Ferill 197. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 270  —  197. mál.
Fyrirspurn


til félags- og jafnréttismálaráðherra um húsnæðismál.

Frá Viktori Orra Valgarðssyni.


     1.      Hefur ráðuneytið ráðist í greiningu á orsökum gríðarlegrar hækkunar á húsnæðisverði og húsaleigu á Íslandi undanfarin ár og hvernig væri hægt að sporna við henni? Ef slík greining liggur ekki fyrir, hvert er mat ráðherra á því
                  a.      hversu mikil áhrif gjaldeyrishöft hafa haft á þróun húsnæðisverðs,
                  b.      hversu mikil áhrif möguleg yfirverðlagning byggingaraðila á nýbyggðu húsnæði í krafti fákeppni hefur haft á þróun húsnæðisverðs,
                  c.      hversu mikil áhrif stór fasteignafélög og fasteignasjóðir hafa haft á húsaleigu í krafti eignarhalds þeirra á miklum fjölda fasteigna?
     2.      Er vitað hversu stór hluti húsnæðis er í eigu lífeyrissjóða, t.d. í gegnum eignarhluti þeirra í fasteignafélögum?
     3.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja fjármögnun á samkomulagi ríkisins við SA og ASÍ um byggingu 2.300 nýrra íbúða á næstu fjórum árum, og kemur til greina að bæta fleiri íbúðum við það samkomulag?
     4.      Liggur fyrir mat á því hversu stór hluti af leigutekjum er talinn fram til skatts?
     5.      Hyggst ráðherra koma á formlegu samstarfi við sveitarfélög og leigu- og húsnæðisfélög til að tryggja frekari byggingu húsnæðis og verður sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu heimiluð frekari uppbygging á lóðum í eigu ríkisins á höfuðborgarsvæðinu í því skyni?
     6.      Telur ráðherra koma til greina að stuðla að langtímaleigu á leigumarkaði, t.d. með skattalegu hagræði við leigusala sem leigja út til lengri tíma og/eða fjárhagslegum stuðningi við leigufélög sem rekin eru án arðsemissjónarmiða?
     7.      Telur ráðherra koma til greina að lögbinda þak á húsaleigu, t.d. á það hlutfall sem leigusölum er leyfilegt að hækka leigu um á tilteknu tímabili eða það hlutfall sem leigusölum er leyfilegt að rukka í leigu umfram kostnað þeirra við húsnæðið?
     8.      Er áætlað að gera einhverjar breytingar á byggingarreglugerðum til þess að auðvelda byggingu húsnæðis og þá hvaða?


Skriflegt svar óskast.