Ferill 65. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 122  —  65. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um minningu tveggja alda afmælis Jóns Árnasonar.


Flm.: Vilhjálmur Bjarnason, Katrín Jakobsdóttir, Valgerður Gunnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela mennta- og menningarmálaráðherra að láta minnast Jóns Árnasonar, landsbókavarðar og þjóðsagnasafnara, með tilhlýðilegum hætti þegar tvær aldir eru liðnar frá fæðingu þessa merka fræðimanns á sviði íslensks menningararfs. Verði Jóns meðal annars minnst með því að Landsbókasafn Íslands og Háskóli Íslands standi fyrir veglegri ráðstefnu um lífsstarf hans. Þá verði sett upp lágmynd af Jóni í húsakynnum Landsbókasafnsins og einnig norður á Skaga, sem næst fæðingarstað hans. Slíkt látlaust minnismerki hæfði vel minningu Jóns.
    Kostnaður við ráðstefnuhald og gerð minnismerkis greiðist af ríkissjóði og tillit verði tekið til þess í fjárlögum.

Greinargerð.

    Tillaga þessi var áður flutt á 144. löggjafarþingi (369. mál) og á 145. löggjafarþingi (44. mál), en varð ekki útrætt.
    Jón Árnason, landsbókavörður og þjóðsagnasafnari með meiru, fæddist á Hofi á Skagaströnd 17. ágúst 1819. Hann lést 4. september 1888. Hvíla bein hans í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu.
    Jón Árnason og Magnús Grímsson hófu söfnun íslenskra þjóðsagna um miðja 19. öld. Þjóðernisvakning 19. aldar hafði meðal annars í för með sér áhuga á þeim frásögnum sem gengu mann fram af manni og enginn vissi höfund að og var farið að kalla þjóðsögur. Margir leikmenn og fræðimenn um alla Evrópu hófu að safna saman sögum, hver í sínu heimalandi. Áhrifamesta safnið var án efa safn þýsku bræðranna Grimm sem gáfu út Grimmsævintýri á árunum 1812–1815. Árangur af söfnun Jóns og Magnúsar leit dagsins ljós 1852 í bókinni Íslenzk æfintýri.
    Fyrir forgöngu Jóns Sigurðssonar forseta og velvild Konrads Maurers kom út í Leipzig árin 1862 og 1864 tveggja binda útgáfa þjóðsagnasafns sem kennt er við Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri. Heildarútgáfa safnsins birtist síðan á prenti á árunum 1954– 1961. Einn merkasti þjóðsagnafræðingur Evrópu á síðustu öld, írski fræðimaðurinn Séamus Ó Duilearga, lét þau ummæli falla að safn Jóns Árnasonar væri þjóðsagnasafn sem ætti engan sinn líka í víðri veröld.
    Um Jón Árnason landsbókavörð segir í árbók Landsbókasafns 1944: „Það orkar ekki tvímælis, að hann er mestur verðleikamaður og gagnsmestur þeirra bókavarða, sem að safninu hafa komið hingað til, og myndi hans hafa notið enn betur, ef safnið hefði á fyrri árum hans haft betri fjárráð.“
    Það er eðlilegt að slíks fræðimanns sem Jón Árnason var verði minnst með tilhlýðilegum hætti.
    Áætlaður kostnaður við gerð og uppsetningu lágmynda er 2 millj. kr.
    Áætlaður kostnaður við ráðstefnu og gestakomur henni tengdar er 2 millj. kr.