Ferill 88. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 146  —  88. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um sölu ríkiseigna, lækkun skulda ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum.


Flm.: Óli Björn Kárason, Brynjar Níelsson, Haraldur Benediktsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa nefnd sem móti langtímaáætlun um sölu ríkiseigna, lækkun á skuldum ríkissjóðs og fjárfestingu í innviðum. Nefndin verði skipuð þremur sérfræðingum á sviði hagfræði, fjármála og lögfræði. Nefndin skili áfangaskýrslu eigi síðar en 31. maí 2017 og lokaskýrslu eigi síðar en 10. október 2017.
    Í áfangaskýrslu verði úttekt á eignum ríkissjóðs og annarra ríkisaðila, þar á meðal jörðum og öðrum fasteignum og beinum og óbeinum eignarhlutum í fyrirtækjum, hvort sem er í formi hluta- eða stofnfjár eða með öðrum hætti. Sérstaklega verði tilgreind fyrirtæki sem eru beint eða óbeint í meirihlutaeigu ríkissjóðs eða annarra ríkisaðila.
    Í lokaskýrslu verði:
     a.      verðmat á eignum ríkissjóðs og annarra ríkisaðila,
     b.      mat á kostum og göllum þess að selja, að hluta eða að öllu leyti, hluti í einstökum fyrirtækjum,
     c.      tímasettar tillögur um sölu ríkiseigna með mati á áhrifum sölu á þróun skulda og vaxtagreiðslna ríkissjóðs,
     d.      áætlun um þörf á fjárfestingum í samfélagslegum innviðum, sérstaklega í heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfum,
     e.      mat á möguleikum ríkisins til að ráðast í fjárfestingar í innviðum án skuldsetningar, svo sem með skatttekjum, lækkun vaxtakostnaðar með niðurgreiðslu skulda og/eða tekjum af sölu eigna,
     f.      mat á því hvort skynsamlegt sé að fjármagna innviðafjárfestingar, að hluta eða öllu leyti, með samstarfsfjármögnun opinberra aðila og einkaaðila, og
     g.      úttekt á efnahagslegum áhrifum af lækkun skulda ríkissjóðs og sölu ríkiseigna.
    Í vinnu sinni fái nefndin fullan aðgang að nauðsynlegum gögnum opinberra aðila.

Greinargerð.

    Tillaga svipaðs efnis var lögð fram á 144. löggjafarþingi (323. mál) en ekki tekin til umræðu.
    Skuldsetning ríkissjóðs og gríðarlegar vaxtagreiðslur hafa lamandi áhrif á íslenskt efnahagslíf og hamla getu ríkisins til að veita þá þjónustu sem ætlast er til og lækka álögur á launafólk og fyrirtæki.
    Á undanförnum árum hefur fjármagnskostnaður verið þriðji stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs. Fjármagnskostnaður ríkissjóðs á árunum 2009–2015 nam samtals tæpum 526 milljörðum kr. á verðlagi hvers árs. Kostnaðurinn jafngildir því að hver fjögurra manna fjölskylda hafi þurft að bera um 6,3 milljónir kr. í formi hærri skatta og lakari þjónustu. Sé tekið mið af ríkisreikningi 2015 jafngilti fjármagnskostnaður ríkissjóðs tæplega 60% af greiddum tekjuskatti einstaklinga. Þannig er hægt að halda því fram að sex krónur af hverjum tíu sem ríkið innheimti í tekjuskatt af einstaklingum hafi runnið til greiðslu vaxta.
    Með nokkurri einföldun má segja að Íslendingar standi frammi fyrir tveimur kostum. Annars vegar getur ríkið áfram átt fyrirtæki, hús, jarðir og fleira og búið við þungar vaxtagreiðslur á komandi árum með tilheyrandi lakari þjónustu og hærri sköttum. Hins vegar er hægt að selja hluta eigna ríkisins og greiða niður skuldir. Þar með lækka vaxtagreiðslur og fjármunina sem sparast má nýta til að byggja upp heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfi og lækka skatta.
    Af þessu er ljóst að lækkun skulda ríkissjóðs er eitt brýnasta verkefni samtímans og mikilvæg forsenda sóknar til bættra lífskjara. Ungt fólk horfir upp á að skuldirnar og tilheyrandi fjármagnskostnaður rýri lífskjör þess í framtíðinni. Fyrir tugþúsundir ungra karla og kvenna sem koma út á vinnumarkaðinn á komandi árum er ekki sérstaklega eftirsóknarvert að eiga hlut í banka eða öðrum fyrirtækjum í gegnum sameiginlegt eignarhald ríkisins ef greitt er fyrir eignarhaldið í formi verri lífskjara, með hærri sköttum og verri þjónustu hins opinbera. Þeir sem eldri eru og ekki síst þeir sem þurfa nauðsynlega á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda eða fá aðra aðstoð verða að sætta sig við lakari þjónustu og minni aðstoð en ella. Miklar skuldir ríkissjóðs hafa því bein áhrif á daglegt líf þúsunda Íslendinga.
    Þótt mikill árangur hafi náðst í ríkisfjármálum á síðustu þremur til fjórum árum og tekist hafi að lækka skuldir er ríkissjóður enn of skuldsettur. Mikilvægt er að fram fari hreinskiptin umræða um stöðu ríkissjóðs og hvernig hægt er að lækka skuldir og draga þannig úr lamandi vaxtagreiðslum. Ein forsenda þess að umræðan verði málefnaleg og án upphrópana er að allar upplýsingar um eignir og skuldir ríkisins liggi fyrir. Slíkar upplýsingar eru jafnframt forsenda þess að hægt sé að bera saman þá kosti sem Íslendingar standa frammi fyrir á komandi árum.
    Flutningsmenn telja því nauðsynlegt að skipuð verði nefnd sérfræðinga til að vinna að því að heildaryfirsýn fáist yfir eignir ríkisins og mat verði lagt á hugsanlega sölu þeirra, galla hennar og kosti, fjárfestingarþörf í innviðum og þróun skulda ríkisins. Heildarsýn er einnig nauðsynleg svo hægt sé að vinna að og ná markmiði ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem sett eru fram í stefnuyfirlýsingu um „að hreinar skuldir ríkissjóðs verði engar innan tíu ára“. Þá á lokaskýrsla nefndarinnar að gefa skýra mynd af þeim innviðafjárfestingum sem nauðsynlegar eru á komandi árum, sem aftur er í samræmi við stefnu sitjandi ríkisstjórnar.