Ferill 86. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 143  —  86. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, með síðari breytingum (gengishagnaður).

Flm.: Vilhjálmur Bjarnason.


1. gr.

    4. tölul. 2. mgr. 8. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2018.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var einnig lagt fram á 144. og 145. löggjafarþingi (304. og 33. mál), en kom ekki til umræðu þá.
    Það ákvæði sem hér er lagt til að falli brott kom í lög um tekjuskatt með lögum nr. 165/ 2010.
    Ákvæðið gengur þvert á hugmynd um tekjur þar sem tekjur eru eignaauki en ekki vegna leiðréttingar við aðlögun í verðmætamælingum. Gengismunur er því hvorki tekjur né gjöld. Eign sem er mæld í erlendum gjaldmiðli, í þessu tilfelli inneign á bankareikningi, verður ekki fyrir eignaauka eða kaupmáttarauka við að gengi íslenskrar krónu lækkar gagnvart þeirri mynt sem innstæðan er varðveitt í. Samkvæmt hugsun ákvæðisins eins og það var lögtekið árið 2010 ætti að færa til gjalda verðmætarýrnun íslenskra eigna vegna gengislækkunar krónunnar til að ná heilstæðri hugsun í ákvæðið.
    Til að útskýra þetta með dæmi þá er einn bandaríkjadalur virði eins bandaríkjadals að kaupmætti hvert sem gengi bandaríkjadals er gagnvart íslenskri krónu á hverjum tíma.
    Af framansögðu er ljóst að rétt er að fella brott hið tiltekna ákvæði við útreikning og álagningu fjármagnstekjuskatts.