Ferill 175. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 242  —  175. mál.
Tillaga til þingsályktunar


um rafræna birtingu málaskráa og gagna ráðuneyta.


Flm.: Oddný G. Harðardóttir, Logi Einarsson, Guðjón S. Brjánsson, Andrés Ingi Jónsson, Björn Leví Gunnarsson, Einar Brynjólfsson, Smári McCarthy, Viktor Orri Valgarðsson.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að gera nauðsynlegar ráðstafanir svo að unnt verði að veita almenningi rafrænan aðgang að málaskrám og gögnum ráðuneyta í samræmi við 2. mgr. 13. gr. upplýsingalaga. Ráðherra setji í þessu skyni reglugerð sem kveði á um hvernig birtingu þessara upplýsinga skuli háttað og hvernig tryggður skuli viðeigandi vettvangur og aðbúnaður til að veita aðgang að upplýsingunum.

Greinargerð.

    Í 13. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, er fjallað um birtingu upplýsinga að frumkvæði stjórnvalda. Í 2. mgr. er kveðið á um að stjórnvöld skuli vinna markvisst að því að gera skrár yfir mál, lista yfir málsgögn og gögnin sjálf jafnóðum aðgengileg með rafrænum hætti. Flutningsmenn leggja til að forsætisráðherra verið falið að grípa til ráðstafana til að unnt verði að birta rafrænar skrár yfir mál sem eru til meðferðar hjá ráðuneytunum, svo sem á vefnum. Löng hefð er fyrir skráningu mála hjá ráðuneytunum og þar er unnið eftir föstu verklagi við skráningu mála og vistun málsgagna. Rétt þykir að Stjórnarráðið gangi á undan með góðu fordæmi og birti málaskrár sínar á vefnum en stofnanir og embætti ríkisins og sveitarfélaga fylgi á eftir. Þá er mikilvægt að ráðuneytum verði gert mögulegt að kaupa eða láta hanna hugbúnaðarlausn til að birta gögnin á vefnum á notendavænan hátt.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra setji reglugerð um birtingu framangreindra gagna, sbr. 4. mgr. 13. gr. upplýsingalaga. Í reglugerðinni þarf m.a. að koma fram hvernig skuli standa að birtingu upplýsinga úr málaskrám ráðuneytanna, hvenær skuli birta þær, hvaða upplýsingar um mál skuli birta og hvaða upplýsingar megi ekki birta, svo sem vegna sjónarmiða um persónuvernd og öryggi ríkisins. Í lokamálslið 4. mgr. 13. gr. er sérstaklega tekið fram að reglugerðir sem settar eru samkvæmt ákvæðinu bindi sveitarfélögin og stofnanir þeirra.
    Unnt er að líta til Noregs til fyrirmyndar um birtingu málaskráa á vef en frá 2010 hefur norska ríkið birt málaskrár frá á annað hundrað ríkisstofnana á vefnum www.oep.no (Offentlig elektronisk postjournal). Síðan vefurinn var tekinn í notkun hafa norsk stjórnvöld birt þar upplýsingar um u.þ.b. 20 milljónir skjala sem hafa orðið til eða borist við úrlausn mála. Fyrirmæli um birtingu málaskráa og tengdra upplýsinga í Noregi er m.a. að finna í reglugerð um opinber skjalasöfn og í reglugerð settri á grundvelli norsku upplýsingalaganna. Strangar reglur gilda um birtingu upplýsinga úr opinberu norsku málaskránni sem snúa að því að tryggja persónuvernd og að viðkvæmar upplýsingar séu ekki birtar.
    Mikilvægi birtingar upplýsinga um mál og athafnir stjórnvalda er ótvírætt. Aukin upplýsingagjöf er til þess fallin að auka gagnsæi stjórnsýslunnar auk þess sem hún veitir aðhald og skapar traust um úrlausn verkefna hins opinbera.