Ferill 176. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 247  —  176. mál.
Flutningsmenn. Viðbót. Greinargerð.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, með síðari breytingum (strandveiðar).

Flm.: Gunnar I. Guðmundsson, Smári McCarthy, Einar Brynjólfsson, Björn Leví Gunnarsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. a laganna:
     a.      Í stað orðanna „er ráðherra heimilt að“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: skal ráðherra.
     b.      Í stað orðanna „1. maí til 31. ágúst“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: 1. mars til 31. október.
     c.      Í stað orðanna „laugardaga og sunnudaga“ í 1. tölul. 5. mgr. kemur: og laugardaga.
     d.      Við 5. mgr. bætast fimm nýir töluliðir, svohljóðandi:
              7.      Heimilt er að draga allt að 100 kg í þorskígildum talið af öðrum tegundum en þorski umfram það sem tilgreint er í 5. tölul.
              8.      Innan strandveiðitímabils fær hver bátur úthlutað 50 dögum til veiða að eigin vali innan þeirra marka sem sett eru í 1. tölul.
              9.      Leyfi til strandveiða fellur niður ef eigendaskipti verða að bát þegar leyfið er virkt.
              10.      Óheimilt er að framselja daga sem hefur verið úthlutað til strandveiða og einnig er óheimilt að fénýta þá með nokkrum hætti nema með sjósókn á þeim báti sem strandveiðileyfi er bundið við.
              11.      Heimilt er að leggja leyfi til strandveiða inn einu sinni á strandveiðitímabili og fá í staðinn veiðileyfi með krókaaflamarki ef bátur uppfyllir þær kröfur sem um það gilda.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Á árunum 2017, 2018 og 2019 úthlutar ráðherra aflamarki í þorski skv. 3. gr. miðað við 20% aflareglu en Hafrannsóknastofnun skal gefa út heildarveiði í þorski miðað við 22% aflareglu og skal því magni sem er umfram viðmið um 20% aflareglu einungis ráðstafað til strandveiða.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

4. gr.

    Við gildistöku laga þessara verður eftirfarandi breyting á lögum um veiðigjald, nr. 74/2012, með síðari breytingum: Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo ásamt fyrirsögn:

Sérstakt veiðigjald vegna strandveiða.

    Leggja skal sérstakt veiðigjald að fjárhæð 10 kr. á hvert þorskígildiskíló í strandveiðum. Helmingi tekna af gjaldinu skal ráðstafa til Hafrannsóknastofnunar á árunum 2017–2019 til að sinna rannsóknum á þorskstofninum. Hinum helmingi tekna af gjaldinu skal ráðstafa til Landhelgisgæslunnar til eftirlitsstarfa á sama tímabili.

Greinargerð.

    Markmið þessa frumvarps er að bæta aðstæður til strandveiða bæði með því að taka tillit til efnahagslegra sjónarmiða og öryggissjónarmiða. Strandveiðar hafa sannað gildi sitt til að styðja við smærri byggðir, skapa nýliðun innan sjávarútvegsins og stuðla að fjölbreyttari nýtingu sjávarauðlinda. Með frumvarpi þessu er lagt til rýmra tímabil en áður fyrir strandveiðibáta í því skyni að draga úr áhættunni sem fylgir því að veiðar séu stundaðar í illviðri.
    Innan strandveiðikerfisins eru nú um 650 bátar sem nýta sér kerfið. Mismunandi aðstæður landshluta og aðsókn hefur orðið til þess að misskipting innan kerfisins hefur verið töluverð en þrátt fyrir það hefur verið mikill áhugi á því að stunda strandveiðar. Krókaaflamarkskerfið á undir högg að sækja vegna lagabreytinga er varða lengd og rúmlestir smábáta og hefur það valdið mikilli samþjöppun innan þess kerfis. Á sl. þremur árum hefur bátum fækkað um 77 og eru þeir nú 277, ekki vegna þess að veiðar smábáta séu óhagkvæmar heldur er verð á veiðiheimildum hærra en einstaklingur með smábát getur borið. Með frumvarpi þessu er ætlunin að styrkja rekstrargrundvöll smábátaútgerðar fyrir þá sem ekki eru handhafar aflamarks, auk hagræðis fyrir smábátasjómenn. Kostir strandveiðikerfisins nú eru af þrennum toga. Í fyrsta lagi jafnar það stöðu byggða um allt land þar sem kvótinn fylgir ekki tilteknum bátum. Í öðru lagi stuðlar strandveiðikerfið að nýliðun í sjávarútvegi þar sem kostnaður við að taka þátt í strandveiðum er ekki jafnmikill og í aflamarkskerfinu. Í þriðja lagi brenna strandveiðibátar vel innan við þriðjungi af þeirri olíu sem togveiðibátur brennir við veiðar á sama magni fisks og skaða ekki heldur hafsbotn með neinu móti. Samkvæmt skýrslu frá 2009 sem ber nafnið „Möguleikar til að draga úr nettóútstreymi gróðurhúsalofttegunda á Íslandi“ kemur fram að togveiðar brenni að jafnaði þrisvar sinnum meira eldsneyti en staðbundin veiðafæri. Því eru miklir samfélags- og umhverfishagsmunir fólgnir í því að útvíkka og styðja við þetta kerfi. Þessar breytingar koma til með að draga úr eftirspurn eftir byggðakvóta með auknu frelsi til sjósóknar í atvinnuskyni. Þetta hefur áhrif á þær útgerðir sem leigja frá sér aflaheimildir til útgerða sem þurfa að mæta kröfum bæjarstjórna um framlag gegn úthlutun byggðakvóta.
    Með þessu frumvarpi er gengið út frá því að gerðar verði breytingar á áætlun um meðferð og ráðstöfun þess aflamagns sem dregið er frá aflamarki og nú er 5,3% skv. 3. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða. Slík aukning gengur ekki í berhögg við umræðu um að ýmis önnur kerfi 8. gr. séu að einhverju marki úrelt og þurfi að leggja af.
    Í 1. gr. eru lagðar til nokkrar breytingar á 6. gr. a laga um stjórn fiskveiða. Lagt er til að tímabil strandveiða verði lengt úr fjórum mánuðum í átta mánuði. Tímabilið er svo takmarkað gagnvart hverjum og einum bát í nýjum 8. tölul. 5. mgr. Vegna þess að tímabilið nær yfir mörk fiskveiðiársins, sem hefst 1. september ár hvert, má túlka þetta þannig að tímabilin árlega séu í raun tvö, annað frá 1. september til 31. október og hitt frá 1. mars til 31. ágúst.
    Lagt er til að ráðherra skuli ráðstafa aflamagni til strandveiða en ekki sé aðeins kveðið á um heimild til þess. Með þessari breytingu er orðalag málsgreinarinnar fært til samræmis við þá kröfu sem gerð er í 3. og 5. mgr. 8. gr. laganna. Í augnablikinu stangast greinarnar lítillega á sem gæti hugsanlega valdið misskilningi eða opnað fyrir mismunandi túlkun.
    Lagt er til að veiðar á sunnudögum verði heimilaðar. Mikið hefur verið rætt um nauðsyn þess að leyfa veiðar fimm daga í viku. Miðað við upprunaleg markmið strandveiðikerfisins um að löndun og vinnsla eigi sér stað innan sólarhrings er óheppilegt að leyfa veiðar á föstudögum þar sem vinnsla fer að jafnaði ekki fram um helgar þó svo að markaðir séu opnir. Með því að leyfa veiðar á sunnudögum færist markaðssala og vinnsla yfir á mánudag.
    Einnig er lagt til að við 5. mgr. bætist fimm nýir töluliðir. Nýr 7. tölul. snýr að því að draga úr brottkasti meðafla. Í því tilfelli verði heimilt að landa meðafla af öðrum tegundum en þeirri sem stóð til að veiða, allt að 100 kg umfram þau 650 kg sem heimiluð eru skv. 5. tölul. sömu málsgreinar.

Skipting strandveiðiafla eftir tegundum (í tonnum talið).

2014 2015 2016
Þorskur 7.643 7.749 8.532
Ýsa 35 34 31
Ufsi 773 783 463
Karfi 98 108 103
Annað 18 27 12

    Eins og sést á tegundaskiptingu afla sl. þrjú strandveiðitímabil miða veiðarnar að jafnaði við beina sókn í þorsk. Þar sem borið hefur á því að einungis þorskur kemur að landi hjá veiðimönnum sumra svæða er hægt að áætla að aðrar tegundir verði eftir á miðum vegna þess hve naumt er skammtað. Því er innbyggður hvati til brottkasts til staðar. Í frumvarpinu er lögð til heimild til að taka 100 kg meðafla í öðrum tegundum sem að jafnaði er ufsi. Með því er meiri ufsa komið á land. Ufsaheimildir eru að stórum hluta notaðar sem skiptimynt í aflamarkskerfinu og allt að 12.000 tonn „brenna inni“ við lok fiskveiðiárs. Því er áætlað að þessi regla hætti ekki nytjastofnum sjávar að neinu marki og stuðli að betri nýtingu nytjastofna sjávar og virkari fiskmarkaða. Nýr 8. tölul. takmarkar dagafjölda á bát við 50 daga yfir allt tímabilið. Þetta er nokkuð sambærilegt við það sem er heimilt hverjum bát í núverandi kerfi þar sem fjórir dagar í viku í tólf vikur gera 48 daga. Þess ber þó að geta að eftir veiðisvæðum og ásókn í þau hafa dagarnir verið mun færri þegar á hólminn er komið. 9.–11. tölul. er ætlað að girða fyrir brask með veiðileyfi en jafnframt gera það mögulegt að skipta úr strandveiðum yfir í makríl- eða grásleppuveiðar. Hins vegar er ekki mögulegt að fá krókaaflamarksleyfi samhliða strandveiðum.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að aflaregla fari úr 20% í 22% af veiðistofni þorsks. Gengið er út frá því að aflamarkskerfið haldi í óbreyttri mynd og fái í sinn hlut 20% af heildarstofni þorsks eins og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar gefur til kynna en 2% gangi þá til að mæta kröfum strandveiða. Þó er ekki gert ráð fyrir að aukningin verði fullnýtt fyrst um sinn. Í skýrslu samráðsvettvangs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um nýtingu helstu nytjafiska frá júní 2011 er talað um að aflaregla sem 22% hlutfall af nytjastofni þorsks falli undir ráðgjöf ICES (International Council for the Exploration of the Sea) og því ætti tilhögunin ekki að hafa áhrif á markaðsstöðu Íslands út á við.

Úreikningar á nýrri aflareglu (í þúsundum tonna).

Fiskveiðiár Útgefið aflamark Hrygningarstofn þorsks Ný aflaregla
2012/2013 196 980 19,6
2013/2014 215 1075 21,5
2014/2015 218 1090 21,8
2015/2016 239 1195 23,9
2016/2017 244 1220 24,4

    Í nýrri aflareglu er gert ráð fyrir að þorskveiðar aukist um 2% af heildarstofni þorks að hámarki. Full nýting í strandveiðikerfinu miðast við að hver bátur fari 50 sinnum á sjó innan tímabilsins og að hver bátur taki 650 kg í þorskígildum talið sem eru 32,5 tonn á hvern bát. Miðað við 650 báta eru þetta 21.125 tonn. Þó er það fulllangt gengið í áætlunum að hver bátur nái alltaf hámarki hvers dags þó að möguleiki sé á að bátum fjölgi, en fyrstu árin sem strandveiðar voru stundaðar voru bátarnir 700. Þetta virðist vera nokkurn veginn hámarksfjöldi báta miðað við þá báta sem hægt er að sjósetja á komandi árum. Nýsmíði báta er dýr kosnaðarliður við útgerð og því eru nokkur ár þangað til nýir bátar bætast í pott mögulegra sjósækjenda.
    Þar sem borið hefur á fjársvelti bæði Landhelgisgæslu og Hafrannsóknastofnunar er í 4. gr. lögð til breyting á lögum um veiðigjald. Lagt er til að sérstakt veiðigjald verði lagt á strandveiðibáta sem nemur 10 kr. á hvert landað þorskígildiskíló. Þessari ráðstöfun er ætlað að treysta rekstrargrunn Hafrannsóknastofnunar með því að styðja við rannsóknir á botnfiskstofnum í kringum landið og nýja rannsóknarþætti er lúta að hitastigi sjávar, seltu, hreyfimynstri og aðskilnaði mismunandi þorskstofna í kringum landið. Þessir liðir hafa til áratuga verið fjársveltir og því eru rannsóknir stofnunarinnar barn síns tíma. Hafrannsóknastofnun hefur þurft að vera mun varfærnari í ráðgjöf sinni vegna skorts á gögnum og skekkju í rannsóknum sem væri að einhverju leyti hægt að laga með frekari gagnaöflun og rannsóknum. Einnig er hinu sérstaka veiðigjaldi ætlað að auka framlög til Landhelgisgæslunnar sem á einnig undir högg að sækja vegna fjársveltis.