Ferill 10. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 64  —  10. mál.
Leiðrétting.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2016, sbr. lög nr. 119/2016.

Frá 1. minni hluta fjárlaganefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og á fund hennar komu Björn Þór Hermannsson, Magnús Óskar Hafsteinson, Lúðvík Guðjónsson, Maríanna Jónasdóttir og Íris Hannah Atladóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á tekjum ríkissjóðs þar sem þær hækka um 123.337 millj. kr. á rekstrargrunni frá því sem áður var áætlað. Á gjaldahlið eru tillögur í frumvarpinu sem samtals leiða til hækkunar heimilda sem nemur 127.351,7 millj. kr. en heildartillögur 1. minni hluta nema samtals 136.501,1 millj. kr. hækkun gjaldaheimilda. Tekjuáætlun fjár­laga 2016 gerði ráð fyrir 1.040.705,3 millj. kr. tekjum að stöðugleikaframlögum meðtöldum. Gjaldaheimildir fjárlaga fyrir árið 2016 námu 695.071,2 millj. kr. á rekstrargrunni og í fyrri fjáraukalögum ársins voru samþykktar gjaldaheimildir sem námu 5.057,4 millj. kr. Ef frum­varpið verður samþykkt með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er áætlað að heildar­afkoma ársins verði jákvæð um 327.412,6 millj. kr.

Fjárlög 2016 Fjáraukalög 1 Fjáraukalög 2

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Samtals
Frumtekjur 1.022.648,3 124.367,0 1.147.015,3
Frumgjöld 622.463,2 5.057,4 139.407,1 766.927,7
Frumjöfnuður 400.185,1 -5.057,4 -15.040,1 380.087,6
Vaxtatekjur 18.057,0 -1.030,0 17.027,0
Vaxtagjöld 72.608,0 -2.906,0 69.702,0
Vaxtajöfnuður -54.551,0 0,0 1.876,0 -52.675,0
Heildartekjur 1.040.705,3 0,0 123.337,0 1.164.042,3
Heildargjöld 695.071,2 5.057,4 136.501,1 836.629,7
Heildarjöfnuður 345.634,1 -5.057,4 -13.164,1 327.412,6
         
Endurmat á afkomuhorfum.
    Tafla á bls. 42 í frumvarpinu gefur góða yfirsýn yfir endurmat gjalda og tekna innan ársins. Þar koma fram afkomustærðir með og án stöðugleikaframlaga. Frumjöfnuður, þ.e. afkoma fyrir utan fjármagnstekjur og gjöld, verði 354,9 milljarðar kr. með stöðugleikafram­lögum en neikvæður um 22,1 milljarð kr. án þeirra. Á gjaldahlið munar langmest um 108,5 milljarða kr. uppgjör vegna A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins en gerð er grein fyrir því í frumvarpi um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem nú liggur fyrir Alþingi (6. mál). Aðrar breytingar á áætlun gjalda nema samtals 21,8 milljörðum kr., þar af eru 9,5 milljarðar kr. hækkun fjármagnstekjuskatts sem ríkissjóður greiðir sjálfum sér og færist líka á tekjuhlið fjárlaga.
    Eftir að frumvarpið var lagt fram kom fram verulegt tilefni til endurskoðunar tekna í kjöl­far þess að hluthafafundur Íslandsbanka ákvað að greiða sérstaka arðgreiðslu í ríkissjóð að fjárhæð 27 milljarðar kr. fyrir árslok 2016. Af því leiðir að fjármagnstekjuskattur í ríkissjóð hækkar og færist bæði á tekju- og gjaldahlið reiknings og frumvarps. Einnig hafa komið fram önnur tekju- og útgjaldatilefni.

Framlag til A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
    Langveigamesta útgjaldatillaga frumvarpsins snýr að uppgjöri ríkissjóðs við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR). Meðal þess sem ætlunin er að ná fram er að lífeyriskerfi opin­berra starfsmanna verði fullfjármagnað og kerfið sjálfbært. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 108,5 milljarða kr. framlagi til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í sérstakan lífeyrisaukasjóð til að fjármagna núvirði þeirra lífeyrisréttinda sem núverandi sjóðfélagar hefðu áunnið sér miðað við óbreytt réttindakerfi umfram hreina eign og framtíðariðgjöld til sjóðsins. Samtals er gerð tillaga um að fjárheimild liðarins verði aukin um 120,6 milljarða kr. þar sem gerðir voru samningar við ýmis samtök heilbrigðis- og félagsþjónustu auk hjúkrunarheimila um yfirtöku lífeyrisskuldbindinga.

Aðrar útgjaldatillögur frumvarpsins.
    Þar vegur þyngst 3,2 milljarða kr. hækkun á ýmsum verkefnum sjúkratrygginga og innan þeirra munar mestu um 1 milljarð kr. vegna samings við sérfræðilækna. Gert er ráð fyrir að uppsafnaður halli Vegagerðarinnar á vetrarþjónustu að fjárhæð 1,4 milljarðar kr. verði gerður upp. Tillaga um framlag til greiðslu stofnframlaga ríkisins, sbr. lög um almennar íbúðir, leiðir til 1,2 milljarða kr. hækkunar og endurmat á lífeyristryggingum leiðir til 1 milljarðs kr. hækkunar. Þá er lagt til að 700 millj. kr. verði bætt við framlög vegna hælisleitenda en önnur útgjaldatilefni vega minna og dreifast á marga fjárlagaliði.
    Á móti vega nokkrar tillögur til lækkunar og munar þar mest um framlög til Atvinnu­leysistryggingasjóðs þar sem lagt er til að framlagið lækki um 2,5 milljarða kr. Í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir 2,9% meðaltalsatvinnuleysi en nú er gert ráð fyrir að það verði um 2,3% á árinu.

Breytingartillögur.
    Fyrsti minni hluti leggur til þrjár tekjubreytingar á frumvarpinu. Þar munar langmestu um 27 milljarða kr. hækkun arðgreiðslna í kjölfar samþykktar hluthafafundar Íslandsbanka um sérstakar arðgreiðslur fyrir áramót. Ríkissjóður á um 95% hlut í bankanum. Greiðslunni fylgir að ríkissjóður þarf að borga fjármagnstekjuskatt að fjárhæð 5,4 milljarðar kr. sem færist bæði til tekna og gjalda. Einnig er gerð tillaga um 1,9 milljarða kr. tekjur vegna sölu fasteigna á vegum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar. Samtals nema tekjutillögur 34,3 milljörðum kr.
    Á gjaldahlið eru gerðar allnokkrar tillögur. Fyrir utan 5,4 milljarða kr. fjármagnstekjuskatt vegna arðgreiðslu er þeirra veigamest 1,5 milljarða kr. tillaga um að nýta forkaupsrétt ríkis­ins að jörðinni Felli í Suðursveit. Ríkið þarf að ákveða fyrir 10. janúar nk. hvort það hyggist nýta réttinn og ef það verður ákveðið er réttast að sækja um fjárheimild í fjáraukalögum.
    Gerð er tillaga um samtals 974,5 millj. kr. framlag til Vegagerðarinnar vegna nokkurra óvæntra áfalla og skuldbindingar vegna nýs Herjólfs. Um er að ræða 500 millj. kr. vegna Herjólfs og að öðru leyti munar mest um brú á Skaftártunguvegi sem eyðilagðist í Skaftár­hlaupi og einnig er nauðsynlegt að leggja í kostnaðarsamar viðgerðir á sjóvarnargörðum við Vík í Mýrdal. Loks er meðtalin hækkun til hafnarmála um 34,5 millj. kr. sem er nauðsynleg til þess að ljúka dýpkunarframkvæmdum við Bæjarbryggju á Siglufirði.
    Gerðar eru fjórar tillögur um hækkanir á framlögum til sjúkrahúsa og eru tillögurnar hluti af víðtækara samkomulagi sem einnig hefur áhrif á tillögur 1. minni hluta við fjárlög ársins 2017 og lokafjárlög fyrir árið 2015. Tillögurnar miða allar að því að festa í sessi þá forgangs­röðun stjórnvalda að framlögum til heilbrigðismála verði forgangsraðað framar en flestum öðrum málum. Lagt er til að 700 millj. kr. komi til hækkunar á framlögum til Landspítalans, 150 millj. kr. til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og 50 millj. kr. bæði til Sjúkrahússins á Akureyri og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja.
    Gerð er tillaga um 120 millj. kr. heimild vegna greiðslu skaðabóta til verktaka sem vann að undirbúningi að byggingu Húss íslenskra fræða.
    Gerð er tillaga um 107,9 millj. kr. framlag til Alþingis vegna útgjalda í tengslum við þingkosningar í október sl. Í fyrri fjáraukalögum var gert ráð fyrir 168 millj. kr. vegna kosninganna en nú þegar raunkostnaður liggur að mestu leyti fyrir reynist vanta 107,9 millj. kr. upp á þá áætlun. Mestu munar um að biðlaun verða um 97 millj. kr. hærri en ætlað var.
    Gerð er tillaga um 50 millj. kr. hækkun á liðnum mannúðarmál og neyðaraðstoð vegna mannúðaraðstoðar til Sýrlands. Framlagið skiptist þannig að 25 millj. kr. renna til Flótta­mannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna og 25 millj. kr. til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.
    Gerð er tillaga um 27 millj. kr. hækkun á lögbundnum styrkjum til stjórnmálasamtaka. Fimm samtök hafa nú sótt um hámarksstyrk sem nemur 3 millj. kr. og gert er ráð fyrir að fjögur stjórnmálasamtök til viðbótar muni einnig sækja um hámarksstyrk.
    Þá er gerð tillaga um millifærslu milli stofnkostnaðarliða innan mennta- og menningar­málaráðuneytisins.
    Loks eru lagðar til breytingar á 2. og 4. gr. frumvarpsins.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um á sérstökum þingskjölum.


Alþingi, 21. desember 2016.

Haraldur Benediktsson,
form., frsm.
Guðlaugur Þór Þórðarson. Silja Dögg Gunnarsdóttir.
Unnur Brá Konráðsdóttir.