Ferill 184. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 255  —  184. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (íbúakosningar).

Flm.: Ásta Guðrún Helgadóttir, Smári McCarthy, Björn Leví Gunnarsson, Viktor Orri Valgarðsson, Halldóra Mogensen, Birgitta Jónsdóttir, Einar Brynjólfsson.


1. gr.

    Í stað orðanna „hærra hlutfall“ í 2. málsl. 2. mgr. 108. gr. laganna kemur: annað hlutfall.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Frumvarp þetta var lagt fram á 143. þingi (386. mál) en náði ekki fram að ganga. Er það því endurflutt í óbreyttri mynd.
    Í 108. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, er kveðið á um að 20% kosningarbærra íbúa í sveitarfélagi geti óskað íbúakosninga og er þá skylt að verða við því eigi síðar en innan árs frá því að óskin berst. Hlutfallið er lágmarkshlutfall samkvæmt lögunum en heimilt er að ákveða hærra hlutfall í samþykkt um stjórn hvers sveitarfélags, þó aldrei hærra en þriðjung þeirra sem kosningarrétt eiga. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna kemur fram að ekkert banni sveitarstjórn að verða við óskum um íbúakosningar þótt lægra hlutfall íbúa leggi þær fram. Þó yrði afar matskennt hvernig slíkar óskir yrðu afgreiddar og það mundi valda undirskriftasöfnurum óvissu, efist þeir t.d. um að geta safnað undirskriftum 20% kosningarbærra manna í sveitarfélaginu sökum þess að sveitarfélagið er strjálbýlt eða samanstendur af nokkrum dreifðum byggðakjörnum.
    Flutningsmenn telja rétt að veita sveitarfélögum skýra heimild til þess að kveða á um almenna reglu um hlutfallið í samþykkt um stjórn sveitarfélags sem íbúar gætu þar með nálgast. Með því væri eytt óvissu um við hvaða hlutfall yrði miðað þegar undirskriftasafnanir um íbúakosningar fengju formlega afgreiðslu hjá sveitarstjórn, án tillits til þess um hvaða efni væri að ræða.
    Ekki er fyrirséð að breytingin leiði til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð þar sem sveitarfélögin bera sjálf kostnað af því að halda íbúakosningar.