Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 280  —  150. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum (leiðrétting).

Frá 1. minni hluta velferðarnefndar.


    Fyrsti minni hluti velferðarnefndar leggst gegn samþykkt málsins í óbreyttri mynd. 1. minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með gildistöku 1. mars en ekki afturvirkt eins og gert er ráð fyrir í frumvarpnu.
    Meiri hluti nefndarinnar telur að lögskýringargögnin sýni fram á vilja og tilgang löggjafarinnar og að hann sé skýr og að lagatæknileg mistök sem urðu við setningu laga nr. 116/2016 séu augljós mistök og í ósamræmi við vilja löggjafans og tilgang löggjafarinnar. 1. minni hluti er sammála því að lögskýringargögnin sýni fram á vilja og tilgang en telur hins vegar að ekki sé hægt að ætlast til þess að fólk skoði lögskýringargögn til að kanna raunveruleg réttindi sín. Lagatextinn er skýr og lagatæknilegu mistökin eru ekki svo bersýnileg að 1. minni hluti telji mögulegt að almenningur geti áttað sig á að um augljós mistök sé að ræða. 1. minni hluti telur að lögin verði að gefa rétta mynd af réttarstöðu einstaklinga og að óæskilegt sé að leggja það á herðar almennings að sækja rétt sem hann augljóslega á. Þá komu þau sjónarmið fram fyrir nefndinni að lagatextinn sjálfur gæti skapað rétt þó um mistök væri að ræða og þrátt fyrir að lögskýringargagögn gefi annað til kynna. Fyrir þann hóp sem þetta varðar er þetta augljós íþyngjandi leiðrétting að því leyti að stæðu lögin óbreytt mundi hópurinn eignast betri rétt en hann fær nú gagnvart ríkissjóði.
    Í áliti meiri hlutans kemur fram að hann telji að engar réttmætar væntingar til frekari ellilífeyrisgreiðslna hafi skapast og því hafi enginn orðið fyrir tjóni. 1. minni hluti telur út frá því sem fram kom hjá gestum nefndarinnar að spurning um réttmætar væntingar verði ekki fyrirstaða í bótamáli. Réttmætar væntingar eru ekki sterkt hugtak hér á landi. Eignarréttarvernd stjórnarskrárinnar er mjög sterk og skal allar skerðingar á eignarrétti ávallt bæta. Mögulega er það ástæðan fyrir því að aðeins örfáir dómar hafa fjallað um réttmætar væntingar. Út frá lögunum eins og þau standa nú er ljóst að lögmætar væntingar hafa skapast hvað svo sem segja má um réttmæti þeirra.
    1. minni hluti hefur verulegar áhyggjur af því fordæmi sem meiri hlutinn setur með afturvirkri lagasetningu og telur því mjög áhættusamt og óvarlegt að fallast á afturvirkni í þessu sambandi.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að veruleg áhætta væri á að ríkið væri bótaskylt vegna mistakanna. Verði niðurstaða dómstóla á þann veg getur Alþingi beðið álitshnekki í samfélaginu sem 1. minni hluti getur illa sætt sig við. Í ljósi þess og alls framangreinds leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    3. gr. orðist svo:
    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Alþingi, 24. febrúar 2017.

Halldóra Mogensen,
frsm.
Guðjón S. Brjánsson.