Ferill 113. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 273  —  113. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2016, með síðari breytingum (nefnd um hæfni dómaraefna, aðsetur Landsréttar).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Við umfjöllun nefndarinnar um málið voru reifuð þau sjónarmið að miklu máli skiptir að vel takist til við þá skipun Landsréttar sem stendur fyrir dyrum. Sú einstaka staða er komin upp að skipaðir verða 15 dómarar í einu og líklegt er að margir muni sitja í embætti næstu áratugina. Sérstaklega voru rædd kynjasjónarmið, en dómskerfið á Íslandi á enn langt í land með að endurspegla jafnan hlut kvenna og karla.
    Skemmst er þess að minnast að nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum beindi á síðasta ári m.a. þeim tilmælum til íslenskra stjórnvalda að mikilvægt væri að fjölga konum í lögreglu og í Hæstarétti til að uppfylla skuldbindingar Íslands samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW). CEDAW-nefndin lagði sérstaka áherslu á að gripið yrði tafarlaust til aðgerða, jafnvel sértækra aðgerða eins og kynjakvóta, til að fjölga konum hratt í dómskerfinu.
    Í skýrslu mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna frá 30. júní 2015 er jafnframt rík áhersla lögð á fjölbreytta skipan dómara til að tryggja sjálfstætt dómsvald – en þar á meðal telur mannréttindaráðið mikilvægt að tryggja kynjajafnvægi í dómskerfinu.
    Minni hlutanum þykir sjónarmið um sértækar aðgerðir til að tryggja jafnan hlut karla og kvenna í nýjum Landsrétti ríma ágætlega við ábendingar Sameinuðu þjóðanna og þær áherslur sem birtast í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þar segir m.a.: „Jafnrétti í víðtækri merkingu er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi.“ Enn fremur segir í stefnuyfirlýsingunni: „Unnið verður að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagsins, meðal annars Alþingi og dómstólum.“
    Landsréttur, nýtt millidómstig, er mikilvægt skref til að auka réttaröryggi borgaranna. Við þinglega meðferð heildarendurskoðunar dómstólalaga á 145. löggjafarþingi var lögð mikil áhersla á að vinna málið í sátt, þvert á flokka, eins og sæmir jafn mikilvægri lagasetningu um grundvallarreglur réttarríkisins. Raunin varð sú að allir viðstaddir þingmenn stóðu að baki samþykkt laga um dómstóla, nr. 50/2016, þar sem Landsréttur varð loks að veruleika.
    Fyrir nefndinni voru áberandi þau meginsjónarmið að mikilvægt væri að jafna hlut kynjanna í dómskerfinu, en ræddar voru ólíkar hugmyndir um hvaða aðgerðir þyrfti til að ná því markmiði. Þau sjónarmið komu fram að æskilegt væri að stíga skrefið til fulls og lögfesta kynjakvóta um dómsvaldið, en að lágmarki að lög um jafna stöðu kvenna og karla endurspeglist í ákvæðum dómstólalaganna. Einnig var bent á að erfitt væri að koma slíkum sjónarmiðum inn í verklag dómnefndar um umsækjendur um embætti dómara sem væri stjórnsýslunefnd sem hefði einungis það hlutverk að láta ráðherra í té umsögn um umsækjendur þar sem tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi, einn eða fleiri, væri hæfastur til að hljóta dómaraembætti. Við ákvörðun um skipun dómara hefði ráðherra svigrúm til að bregðast, t.d. við kynjasjónarmiðum þar sem líta þurfi til jafnréttislaga. Minni hlutinn áréttar í því samhengi að þar sem dómsmálaráðherra setur reglur um nánari störf dómnefndarinnar er mikilvægt að löggjafinn gefi ráðherra skýr fyrirmæli, líkt og breytingartillagan leggur til, um að einnig beri að fylgja jafnréttislögum við endurskoðun reglna nefndarinnar.
    Minni hlutinn telur að samhljómur hafi verið um markmiðið að jafna hlut kynjanna innan dómskerfisins meðal nefndarmanna, en er ósammála meiri hlutanum um þær leiðir sem mætti beita til að ná því markmiði. Minni hlutinn telur að sú afstaða meiri hlutans að árétta að líta þurfi til jafnréttislaga við skipun dómara í nefndaráliti sé ekki nægjanleg. Minni hlutinn telur að þó að eðlilegt hljóti að teljast að dómsmálaráðherra starfi í samræmi við jafnréttislög sé full ástæðu til að hnykkja á þeirri afstöðu í lagatextanum sjálfum. Minni hlutinn telur að nú sé sögulegt tækifæri til að ná jöfnu hlutfalli kynjanna hjá dómurum á nýju dómstigi strax frá fyrsta degi og það tækifæri er mikilvægt að verja með skýru ákvæði sem nær yfir þessa fyrstu skipan dómara.
    Minni hlutinn harmar að að forusta allsherjar- og menntamálanefndar hafi ekki náð að sameina þau sjónarmið sem fram komu í málinu. Þessu mótmæltu fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Pírata í nefndinni, auk áheyrnarfulltrúa Samfylkingar í nefndinni. Lagði minni hlutinn fram eftirfarandi bókun þegar málið var afgreitt úr nefndinni:
    „Umfjöllun um millidómstigið hefur einkennst af þverpólitískri samstöðu, enda er um mál að ræða sem varðar eina grunnstoð samfélagsins, þ.e. dómskerfið. Minni hlutinn harmar að þessi samstaða skuli nú rofin vegna þess að meiri hlutinn geti ekki sætt sig við orðalag í þágu kynjajafnréttis í lagatexta.“
    Minni hlutinn ítrekar vonbrigði sín yfir þeim klofningi sem vinnu nefndarinnar var stefnt í við afgreiðslu þessa fyrsta máls úr nefndinni í tíð núverandi ríkisstjórnar. Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Á eftir b-lið 1. mgr. 2. gr. komi nýr stafliður svohljóðandi: Á eftir 1. málsl. 2. mgr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra skal gæta þess að kröfum laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fullnægt.

    Guðjón S. Brjánsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 24. febrúar 2017.

Andrés Ingi Jónsson,
frsm.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Einar Brynjólfsson.