Ferill 80. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 137  —  80. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum nr. 77/2016, um breytingu á lögum um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, með síðari breytingum (frestun gildistöku).

Frá velferðarnefnd.


1. gr.

    Í stað orðanna „1. febrúar 2017“ í 3. gr. laganna kemur: 1. maí 2017.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

I. Inngangur.
    Samkvæmt lögum nr. 77/2016 verður nýtt greiðsluþátttökukerfi heilbrigðisþjónustunnar tekið upp 1. febrúar 2017. Kerfið miðar að því að sjúkratryggðir þurfi ekki að greiða meira en nemur ákveðinni hámarksfjárhæð fyrir heilbrigðisþjónustu í hverjum mánuði sem ákvörðuð verður með reglugerð. Sett verður ákveðið mánaðarlegt greiðsluþak á greiðslur sjúkratryggðra og kostnaður umfram greiðsluþakið greiðist af sjúkratryggingum. Þannig er stefnt að því að verja sjúklinga fyrir mjög háum greiðslum fyrir heilbrigðisþjónustu.

II. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Síðustu mánuði hefur verið unnið að undirbúningi að innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis í ráðuneytinu og víðar. Til að tryggja farsæla innleiðingu kerfisins þarf að huga að mörgum þáttum, svo sem vinnu við tölvukerfi, forritun og tengingum á milli kerfa. Innan kerfisins þarf að miðla mikið af upplýsingum milli veitenda þjónustunnar og til Sjúkratrygginga Íslands. Við undirbúning á gildistöku laganna og í opnu samráðsferli um reglugerðir sem setja þarf til að innleiða kerfið hefur komið í ljós að undirstofnanir ráðuneytisins og aðrir veitendur heilbrigðisþjónustu þurfa lengri tíma til að undirbúa kerfisbreytinguna. Vandamál snúa fyrst og fremst að tæknilegum útfærslum svo sem nauðsynlegum hugbúnaðarbreytingum, tengingum á kerfum á milli stofnana og framkvæmd viðeigandi villuprófana áður en kerfið verður tekið í notkun. Því er talið nauðsynlegt að fresta gildistöku laganna fram til 1. maí 2017.

VI. Mat á áhrifum.
    Með samþykkt frumvarpsins verður gildistöku laga nr. 77/2016 og innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis heilbrigðisþjónustunnar frestað um þrjá mánuði, eða fram til 1. maí 2017. Í ljósi þess sem rakið er í II. kafla hér að framan þykir óumflýjanlegt að fresta gildistöku laganna þar sem stofnanir og aðrir veitendur heilbrigðisþjónustu þurfa frekari tíma til undirbúnings.
    Áætlaður kostnaður við innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis heilbrigðisþjónustunnar er um 1 ma. kr. verði kerfið innleitt frá og með 1. maí nk. Breytingin rúmast því innan fjárlaga ársins 2017.