Ferill 94. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 374  —  94. mál.
Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Eygló Harðardóttur um umsóknarferli hjá sýslumönnum.


     1.      Af hverju þarf að skila inn ljósmynd og umsókn á pappír þegar sótt er um ökuskírteini hjá sýslumanni en ekki þegar sótt er um vegabréf á sama stað?
    Þjóðskrá Íslands gefur út almenn vegabréf til íslenskra ríkisborgara en sýslumenn taka við umsóknum um vegabréf fyrir hönd Þjóðskrár, sbr. nánar ákvæði laga um vegabréf, nr. 136/1998, og ákvæði reglugerðar um íslensk vegabréf nr. 560/2009. Við móttöku umsókna er notaður sérhæfður búnaður frá Þjóðskrá sem býður m.a. upp á að tekin sé stafræn mynd af umsækjanda á starfsstöð sýslumanns.
    Sýslumenn gefa út ökuskírteini í umboði ríkislögreglustjóra, sbr. nánar ákvæði umferðarlaga, nr. 50/1987, og reglugerðar um ökuskírteini nr. 830/2011. Samkvæmt reglugerðinni skal umsókn m.a. fylgja ljósmynd af umsækjanda á ljósmyndapappír. Er þar um gamalt verklag að ræða sem ekki hefur fylgt tækniþróun undanfarinna ára.

     2.      Hvaða áform hefur ráðherra um að einfalda og tæknivæða umsóknarferli hjá sýslumönnum?
    Fullt tilefni er til að endurskoða framangreint verklag við afgreiðslu umsókna um ökuskírteini og færa þannig framkvæmdina til nútímans. Mun ráðherra því þegar setja af stað undirbúning þess að heimila töku stafrænna mynda af umsækjendum um ökuskírteini á starfsstöðvum sýslumanna í samráði við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, en reglugerð um ökuskírteini er á málefnasviði hans.