Ferill 252. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 350  —  252. mál.
Flutningsmenn.
Frumvarp til lagaum sérstakar fjáröflunarráðstafanir í vegamálum.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Ari Trausti Guðmundsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir.


Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað „43,25 kr.“ og „45,85 kr.“ í 1. mgr. 15. gr. laganna kemur: 52 kr.; og: 54,75 kr.

Breyting á lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, með síðari breytingum.

2. gr


    Í stað „60,10 kr.“ í 4. mgr. 1. gr. laganna kemur: 68,52 kr.

3. gr.

    Fjárheimildir Vegagerðarinnar til nýframkvæmda á árinu 2017 skulu aukast umfram það sem fjárlög greina sem nemur áætluðum tekjum vegna laga þessara eða um 2.000 millj. kr.

4. gr.

    Á árinu 2017 er Vegagerðinni heimilt að færa af viðhalds- og þjónustuliðum allt að 500 millj. kr. til nýframkvæmda.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. apríl 2017.

Greinargerð.

    Í lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og í lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, eru Vegagerðinni skýrt markaðar tekjur af innheimtu sérstaks vörugjalds af bensíni og bensíngjalds og af olíugjaldi. Mikið vantar upp á að þessir mörkuðu tekjustofnar hafi verið uppfærðir til samræmis við verðlagsþróun undanfarin ár.
    Í greinargerð með tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2015–2018 sem lögð var fram á Alþingi á síðasta löggjafarþingi (638. mál) var talið að Vegagerðin hefði úr að spila a.m.k. 7 milljörðum kr. lægri fjárhæð en ella væri af þessum sökum, sbr. kafla 1.1.1 í greinargerðinni þar sem fjallað er um markaðar tekjur. Sennilega er þar fremur um vanáætlun að ræða en hitt sökum mikillar umferðaraukningar að undanförnu. Þó svo að markaðar tekjur til vegamála hafi verið hækkaðar lítillega umfram áætlaða verðlagsþróun í fjárlögum þessa árs breytir það ekki því að enn er mikill slaki í þessum tekjustofnum til vegamála.
    Frumvarp það sem hér er flutt gengur út á að taka skref í átt til þess að færa helstu markaða tekjustofna til vegamála, þ.e. aðra en kílómetragjald, í átt til þess að vera fullnýttir miðað við þróun verðlags frá því að þeir voru upphaflega ákvarðaðir. Er ekki vanþörf á, sbr. síendurteknar fréttir af ófremdarástandi á vegum landsins og hávær mótmæli vegna þess niðurskurðar frá samþykktri samgönguáætlun sem mest er rætt um þessa dagana.
    Sú ráðstöfun fyrri ríkisstjórnar að færa ekki markaða tekjustofna til vegamála upp til samtímaverðlags hefur aukið stórlega á vandann og er enn óskiljanlegri en ella í ljósi lágs heimsmarkaðsverðs á eldsneyti undanfarin ár auk þess sem styrking krónunnar hefur einnig gert innflutning eldsneytis ódýrari fyrir landsmenn. Kjöraðstæður hafa því verið undanfarin ár, og eru í raun og veru enn, sbr. styrkingu krónunnar að undanförnu og lága verðbólgu, til að vinna upp slakann í hinum mörkuðu tekjum og leggja með því aukið fé til vegamála. Nú verður ekki lengur við ríkjandi ófremdarástand unað og þar sem ekkert bendir til að ný ríkisstjórn hyggist hverfa frá sveltistefnu í samgöngumálum er frumvarp þetta um sérstakar fjáröflunarráðstafanir í vegamálum á árinu 2017 flutt.
    Vert að benda á að hér er um gjald á jarðefnaeldsneyti að ræða. Umhverfisvænni orkugjafar á borð við raforku og metan eru undanþegnir álögum á borð við bensín- og olíugjald en lágt verð á jarðefnaeldsneyti undanfarið hefur dregið úr því að neytendur breyttu háttum sínum og tækju að nota umhverfisvænni orku. Hækkun gjalda á jarðefnaeldsneyti gerir þannig umhverfisvænu orkukostina hagstæðari fyrir neytendur og greiðir fyrir nauðsynlegum og tímabærum orkuskiptum í samgöngum.
    Ef fylgt hefði verið verðlagshækkunum sérstaks bensíngjalds og olíugjalds frá því að þau voru fyrst lögð á árið 2005 væri sérstakt bensíngjald 68,61 kr. en ekki 43,25 kr. og olíugjald væri 85,38 kr. en ekki 60,10 kr. Sérstakt bensíngjald þyrfti þannig að hækka um 58,6% en olíugjald um 42,1% til að hafa við verðlagsþróun frá þeim tíma. Sýna þessar tölur ótvírætt hve mikið hefur verið gefið eftir í fjáröflun til vegamála að undanförnu en tekjur af umræddum gjaldstofnum renna lögum samkvæmt til Vegagerðarinnar og er þarna að finna verulegan hluta skýringa á því hversu erfitt Vegagerðinni hefur reynst að svara kröfum landsmanna um vegabætur mörg síðustu árin.
    Á sama tíma og svona hrapallega tókst til með markaða tekjustofna Vegagerðarinnar hefur ríkissjóður aukið hlut hins almenna bensíngjalds sem rennur beint í ríkissjóð og ekki er skylt að verja til vegamála. Er þetta gjald nú um 7,50 kr. hærra á hvern bensínlítra en það væri miðað við upphaflega álagningu árið 2005.
    Með því að hækka sérstakt vörugjald af bensíni, bensíngjald og olíugjald um u.þ.b. þriðjung verðlagshækkunar frá 2005 til 2017 eins og hér er lagt til hækkar bensíngjald um 8,75 kr. á lítrann en olíugjald um 8,52 kr. á lítrann. Miðað við áætlanir um eldsneytissölu og þær hækkanir sem hér eru lagðar til, og kæmu til framkvæmda frá og með 1. apríl næstkomandi, mætti auka tekjur til vegamála um nálægt 2 milljarða kr. á árinu 2017. Með því móti og einnig með því að tryggja Vegagerðinni auknar fjárheimildir til nýframkvæmda sem þeirri tekjuaukningu nemur, ásamt með því að Vegagerðin hefði heimild til að færa allt að hálfum milljarði kr. frá viðhalds- og þjónustuliðum, má bæta nokkuð úr því ófremdarástandi sem við blasir. Nokkrar brýnar nýframkvæmdir sem eru á gildandi samgönguáætlun, en ráðherra hyggst nú strika út, gætu með þessu farið í útboð og komist af stað á árinu. Ljóst er þó að miklu meira þarf til að koma á næstu missirum og verður áfram barist fyrir því.