Ferill 108. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 362  —  108. mál.
Leiðréttur texti.
Svar


samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Einari Brynjólfssyni um viðbrögð við lokun neyðarbrautar.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til að bregðast við lokun svokallaðrar neyðarbrautar (NA/SV) á Reykjavíkurflugvelli sem hefur leitt til þess að við óhagstæð veðurskilyrði er ógerlegt að lenda sjúkraflugvélum í nánd við eina hátæknisjúkrahús þjóðarinnar?

    Miklar umræður hafa verið um hlutverk Reykjavíkurflugvallar í flugsamgöngukerfi landsins í áratugi og ekki síst varðandi staðsetningu hans. Eðlilega hefur athyglin beinst að því hlutverki flugvallarins að vera mikilvægur hluti af almenningssamgöngum milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt hefur sérstök áhersla verið á flutning sjúklinga og slasaðra á Landspítalann og reglubundna flugstarfsemi Landhelgisgæslunnar. Þá hafa hlutverkum þessa flugvallar sem varaflugvallar og til kennslu og þjálfunar flugmanna verið gerð umtalsverð skil. Hins vegar hefur öryggishlutverk flugvallarins vegna náttúruvár og annarra ófyrirséðra atburða sem ógnað geta samfélaginu ekki fengið eins mikla umfjöllun. Í janúar ákvað ráðherra að hefja nánari skoðun á þeim öryggisþætti sem í víðtækum skilningi flokkast undir almannavarnir og setja í samhengi við meginstarfsemi Reykjavíkurflugvallar. Til verksins var fenginn Þorgeir Pálsson, prófessor og fyrrverandi flugmálastjóri, og er miðað við að skýrslu verði skilað í maí nk.
    Hinn 19. apríl 2013 undirrituðu Reykjavíkurborg og þáverandi innanríkisráðherra, Ögmundur Jónasson, samning um nýja flugstöð fyrir innanlandsflug við Reykjavíkurflugvöll. Samhliða yrði flugbraut 06/24 aflögð og gerði fjármála- og efnahagsráðuneytið samning við Reykjavíkurborg um það land sem losnaði við lokun brautarinnar og færslu flugvallargirðingar. Hinn 25. október 2013 undirritaði þáverandi innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, viðaukasamning við Reykjavíkurborg þar sem m.a. var kveðið á um breytingar í skipulagi borgarinnar og að loka skyldi brautinni fyrir árslok 2013. Upp kom mikil andstaða við lokun brautar 06/24 og ákvað þáverandi innanríkisráðherra, Ólöf Nordal, að endurskoða ákvörðunina. Látið var reyna á málið fyrir dómstólum. Hinn 9. júní 2016 féll dómur í Hæstarétti þess efnis að farið skyldi að samkomulaginu og flugbrautinni lokað.
    Samgöngustofa hefur eftirlit með rekstri flugvalla. Á grundvelli reglugerðar um flugvelli nr. 464/2007 skulu fyrirhugaðar breytingar á rekstri flugvalla gerðar í samráði við Samgöngustofu. Erindi um lokun flugbrautar 06/24 barst til Samgöngustofu frá Isavia árið 2014. Því fylgdi matsgerð Isavia þar sem lagt var mat á flugöryggislega áhættu af breytingunni fyrir notendur flugvallarins og kynntar ráðstafanir til að tryggja áframhaldandi þjónustu fyrir notendur án þess að draga úr öryggi. Ekki var lagt mat á áhrif á aðra þætti, svo sem neyðarskipulag almannavarna, sjúkraflutninga, fjárhagslegar afleiðingar á flugrekstur né flugvallarkerfið í heild.
    Samgöngustofa hefur heimilað lokun brautarinnar. Stofnunin hefur aftur á móti ekki afgreitt málið endanlega þar sem eftir er að taka afstöðu til ýmissa ráðstafana sem Isavia hefur tilkynnt að nauðsynlegar séu vegna lokunarinnar til að auka nýtingu og bæta þjónustu vallarins með þeim brautum sem eftir eru. Hér er m.a. um að ræða ráðstafanir til að auka viðnám og bæta nýtingu brauta í hálku, hliðarvindi og við önnur óhagstæð veðurskilyrði. Í þeim tilgangi var nýr og fullkomnari brautasópur keyptur til snjóhreinsunar á brautum. Þá hefur verklagi við snjóhreinsun og hálkuvarnir verið breytt þannig að fyrr er brugðist við en áður. Unnið er að því að finna heppilegt umhverfisvænt hálkuvarnarefni til að nota við erfiðar aðstæður þegar sandur dugir ekki til.
    Eins og fram hefur komið hefur meiri hlutinn í borgarstjórn Reykjavík ekki tekið vel í hugmyndir um að opna neyðarbrautina aftur, jafnvel til skemmri tíma. Ljóst er því að torsótt verður að ná sátt um það við núverandi meiri hluta borgarstjórnar.
    Ráðuneytið hefur skoðað að opna NA/SV-flugbraut á Keflavíkurflugvelli sem er í sömu stefnu og braut 06/24 á Reykjavíkurflugvelli. Miðað við þá forsendu að hún yrði eingöngu nýtt sem varabraut fyrir innanlandsflug er kostnaður við opnun hennar áætlaður um 240 millj. kr. Til skoðunar er hvort aðrar ódýrari lausnir séu mögulegar við að nýta brautina.