Ferill 69. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 126  —  69. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um starfshóp um keðjuábyrgð.


Flm.: Lilja Rafney Magnúsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Katrín Jakobsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ari Trausti Guðmundsson, Orri Páll Jóhannsson.


    Alþingi ályktar að fela félags- og jafnréttismálaráðherra að skipa starfshóp sem hafi það hlutverk að semja lagafrumvarp um keðjuábyrgð verkkaupa og aðalverktaka með það að markmiði að lögleiða keðjuábyrgð á verktakamarkaði. Hópurinn verði skipaður fulltrúum Samiðnar, Starfsgreinasambands Íslands, Alþýðusambands Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra. Ráðherra tilnefni formann hópsins.
    Starf hópsins miði að því að verkkaupar og aðalverktakar beri fjárhagslega ábyrgð á vanefndum undirverktaka á greiðslu opinberra gjalda, kjarasamningsbundinna launa og launatengdra gjalda, trygginga og annarra samningsbundinna greiðslna til launafólks og vegna þess og taki lagabreytingarnar til allra atvinnugreina. Ráðherra leggi frumvarpið fram á 147. löggjafarþingi.

Greinargerð.

    Undanfarið hafa alloft birst í fjölmiðlum fregnir af brotum á ákvæðum kjarasamninga og vinnulöggjafar, félagslegum undirboðum og ýmsum tegundum skattsvika sem tengjast verktakastarfsemi á íslenskum vinnumarkaði. Er hugtakið hrakvinna stundum haft um störf þar sem kjarasamningar, lög og skilyrði um aðbúnað eru virt að vettugi. Verkalýðs- og fagfélög og samtök atvinnurekenda hafa haldið úti baráttu gegn þessum brotum og stórir verkkaupar á borð við Ríkiskaup, Landsvirkjun, Akureyrarbæ og Reykjavíkurborg hafa brugðist við með því að skuldbinda sig til að hafa ákvæði um keðjuábyrgð í samningum sínum við verktaka og verksala. Skattyfirvöld hafa að sínu leyti gripið til ráðstafana til að stemma stigu við brotum á skattalöggjöf. Nokkuð hefur áunnist í baráttunni gegn hrakvinnu og skattsvikum með samstilltu átaki samtaka launafólks, atvinnurekenda og hins opinbera en engu að síður er ljóst að lagabreytinga er þörf til að unnt verði að hindra þá háttsemi sem reglur um keðjuábyrgð munu beinast gegn.
    Með keðjuábyrgð er átt við það að aðalverktaki ber fjárhagslega ábyrgð á því að undirverktakar hans og vörusalar virði ákvæði kjarasamninga og fari að lögum. Aðalverktaki verður þannig bótaskyldur ef undirverktaki brýtur af sér gagnvart vinnumarkaðslöggjöf með þeim hætti að bótaskylda skapast. Keðjuábyrgðin felur það því í sér að eitt fyrirtæki – aðalverktakinn – getur orðið ábyrgt fyrir launagreiðslum annars fyrirtækis – undirverktaka – og öðrum greiðslum sem tengjast því að hafa starfsmann í vinnu, hvort sem það er samkvæmt almennum ráðningarsamningi eða verktakasamningi.
    Reglur um keðjuábyrgð vernda réttindi og kjör launafólks og af þeirri ástæðu er tillaga þessi lögð fyrir Alþingi, en þar sem brotastarfsemin sem ábyrgðinni er beint gegn er oftast til þess fallin að styrkja samkeppnisstöðu hinna brotlegu og gera þeim kleift að afla sér óréttmæts ávinnings er það vissulega einnig í þágu sómakærra og löghlýðinna atvinnurekenda að keðjuábyrgð verði komið á.
    Ýmis álitamál gera vart við sig þegar hugað er að innleiðingu almennra reglna um keðjuábyrgð, svo sem varðandi það hversu víðtæk keðjuábyrgðin eigi að vera, hvort hún skuli ná til alls vinnumarkaðarins eða einungis hluta hans, til hvaða atriða hún eigi að taka og hvaða aðila beri að hafa eftirlit með framkvæmd þeirra þátta sem keðjuábyrgðin tekur til, hvernig eftirfylgninni skuli háttað, upplýsingaskyldu fyrirtækja og fleira mætti nefna. Þegar hefur verið fjallað um ýmis þessara álitamála í samskiptum verkalýðssamtaka og samtaka atvinnurekenda en önnur bíða úrlausnar. Engin ástæða er að óreyndu til að ætla annað en að fullur vilji sé hjá þeim aðilum sem ráða ferðinni á íslenskum vinnumarkaði til að leysa úr þessum málum á ábyrgan hátt með heildarhagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.
    Fram hefur komið í fregnum af brotum gegn ákvæðum kjarasamninga og vinnulöggjafar að þau bitna oft á erlendum starfsmönnum verktakafyrirtækja. Talsmenn verkalýðssamtaka benda á að kjör erlendra starfsmanna sem starfa á vegum erlendra undirverktaka að verkefnum hér á landi hafi í ýmsum tilvikum reynst langtum lakari en íslenskir kjarasamningar og reglur um aðbúnað heimila. Í tilskipun Evrópusambandsins 2014/67/ESB 1 – framfylgdartilskipuninni – eru tekin af öll tvímæli um að keðjuábyrgð samræmist löggjöf Evrópska efnahagssvæðisins og mun vera í ráði að innleiða tilskipunina í íslenskan rétt í samræmi við ákvæði EES-samningsins. Dómur Evrópudómstólsins frá 12. október 2004 í máli nr. C-60/03, Wolff & Müller GmbH & Co. KG gegn José Filipe Pereira Félix staðfestir einnig ábyrgð aðalverktaka á vangoldnum launum undirverktaka og rétt starfsmanna undirverktaka til lágmarkslauna.
    Í Noregi, sem hefur sömu stöðu og Ísland gagnvart löggjöf Evrópusambandsins, þar á meðal þeim reglum sem gilda um útboð á Evrópska efnahagssvæðinu og frjálst flæði vinnuafls, voru í ársbyrjun 2010 gerðar breytingar á lögum um almennt gildi kjarasamninga (lov om allmenngjøring av tariffavtaler) sem innleiddu keðjuábyrgð í norskan vinnurétt. 2
    Keðjuábyrgð innan byggingariðnaðarins var komið á í Svíþjóð árið 2014 með kjarasamningi og er það að öllu leyti á einkaréttarlegum grunni.
    Það fyrirkomulag sem felst í keðjuábyrgð er vel þekkt og víða í framkvæmd. Mikilvægt er að það verði innleitt á íslenskum vinnumarkaði og gerðar þær lagabreytingar sem þörf er fyrir í því skyni. Af þeim sökum er þetta þingmál flutt.
Neðanmálsgrein: 1
1     Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/67/ESB frá 15. maí 2014 um framfylgd tilskipunar 96/71/EB um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu og um breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn (reglugerðin um IM-upplýsingakerfið).
Neðanmálsgrein: 2
2     Lov om endringer i allmenngjøringsloven m.m. (solidaransvar mv.), nr. 42/2009.