Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 246  —  98. mál.
Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um fjárlagaliðinn Sjúkrahús, óskipt.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mikið hækkuðu frá ári til árs fjárhæðir á fjárlagaliðnum 08-379 Sjúkrahús, óskipt í fjárlögum fyrir árin 2014–2017 og hvað útskýrir hækkanirnar?
     2.      Hvernig var fjármunum á þessum fjárlagalið ráðstafað á árunum 2014–2016?


    Fjárlagaliðurinn 08-379 Sjúkrahús óskipt, hefur einna helst verið notaður sem safnliður ráðuneytisins fyrir ýmis tímabundin heilbrigðisverkefni sem ráðuneytið hefur komið að með einum eða öðrum hætti. Einnig eru þar fjárheimildir sem nýttar hafa verið til að bregðast við ófyrirséðum rekstrarmálum heilbrigðisstofnana.
    Fjárlagaliðurinn skiptist í tvö viðföng. Annars vegar er það viðfang vegna stofnframlaga en fjárveiting til þess nemur á fjárlögum 2017 rúmum19 millj. kr. og hefur verið óbreytt allt tímabilið. Þessum fjármunum hefur verið varið til tækjakaupa á heilbrigðisstofnunum. Hins vegar er það rekstrarviðfang en fjárveiting þess hefur aukist úr rúmum 60 millj. kr. á fjárlögum 2014 í um 2.172 millj. kr. í fjárlögum yfirstandandi árs en flestar fjárveitingar viðfangsins eru tímabundnar og ætlaðar í afmörkuð verkefni. Helstu breytingar á tímabilinu eru í fyrsta lagi 840 millj. kr. fjárveiting til að stytta biðlista eftir tilteknum aðgerðum. Í öðru lagi er fjárveiting til rannsóknarverkefnis í lyfjameðferð gegn lifrabólgu C og nemur fjárhæðin í ár 150 millj. kr. og lækkar um 130 millj. kr. frá fyrra ári. Í þriðja lagi er 600 millj. kr. fjárveiting vegna framleiðslutengdrar fjármögnunar Landspítala. Gert er ráð fyrir að fjárveiting verði nýtt til að greiða fyrir þá framleiðslu spítalans sem er umfram þau viðmið um 100% framleiðslu sem kveðið er á um í samningi um fjármögnun spítalans sem gerður var á milli Landspítalans og Sjúkratrygginga Íslands í byrjun þessa árs. Í fjórða lagi er 405 millj. kr. fjárveiting sem kom á viðfangið í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2017 og er ætluð til ýmissa verkefna bæði innan heilbrigðisstofnana og utan þeirra, svo sem 130 millj. kr. vegna þjónustu við einstaklinga í öndunarvélum sem dvelja utan sjúkrahúsa. Og í fimmta lagi má nefna 50 millj. kr. fjárveitingu sem var tímabundin á árinu 2016 og var veitt til reksturs Sjúkrahússins á Akureyri en hefur nú verið gerð varanleg undir fjárlagalið stofnunarinnar. Enn er óvissa um hvort og þá hversu mikið af óráðstöfuðum fjárveitingum fyrra árs verða færðar yfir á yfirstandandi ár.
    Meðfylgjandi tafla sýnir yfirlit yfir fjárveitingar og breytingar fjárlagaviðfangsins 08-379- 101, Óskipt framlag til reksturs sjúkrahúsa.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.