Ferill 64. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 121  —  64. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995 (upplýsingaskylda endurskoðenda).

Flm.: Vilhjálmur Bjarnason.


1. gr.

    Við 91. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Kjörnum endurskoðanda félags er skylt að svara fyrirspurn hluthafa á hluthafafundi um allt sem kann að varða reikningsskil félagsins og fjárhagsleg málefni þess með hliðsjón af ákvæðum 1. málsl. 1. mgr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 145. löggjafarþingi (106. mál) en var ekki afgreitt.
    Eitt mikilvægasta eftirlitshlutverk í hlutafélögum er í höndum kjörinna endurskoðenda hlutafélaganna. Endurskoðendur eru kjörnir á hluthafafundum af hluthöfum. Það er mjög óeðlilegt að hluthafar hafi engan aðgang að endurskoðendum eftir að kjör hefur farið fram nema fyrir milligöngu stjórnar hlutafélags, en endurskoðendur hafa m.a. eftirlit með stjórnum og stjórnendum hlutafélaga. Með frumvarpinu er lagt til að kjörnum endurskoðendum félaga verði skylt að svara fyrirspurnum hluthafa á hluthafafundum um reikningsskil félaga og fjárhagsleg málefni þeirra. Ekki er gert ráð fyrir að þessari breytingu fylgi kostnaðarauki fyrir hlutafélög þar sem endurskoðendur sitja hluthafafundi.
    Tilgangurinn með því að bæta þessu ákvæði í lög um hlutafélög er að auka vernd minni hluthafa í hlutafélögum. Sambærilegt ákvæði er í sænskum hlutafélagalögum.