Ferill 149. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 214  —  149. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 41/2015 (markmið í loftslagsmálum).

Flm.: Katrín Jakobsdóttir.


1. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: að sýnt sé fram á að fjárfestingarverkefnið samræmist skuldbindingum Íslands og markmiðum íslenskra stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 145. löggjafarþingi (471. mál) af núverandi flutningsmanni. Þingmálið varð ekki útrætt og er því endurflutt óbreytt.
    Íslensk stjórnvöld hafa lýst því yfir að hér á landi skuli stefnt að því að árið 2030 verði losun gróðurhúsalofttegunda 40% minni en árið 1990 og er þetta markmið hið sama og Evrópusambandslönd og Noregur hafa sett sér. Mikilvægt er að umrætt markmið náist og ættu því fjárfestingarverkefni sem njóta ívilnana af hálfu íslenska ríkisins að vera þess eðlis að þau stuðli að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda eða séu hlutlaus gagnvart þeim.
    Meðal þess sem getur orðið til þess að fjárfestingarverkefni standist kröfur um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, ef þeim fylgir losun slíkra lofttegunda, eru alþjóðlega viðurkenndar aðgerðir til að draga úr slíkri losun sem geta m.a. falist í:
     a.      kolefnisjöfnun samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum stöðlum,
     b.      kaupum á upprunaábyrgðum á raforku sem tryggja að raforka sem nýtt verður hafi ekki valdið losun gróðurhúsalofttegunda,
     c.      öðrum viðurkenndum ráðstöfunum sem tryggja að starfsemin verði ekki til þess að auka losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.
    Með frumvarpi þessu er því lögð til breyting á lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi. Í 5. gr. laganna koma fram þau skilyrði sem fjárfestingarverkefni þurfa að uppfylla svo að heimilt sé að veita ívilnanir vegna þeirra. Með frumvarpinu er lagt til að nýr stafliður bætist við greinina þar sem kveðið verði á um að sýna þurfi fram á að fjárfestingarverkefni samræmist skuldbindingum Íslands og markmiðum íslenskra stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda svo að til álita geti komið að veita ívilnanir vegna þess.