Ferill 156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 223  —  156. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.


Flm.: Þórunn Egilsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Lilja Alfreðsdóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Willum Þór Þórsson.


    Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að beita sér fyrir því að NA/SV-flugbrautin á Reykjavíkurflugvelli verði opnuð á ný svo fljótt sem verða má. Ráðherra láti útbúa aðgerðaáætlun í þessa veru og upplýsi Alþingi um innihald hennar eigi síðar en í maí 2017.

Greinargerð.

    Með þingsályktun þessari er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra falið að beita sér fyrir því að NA/SV-flugbraut Reykjavíkurflugvallar (06/24), sem einnig hefur verið kölluð neyðarbrautin, verði opnuð á ný en henni var lokað í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 9. júní 2016 í máli íslenska ríkisins gegn Reykjavíkurborg (mál nr. 268/2016).
    Reykjavíkurflugvöllur gegnir lykilhlutverki sem miðstöð innanlandsflugs og hefur þannig verulega þýðingu fyrir samgönguöryggi þjóðarinnar. Flugvöllurinn er einnig afar mikilvægur fyrir sjúkraflug með sjúklinga af landsbyggðinni á Landspítalann. Eina hátæknisjúkrahús landsins er staðsett í Reykjavík og því er nauðsynlegt að tryggja eins vel og auðið er að leið sjúklinga af landsbyggðinni til höfuðborgarinnar sé ávallt greið. Reglulega kemur upp sú staða að veðurskilyrði og færð á flugbrautum Reykjavíkurflugvallar eru þannig að einungis er hægt að lenda á neyðarbraut vallarins. Í hvassri suðvestanátt er neyðarbrautin t.d. eina flugbrautin á suðvesturhorni landsins sem sjúkraflugvélar geta lent á.
    Stjórn Flugmálafélags Íslands og sérfræðingar í flugmálum hafa skorað á yfirvöld að opna brautina á ný af öryggisástæðum. Þrátt fyrir að aðeins séu nokkrir mánuðir liðnir frá lokun neyðarbrautarinnar hafa þegar nokkur tilvik komið upp þar sem ekki hefur verið mögulegt að lenda sjúkraflugvél á Reykjavíkurflugvelli. Nægir að nefna tilvik sem átti sér stað síðla árs 2016 þegar sjúkraflugvél með sjúkling frá Höfn í Hornafirði gat ekki lent á Reykjavíkurflugvelli vegna hvassrar suðvestanáttar og þurfti að fljúga með sjúklinginn til Akureyrar. Útkallið var í fyrsta forgangi en í þeim tilvikum er gerð krafa um tafarlaus viðbrögð.
    Í skýrslu stýrihóps um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu, sem kom út í júní 2015, kom fram að ferðatími með sjúkrabíl frá flugvelli að Landspítalanum mundi aukast um 7,5–11,5 mínútur frá því sem nú er ef flugvöllur yrði byggður í Hvassahrauni í stað Vatnsmýrar og að tími sjúkraflutnings með sjúkraflugi mundi lengjast um 8,5–12,5 mínútur vegna aukins flug- og aksturstíma.
    Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að neyðarbrautin verði opnuð á ný þar til fundin hefur verið framtíðarlausn fyrir eitt mikilvægasta samgöngumannvirki þjóðarinnar. Í því skyni er lagt til að ráðherra beiti sér í málinu, hvort heldur með sérstakri lagasetningu um Reykjavíkurflugvöll eða á annan hátt, og greini Alþingi frá aðgerðaáætlun um opnun neyðarbrautarinnar eigi síðar en í maí 2017.