Ferill 123. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 363  —  123. mál.
Svar


ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Nichole Leigh Mosty um fjölda vínveitingaleyfa.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hversu mörg eru vínveitingaleyfi á Íslandi og hve mörg slík leyfi voru gefin út á árunum 2010–2016?

    Þegar vísað er til vínveitingaleyfa getur verið átt við veitingastaði og hótel sem hafa leyfi til sölu áfengis, þ.e. veitingahús í flokki II og III og gististaðir í flokki IV og V (samkvæmt eldri lögum) hafa leyfi til sölu áfengra drykkja. Sýslumenn eru leyfisveitendur samkvæmt lögum nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Því var fyrirspurnin send til sýslumannsembætta landsins sem í kjölfarið sendu eftirfarandi upplýsingar til ráðuneytisins:
    1.    Á Vesturlandi eru í gildi 104 rekstrarleyfi sem heimila vínveitingar af einhverju tagi. Útgefin leyfi á árunum 2015–2016 eru samtals 65. Ekki bárust gögn er varða árin 2010–2014.
    2.    Á Austurlandi eru í gildi 66 rekstrarleyfi sem heimila vínveitingar af einhverju tagi. Útgefin leyfi á árunum 2010–2016 eru samtals 128.
    3.    Í Vestmannaeyjum er í gildi 21 rekstrarleyfi sem heimila vínveitingar af einhverju tagi. Útgefin leyfi á árunum 2010–2016 eru samtals 46.
    4.    Á Norðurlandi vestra eru í gildi 56 rekstrarleyfi sem heimila vínveitingar af einhverju tagi. Útgefin leyfi á árunum 2010–2016 eru samtals 111.
    5.    Á Suðurnesjum eru í gildi 57 rekstrarleyfi sem heimila vínveitingar af einhverju tagi. Útgefin leyfi á árunum 2010–2016 eru samtals 99.
    6.    Á höfuðborgarsvæðinu eru í gildi 433 rekstrarleyfi sem heimila vínveitingar af einhverju tagi. Útgefin leyfi á árunum 2012–2016 eru samtals 426. Engin gögn er varða árin 2010–2011.
    7.    Á Suðurlandi eru í gildi 185 rekstrarleyfi sem heimila vínveitingar af einhverju tagi. Útgefin leyfi á árunum 2010–2016 eru samtals 273.
    8.    Á Vestfjörðum eru í gildi 64 rekstrarleyfi sem heimila vínveitingar af einhverju tagi. Útgefin leyfi á árunum 2010–2016 eru samtals 125.
    9.    Á Norðurlandi eystra eru í gildi 168 rekstrarleyfi sem heimila vínveitingar af einhverju tagi. Engin gögn bárust vegna útgefinna leyfa á milli ára.
    Samtals eru því í gildi 1.154 rekstrarleyfi 1 sem heimila vínveitingar af einhverju tagi á landsvísu. Útgefin leyfi, 2 samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur undir höndum, á árunum 2010–2016 eru ríflega 1.273 talsins. 3

1    Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum sýslumannsembætta er í sumum tilvikum erfitt að sækja þessar upplýsingar og þar af leiðandi ekki hægt að fullyrða að um nákvæma talningu sé að ræða.
2    Á eftirfarandi slóð má finna lista yfir öll útgefin rekstrarleyfi á Íslandi:
     www.syslumenn.is/thjonusta/utgefin-leyfi/veitinga-og-gististadir/.
    Þessar upplýsingar eru keyrðar upp úr leyfisveitingakerfinu „Starfanda“. Hægt er að takmarka eftir gististöðum/veitingastöðum og innbyrðis flokkun þeirra.
3    Samkvæmt þeim gögnum sem ráðuneytið fékk afhent. Ekki bárust gögn er varða þetta atriði frá öllum sýslumannsembættum.