Ferill 143. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
2. uppprentun.

Þingskjal 202  —  143. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar


um húsnæði Listaháskóla Íslands.


Flm.: Einar Brynjólfsson, Björn Leví Gunnarsson, Smári McCarthy, Halldóra Mogensen, Viktor Orri Valgarðsson, Ari Trausti Guðmundsson, Birgitta Jónsdóttir, Svandís Svavarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir, Gunnar I. Guðmundsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Logi Einarsson.


    Alþingi ályktar að fela ráðherra mennta- og menningarmála að kveða á um framtíðarhúsnæði Listaháskóla Íslands og leysa þannig til frambúðar þann húsnæðisvanda sem skólinn hefur búið við um langa hríð.

Greinargerð.

    Listaháskóli Íslands var stofnaður árið 1999 með sameiningu ólíkra skóla sem kenndu m.a. tónlist, leiklist, hönnun og myndlist. Markmiðið var að færa listkennslu á Íslandi upp á háskólastig og stuðla að samstarfi milli greina. Að þessu leyti hefur sameiningin heppnast, mikil gróska er í listum og mikið þverfaglegt samstarf. Listaháskóli Íslands hefur stuðlað að nýsköpun og eflingu allra lista og er mikilvægur hornsteinn í uppbyggingu framtíðaratvinnulífs á landinu, enda gegnir hann lykilhlutverki fyrir flestar skapandi greinar.
    Þó hefur sameiningin ekki heppnast að öllu leyti. Mikill kostnaður felst í því að vera með deildirnar dreifðar og algjör óvissa ríkir um framtíð skólans meðan húsnæðisástand hans er eins og það er. Miklar áhyggjur eru af myglusvepp í húsakynnum hans, en skólinn leigir bæði frá ríkinu og einkaaðilum og ver miklu fjármagni í aðstöðu sem hentar stofnuninni ekki. Tónlist er til dæmis kennd í húsi með lélegri kyndingu sem skortir hljóðeinangrun, leiklist er kennd án viðunandi leikrýmis, myndlistarkennslan er í gömlu sláturhúsi og svo mætti lengi telja.
    Bókasafn og mötuneyti skólans dreifðust áður á fimm mismunandi hús en nú er svo komið að skólinn hefur þurft að skera niður, rekur ekki mötuneyti og bókasafnið er komið á einn stað fjarri flestum deildum skólans. Hugmyndin um að nemendur vinni saman og auðgi sjónarmið hvers annars gengur heldur ekki upp sökum þess að þeir iðka nám sitt í mismunandi byggingum.
    Við bætist að í mörgum byggingum er ekkert aðgengi fyrir fatlaða, aukinn kostnaður hlýst af því að dreifa starfseminni og plássleysi og óvissa veldur því að ekki er hægt að gera góðar langtímaáætlanir. Óvíst er hvort skólinn fái nægt fjármagn til að halda áfram að leigja húsnæði en miklar hækkanir hafa verið á húsnæðismarkaði á sama tíma og skorið hefur verið niður hjá skólanum. Við bætist að nemendur greiða mun hærri skólagjöld en aðrir háskólanemendur á Íslandi þrátt fyrir gífurlegan mun á þeirri aðstöðu sem þeir þurfa að búa við.
    Það er því mjög brýnt að skólanum verði fundið hentugt húsnæði til framtíðar svo að hann geti þroskast og þróast með eðlilegum hætti og rækt hlutverk sitt með reisn.