Ferill 10. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 73  —  10. mál.

2. umræða.
                                  

Nefndarálit


um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2016, sbr. lög nr. 119/2016.

Frá 4. minni hluta fjárlaganefndar.


    Fjáraaukalagafrumvarp 2016 er sérstakt fyrir margra hluta sakir. Háar upphæðir eru bæði í frumvarpinu og í breytingartillögum og taka til gjalda og tekna. Þar munar mest um hækkun á skatttekjum um sem nemur tæpum 30 milljörðum kr. og arð frá fjármálafyrirtækjum um 50 milljarða kr. Á gjaldahliðinni er stærsta upphæðin rúmir 120 milljarðar kr. til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Önnur óvænt og ófyrirséð útgjöld eru af ýmsum toga, svo sem í heilbrigðisþjónustu og vegna náttúruhamfara.
    Í nefndaráliti 4. minni hluta er fjallað sérstaklega um nokkur mikilvæg atriði í frumvarpinu:
          Að fjárheimildir til barna- og vaxtabóta eru ekki fullnýttar.
          Skaðsemi vanáætlaðra arðgreiðslna til ríkisins.
          Um vöxt útgjalda vegna samninga sérgreinalækna og þjónustusamninga við Sjúkratryggingar.
          Jöfnun lífeyrisréttinda eigi að vinna í betri sátt.

Barna- og vaxtabætur.
    Fjórði minni hluti gagnrýnir harðlega að með fjáraukalögunum sé verið að skila í ríkissjóð 2 milljörðum kr. sem Alþingi hafði samþykkt að mundu ganga til fjölskyldna í landinu á árinu 2016. Ekki er með neinum rökum hægt að segja að þessi niðurstaða sé ófyrirséð enda benti 4. minni hluti á að breyta þyrfti viðmiðunum fyrir barna- og vaxtabætur í umræðum fyrir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2016 og nefndaráliti með þeim og gerði tillögu að breytingum sem var felld. Í viðmiðunum byrja barnabætur að skerðast við 200 þús. kr. á mánuði. Þau skerðingarmörk hafa verið óbreytt síðan árið 2013 og raungildi þeirra augljóslega dregist saman á sama tíma og launavísitala hefur hækkað um tæplega 30%, útgjöld til barnabóta að raungildi dregist saman um rúmlega 12% og fjölskyldum sem fá greiddar barnabætur fækkað um 12 þúsund. Á síðasta kjörtímabili dró því verulega úr stuðningshlutverki og tekjujöfnunarhlutverki barnabóta. Nú er staðan sú að foreldrar sem eiga tvö börn og eru við lægstu tekjufjórðungsmörk fá aðeins 2 þús. kr. í barnabætur á mánuði. Þegar svo er komið er ljóst að hlutverk barnabótakerfisins er orðið bjagað. 4. minni hluti telur að það sé röng stefna að nota barnabótakerfið sem einhvers konar fátækrastyrk eins og gert hefur verið undanfarin ár. Við eigum að horfa til annarra norrænna ríkja þar sem barnabætur eru ekki tekjutengdar heldur eru stuðningur við barnafjölskyldur til þess að jafna stöðu þeirra við hina sem ekki eru með börn á framfæri. Þegar barnabætur byrja að skerðast við 200 þús. kr. mánaðarlaun og foreldrar á samningsbundnum lágmarkslaunum njóta ekki fullra bóta virkar tekjujöfnunarhlutverk kerfisins ekki sem skyldi. Dregið hefur verið úr stuðningi við barnafjölskyldur í landinu sem eru þó augljóslega verst settar og um 6 þúsund börn búa við efnislegan skort eins og í ljós kemur þegar greiningar eru skoðaðar.
    Það sama má segja um vaxtabótakerfið. Vaxtabætur á helst að greiða þeim tekjulægri og fólki með meðaltekjur og þær eru reiknaðar út miðað við tekjur og eignastöðu. Vaxtabætur sem greiddar voru árið 2016 eru helmingi lægri að raungildi en þær voru á árinu 2013 og fjölskyldur sem fá greiddar vaxtabætur eru 15 þúsund færri. Viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta hafa ekki breyst síðan árið 2010 en á sama tíma hefur íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 65%, verðlag um 20% og launavísitala um rúmlega 50%.
    Viðmiðunartölur eru allar á þann veg að dregið er úr stuðningshlutverki barnabótakerfisins og vaxtabótakerfisins. Þá stefnu gagnrýnir Samfylkingin harðlega og telur að greina þurfi með skýrum hætti hvaða áhrif þetta hefur á fjölskyldur í landinu. Dæmi eru um að ráðstöfunartekjur barnafjölskyldna lækki þrátt fyrir kjarasamningsbundnar launahækkanir. Það er vegna þess að tekjuskerðingar eru of brattar og þess að eignatengingar vaxtabóta fylgja ekki þróun fasteignaverðs.

Arðgreiðslur.
    Vönduð áætlanagerð skiptir miklu máli fyrir góðan ríkisrekstur. Það er jafn slæmt að vanáætla eins og að ofáætla. Ef um vanáætlun er að ræða eru jafnvel mikilvægum verkefnum sleppt sem skipt gætu sköpum fyrir framtíðarrekstur eða nauðsynlega þjónustu við fólk. Ofáætlun er augljóslega slæm fyrir reksturinn. Við vinnslu fjárlagafrumvarps hverju sinni verða þingmenn að geta treyst því að áætlanirnar séu vel unnar, bæði hvað varðar tekjur og gjöld. Undanfarin ár hafa arðgreiðslur verið stórlega vanáætlaðar og í þessu fjáraukalagafrumvarpi er ónákvæmnin upp á um 50 milljarða kr.

Sjúkratryggingar.
    Á hverju ári er rætt um sjúkratryggingar í fjáraukalögum og árviss er tillaga um viðbótarfjármagn til að mæta framúrkeyrslu miðað við fjárlög. Þegar þær tölur eru skoðaðar er augljóst að breytinga er þörf. Algengt er að lyfjakostnaður fari fram úr áætlun en áberandi er eftir síðustu samninga við sérgreinalækna að viðbótarfjármagn vegna magnaukningar vantar, þ.e. greitt er fyrir fleiri sjúklinga en áætlað var enda gera samningarnir ráð fyrir aukagreiðslum ef sjúklingum sérgreinalækna fjölgar. Sama er að segja um þjónustusamninga við einkaaðila. Þar hækka magntölur greiðslurnar úr ríkissjóði.
    Opinberar stofnanir, sjúkrahús, heilsugæslur og heilbrigðisstofnanir fá hins vegar ekki aukagreiðslur vegna fleiri sjúklinga. Opinberu stofnunum er ætlað þrengja að rekstrinum þegar sjúklingum fjölgar. Þegar fjárveitingarvaldið ákvarðar greiðslur til opinberrar heilbrigðisþjónustu er ekki gert ráð fyrir hugsanlegri magnaukningu eða tekið tillit til aldursdreifingar þjóðarinnar. Þarna hallar augljóslega á opinbera kerfið og þessa mismunun verður að laga.

Jöfnun lífeyrisréttinda.
    Lífeyrissjóðamálið og stóra greiðslan til að jafna réttindi þeirra sem eru á almenna markaðnum og opinbera markaðnum er inni í fjáraukalagafrumvarpinu. Betur hefði farið á því að málið hefði verið unnið í meiri sátt við stéttarfélög opinbera starfsmanna. Það er mikilvægt að stöðva hallarekstur A-deildarinnar og loka ófjármögnuðum halla opinberu sjóðanna og tillögur eru þar um í frumvarpinu.

Alþingi, 22. desember 2016.

Oddný G. Harðardóttir.