Ferill 61. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 118  —  61. mál.


                                  

Fyrirspurn


til umhverfis- og auðlindaráðherra um losun kolefnisgasa frá orkufrekum iðnaði og íslenskum flugflota.

Frá Ara Trausta Guðmundssyni.


     1.      Hefur umhverfis- og auðlindaráðuneytið handbærar tölur um losun kolefnisgasa, einkum koltvísýrings, úr orkufrekum iðnaði í erlendri eigu á Íslandi, þ.e. þremur álverum og kísilmálmverksmiðjunni á Grundartanga? Ef svo er, hverjar eru þær og frá hvaða tíma, sundurliðaðar eftir iðjuverum?
     2.      Hve mikið af kolefnisgösum losar fullbyggt hrákísilver United Silicon í Helguvík, sem er í byggingu og fyrsta fasa reksturs, úr framleiðsluferlinu á ári, þ.e. úr rafskautum, kolum, koksi og tréflísum?
     3.      Hvað er áætlað að tvö önnur sams konar hrákísilver, sem eru í byggingu eða undirbúningi, Thorsil í Helguvík og PCC á Bakka við Húsavík, losi af kolefnisgösum úr framleiðsluferlinu á ári hverju?
     4.      Með hvaða hætti hyggst ráðherra beita sér fyrir því að minnka fyrrgreinda losun, binda kolefnisgösin eða minnka á annan hátt hlut þessa orkufreka iðnaðar í kolefnisbúskap Íslands?
     5.      Hver var losun hins ört stækkandi íslenska farþegaflugflota á koltvísýringi árin 2014, 2015 og 2016?
     6.      Telur ráðherra að innheimta eigi svonefndan kolefnisskatt á notkun kolefnis í orkufrekum iðnaði og á eldsneyti millilandaflugvéla? Hver eru rök með því og á móti?


Skriflegt svar óskast.