu umfram aðra málaflokka.
    Veigamesta málefnasviðið eru vextir og lífeyrisskuldbindingar sem lækka lítillega eða um 2,6% á milli ára. Næstþyngst vegur sjúkrahúsþjónusta þar sem hækkunin er 4,9 milljarðar kr. eða 6,5% og er það langmesta hækkun sem orðið hefur á þessum málaflokki um langt árabil.
    Málefni aldraðra koma þar næst og hækka í heild um 12,7 milljarða kr. eða 25,4% sem er langmesta hækkun einstaks málaflokks í krónum talið. Þar munar mest um 11,1 milljarð kr. vegna breytinga á lögum um almannatryggingar sem höfðu að markmiði að einfalda elli­lífeyriskerfið og auka möguleika á sveigjanlegum starfslokum.
    Framlög til samgöngu- og fjarskiptamála hækka um 3,9 milljarða kr. og munar miklu um tillögur nefndarinnar til hækkunar. Fjallað er sérstaklega um samgöngumál síðar í álitinu.
    Þriðja mesta útgjaldaaukningin í krónum talin er á málefnasviði hjúkrunar- og endur­hæfingarþjónustu eða sem nemur 3,3 milljörðum kr. Það skýrist að mestu leyti af annars vegar 1,2 milljarða kr. framlagi til Framkvæmdasjóðs aldraðra til byggingar þriggja nýrra hjúkrunarheimila. Hins vegar er gert ráð fyrir 1,5 milljarða kr. auknu framlagi vegna ramma­samnings Sjúkratrygginga Íslands við öldrunarstofnanir á daggjöldum sem miðar að styrkingu rekstrargrunns þeirra.
    Mest lækka útgjöldin á málefnasviði varasjóðs og sértækra fjárráðstafana. Lækkunin nemur 14,3 milljörðum kr. og þar vegur langþyngst 13 milljarða kr. lækkun vegna breyttar framsetningar fjárlaga þar sem afskriftir skattkrafna færast sem frádráttarliður á tekjuhlið í stað fjárheimildar á gjaldahlið. Næstmest lækka gjöldin á málefnasviði húsnæðisstuðnings eða um 11,5 milljarða kr. og skýrist af því að verkefni um lækkun höfuðstóls íbúðarlána lauk árið 2016 og tímabundið 15,5 milljarða kr. framlag fellur því niður.

Áherslur og breytingartillögur nefndarinnar.
    Breytingartillögur sem fjárlaganefnd stendur öll að byggjast á samkomulagi innan nefndarinnar og vilja til að koma til móts við ólík sjónarmið og stefnu. Nefndin fjallaði fyrst og fremst um fjögur veigamikil málefnasvið í vinnu sinni, þ.e. menntamál, samgöngumál, löggæslu og heilbrigðismál.

Heilbrigðismál.
    Lögð hefur verið mikil áhersla á að forgangsraða í þágu heilbrigðiskerfisins á undan­förnum árum. Í því sambandi má nefna að eftir mikinn niðurskurð í kjölfar bankahrunsins hafa útgjöld Landspítalans á föstu verðlagi aukist um 15 milljarða kr. frá árinu 2011 eins og fram kemur á myndinni. Er þá búið að bæta við þeim rúmu 2 milljörðum kr. sem spítalanum eru ætlaðir í breytingartillögum nefndarinnar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Miklar áskoranir eru framundan í heilbrigðismálum, ekki síst vegna öldrunar þjóðarinnar. Íslendingar eru tiltölulega ung þjóð í samanburði við margar nágrannaþjóðirnar en það breytist hratt á næstu árum. Um 1960 voru landsmenn eldri en 60 ára um 20 þúsund talsins en eru nú vel yfir 60 þúsund.
    Að frumkvæði þáverandi fjárlaganefndar var alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey fengið til þess að gera úttekt á starfsemi Landspítalans og koma með tillögur sem vörðuðu bæði spítalann og heilbrigðiskerfið í heild. Samandregnar niðurstöður þeirrar vinnu voru efti­rfarandi:
          Beina skal kröfum að því að stytta meðallengd innlagna sem er birtingarmynd fjölda vandamála á Landspítalanum.
          Efla skal krafta sérfræðilækna í heilsugæslu-, öldrunar- og endurhæfingarþjónustu.
          Taka skal meðvitaða ákvörðun byggða á staðreyndum um skipulag einkastofa sérfræðilækna.
          Setja skal reglur um samræmda skráningu og innleiða nýtt fjármögnunarkerfi.
          Kanna skal fýsileika þess að koma á sameiginlegu „lóðréttu“ stjórnskipulagi.
          Hagnýta skal upplýsingatækni eins og frekast er unnt.
          Beina skal nýjum fjárframlögum í þessar aðgerðir.
    Í umfjöllun um úttekt McKinsey hefur m.a. komið fram að aukin fjárframlög hafa ekki alltaf skilað auknum afköstum.
    1. minni hluti leggur ríka áherslu á að velferðarráðuneytið og yfirstjórn Landspítalans geri nú þegar áætlun um hvernig skuli hrinda í framkvæmd mikilvægustu þáttunum í tillögum McKinsey. Það er forsenda þess að auknar fjárveitingar geti nýst með sem hagkvæmustum hætti. Nú þegar eru nokkrir mánuðir liðnir frá því að tillögum var skilað en ekki liggur fyrir heildstæð afstaða til þeirra, né verkáætlun um framhald málsins. Fjárlaganefnd mun fylgja þeim málum eftir á nýju ári í tengslum við eftirlitshlutverk sitt við framkvæmd fjárlaga.
    Einnig vekur 1. minni hluti athygli á verkefni sem Landspítalinn hefur lengi stefnt að, þ.e. innleiðingu DRG-kerfis til framleiðnitengingar á fjárframlögum til spítalans. Spítalinn hefur unnið að þessu verkefni síðustu 15 ár og telur sig tilbúinn að hrinda því í framkvæmd. Fjár­mögnun af þessu tagi gerir spítalanum líka kleift að bera sig betur en áður saman við önnur sjúkrahús annars staðar á Norðurlöndunum þar sem DRG-fjármögnun hefur tíðkast um árabil.
    Samanburður útgjalda til heilbrigðismála innan OECD-ríkjanna hefur oft komið til um­ræðu bæði innan þings og utan. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á því að samkvæmt tölum frá árinu 2015 eru útgjöld til heilbrigðismála um 7,2% af vergri landsframleiðslu sem er svipað og í Kanada og Finnlandi en heldur minna en annars staðar á Norðurlöndunum og í Þýskalandi og Japan. Ef hins vegar er leiðrétt fyrir aldursamsetningu eru útgjöld hins opin­bera til heilbrigðsmála þau fjórðu hæstu hérlendis af öllum OECD-ríkjunum, eins og fram kemur á myndinni þar sem Ísland er sýnt á tveimur stöðum, bæði með og án aldursleið­réttingar.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Til viðbótar þeim fjárheimildum til heilbrigðismála sem gerð er tillaga um nú við 2. um­ræðu um fjárlagafrumvarpið er einnig fyrirhugað að leggja fram breytingatillögur við frum­varp til lokafjárlaga ársins 2015 og fjáraukalaga fyrir árið 2016 sem leggja grunn að því að nánast enginn uppsafnaður rekstrarhalli verður til staðar hjá langflestum stofnunum í mála­flokknum í árslok 2016.

Menntamál.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir allnokkurri raunhækkun gjalda eða um 2,2% hjá framhalds­skólum og 1,7% hjá háskólum. Í breytingartillögum nefndarinnar er bætt verulega um betur og að þeim viðbættum er nú gert ráð fyrir 1.027 millj.kr. hækkun til framhaldsskóla sem er 3,7% að raungildi og 1.904 millj. kr. hjá háskólum sem er 4,9% að raungildi. Vakin er athygli á því að á bak við þessar hækkanir er ekki gert ráð fyrir fjölgun nemenda, þvert á móti er viðbúið að nemendum á framhaldskólastigi fækki verulega í tengslum við styttingu náms. Þrátt fyrir styttinguna er ekki gert ráð fyrir samdrætti í fjárveitingum í fjármálaáætlun til ársins 2021 heldur er þvert á móti miðað við raunaukingu sambærilega við aðra veigamikla málaflokka ríkisins.

Samgöngumál.
    Í samgöngumálum er eðlilegt að töluverðar sveifur verði í fjárframlögum milli ára í sam­ræmi við verkframvindu umfangsmikilla fjárfestingarverkefna, svo sem jarðgangnagerðar. Í frumvarpinu var gert ráð fyrir samdrætti um 2,2% að raungildi sem aðallega skýrist af fram­lögum til Norðfjarðarganga og vegtengingar við Bakka á Húsavík dragast verulega saman þar sem þeim verkefnum er að ljúka. Á móti kemur þá fjárfestingarsvigrúm í önnur verkefni, svo sem til smíði nýs Herjólfs. Í breytingartillögum nefndarinnar um 4.560 millj. kr. við­bótarframlög er óhætt að segja að bætt sé um betur og í stað samdráttar að raungildi aukast framlög því um tæpa 4 milljarða kr. Gerðar eru tillögur um viðbætur til að tryggja að ekki komi til seinkunar á nýjum Herjólfi eða Dýrafjarðargöngum. Þá er bætt mjög í viðhalds­fjárveitingar Vegagerðarinnar en þær hækka úr um 6 milljörðum kr. í 8,5 milljarða kr. eða um meira en 40%. Auk þess eru gerðar tillögur um framgang ýmiss minni framkvæmda í vegamálum, hafnamálum og til styrkingar innanlandsflugs.

Löggæsla.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir 540 millj.kr. hækkun framlaga til löggæslu að raungildi eða 2,5% sem er svipað á við á um ýmsa aðra málaflokka. Þess ber þá að geta að framlög til málaflokksins hækkuðu verulega að raungildi frá árinu á undan. Nefndin ræddi ítarlega áskoranir í þessum málaflokki, m.a. í ljósi stöðugrar fjölgunar erlendra ferðamanna. Sam­eiginleg niðurstaða nefndarinnar var að leggja til 400 millj. kr. hækkun frá frumvarpinu þannig að nú er samtals lagt til að framlög til löggæslu hækki um 979 millj.kr. að raungildi eða um 7,8%. Er þá m.a. horft til svohallaðrar hálendisvaktar og landamæraeftirlits, jafnframt því sem þess er vænst að með nýrri löggæsluáætlun komi fram mat á öryggisstigi og þjónustustigi sem auðveldi mat á fjárþörf lögreglunnar á næstu árum.

Skýringar við breytingartillögur á gjaldahlið.
    Hér á eftir fara skýringar á breytingartillögum við gjaldahlið frumvarpins, bæði tillögum sem nefndin öll stendur að og tillögum sem 1. minni hluti flytur.

03 Æðsta stjórnsýsla.
03.20 Ríkisstjórn.
    Lögð er til 43,6 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokksins til að endurspegla niður­stöðu reiknilíkans sem heldur utan um laun ráðherra og aðstoðarmanna ráðherra. Þess ber að geta að í fjárveitingum ársins 2017 er ekki gert ráð fyrir biðlaunakostnaði sem kann að falla til vegna ríkisstjórnarskipta.

03.30 Forsætisráðuneyti.
    Samtals er lögð til 93 millj. kr. lækkun á framlagi til málaflokksins.
    Annars vegar er gerð tillaga um að 100 millj. kr. framlag sem ætlað var til að hefja hönnun og byggingu á framtíðarhúsnæði fyrir Stjórnarráðið verði fellt niður.
    Hins vegar er gerð tillaga um 7 millj. kr. tímabundið framlag vegna endurbóta á öryggis- og myndavélakerfi embættis forseta Íslands á Bessastöðum. Endurbæturnar miða að því að auka yfirsýn vaktmanna og starfsfólks yfir svæði sem núverandi kerfi býður ekki upp á og bæta þar með öryggi forseta og fjölskyldu hans.

04 Utanríkismál.
04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála.
    Gerð er tillaga um 39,4 millj. kr. hækkun vegna endurmats á launum samkvæmt úrskurðum kjararáðs.

05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla.
05.10 Skattar og innheimta.
    Gerð er tillaga um samtals 47,5 millj. kr. tímabundið framlag sem ætlað er að bæta skatteftirlit og skattrannsóknir. Miðað er við að 35 millj. kr. fari til embættis ríkisskattstjóra en 12,5 millj. kr. til skattrannsóknarstjóra.

08 Sveitarfélög og byggðamál.
08.10 Framlög til sveitarfélaga
    Gerð er tillaga um að fjárheimild til málaflokksins hækki um 127 millj. kr. í samræmi við endurskoðaða áætlun um lögboðið framlag í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga af skatttekjum ársins 2017 og útsvarsstofni 2016. Í frumvarpinu hefur þegar verið gert ráð fyrir 457 millj. kr. hækkun á framlaginu frá fjárlögum fyrir árið 2016 þannig að með þessari tillögu verður hækkunin alls 588 millj. kr. miðað við að skatttekjur verði 694.963 millj. kr. á verðlagi næsta árs miðað við núverandi framsetningu greiðslugrunns í fjárlögum og að álagningarstofn útsvars verði 1.327.000 millj. kr.

09 Almanna- og réttaröryggi.
09.10 Löggæsla.
    Gerð er tillaga um 400 millj. kr. tímabundið framlag til löggæslu. Framlagið bætist við tæplega 600 millj. kr. raunaukningu í frumvarpinu og því er ætlað að koma til móts við aukið álag, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna, þannig að ná megi viðunandi öryggis- og þjónustu­stigi hjá lögreglunni. Gert er ráð fyrir að innanríkisráðuneytið skipti fénu milli embætta í samræmi við áherslur í væntanlegri löggæsluáætlun auk þess sem sérstök áhersla verður lögð á hálendisvakt lögreglunnar.

09.20 Landhelgi.
    Gerð er tillaga um 100 millj. kr. tímabundið framlag til málaflokksins. Tilgangurinn er að koma að hluta til móts við væntanlegt tekjutap Landhelgisgæslunnar þar sem líklegt er að verkefni stofnunarinnar fyrir Evrópsku landamærastofnunina, Frontex, dragist verulega saman og skili miklu minni tekjum upp í fastan kostnað en á undanförnum árum. Frá árinu 2009 hefur Landhelgisgæslan unnið að verkefnum á Miðjarðarhafinu á vegum Frontex. Í fyrra námu sértekjur um 1,4 milljörðum kr.

11 Samgöngu- og fjarskiptamál.
11.10 Samgöngur.
    Gerð er tillaga um 4.560 millj. kr. framlag til samgöngumála. Tillagan grundvallast á samanburði nefndarinnar á fjármálaáætlun og samgönguáætlun. Fjögurra ára samgöngu­áætlun fyrir árin 2015–2018 var samþykkt í október sl. þrátt fyrir að heildarfjárhæðir ársins 2017 væru ekki í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun. Nefndin hefur farið ítarlega yfir málið og niðurstaðan er að leggja til samtals 4.560 millj. kr. viðbótarframlag til samgöngu­mála. Þar vegur þyngst að gert er ráð fyrir að hækka framlög til viðhalds um 2.500 millj. kr.
    Hvað framkvæmdir varðar er tekið mið af verkefnum sem ýmist eru að fullu skuldbundin af hálfu Vegagerðarinnar eða nánast tilbúin til útboðs. Tillögunni er þannig ætlað að tryggja að ekki komi til frestunar á útboði vegna Dýrafjarðarganga eða kaupa á nýjum Herjólfi. Einnig er ætlunin að tryggja framgang ýmissa annarra brýnna verkefna. Við forgangsröðun þeirra verður höfð hliðsjón af umferðaröryggismálum og hugsanlegum þensluáhrifum af framkvæmdum.

14 Ferðaþjónusta.
14.10 Ferðaþjónusta.
    Gerð er tillaga um 600 millj. kr. lækkun framlags til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða í ljósi þess að mun lengri tíma tekur að ráðstafa fé sjóðsins en ráðgert var í upphafi.

15 Orku- og eldsneytismál.
15.10 Orku- og eldsneytismál.
    Lögð er til 77 millj. kr. hækkun á fjárheimild í málaflokki um orku- og eldsneytismál. Með lögum nr. 20/2015, um breytingu á lögum nr. 98/2004, um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku, er lagt á fast jöfnunargjald á raforku til að standa undir fullri jöfnun kostn­aðar við dreifingu raforku til almennra notenda, þ.e. heimila og fyrirtækja sem fá raforku sína beint frá dreifiveitum. Tekjur af jöfnunargjaldi renna í ríkissjóð en tekjunum er ætlað að standa undir jöfnun á kostnaði við dreifingu. Miðað við raforkuspá 2015–2050 er áætlað að tekjur af gjaldinu nemi um 990 millj. kr. á árinu 2017 og hækki um 77 millj. kr. frá fyrri spá.

18 Menning og listir.
18.20 Menningarstofnanir.
    Lögð er til samtals 50 millj. kr. hækkun á málaflokknum sem skiptist í 15 millj. kr. tíma­bundið framlag til eflingar verkefna Snorrastofu í Reykholti, 21 millj. kr. tímabundið framlag til að styrkja rekstur Borgarleikhússins og 14 millj. kr. til ýmissa smærri styrkja.

20 Framhaldsskólastig.
20.10 Framhaldsskólar.
    Gerð er tillaga um 400 millj. kr. tímabundið framlag til framhaldsskóla. Markmið tillög­unnar er að styrkja verknám almennt og takast á við breytingar sem tengjast styttingu náms til stúdentsprófs. Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun útfæra endanlega sundurliðun framlagsins og verður þá jafnframt tekið tillit til rekstrarstöðu einstakra framhaldsskóla. Framlagið verður ekki hluti af reiknilíkani framhaldsskólanna heldur er um að ræða sértæka fjárveitingu í eitt skipti til að bregðast við verkefnum innan málaflokksins.

20.20 Tónlistarfræðsla.
    Lögð er til 16,7 millj. kr. hækkun sem byggist á launa- og verðlagsreikningi vegna sam­komulags um stuðning við tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Samkvæmt samkomulaginu skal framlag ríkisins breytast árlega í samræmi við launa­forsendur BHM og verðlagsforsendur fjárlaga í hlutföllunum laun 85% og önnur gjöld 15%.

21 Háskólastig.
21.10 Háskólar.
    Samtals er lögð til 1.209,2 millj. kr. hækkun á málaflokknum.
    Annars vegar er gerð tillaga um samtals 1.078 millj. kr. tímabundið framlag til háskóla af nokkrum tilefnum. Í fyrsta lagi er markmiðið að gera háskólunum kleift að endurnýja ýmsan búnað og tæki fyrir 408 millj. kr. sem hefur setið á hakanum allt frá bankahruninu. Í öðru lagi er öðrum 400 millj. kr. ætlað að styrkja rekstrargrunn skólanna til að vega á móti rekstrarhalla. Í því sambandi er sérstaklega horft til Listaháskóla Íslands. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að 100 millj. kr. renni til Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands. Í fjórða lagi eru 70 millj. kr. til viðhalds og endurbóta á því húsnæði Landbúnaðarháskólans sem er á Reykjum í Ölfusi. Nefndin væntir þess að í kjölfar endurbótanna verði húsnæðið afhent Ríkiseignum sem innheimti leigu á móti reglulegu viðhaldi með sama hætti og almennt á við um annað húsnæði í eigu ríkisins. Í fimmta lagi er gert ráð fyrir 60 millj. kr. vegna kostnaðarhlutdeildar ríkissjóðs til að ljúka framkvæmdum við fráveitumál á Hólum í Hjaltadal. Loks eru 40 millj. kr. ætlaðar Háskólanum á Akureyri til þess að þróa fjarnám skólans enn frekar.
    Hins vegar er lagt til að 131,2 millj. kr. fjárheimild verði flutt frá málaflokki 21.20 Rann­sóknastarfsemi á háskólastigi yfir á málaflokk 21.10 Háskólar vegna háskólanáms í lögreglu­fræðum. Samið hefur verið við Háskólann á Akureyri um að hafa umsjón með náminu og því er gerð tillaga um að framlagið verði flutt á viðeiganndi málaflokk.

21.20 Rannsóknastarfsemi á háskólastigi.
    Lögð er til annars vegar 168 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokksins og hins vegar 131,2 millj. kr. millifærsla yfir á annan málaflokk
    Tillaga um samtals 168 millj. kr. hækkun felur í sér tímabundið framlag til rann­sóknastarfsemi á háskólastigi af nokkrum tilefnum. Í fyrsta lagi 58 millj. kr. til rannsókna í þágu landbúnaðar sem Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri vinnur. Í öðru lagi 50 millj. kr. annars vegar til að efla rannsóknarsetur á háskólastigi á Laugarvatni og hins vegar til að þróa verkefni um lýðháskóla. Í þriðja lagi eru 60 millj. kr. ætlaðar í ýmis smærri verkefni og styrki til aðila sem þjónusta háskólanna, svo sem til símenntunarmiðstöðva og fræðsluneta.
    Enn fremur er lagt til að 131,2 millj. kr. fjárheimild verði flutt yfir á málaflokk 21.10 Háskólar vegna háskólanáms í lögreglufræðum, sbr. skýringar þar.

22 Önnur skólastig og stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
22.30 Stjórnsýsla mennta- og menningarmála.
    Lagt er til að fjárheimild til málaflokksins verði aukin um 35 millj. kr. vegna reksturs skrifstofu alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (IASC) á Akureyri. Ríkisstjórnin sam­þykkti 25. febrúar. sl. að íslensk stjórnvöld fjármögnuðu rekstur IASC-skrifstofunnar hér á landi árin 2017–2021. Enn fremur var samþykkt að veita 35 millj. kr. til verkefnisins árlega til ársins 2021. Rannsóknarmiðstöð Íslands mun sjá um rekstur skrifstofunnar.

23 Sjúkrahúsaþjónusta.
23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um 2.150 millj. kr. tímabundið framlag til málaflokksins sem að yfir­gnæfandi leyti er ætlað að bætast við fjárveitingar til Landspítalans. Annars vegar er þar um að ræða 1.050 millj. kr. til að styrkja rekstrargrunn spítalans og til að mæta útskriftarvanda með skilgreindum verkefnum. Í breytingartillögum við aðra málaflokka velferðarráðu­neytisins er að finna viðbótartillögur vegna útskriftarvandans sem koma Landspítalanum til góða. Hins vegar er 1.000 millj. kr. ætlað að mæta viðbótarþörfum Landspítalans vegna endurbóta og viðhalds húsnæðis á næsta ári.
    Að auki er gert ráð fyrir 100 millj. kr. til að styrkja göngudeildarþjónustu og almennan rekstur Sjúkrahússins á Akureyri.

23.20 Almenn sjúkrahúsþjónusta.
    Gerð er tillaga um 415 millj. kr. tímabundið framlag sem velferðarráðuneytið skipti milli heilbrigðisstofnana í samræmi við niðurstöður af fundum fjárlaganefndar með fulltrúum ráðuneytisins.

24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa.
24.10 Heilsugæsla.
    Gerð er tillaga um 150 millj. kr. tímabundið framlag til heimahjúkrunar hjá heilsu­gæslunni á höfuðborgarsvæðinu sem m.a. er ætlað að mæta útskriftarvanda Landspítalans að hluta, sbr. tillögu um málaflokk 23.10.

24.20 Sérfræðiþjónusta og hjúkrun.
    Gerð er tillaga um 1.000 millj. kr. framlag til að koma á breyttu greiðsluþátttökukerfi fyrir sjúklinga. Í júní sl. var samþykkt breyting á lögum um sjúkratryggingar þar sem kveðið er á um nýtt fyrirkomulag á greiðslum sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu sem tekur gildi á næsta ári, þó ekki strax um áramótin. Samkvæmt lögunum skulu mánaðarlegar greiðslur fólks vegna heilbrigðisþjónustu aldrei fara yfir tiltekið hámark. Þannig er sett þak á árlegar heildargreiðslur fólks fyrir þá heilbrigðisþjónustu sem fellur undir nýja greiðsluþátt­tökukerfið. Hámarksgreiðslur hjá öldruðum, öryrkjum og börnum verða lægri en hjá öðrum. Undir nýja kerfið fellur þjónusta heilsugæslu, sjúkrahúsa, sjálfstætt starfandi heilbrigðis­starfsfólks, rannsóknir og geisla- og myndgreiningar.

24.40 Sjúkraflutningar.
    Gerð er tillaga um 50 millj. kr. tímabundið framlag til að mæta auknum sjúkraflutningum á höfuðborgarsvæðinu umfram forsendur gildandi samnings.

25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta.
25.10 Hjúkrunar- og dvalarrými.
    Gerð er tillaga um 700 millj. kr. tímabundið framlag. Ætlaðar eru 500 millj. kr. til reksturs hjúkrunarheimila eða annarra úrræða til að mæta útskriftarvanda spítala. Gert er ráð fyrir að lausn vandans verði unninn í samráði við spítalana. Til átaks til að breyta tvíbýlum hjúkrunarheimila í einbýli eru ætlaðar 200 millj. kr.

29 Fjölskyldumál.
29.40 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn.
    Samtals er lögð til 114,5 millj. kr. hækkun á framlagi til málaflokksins. Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 20 millj. kr. tímabundið framlag til eflingar starfsemi Miðstöðvar foreldra og barna. Í öðru lagi er gerð tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til að treysta rekstrar­grundvöll svokallaðs ART-verkefnis sem er samstarfsverkefni sveitarfélaga á Suðurlandi og snýst um félagsfærni-, sjálfstjórnar- og siðferðisþjálfun barna með hegðunarvanda. Í þriðja lagi er lögð til 64,5 millj. kr. hækkun á fjárheimild málaflokksins til að mæta kostnaði við öryggisvistun fyrir dreng í samræmi við dóm í Héraðsdómi Norðurlands.

31 Húsnæðisstuðningur.
31.10 Húsnæðisstuðningur.
    Gerð er tillaga um 158,5 millj. kr. hækkun á fjárheimild til málaflokksins. Tilefnið er greiðsla vaxtamunar hjá Íbúðalánasjóði vegna lána til félagslegra leiguíbúða.

32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála.
32.10 Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit.
    Gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag sem ætlað er að efla eftirlitshlutverk landlæknisembættisins í tengslum við samninga Sjúkratrygginga Íslands við einstök hjúkrunarheimili.

32.30 Stjórnsýsla velferðarmála.
    Samtals er lögð til 117,9 millj. kr. hækkun á málaflokknum.
    Í fyrsta lagi er gerð tillaga um 60 millj. kr. tímabundið framlag til stjórnsýslu velferðar­mála til að byggja upp kerfi og auka eftirlit og eftirfylgni með nýgerðum samningum um rekstur hjúkrunarheimila, reiknilíkani í heilsugæslu og framleiðslutengdri fjármögunun Landspítalans, svokölluðu DRG-kerfi.
    Í öðru lagi er gerð tillaga um samtals 30 millj. kr. tímabundið framlag til málaflokksins vegna ýmissa styrkveitinga, svo sem til Ljóssins, Aflsins og Samhjálpar.
    Í þriðja lagi er gerð tillaga um 27,9 millj. kr. hækkun vegna endurmats á launum sam­kvæmt úrskurðum kjararáðs.

    1. minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og gerð er tillaga um í sérstökum þingskjölum.

Alþingi, 21. desember 2016.

Haraldur Benediktsson,
form., frsm.
Guðlaugur Þór Þórðarson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Unnur Brá Konráðsdóttir.

Fylgiskjal.



Útgjöld málefnasviða og málaflokka.
Raunbreytingar milli fjárlaga fyrir árið 2016 og væntanlegra fjárlaga fyrir árið 2017 miðað við fyrirliggjandi breytingartillögur.


Rekstrargrunnur, millj. kr. á verðlagi 2016 Fjárlög 2016 Tillaga um fjárlög 2017 Breyting, millj. kr. Breyting, %.
01 Alþingi og eftirlitsstofnanir þess 4.006 4.592 586 14,6%
01.10 Alþingi 3.184 3.736 552 17,3%
01.20 Eftirlitsstofnanir Alþingis 822 856 34 4,1%
02 Dómstólar 2.015 2.272 258 12,8%
02.10 Hæstiréttur 417 417 0 0,0%
02.20 Héraðsdómstólar 1.598 1.752 154 9,7%
02.30 Landsréttur 0 103 103
03 Æðsta stjórnsýsla 1.546 1.638 92 5,9%
03.10 Embætti forseta Íslands 262 284 21 8,0%
03.20 Ríkisstjórn 379 422 44 11,5%
03.30 Forsætisráðuneyti 904 932 27 3,0%
04 Utanríkismál 13.313 13.914 601 4,5%
04.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála 4.927 5.104 177 3,6%
04.20 Utanríkisviðskipti 598 686 88 14,7%
04.30 Samstarf um öryggis- og varnarmál 1.154 1.505 351 30,4%
04.40 Þróunarsamvinna 4.623 4.827 204 4,4%
04.50 Samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs 2.010 1.791 -219 -10,9%
05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla 19.756 20.010 254 1,3%
05.10 Skattar og innheimta 7.402 7.591 188 2,5%
05.20 Eignaumsýsla ríkisins 5.532 5.280 -252 -4,6%
05.30 Fjármálaumsýsla ríkisins 4.100 4.095 -5 -0,1%
05.40 Stjórnsýsla ríkisfjármála 2.722 3.045 323 11,9%
06 Grunnskrár og upplýsingamál 3.233 3.456 223 6,9%
06.10 Grunnskrár og upplýsingamál 3.233 3.456 223 6,9%
07 Nýsköpun, rannsóknir og markaðsmál 12.383 13.694 1.311 10,6%
07.10 Samkeppnissjóðir í rannsóknum 7.479 7.862 384 5,1%
07.20 Nýsköpun og markaðsmál 4.904 5.832 927 18,9%
08 Sveitarfélög og byggðamál 22.318 19.831 -2.487 -11,1%
08.10 Framlög til sveitarfélaga 20.794 17.945 -2.849 -13,7%
08.20 Byggðamál 1.524 1.886 362 23,8%
09 Almanna- og réttaröryggi 21.496 22.536 1.040 4,8%
09.10 Löggæsla 12.474 13.452 979 7,8%
09.20 Landhelgi 3.811 3.918 107 2,8%
09.30 Ákæruvald og réttarvarsla 1.182 1.245 63 5,3%
09.40 Réttaraðstoð og bætur 2.016 2.111 95 4,7%
09.50 Fullnustumál 2.013 1.809 -204 -10,1%
10 Réttindi einstaklinga, trúmál
    og stjórnsýsla innanríkismála
11.573 12.063 490 4,2%
10.10 Réttindi einstaklinga 1.559 2.045 485 31,1%
10.20 Trúmál 6.170 6.200 30 0,5%
10.30 Sýslumenn 2.393 2.503 110 4,6%
10.40 Stjórnsýsla innanríkismála 1.451 1.316 -135 -9,3%
11 Samgöngu- og fjarskiptamál 30.751 34.647 3.896 12,7%
11.10 Samgöngur 29.410 33.306 3.897 13,2%
11.20 Fjarskipti 1.341 1.341 0 0,0%
12 Landbúnaðarmál 14.929 15.576 647 4,3%
12.10 Stuðningur við mjólkurframleiðslu 6.656 6.550 -106 -1,6%
12.20 Stuðningur við sauðfjárframleiðslu 4.933 4.933 0 0,0%
12.30 Stuðningur við grænmetisframleiðslu 593 551 -41 -7,0%
12.40 Rannsóknir og eftirlit í landbúnarðarmálum 2.237 3.534 1.296 57,9%
12.50 Landbúnaðarsjóðir 510 9 -501 -98,3%
13 Sjávarútvegur 5.544 6.119 575 10,4%
13.10 Stjórnsýsla fiskveiða 1.096 1.237 141 12,8%
13.20 Rannsóknir og þróun í sjávarútvegi 4.448 4.882 435 9,8%
14 Ferðaþjónusta 1.531 1.711 180 11,7%
14.10 Ferðaþjónusta 1.531 1.711 180 11,7%
15 Orku- og eldsneytismál 3.432 3.682 251 7,3%
15.10 Orku- og eldsneytismál 3.432 3.682 251 7,3%
16 Markaðseftirlit og stjórnsýsla atvinnumála
    og nýsköpunar
3.938 4.029 91 2,3%
16.10 Markaðseftirlit 2.250 2.688 438 19,4%
16.20 Stjórnsýsla atvinnumála og nýsköpunar 1.688 1.342 -346 -20,5%
17 Umhverfismál 14.075 15.221 1.146 8,1%
17.10 Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla 3.253 3.847 594 18,3%
17.20 Rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands 3.159 3.160 1 0,0%
17.30 Meðhöndlun úrgangs 3.376 3.764 388 11,5%
17.40 Varnir vegna náttúruvá 1.255 1.255 0 0,0%
17.50 Stjórnsýsla umhverfismála 3.031 3.194 163 5,4%
18 Menning og listir 10.638 11.145 506 4,8%
18.10 Safnamál 3.118 3.343 224 7,2%
18.20 Menningarstofnanir 4.228 4.358 130 3,1%
18.30 Menningarsjóðir 3.292 3.444 152 4,6%
19 Fjölmiðlun, íþrótta- og æskulýðsmál 4.708 4.973 265 5,6%
19.10 Fjölmiðlun 3.801 3.954 153 4,0%
19.20 Íþrótta- og æskulýðsmál 908 1.019 112 12,3%
20 Framhaldsskólastig 28.051 29.077 1.027 3,7%
20.10 Framhaldsskólar 26.664 27.674 1.010 3,8%
20.20 Tónlistafræðsla 520 537 17 3,2%
20.30 Vinnustaðanám og styrkir 245 245 0 0,0%
20.40 Jöfnun námskostnaðar 622 622 0 0,0%
21 Háskólastig 38.620 40.524 1.904 4,9%
21.10 Háskólar 27.544 29.030 1.486 5,4%
21.20 Rannsóknastarfsemi á háskólastigi 3.011 3.529 518 17,2%
21.30 Stuðningur við námsmenn 8.066 7.966 -100 -1,2%
22 Önnur skólastig og stjórnsýsla
    mennta- og menningarmála
4.912 5.071 159 3,2%
22.10 Leikskóla- og grunnskólastig 223 279 56 25,3%
22.20 Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig 2.005 1.965 -40 -2,0%
22.30 Stjórnsýsla mennta- og menningarmála 2.684 2.827 143 5,3%
23 Sjúkrahúsaþjónusta 74.869 79.720 4.851 6,5%
23.10 Sérhæfð sjúkrahúsþjónusta 65.555 69.803 4.248 6,5%
23.20 Almenn sjúkrahúsaþjónusta 7.197 7.736 539 7,5%
23.30 Erlend sjúkrahúsaþjónusta 2.117 2.181 64 3,0%
24 Heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa 37.690 40.433 2.742 7,3%
24.10 Heilsugæsla 19.648 20.827 1.179 6,0%
24.20 Sérfræðiþjónusta og hjúkrun 12.902 14.300 1.398 10,8%
24.30 Sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun og talþjálfun 3.012 3.078 66 2,2%
24.40 Sjúkraflutningar 2.129 2.228 99 4,6%
25 Hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta 40.278 43.608 3.330 8,3%
25.10 Hjúkrunar- og dvalarrými 35.617 38.831 3.214 9,0%
25.20 Endurhæfingarþjónusta 4.660 4.777 117 2,5%
26 Lyf og lækningavörur 17.691 18.426 735 4,2%
26.10 Lyf 14.126 14.780 653 4,6%
26.30 Hjálpartæki 3.564 3.646 82 2,3%
27 Örorka og málefni fatlaðs fólks 49.587 50.908 1.320 2,7%
27.10 Bætur skv. lögum um almannatrygginar,
     örorkulífeyrir
33.372 33.873 501 1,5%
27.20 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, örorka 12.274 12.513 239 1,9%
27.30 Málefni fatlaðs fólks 289 290 1 0,3%
27.40 Aðrar örorkugreiðslur (Önnur velferðarmál,
    lífeyristryggingar)
71 73 2 3,0%
27.50 Jöfnun á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða 3.582 4.160 578 16,1%
28 Málefni aldraðra 49.943 62.637 12.694 25,4%
28.10 Bætur skv. lögum um almannatryggingar,
    lífeyrir aldraðra
45.684 57.659 11.975 26,2%
28.20 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, öldrun 4.234 4.953 719 17,0%
28.30 Þjónusta við aldraða og aðrar greiðslur, óta. 25 25 0 0,0%
29 Fjölskyldumál 28.666 29.513 848 3,0%
29.10 Barnabætur 10.852 10.743 -109 -1,0%
29.20 Fæðingarorlof 9.636 10.295 659 6,8%
29.30 Bætur skv. lögum um félagslega aðstoð, fjölskyldur 356 368 12 3,3%
29.40 Annar stuðningur við fjölskyldur og börn 5.187 5.780 593 11,4%
29.50 Bætur til eftirlifenda 433 447 14 3,3%
29.60 Bætur vegna veikinda og slysa 1.736 1.731 -5 -0,3%
29.70 Málefni innflytjenda og flóttamanna 466 150 -316 -67,8%
30 Vinnumarkaður og atvinnuleysi 18.332 15.946 -2.386 -13,0%
30.10 Vinnumál og atvinnuleysi 17.476 14.895 -2.581 -14,8%
30.20 Vinnumarkaður 856 1.051 195 22,8%
31 Húsnæðisstuðningur 8.840 14.346 5.506 62,3%
31.10 Húsnæðisstuðningur 8.840 14.346 5.506 62,3%
32 Lýðheilsa og stjórnsýsla velferðarmála 7.776 7.949 173 2,2%
32.10 Lýðheilsa, forvarnir og eftirlit 2.414 2.506 92 3,8%
32.20 Jafnréttismál 224 218 -6 -2,8%
32.30 Stjórnsýsla velferðarmála 5.138 5.226 87 1,7%
33 Vextir, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar 0 0 0
33.30 Lífeyrisskuldbindingar 0 0 0
34 Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir 7.813 12.827 5.014 64,2%
34.10 Almennur varasjóður 7.340 7.840 500 6,8%
34.20 Sértækar fjárráðstafanir 473 4.987 4.514 954,3%
Samtals án óreglulegra liða 614.250 662.093 47.842 7,8%