Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 269  —  113. mál.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2016, með síðari breytingum (nefnd um hæfni dómaraefna, aðsetur Landsréttar).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra og Bryndísi Helgadóttur, Laufeyju Rún Ketilsdóttur, Ragnhildi Hjaltadóttur og Sigríði Kristínu Axelsdóttur frá innanríkisráðuneyti, Ingibjörgu Ingvadóttur og Kolbrúnu Garðarsdóttur frá Félagi kvenna í lögmennsku, Áslaugu Björgvinsdóttur og Gunnlaug Claessen, formann dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum til bráðabirgða í nýjum lögum um dómstóla, nr. 50/2016, þess efnis að kveðið verði skýrt á um að nefnd sem starfar skv. 4. gr. a gildandi laga um dómstóla nr. 15/1998 skuli fjalla um umsóknir um embætti dómara við Landsrétt þegar skipað verður í embættin í fyrsta sinn. Lagt er til að dómnefndin veiti ráðherra umsögn um umsækjendur og að kveðið verði á um að ráðherra sé óheimilt að skipa í dómaraembætti mann sem dómnefndin hefur ekki talið hæfastan meðal umsækjenda, hvort heldur einn eða samhliða öðrum. Þó er gert ráð fyrir að ráðherra geti vikið frá því að skipa þann sem dómnefndin telur hæfastan ef Alþingi samþykkir tillögu ráðherra þar um. Er þetta í samræmi við ákvæði gildandi laga um dómstóla, nr. 15/1998.
    Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar á dagsetningum sem varða hvenær vinnu við skipun dómara skuli lokið, skipun forseta Landsréttar og skipun í stjórn dómstólasýslunnar. Þá er lagt til að heimilt verði tímabundið að aðsetur Landsréttar verði utan Reykjavíkur.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að við gerð frumvarps þess er varð að lögum nr. 50/2016 hafi verið lagt til grundvallar að þegar skipað yrði í fyrsta sinn í embætti dómara við Landsrétt tæki dómnefnd sem starfar á grundvelli 4. gr. a gildandi laga um dómstóla, nr. 15/1998, til meðferðar umsóknir um embætti dómara við Landsrétt. Samkvæmt ákvæðinu er umboð dómnefndarinnar hins vegar takmarkað við umfjöllun um umsækjendur um embætti héraðsdómara og hæstaréttardómara. Meiri hlutinn undirstrikar að frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að taka af allan vafa um heimild dómnefndarinnar til að fjalla um umsóknir um embætti dómara við Landsrétt.
    Samkvæmt nýjum lögum um dómstóla, nr. 50/2016, er gert ráð fyrir að Landsréttur taki til starfa 1. janúar 2018 en í réttinum skulu eiga sæti 15 dómarar. Við meðferð frumvarpsins í nefndinni var rætt almennt um gagnrýni á fyrirkomulag við skipun dómara. Í því samhengi var m.a. rætt um mat dómnefndar á hæfni umsækjenda um dómaraembætti, kynjahlutfall við dómstóla og hvernig sjónarmið um jafnrétti koma til skoðunar við skipun dómara. Meiri hlutinn bendir á að hlutverk dómnefndar er að láta ráðherra í té rökstudda umsögn um umsækjendur um dómaraembætti og taka afstöðu til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur til að hljóta embættið. Hafi dómnefnd metið tvo eða fleiri umsækjendur jafnhæfa getur hins vegar reynt á ákvæði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, við ákvörðun ráðherra um skipun dómara og leggur meiri hlutinn áherslu á að ráðherra hafi að markmiði í því samhengi að kynjahlutföll verði sem jöfnust í hópi skipaðra dómara.
    Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að taka þyrfti núverandi fyrirkomulag við skipun dómara til endurskoðunar, m.a. með hliðsjón af kynjasjónarmiðum. Meiri hlutinn leggur hins vegar áherslu á mikilvægi þess að vinna við skipun dómara við Landsrétt geti hafist og leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 23. febrúar 2017.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form., frsm.
Nichole Leigh Mosty. Vilhjálmur Árnason.
Hanna Katrín Friðriksson. Valgerður Gunnarsdóttir. Willum Þór Þórsson.