Ferill 308. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 420  —  308. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir árið 2016.


1. Inngangur.
    Á vettvangi Evrópuráðsþingsins á árinu 2016 bar hæst flóttamannavandann í Evrópu, stöðu mannréttinda og lýðræðis í Tyrklandi og baráttuna við hryðjuverk. Neyðarástandið í Úkraínu var einnig ofarlega á dagskrá, ekki síst hlutdeild Rússlands í átökunum.
    Evrópuráðsþingið ályktaði um flóttamannavandann í álfunni á öllum þingfundum ársins 2016. Á janúarfundi þingsins voru aðildarríki Evrópuráðsins hvött til að efla leitar- og björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafinu og auka stuðning sinn við viðleitni Grikklands, Ítalíu, Serbíu og Makedóníu til að taka á vandanum. Jafnframt var kallað eftir auknum rannsóknum á og aðgerðum til að uppræta starfsemi þeirra sem smygla fólki á milli landa og sækja þá til saka. Á aprílfundi sínum gerði þingið alvarlegar athugasemdir við flóttamannasamning Evrópusambandsins og Tyrklands frá 18. mars 2016. Dregið var í efa að samningurinn sjálfur og framkvæmd hans stæðist alþjóðleg mannréttindalög. Gríska hæliskerfið hefði ekki getu til að afgreiða hælisumsóknir á viðunandi máta, varðhald hælisleitenda á grísku eyjunum samræmdist að öllum líkindum ekki mannréttindasáttmála Evrópu og Tyrkland veitti hælisleitendum ekki þá vernd sem alþjóðalög krefðust. Stjórnvöld í Grikklandi og Tyrklandi voru beðin um að tryggja að alþjóðlegir staðlar væru að fullu virtir við móttöku og afgreiðslu umsókna flótta- og farandverkamanna. Á októberfundi sínum ályktaði þingið að hvetja aðildarríki til að efla vernd fylgdarlausra ólögráða ungmenna í Evrópu, bæði heima fyrir og með svæðisbundnu og alþjóðlegu samstarfi. Mælst var til þess að aðildarríki neituðu aldrei fylgdarlausum ólögráða ungmennum inngöngu, í samræmi við alþjóðleg mannréttinda-, mannúðar- og flóttamannalög.
    Á júnífundi þingsins var ályktað um virkni lýðræðisstofnana í Tyrklandi. Lýst var yfir vaxandi áhyggjum af stöðu tjáningar- og fjölmiðlafrelsis, réttarríkisins og mannréttinda í landinu. Tyrknesk stjórnvöld voru beðin um að afnema lög sem gera það refsivert að móðga forseta landsins, tyrknesku þjóðina, ríkið, stofnanir þess eða stefnu stjórnvalda. Undanfarin tvö ár hafa um tvö þúsund mál gegn blaðamönnum og fræðimönnum, sem eru sakaðir um að hafa móðgað forseta landsins, verið sótt fyrir tyrkneskum dómstólum. Þingið lýsti jafnframt yfir áhyggjum af þeim mikla fjölda vefsíðna sem stjórnvöld hefðu lokað sem og breytingum á lögum um skipan dómara og saksóknara sem vektu upp spurningar um sjálfstæði dómstóla landsins og afskipti framkvæmdarvaldsins af dómskerfinu. Handtökur lýðræðislega kjörinna kúrdískra borgarstjóra og uppsögn annarra vekti einnig áhyggjur sem og afleiðingar langvarandi útgöngubanns og ítrekaðra mannréttindabrota í suðausturhluta landsins í tengslum við aðgerðir stjórnvalda á svæðinu. Þingið harmaði einnig að friðarviðræðum við Kúrda hefði verið hætt sumarið 2015. Á októberfundi þingsins var staða mála í Tyrklandi eftir valdaránstilraun þar í landi 15. júlí 2016 ofarlega á dagskrá. Margir þingmenn lýstu yfir áhyggjum af því að Tyrkland væri að fjarlægjast gildi Evrópuráðsins og gagnrýndu harðlega viðbrögð tyrkneskra stjórnvalda við valdaránstilrauninni. Aðrir þingmenn sögðu viðbrögð stjórnvalda eðlileg í viðleitni til að tryggja lýðræðið og réttarríkið.
    Á aprílfundi þingsins var ályktað um brýna þörf á að taka á veikleikum í öryggiskerfum Evrópuríkja og efla aðgerðir gegn hryðjuverkum. Þingið sagði hryðjuverkaárásirnar í Brussel 22. mars 2016 hafa að hluta komið til vegna veikleika í öryggiskerfum Belgíu, Evrópusambandsins og alþjóðasamfélagsins og kallaði eftir auknu samstarfi, samræmingu og upplýsingamiðlun á milli evrópskra löggæslu- og öryggisstofnana.
    Líkt og síðustu ár var aðild Rússland að átökunum í Úkraínu og ástandið þar í landi ofarlega á blaði. Í apríl 2014 var landsdeild Rússlands svipt atkvæðisrétti í Evrópuráðsþinginu vegna aðkomu Rússlands að átökunum. Staða landsdeildar Rússlands er óbreytt og hefur hún ekki tekið þátt í störfum Evrópuráðsþingsins síðastliðin tvö ár. Á októberfundi þingsins árið 2016 fordæmdi þingið enn og aftur aðkomu Rússlands að átökunum og ólöglega innlimun landsins á Krímskaga. Aðilar að Minsk-samkomulaginu voru beðnir um að hrinda í framkvæmd öllum ákvæðum samninganna, þar á meðal um vopnahlé.
    Í upphafi árs var Pedro Agramunt, þingmaður landsdeildar Spánar og flokkahóps kristilegra demókrata, kjörinn forseti Evrópuráðsþingsins til eins árs.

2. Almennt um Evrópuráðið og Evrópuráðsþingið.
    Hlutverk Evrópuráðsins er að standa vörð um grundvallarhugsjónir aðildarríkjanna um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið, auk þess að stuðla að efnahagslegum og félagslegum framförum. Í þeim tilgangi beitir ráðið sér m.a. fyrir gerð og samþykkt bindandi fjölþjóðasáttmála.
    Ályktanir og fjölþjóðasáttmálar Evrópuráðsins hafa haft víðtæk áhrif í álfunni allri. Fjölmargir sáttmálar ráðsins á ýmsum sviðum þjóðlífsins eru mikilvægar mælistikur fyrir þjóðir sem eru að koma á lýðræði og réttarríki, en mælistikur Evrópuráðsins gilda einnig fyrir aðrar fjölþjóðastofnanir og alþjóðleg samtök. Þar ber hæst mannréttindasáttmála Evrópu og félagsmálasáttmála Evrópu.
    Frá lokum kalda stríðsins hefur Evrópuráðið m.a. gegnt því veigamikla hlutverki að styðja við lýðræðisþróun í nýfrjálsum ríkjum Mið- og Austur-Evrópu, m.a. með tæknilegri aðstoð á sviði laga og stjórnsýsluuppbyggingar auk kosningaeftirlits. Aðildarríkjum ráðsins hefur fjölgað ört síðan Berlínarmúrinn féll og eru þau nú 47 talsins. Svartfjallaland er nýjasta aðildarríkið en það sleit ríkjasambandi við Serbíu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu í maí 2006 og gerðist aðili að Evrópuráðinu í maí 2007. Þar með mynda ríki Evrópuráðsins eina órofa landfræðilega heild í álfunni, að Hvíta-Rússlandi undanskildu.
    Evrópuráðsþingið er vettvangur fulltrúa þjóðþinga 47 aðildarríkja Evrópuráðsins. Á þinginu sitja 324 fulltrúar og jafnmargir til vara. Ólíkt ráðherranefnd Evrópuráðsins þar sem hvert ríki hefur eitt atkvæði fer fjöldi fulltrúa á þinginu eftir stærð þjóðar. Á þinginu starfa níu fastanefndir og fimm flokkahópar. Þá sitja forseti, 20 varaforsetar, formenn fastanefnda og flokkahópa í framkvæmdastjórn þingsins, sem hefur umsjón með innri málefnum þess. Sami hópur skipar stjórnarnefnd þingsins ásamt formönnum landsdeilda. Þingið kemur saman ársfjórðungslega, eina viku í senn, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Stjórnarnefndin fundar þrisvar á milli þingfunda. Loks kemur sameiginleg nefnd þingsins með ráðherranefnd Evrópuráðsins reglulega saman samhliða fundum Evrópuráðsþingsins í Strassborg.
    Evrópuráðsþingið er nokkurs konar hugmyndabanki Evrópuráðsins um stjórnmál, efnahagsmál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfis- og orkumál og menningar- og menntamál.
    Mikilvægi þingsins felst einkum í því að:
    –        eiga frumkvæði að aðgerðum og beina tillögum til ráðherranefndarinnar,
    –        hafa eftirlit með efndum fjölþjóðlegra skuldbindinga og þrýsta á um skjótar aðgerðir ef misbrestur verður þar á, og
    –        vera vettvangur fyrir skoðanaskipti og samráð þingmanna aðildarríkjanna og styrkja þannig lýðræðismenningu og efla tengsl þjóðþinga.
    Á þingfundum Evrópuráðsþingsins eru skýrslur nefnda ræddar og ályktað á grundvelli þeirra. Þingið getur beint tilmælum og álitum til ráðherranefndarinnar sem fjallar um þau og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum. Evrópuráðsþingið á þannig oft frumkvæði að gerð fjölþjóðlegra sáttmála sem eru lagalega bindandi fyrir aðildarríkin. Sem dæmi má nefna að Evrópusáttmálinn um aðgerðir gegn mansali, sem tók gildi árið 2008, á rætur sínar að rekja til ályktana Evrópuráðsþingsins frá árunum 1997 og 2002. Þar eru stjórnvöld hvött til þess að grípa til samstilltra aðgerða til að stemma stigu við þeirri skipulögðu glæpastarfsemi sem mansal er. Einnig má nefna að á árinu 2011 lauk vinnu við gerð samnings sem tekur á ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi en gerð hans er einnig í samræmi við ályktanir Evrópuráðsþingsins.
    Evrópuráðsþingið er fjölþjóðastofnun þar sem þingmenn frá öllum ríkjum Evrópu, að Hvíta-Rússlandi undanskildu, starfa saman á jafnréttisgrundvelli. Jafnframt hafa störf Evrópuráðsþingsins bein áhrif á störf þjóðþinganna þar sem fulltrúar á Evrópuráðsþinginu eru þingmenn í heimalöndum sínum, ólíkt því sem á t.d. við um Evrópuþingið. Þingfundir Evrópuráðsþingsins þar sem þingmenn bera saman bækur sínar og skiptast á hugmyndum eru því afar mikilvægt framlag til löggjafarstarfs heima fyrir og hafa þeir hraðað mjög og stutt þá öru lýðræðisþróun sem hefur orðið í Evrópu eftir lok kalda stríðsins. Þá hefur reynslan sýnt að þjóðir sem hafa skýr markmið í störfum sínum innan þingsins og kappkosta að ná þeim fram geta haft áhrif langt umfram stærð og pólitískt bolmagn. Sú staðreynd varpar skýru ljósi á mikilvægi og ekki síður möguleika fyrir íslenska hagsmuni á Evrópuráðsþinginu.

3. Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.
    Fyrstu tvo mánuði ársins 2016 voru aðalmenn Karl Garðarsson formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Unnur Brá Konráðsdóttir varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Ögmundur Jónasson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Á sama tíma voru varamenn Jóhanna María Sigmundsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Brynjar Níelsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Oddný G. Harðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar. Hinn 7. mars 2016 tók Valgerður Gunnarsdóttir sæti Unnar Brár Konráðsdóttur sem aðalmaður og Unnur Brá tók sæti Brynjars Níelssonar sem varamaður. Sat sú Íslandsdeild óbreytt fram að kosningum 29. október 2016.
    Skipan Íslandsdeildar í nefndir Evrópuráðsþingsins var sem hér segir:
     *      Sameiginleg nefnd Evrópuráðsþingsins og ráðherraráðsins: Karl Garðarsson.
     *      Stjórnarnefnd: Karl Garðarsson.
     *      Stjórnmála- og lýðræðisnefnd: Karl Garðarsson.
     *      Laga- og mannréttindanefnd: Unnur Brá Konráðsdóttir/Valgerður Gunnarsdóttir.
     *      Nefnd um félagsmál, heilbrigðismál og sjálfbæra þróun: Ögmundur Jónasson.
     *      Nefnd um fólksflutninga og málefni flóttamanna: Ögmundur Jónasson.
     *      Nefnd um menningar- og menntamál, fjölmiðla og vísindi: Karl Garðarsson.
     *      Jafnréttisnefnd: Unnur Brá Konráðsdóttir/Valgerður Gunnarsdóttir.
     *      Eftirlitsnefnd: Karl Garðarsson og Ögmundur Jónasson.
     *      Reglunefnd: Ögmundur Jónasson.
    Ögmundur Jónasson var jafnframt tengiliður Alþingis við baráttuherferðir Evrópuráðsþingsins um afnám kynferðisofbeldis gegn börnum annars vegar og gegn ofbeldi gegn konum hins vegar. Ritari Íslandsdeildar var Vilborg Ása Guðjónsdóttir.
    Íslandsdeild fundaði með mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins, Nils Muiznieks, í Reykjavík 10. júní 2016. Fundinn sóttu Karl Garðarsson formaður, Ögmundur Jónasson og Valgerður Gunnarsdóttir, ásamt ritara Íslandsdeildar. Á dagskrá voru mannréttindi fatlaðra á Íslandi, þar á meðal staða mála varðandi fullgildingu Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Jafnframt var rætt um löggjöf gegn mismunun á Íslandi og skipulag mannréttindaverndar hér á landi.
    Stjórnmála- og lýðræðisnefnd Evrópuráðsþingsins fundaði í Hörpu 26. september 2016 í boði Íslandsdeildar. Fundinn sóttu um 60 þingmenn frá 30 aðildarríkjum Evrópuráðsins, sjá nánar hér á eftir.

4. Fundir Evrópuráðsþingsins 2016.
    Þingfundir Evrópuráðsþingsins eru haldnir í Evrópuhöllinni í Strassborg fjórum sinnum á ári, að jafnaði í janúar, apríl, júní og október. Auk þess koma framkvæmdastjórn og stjórnarnefnd Evrópuráðsþingsins saman til funda á milli þinga og afgreiða mál sem æðsta vald þingsins.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 25.–29. janúar 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Karl Garðarsson formaður, Brynjar Þór Níelsson og Ögmundur Jónasson, auk Sigrúnar Brynju Einarsdóttur, starfandi ritara.
    Helstu mál á dagskrá þingsins voru flóttamannavandinn í Evrópu og fólksflutningar til álfunnar sem og alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi. Þingið hófst á kjöri forseta þingsins og var Pedro Agramunt frá Spáni einn í framboði. Í opnunarræðu sinni ræddi Agramunt um helstu áskoranir sem Evrópa stendur frammi fyrir. Auk fyrrgreindra atriða kvað Agramunt þar einnig bera hæst óleystar deilur á fjölmörgum svæðum í álfunni og uppgang hægri og vinstri popúlisma og þjóðernishyggju samhliða rofi lýðræðislegra meginreglna og mannréttinda á sumum stöðum.
    Utanríkisráðherra Búlgaríu, Daniel Mitov, ávarpaði einnig þingið og sagði meðal annars frá áhersluatriðum búlgörsku formennskunnar í ráðherranefnd Evrópuráðsins. Þar var efst á baugi að auka vernd réttinda barna og auðvelda ungu fólki aðgengi að menningu, að vernda fjölmiðla frá utanaðkomandi áhrifum og að vernda minnihlutahópa, m.a. aldraða, fatlaða, rómafólk og farandverkamenn. Hann sagði að mikilvægt væri að koma í veg fyrir að þessir hópar yrðu jaðarsettir og útilokaðir félagslega.
    Þá ávarpaði forseti Búlgaríu, Rosen Plevneliev, þingið og sagði að miklar framfarir hefðu orðið í landinu frá því að það gekk í Evrópuráðið árið 1992. Hann þakkaði leiðsögn ráðsins fyrir það hversu vel hefði tekist til með að koma á fót nútímalýðræðisríki þar sem mannréttindi væru í hávegum höfð. Hann ítrekaði að Búlgaría fylgdi ákvæðum Dyflinnarreglugerðarinnar og Schengen-samkomulagsins í tengslum við flóttamannavandann. Í máli hans kom einnig fram að Búlgarar sýndu öllum flóttamönnum samkennd og veittu öllum þeim sem mættu viðmiðum reglnanna stöðu flóttamanna á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Plevneliev sagði nauðsynlegt að takast á við orsakir hryðjuverka og öfgakenndra sjónarmiða, ekki bara afleiðingarnar. Hann sagði að félagsleg einangrun, ójafnræði, skortur á grundvallarmannréttindum, atvinnuleysi og slakar framtíðarhorfur kyntu undir hatri og ykju fylgi við öfgaöfl. Loks bar hann fram þá ósk að sameinuð og friðsæl Evrópa yrði endurreist með langtímamarkmið og langtímasýn í huga þar sem meginreglur Evrópuráðsins væru hafðar í hávegum en ekki hagsmunir einstakra þjóða. Leiðtogafundur væri að hans mati kjörinn vettvangur til að staðfesta á ný skuldbindingu aðildarríkjanna við grunngildi og meginreglur lýðræðis, mannréttinda og réttarríkis á æðstu pólitísku stöðum.
    Thorbjørn Jagland, framkvæmdastjóri Evrópuráðsins, lagði í árlegri framsögu sinni sérstaka áherslu á mál Ilgar Mammadov sem hefur setið í fangelsi í tvö ár í Aserbaídsjan og sætt þar illri meðferð. Jagland sagði að þótt Mammadov væri vissulega ekki eini Evrópubúinn sem hefði verið fangelsaður án saka væri hann hins vegar sá eini sem Mannréttindadómstóllinn hefði krafist að væri látinn laus. Jagland ræddi einnig um nefnd sem hann hefði sent til Krímskaga til að halda mannréttindum þar á lofti og um sérstakan fulltrúa sem hann hefði tilnefnt vegna flóttamannavandans.
    Með samþykkt ályktunar um flóttamannastrauminn yfir Miðjarðarhafið ákvað Evrópuráðsþingið að styðja að svokölluðum „hotspots“ yrði komið á fót til að afgreiða hælisumsóknir frá aðilum utan Evrópu svo að hægt væri að bera kennsl á fólk sem þyrfti alþjóðlega vernd áður en það legði í hættulegar sjóferðir. Einnig var kallað eftir því að gripið yrði til frekari aðgerða til að koma í veg fyrir starfsemi smyglhringja. Bent var á að á sama tíma ætti að halda áfram leitar- og björgunaraðgerðum á Miðjarðarhafinu og styðja mun betur við Grikkland og Ítalíu svo að hægt væri að setja upp stór neyðarskýli. Þá þyrfti að setja upp varanlegt kerfi til að hægt væri að koma flóttamönnum sem kæmu til þessara landa áfram til annarra Evrópulanda.
    Umræða fór fram á þinginu um hvernig hægt væri að berjast gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi og vernda jafnframt viðmið og gildi Evrópuráðsins. Samhliða því var rætt um erlenda vígamenn í Sýrlandi og Írak. Karl Garðarsson tók til máls í umræðunni fyrir hönd ALDE-flokkahópsins. Í ræðu sinni lagði hann áherslu á að ISIS væru ekki eingöngu stærstu og valdamestu hryðjuverkasamtök sem komið hefðu til sögunnar, þau væru líka þau ríkustu. Til að berjast gegn þeim þyrfti að stöðva peningastreymi til þeirra. Það væri óásættanlegt að mörg aðildarríki Sameinuðu þjóðanna létu ISIS fjármagn í té. Karl ræddi einnig um ástæður þess að ungt fólk gengi til liðs við hryðjuverkasamtök og sagði að til þess að berjast gegn því þyrfti að ráðast að rótum vandans og stöðva uppgang öfgasinnaðra afla. Það þyrfti að uppfræða ungt fólk og búa til fjölþætta áætlun til að takast á við vandann, bæði á alþjóðlegum grundvelli og innan hvers ríkis fyrir sig. Á sama tíma þyrftu aðildarríki Evrópuráðsins að hafa grunngildi þess í huga, mannréttindi, lög og reglu. Í ályktun sem samþykkt var á þinginu varðandi alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi var kallað eftir því að aðildarríkin tryggðu jafnvægi á milli nauðsynlegra aðgerða þegar kæmi að því að verja frelsi og öryggi borgaranna annars vegar og koma í veg fyrir að þessi réttindi yrðu fótum troðin hins vegar. Eins var samþykkt að yfirlýst neyðarástand ætti að takmarka við stysta mögulegan tíma og kallað eftir því að leyniþjónustur ríkjanna mundu auka samstarf sín á milli í stað þess að fylgjast með afmörkuðum hópum fólks sem hefði sýnt sig að hefði litla þýðingu. Í ályktun sem samþykkt var á þinginu varðandi erlenda vígamenn í Sýrlandi og Írak var einnig kallað eftir tækjum til að fylgjast með útbreiðslu öfgafulls áróðurs á netinu, því að menntun og fræðsla trúarleiðtoga væri í samræmi við lýðræðisleg gildi, og að áhersla yrði lögð á að fyrirbyggja að öfgahópar spryttu upp í fangelsum.
    Í ályktun um árásir á konur í evrópskum borgum og þörfina á alhliða viðbrögðum við þeim fordæmdi þingið atburði í München á gamlárskvöld og kallaði eftir því að fjölmiðlar greindu hlutlaust og rétt frá slíkum atburðum, án þess þó að fordæma eða brennimerkja hluta íbúa hlutaðeigandi landa. Í ályktuninni kom fram að það að greina einungis frá atburðum að hluta, seint eða af hlutdrægni gæti gefið samsæriskenningum byr undir báða vængi, kynt undir hatri gagnvart hluta íbúa og stuðlað að vantrausti gagnvart yfirvöldum og fjölmiðlum. Þingmenn kröfðust þess að hinir brotlegu yrðu sóttir til saka og að árásirnar yrðu rannsakaðar. Jafnframt hvöttu þeir til þess að aðildarríki Evrópuráðsins fullgiltu Istanbúl-sáttmála ráðsins um aðgerðir gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi.
    Ögmundur Jónasson tók til máls fyrir hönd flokkahóps UEL í umræðu um spillingu meðal dómara og þörfina á því að fylgja eftir tillögum Evrópuráðsþingsins. Í máli hans kom m.a. fram að óháðir og óspilltir dómstólar væru vissulega eitt af mikilvægustu málum þingsins. Evrópuráðið legði til við aðildarríki sín að þarlend löggjöf fylgdi viðmiðum þess til að þau gætu orðið raunveruleg lýðræðissamfélög þar sem mannréttindi væru virt. Það skipti höfuðmáli að dómsvaldið væri byggt á þessum meginreglum þótt svo væri ekki alltaf. Skýrslan sem var samþykkt hvetti öll aðildarríki til að hrinda tillögum Evrópuráðsþingsins í framkvæmd til að fyrirbyggja og uppræta spillingu þar sem hún væri til staðar. Þar kæmu tilmæli GRECO-nefndarinnar sérstaklega til skoðunar.
    Á þinginu bar það við að vísað var aftur til nefndar ályktunartillögu um ástandið á Nagorno-Karabakh-svæðinu sem hafði að geyma ákall til Armena um að hverfa frá svæðinu sem þátt í Minsk-ferlinu, en framsögumaðurinn, Robert Walter, hafði sætt ásökunum um að vera hliðhollur Aserum í ályktunardrögunum. Hins vegar var samþykkt ályktun þess efnis að Armenar skyldu hætta að nota aðgang að vatni sem pólitískt vopn eða þrýsting á Asera á Nagorno-Karabakh-svæðinu.
    Einnig var samþykkt ályktun um málefni Kósóvó þess efnis að stofnun réttarríkis og uppræting spillingar ættu að vera forgangsatriði þarlendra stjórnvalda.
    Karl Garðarsson var kjörinn 2. varaformaður stjórnmálanefndarinnar og einn af varaforsetum fyrir hönd ALDE-flokkahópsins. Ögmundur Jónasson var einnig skipaður annar tveggja framsögumanna skýrslu eftirlitsnefndarinnar um stöðu mála í Moldóvu en þar ríkir upplausnarástand og núverandi stjórnvöld hafa verið sökuð um að beita réttarkerfinu í pólitískum tilgangi.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 18.–22. apríl 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Karl Garðarsson formaður, Valgerður Gunnarsdóttir varaformaður, og Ögmundur Jónasson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru flóttamannavandinn í Evrópu, mannréttindi flótta- og farandverkamanna á vestanverðum Balkanskaga og mat á aðgerðum sem ætlað er að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum. Þá fóru fram utandagskrárumræður um flóttamannasamning Evrópusambandsins við Tyrkland, Panama-skjölin og traust almennings á lýðræðiskerfinu, og brýna þörf á að taka á veikleikum öryggiskerfa Evrópuríkja eftir hryðjuverkaárásirnar í Brussel 22. mars 2016.
    Þingið gerði alvarlegar athugasemdir við flóttamannasamning Evrópusambandsins og Tyrklands frá 18. mars 2016 í ályktun um samninginn. Dregið var í efa að samningurinn sjálfur og framkvæmd hans stæðust alþjóðleg mannréttindalög. Talið var að gríska hæliskerfið hefði ekki getu til að afgreiða hælisumsóknir á viðunandi hátt, varðhald hælisleitenda á grísku eyjunum samræmdist að öllum líkindum ekki mannréttindasáttmála Evrópu og Tyrkland veitti hælisleitendum ekki þá vernd sem alþjóðalög krefðust. Beint var til Grikkja að hneppa hælisleitendur ekki sjálfkrafa í varðhald og að fylgja að öllu leyti lögum landsins og Evrópu- og alþjóðalögum varðandi bæði ástæður og skilyrði varðhalds hælisleitenda. Mælst er til þess að Evrópusambandið og aðildarríki þess framfylgi samkomulagi sínu frá 20. júlí 2015 um flutning flóttamanna frá Grikklandi og Ítalíu til annarra ríkja sambandsins, óháð þróun í framkvæmd samningsins við Tyrkland. Loks var kallað eftir að Tyrkland vísaði flóttafólki sem kæmi frá Grikklandi ekki aftur þangað sem líf þess eða frelsi kynni að vera í hættu og tryggði að alþjóðlegir staðlar væru að fullu virtir við móttöku og afgreiðslu umsókna flótta- og farandverkamanna.
    Í ályktun um mannréttindi flótta- og farandverkamanna á vestanverðum Balkanskaga bað þingið Makedóníu, Serbíu, Króatíu, Slóveníu, Grikkland og Austurríki um að vísa fólki ekki aftur þangað sem líf þess eða frelsi kynni að vera í hættu, í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu. Þá voru umrædd lönd beðin um að innleiða ekki stefnu sem svipti flóttamenn vernd vegna þjóðernis eða vegna handahófskenndra ástæðna og að tryggja að lögreglu- og öryggissveitir framkvæmdu landamæraeftirlit án þess að grípa til óhóflegrar valdbeitingar. Einnig voru þau beðin um að tryggja að móttökustöðvar veittu hælisleitendum viðeigandi aðbúnað og að hæliskerfi væru í samræmi við meginreglur alþjóðlegra mannréttindalaga.
    Ögmundur Jónasson tók þátt í utandagskrárumræðum um Panama-skjölin fyrir hönd síns flokkahóps. Hann sagði nýlegar uppljóstranir um aflandsfélög í Panama ekki koma á óvart í sjálfu sér, fólk hefði vitað af tilvist falins fjármálaheims. Yfirgengilegt umfang þessarar starfsemi hefði hins vegar komið á óvart. Nýlegir viðburðir á Íslandi, fjöldamótmæli og krafa um afsögn stjórnmálamanna sem tengdust Panama-skjölunum, endurspegluðu mikla reiði almennings yfir þeim raunveruleika að eitt gilti fyrir almenning og annað fyrir auðkýfinga, sem legðu ekki sitt af mörkum til velferðarkerfisins. Viðbrögð almennings væru tákn um heilbrigt lýðræði.
    Þingið ályktaði um brýna þörf á að taka á veikleikum í öryggiskerfum Evrópuríkja og efla aðgerðir gegn hryðjuverkum. Í ályktun sinni sagði þingið að hryðjuverkaárásirnar í Brussel 22. mars 2016 hefði að hluta komið til vegna veikleika í kerfum Belgíu, Evrópusambandsins og alþjóðasamfélagsins. Það hefði sýnt sig að samræming aðgerða innan stjórnkerfis Brusselborgar væri ekki nægilega skilvirk til að bregðast við nútíma öryggisþörfum. Lýst er yfir áhyggjum af vaxandi fjölda Evrópubúa sem ganga til liðs við hryðjuverkasamtök, ekki síst frá Frakklandi, Þýskalandi, Bretlandi, Belgíu, Danmörku og Svíþjóð. Belgía sé orðin að miðstöð liðssöfnunar öfgaíslamista og versnandi staða Daesh-samtakanna gæti leitt til enn þá verri þróunar í þessum efnum. Vegna skorts á pólitískri leiðsögn til að tryggja nauðsynlega samhæfingu og samstarf milli mismunandi löggæslu- og öryggisstofnana treysti lögreglan sér ekki til að fara inn á ákveðin svæði í evrópskum borgum þar sem öfgahyggja þrífist og hryðjuverkamenn eflist. Þingið kallar eftir auknu samstarfi, samræmingu og upplýsingamiðlun á milli evrópskra löggæslu- og öryggisstofnana, sem og alþjóðlegra, framkvæmd öflugra aðgerða og forvarna gegn öfgahyggju og öflugrar öryggisstefnu Evrópusambandsins. Ögmundur tók þátt í umræðum um málið fyrir hönd síns flokkahóps. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að tryggja jafnvægi milli aukinnar löggæslu og öryggisráðstafana annars vegar og vernd frelsis einstaklingsins hins vegar. Fara ætti hægt í auknar öryggisráðstafanir og leggja meiri áherslu á félagslega aðlögun. Karl Garðarsson, varaformaður nefndar Evrópuráðsþingsins um stjórnmál og lýðræði, tók einnig þátt í umræðunum fyrir hönd nefndarinnar. Hann sagði árásirnar í Brussel ekki vera þær fyrstu og ólíklega þær síðustu í Evrópu. Evrópuríki yrðu að gera sér grein fyrir þessari ógn og gera raunhæft mat á hugsanlegum öryggisglufum. Það væri á ábyrgð stjórnvalda ríkja að vernda líf borgara sinna og lýðræðisleg gildi. Meira samstarf og upplýsingamiðlun milli aðildarríkja í baráttunni gegn hryðjuverkum væri nauðsynleg. Ríki utan Evrópu þyrftu einnig að taka þátt í baráttunni. Hryðjuverkastarfsemi virti ekki landamæri og það væri á ábyrgð Evrópuríkja að berjast gegn henni með öllum mögulegum leiðum.
    Í ályktun um stjórnmálaþátttöku kvenna er mælst til þess að aðildarríki geri ráðstafanir sem stuðli að aukinni þátttöku kvenna í stjórnmálum. Þar á meðal skulu þau íhuga að setja jafnræðisreglu í stjórnarskrár sínar eða kosningalöggjöf. Hvað varðar kynjakvóta og aðrar svipaðar aðgerðir er mælst til þess að löggjöf um framboðslista stjórnmálaflokka miði að því að tryggja jafna þátttöku beggja kynja, að óháðar stofnanir, svo sem kosningadómstóll eða kosningaráð, hafi eftirlit með framkvæmd slíkra aðgerða og að sett séu viðurlög við vanefndum.
    Ögmundur tók þátt í umræðu um alþjóðlegar ógnir gegn lýðheilsu fyrir hönd síns flokkahóps. Hann sagði að styrkja ætti alþjóðlegar heilbrigðisreglur, framkvæmd þeirra og eftirlit með framfylgni þeirra. Sömuleiðis ætti að styrkja getu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til að bregðast skjótt við. Ögmundur lagði sérstaka áherslu á mikilvægi þess að gera heilbrigðiskerfi, lyf og bóluefni aðgengileg öllum, með sérstaka áherslu á fátækustu lönd heimsins.
    Ögmundur tók einnig þátt í umræðum um fólksflutninga sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum og efna- og kjarnorkurslysum, fyrir hönd síns flokkahóps. Hann sagði að þrátt fyrir augljósar vísbendingar um mikla aukningu í fólksflutningum vegna loftslagsbreytinga og annarra þátta tæki enginn alþjóðlegur samningur til allra þátta málsins, einungis pólitískra og öryggistengdra þátta. Alþjóðasamfélagið yrði að vera á tánum í þessu sambandi og líta sérstaklega til fátækustu hluta heimsins.
    Loks tók Ögmundur þátt í umræðum um hugverkaréttindi á stafrænum tímum. Hann sagði brot á hugverkarétti í gegnum internetið vissulega glæp sem refsa ætti fyrir líkt og aðra glæpi. Málið væri hins vegar ekki einfalt þar sem internetið væri vettvangur samskipta og að litið væri á öll afskipti af frelsinu sem þar ríkir sem brot á lýðræðislegum réttindum og þar með ógn við mannréttindi. Hann lagði sérstaka áherslu á mikilvægi þess að takast á við málefnið alþjóðlega.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um stöðu einstaklinga sem hafa verið hnepptir í varðhald í átökunum í Úkraínu, uppbyggingu fræðslu um lýðræði, gyðingaandúð í Evrópu, baráttuna gegn því að börn aðhyllist öfgahyggju, mannréttindi og samræður á milli menningarhópa, samstarfssamning Evrópuráðsins og Þjóðarráðs Palestínu og rökin gegn því að Evrópuráðið leggi fram bókun sem felur í sér nauðungarráðstafanir í geðlækningum.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 20.–24. júní 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sóttu fundinn Karl Garðarsson formaður, Valgerður Gunnarsdóttir varaformaður og Ögmundur Jónasson, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur ritara. Helstu mál á dagskrá voru slæm staða flóttamanna í Grikklandi, virkni lýðræðisstofnana í Tyrklandi og umboð og friðhelgi þingmanna Evrópuráðsþingsins. Þá var kyngerving barna og ofbeldi gegn farandverka- og flóttamönnum einnig til umræðu.
    Í ályktun um ástandið í Grikklandi lýsir þingið yfir miklum áhyggjum af aðstæðum flótta- og farandverkamanna í landinu, ekki síst börnum. Þingið biður grísk stjórnvöld um að tryggja að farandverka- og flóttamenn séu einungis settir í varðhald þegar nauðsyn krefur og að aðstæður þeirra séu í samræmi við alþjóðalög. Kallað er eftir að grísk stjórnvöld tryggi réttindi og hagsmuni vegalausra barna sem og að hæliskerfi landsins verði tafarlaust endurbætt í samræmi við evrópskar reglur og mannréttindasáttmála Evrópu. Þá kallar þingið eftir að Evrópusambandið (ESB), aðildarríki þess og þau ríki sem taka þátt í flutningsáætlun sambandsins (e. relocation scheme) sendi tafarlaust sérfræðinga til Grikklands til að aðstoða við endurbætur á hæliskerfi landsins, ásamt því að innleiða án tafar samkomulag frá september 2015 um flutning flóttamanna frá Grikklandi og Ítalíu til annarra ríkja ESB. Karl Garðarsson tók þátt í umræðum um málið fyrir hönd síns flokkahóps. Hann sagði nauðsynlegt að aðildarríki Evrópuráðsins styddu betur við bakið á þeim ríkjum sem flóttamenn koma til fyrst, ekki síst Tyrklandi og Grikklandi. Í Grikklandi ætti að vera hægt að leysa vandann, þar væru 54.500 flóttamenn, þar af 22 þúsund vegalaus börn, en á heimsvísu væru 65 milljónir manna á flótta. Veita þyrfti Grikklandi aukinn stuðning við endurbætur á hæliskerfi sínu sem væri svo gott sem óstarfhæft. ESB hefði verið beðið um að leggja til 400 sérfræðinga og 400 túlka til að hraða málum en í síðasta mánuði hefði sambandið einungis sent alls 63 sérfræðinga og 67 túlka. Flóttamenn þyrftu öruggan stað til að búa á, atvinnu, aðgang að heilbrigðisþjónustu og menntun fyrir börn sín. Það hlytu allir að geta verið sammála um það.
    Í ályktun um virkni lýðræðisstofnana í Tyrklandi er lýst yfir vaxandi áhyggjum af stöðu tjáningar- og fjölmiðlafrelsis, réttarríkisins og mannréttinda í landinu. Staðan veki upp alvarlegar spurningar um virkni lýðræðislegra stofnana Tyrklands. Þingið lýsti yfir áhyggjum af þessu og bað tyrknesk yfirvöld að afnema nýja löggjöf og lagabreytingar sem m.a. sviptu stóran hluta þingmanna tyrkneska þingsins friðhelgi, en gagnrýnendur sögðu lagabreytinguna fyrst og fremst beinast gegn kúrdískum þingmönnum. Einnig voru stjórnvöld beðin um að afnema lög sem gera það refsivert að móðga forseta landsins, tyrknesku þjóðina, ríkið, stofnanir þess eða stefnu stjórnvalda. Undanfarin tvö ár höfðu um tvö þúsund mál gegn blaðamönnum og fræðimönnum, sem eru sakaðir um að hafa móðgað forseta landsins, verið sótt fyrir tyrkneskum dómstólum. Þingið lýsti jafnframt yfir áhyggjum af þeim mikla fjölda vefsíðna sem stjórnvöld höfðu lokað sem og breytingum á lögum um skipan dómara og saksóknara sem vöktu upp spurningar um sjálfstæði dómstóla landsins og afskipti framkvæmdarvaldsins af dómskerfinu. Handtökur lýðræðislega kjörinna kúrdískra borgarstjóra og uppsögn annarra vöktu einnig áhyggjur sem og afleiðingar langvarandi útgöngubanns og ítrekaðra mannréttindabrota í suðausturhluta landsins í tengslum við aðgerðir stjórnvalda. Þingið harmaði einnig að friðarviðræðum við Kúrda hefði verið hætt sumarið 2015. Þingið mun halda áfram að fylgjast með stöðu mála í Tyrklandi og leggja fram aðra matsskýrslu vorið 2017.
    Ögmundur Jónasson tók þátt í umræðum um stjórnsýslulegt varðhald fyrir hönd síns flokkahóps. Hann vísaði í uppruna þess að þingið ákvað að fjalla um málefnið árið 2012 og gagnrýndi að lokaafurðin fjallaði í raun ekki um það efni. Skýrslan og ályktunin hefðu ekki einungis átt að fjalla um stjórnsýslulegt varðhald heldur einnig sérstaklega um hvernig slíku varðhaldi væri beitt af Ísraelum gegn Palestínumönnum. Hann sagði að ný ályktunartillaga um upprunalega efnið yrði lögð aftur fyrir þingið.
    Í ályktun um kyngervingu barna segir að í fjölmiðlum, markaðsherferðum og sjónvarpsþáttum séu börn, sérstaklega stúlkur, gjarnan sýnd í kynferðislegu samhengi. Slíkt hafi mikil áhrif á skynjun þeirra á samfélaginu sem og sjálfsmynd, velferð, sambönd og frammistöðu í skóla. Í verstu tilfellunum geti þessi þróun leitt til kynferðisofbeldis gegn börnum með alvarlegum áhrifum á líkamlega og andlega heilsu þeirra. Þingið hvatti aðildarríki Evrópuráðsins til að þróa viðeigandi lagalegar og pólitískar aðgerðir gegn þessari þróun. Valgerður Gunnarsdóttir og Ögmundur Jónasson tóku þátt í umræðum um málið. Valgerður sagði kyngervingu barna og þá sérstaklega stúlkubarna mega sjá víða í okkar daglega lífi, bæði beint og óbeint. Hún kæmi fram í sinni verstu birtingarmynd í klámiðnaðinum. Auglýsingar sýndu börn oft í kynferðislegu samhengi, stundum á grófan en mjög lúmskan hátt, stundum með ógeðfelldum myndum sem gætu örvað lægstu hvatir. Í öðrum tilfellum væri stöðluðum kynímyndum ýtt að og þær festar í sessi. Þeim skilaboðum væri ítrekað beint að stúlkum, að þær væru fyrst og fremst kynverur en það gæti dregið úr möguleika þeirra á að þroska með sér eðlilega sjálfsmynd og haft áhrif á frammistöðu í námi og starfi. Afar mikilvægt væri að aðildarríki Evrópuráðsins væru hvött til að greina vandann og gera viðeigandi ráðstafanir með lagasetningu til að uppræta hann. Ögmundur lýsti yfir stuðningi við tillögur framsögumanns málsins um að safna gögnum um kyngervingu barna og greina afleiðingar hennar til að geta sett fram viðeigandi aðgerðaáætlanir. Ögmundur setti þó fyrirvara við tillögur um að fjölmiðlar sættu eftirliti ríkisstofnana. Slíkt gæti heft starfsemi þeirra án þess að ná tilætluðum árangri, nær væri að auka samstarf við fjölmiðla og auglýsingaiðnaðinn, til að mynda með sérstökum vettvangi samstarfs og samráðs.
    Ögmundur tók einnig þátt í umræðum um ofbeldi gegn flóttamönnum, fyrir hönd síns flokkahóps. Hann sagði mikilvægt að aðildarríki Evrópuráðsins athuguðu gaumgæfilega löggjöf sína og stjórnsýslu í viðleitni sinni til að taka á vandanum. Tryggja þyrfti ákvæði sem refsuðu þeim vinnuveitendum sem beittu farandverkafólk ofbeldi og þvingunum, borguðu þeim ekki laun eða leystu þá frá störfum á ólöglegan hátt. Þingmenn ættu einnig að fylgjast með því hvort stjórnvöld í heimalöndum þeirra hefðu fullgilt og hrint í framkvæmd alþjóðlegum sáttmálum sem snertu málefnið.
    Loks tók Ögmundur þátt í umræðum um öryggi á vegum í Evrópu. Hann sagði málefnið grafalvarlegt og fórnir miklar. Vel væri hægt að draga úr umferðarslysum í Evrópu með því að hrinda í framkvæmd þeim fjölmörgu tillögum sem settar væru fram í ályktun um málefnið, sem sneru m.a. að ítarlegum greiningum og þróun skilvirkra langtímaáætlana um öryggi á vegum.
    Í ályktun um umboð þingmanna segir að á síðustu árum hafi komið upp tilfelli innan Evrópuráðsþingsins sem endurspegli glufur og annmarka á starfsreglum ákveðinna þjóðþinga Evrópuráðsins. Þannig hafi starfsreglur ákveðinna þinga verið notaðar sem lagaleg rök fyrir aðgerðum sem fælu í sér duldar refsingar gegn þingmönnum í pólitískum tilgangi. Þingið hvatti þjóðþing aðildarríkja Evrópuráðsins til að viðurkenna og taka tilhlýðilegt tillit til þeirrar meginreglu að þingmenn hafi frelsi til að nýta umboð sitt á frjálsan og sjálfstæðan hátt án fyrirmæla frá landsdeild sinni, stjórnmálaflokki eða flokkahópi.
    Í ályktun um friðhelgi þingmanna bað þingið aðildarríki, sem hyggjast endurskoða reglur sínar um friðhelgi þingmanna, að taka tillit til þess að friðhelgin væri grundvallaratriði til að vernda lýðræðið og sjálfstæði og heilindi þjóðþinga, ekki til að vernda persónulega hagsmuni einstakra þingmanna. Ekki megi misnota friðhelgina eða nota hana til að hindra framgang réttvísinnar, friðhelgi sé ekki ígildi refsileysis. Friðhelgi þurfi hins vegar ekki að eiga við þegar kemur að athugasemdum og yfirlýsingum þingmanna sem hvetja til haturs, ofbeldis eða eyðileggingar lýðræðislegra réttinda og frelsis. Þjóðþing geti þess í stað notað innri refsiaðgerðir eða jafnvel svipt viðkomandi þingmann þingmennsku, en það verði að gera á gagnsæjan og óhlutdrægan hátt.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um jafnrétti kynjanna og baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi innan herafla, menningu og lýðræði, mennta- og menningarnet innflytjenda og gagnsæi innan evrópskra stofnana.

Fundur stjórnmála- og lýðræðisnefndar Evrópuráðsþingsins í Reykjavík 26. september 2016.
    Fundinn sóttu um 60 þingmenn frá 30 aðildarríkjum Evrópuráðsins. Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sótti Karl Garðarsson formaður fundinn, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur alþjóðaritara. Meðal þeirra sem ávörpuðu fundinn voru Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra og Karl Garðarsson, formaður Íslandsdeildar. Skúli Magnússon, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, hélt jafnframt erindi um vinnu að stjórnarskrárbreytingum á Íslandi í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Hluti fundarins var tileinkaður herferð Evrópuráðsins #NoHateNoFear sem snýr að mikilvægi þess að berjast gegn hatursglæpum og hatursorðræðu í tengslum við baráttuna gegn hryðjuverkum.
    Í erindi sínu fjallaði Einar K. Guðfinnsson um breytingar á stjórnmálaþátttöku, sem færi nú ekki einungis fram á vettvangi hefðbundinna stjórnmálaflokka heldur einnig innan ýmissa annarra hópa sem nýttu sér gjarnan samfélagsmiðla til að miðla skoðunum sínum. Þetta skapaði nýjar áskoranir sem stjórnmálaflokkar þyrftu að bregðast við. Einar sagði minnkandi kosningaþátttöku áhyggjuefni og lagði áherslu á mikilvægi þess að virkja ungmenni til lýðræðislegrar þátttöku.
    Lilja Alfreðsdóttir lagði áherslu á að góðir stjórnunarhættir, mannréttindi og réttarríkið væru bestu leiðirnar til að berjast gegn öfgahyggju og hatursorðræðu. Leiðtogar lýðræðisríkja þyrftu að beita sér af enn þá meiri krafti fyrir þessum grunngildum, ekki síst í baráttunni gegn hatri og ótta. Í baráttunni gegn hryðjuverkum væri mikilvægt að takast á við vaxandi ágreining í Evrópu og víðar sem einkenndist af skorti á borgaralegum rökræðum, hatursorðræðu og kynþáttafordómum, ekki síst í tengslum við flóttamannavandann.
    Karl Garðarsson fór stuttlega yfir helstu áherslur fundarins, þar á meðal vinnu að stjórnarskrárbreytingum á Íslandi frá efnahagshruninu árið 2008 og þann hluta fundarins sem tileinkaður var herferð Evrópuráðsins #NoHateNoFear. Hann sagði herferðina ákaflega mikilvæga því að í þeirri alþjóðlegu baráttu sem nú stæði yfir gegn hryðjuverkum mætti ekki virða að vettugi okkar mikilvægustu gildi, mannréttindi, lýðræði og réttarríkið.
    Skúli Magnússon fór yfir sögu íslensku stjórnarskrárinnar og lagði sérstaka áherslu á vinnu að stjórnarskrárbreytingum í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Hann sagði frá vinnu þjóðfundar, stjórnarskrárnefndar og stjórnlagaráðs árin 2009–2011, helstu áskorunum í ferlinu og gagnrýni og að tillögur að grundvallarbreytingum á stjórnarskránni hefðu verið afar metnaðarfullar en ekki komið til framkvæmda enn þá. Hægt væri að læra mikið af ferlinu, bæði af þeim mistökum sem gerð voru og af því sem hefði verið vel gert.
    Norðmaðurinn Bjorn Ihler, einn af eftirlifendum hryðjuverkanna í Útey árið 2011, sagði frá reynslu sinni en hann komst undan ódæðismanninum Anders Behring Breivik við illan leik. Ihler starfar nú sem aðgerðasinni og kvikmyndagerðarmaður í baráttunni gegn ofbeldishneigðri öfgahyggju. Ihler sagði einu leiðina til að kveða niður öfgahreyfingar sem ala á hatri og sundrungu vera að bjóða upp á betri framtíðarsýn en slík öfl gera. Besta vopnið gegn hatursglæpum og -orðræðu væri því ekki ritskoðun heldur opin og öflug rökræða.
    Önnur mál á dagskrá voru fjármögnun hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki, staða mála í Líbanon og mat á samstarfssamningi Evrópuráðsþingsins og þjóðþings Kirgistans.

Fundur Evrópuráðsþingsins í Strassborg 10.–14. október 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins sótti fundinn Ögmundur Jónasson auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur alþjóðaritara. Helstu mál á dagskrá voru lærdómur sem draga mætti af Panama-skjölunum, pólitískar afleiðingar átakanna í Úkraínu, réttindi barna í tengslum við staðgöngumæðrun og samræming verndar fylgdarlausra ólögráða ungmenna í Evrópu. Þá voru utandagskrárumræður um ástandið í Tyrklandi í kjölfar valdaránstilraunar þar í landi í júlí 2016.
    Í ályktun um þann lærdóm sem draga mætti af Panama-skjölunum mæltist þingið til þess að aðildarríki tryggðu skilvirka eftirfylgni ályktunar þingsins nr. 1881 frá árinu 2012 um viðeigandi stefnu um skattaskjól, gerðust aðilar að vettvangi Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu um gagnsæi og skipti á skattaupplýsingum og tryggðu skjóta og skilvirka framkvæmd staðals um upplýsingaskipti og sjálfvirka miðlun upplýsinga um fjárhagsreikninga í skattamálum. Jafnframt var mælst til þess að aðildarríki sæju til þess að skattkerfi þeirra væru traust, gagnsæ og stöðug, settu á laggirnar miðlæga skrá yfir raunverulega eigendur fyrirtækja, stofnana og sjóða og ættu í nánu samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Sameinuðu þjóðirnar og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um að bæta núverandi skattafyrirkomulag og takast á við nýtilkomnar áskoranir á þessu sviði. Einnig voru aðildarríki beðin um að verja meira fjármagni í skattrannsóknir, efla þjálfun í rannsóknum á skattundanskotum og íhuga þörfina á lagabreytingum til að samræma betur aðgengi að fjármálaupplýsingum á frumstigi sakamálarannsókna. Í baráttunni gegn peningaþvætti mæltist þingið til þess að aðildarríki fullgiltu og kæmu í framkvæmd samningi Evrópuráðsins um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum og tryggðu skilvirka framkvæmd gildandi reglna gegn peningaþvætti sem og tilvist skilvirkra og sjálfstæðra peningaþvættisskrifstofa. Ögmundur Jónasson tók þátt í umræðum um málið. Hann benti á að skattaskjól væri víðar að finna en í Karíbahafi, ekki þyrfti að leita lengra en til fjármálahverfis Lundúna, Gíbraltar eða Ermarsundseyja. Tengsl íslenskra stjórnmálamanna við skattaskjól í Panama hefðu vakið sterk viðbrögð íslensks almennings og leitt til afsagnar forsætisráðherra landsins og snemmbúinna kosninga. Viðbrögðin sýndu aukna vitund almennings um skattaskjól og félagslega skaðlega starfshætti slíkra skjóla. Brýnt væri að halda áfram að ræða þessi mál til að tryggja áframhaldandi meðvitund og aðhald almennings.
    Í umræðum um ástandið í Tyrklandi eftir valdaránstilraun þar í landi 15. júlí 2016 komu fram margvísleg sjónarmið. Fulltrúi flokkahóps miðjumanna lýsti yfir áhyggjum af því að Tyrkland væri að fjarlægjast gildi Evrópuráðsins og gagnrýndi harðlega viðbrögð tyrkneskra stjórnvalda við valdaránstilrauninni. Fulltrúi flokkahóps íhaldsmanna sagði viðbrögð stjórnvalda eðlileg í viðleitni til að tryggja lýðræðið og réttarríkið, Evrópuráðið ætti að styðja tyrknesk stjórnvöld í þeirri baráttu. Fulltrúi flokkahóps vinstri manna gagnrýndi harðlega aðfarir tyrkneskra stjórnvalda, ekki síst gegn Kúrdum, og sagði ríkisstjórn Tyrklands vera að skapa andrúmsloft ótta, glundroða og óöryggis til að tryggja einræði forseta landsins, Recep Erdogan. Hann hvatti þingmenn til að lesa skýrslu mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins sem lýsti grafalvarlegri stöðu mannréttinda í Tyrklandi í kjölfar valdaránstilraunarinnar. Fulltrúi flokkahóps kristilegra demókrata sagði enga ástæðu til að hafa sérstakt eftirlit með Tyrklandi eða beita refsiaðgerðum gegn þingmönnum tyrknesku landsdeildarinnar, stofnanir Evrópuráðsins væru í góðum samskiptum við tyrknesk stjórnvöld varðandi uppfyllingu skuldbindingar þeirra og það væri frekar Evrópusambandið sem ætti að líta í eigin barm varðandi óuppfyllt loforð sín til Tyrklands, þar á meðal um vegabréfsáritanir. Fulltrúi flokkahóps sósíaldemókrata sagði algjörlega óásættanlegt að líta framhjá því sem væri að gerast í Tyrklandi. Það væri skylda Evrópuráðsins að verja lýðræðið, ekki væri hægt að leyfa tyrkneskum stjórnvöldum að komast upp með að nýta sér stöðuna til að fella úr gildi grunngildi lýðræðisins, þar á meðal mannréttindasáttmála Evrópu.
    Í ályktun um pólitískar afleiðingar átakanna í Úkraínu fordæmdi þingið ólöglega innlimun Rússlands á Krímskaga og harmaði að þrátt fyrir refsiaðgerðir gegn Rússlandi og þá staðreynd að alþjóðasamfélagið neitaði að viðurkenna innlimun skagans hefði hún ekki verið dregin til baka og ástand mannréttinda þar einungis versnað. Þingið bað rússnesk stjórnvöld að draga til baka innlimun skagans og veita Úkraínu full yfirráð yfir honum. Einnig var kallað eftir að mannréttindastofnunum yrði veittur ótakmarkaður aðgangur að Krímskaga til að þær gætu sinnt eftirlitsstörfum sínum óáreittar. Þingið bað Rússland jafnframt um að láta af hernaðarlegum stuðningi við aðskilnaðarsinna. Einnig bað þingið alla aðila að Minsk-samkomulaginu að hrinda í framkvæmd öllum ákvæðum samninganna, þar á meðal um vopnahlé. Þingið hvatti úkraínsk stórnvöld til að hrinda í framkvæmd nýjum ráðstöfunum gegn spillingu, bregðast á jákvæðan hátt við álitum Feneyjanefndarinnar um Úkraínu, tryggja skjótar og óhlutdrægar rannsóknir og málsferð í tengslum við Euromaidan-mótmælin í Kænugarði í janúar 2014 og dauða fjölda fólks í Odessa í maí sama ár. Þingið hvatti aðildarríki Evrópuráðsins til að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að styðja friðarferlið í Úkraínu en ástandið þar ógnaði stöðugleika í allri álfunni. Þingið harmaði loks að hafa ekki getað verið vettvangur fyrir umræðu og alþjóðlegt þingmannasamstarf á milli aðila deilunnar, vegna þess að þingmenn landsdeildar Rússlands hefðu ekki tekið þátt í starfi þingsins síðastliðin tvö ár. Þingið ítrekaði ákall sitt um að rússnesk stjórnvöld uppfylltu skuldbindingar sínar gagnvart Evrópuráðinu, þar á meðal er varðaði þau skilyrði sem Evrópuráðið hefði sett Rússlandi frá því að refsiaðgerðir gegn landinu hófust í apríl 2014.
    Drög að tilmælum til ráðherranefndar Evrópuráðsins um réttindi barna í tengslum við staðgöngumæðrun voru felld. Í drögunum mæltist þingið til þess að nefndin skoðaði hvort æskilegt og mögulegt væri að setja evrópskar viðmiðunarreglur til verndar réttindum barna í tengslum við staðgöngumæðrun. Einnig var mælst til þess að nefndin starfaði með Haag-ráðstefnunni um alþjóðlegan einkamálarétt að almennum alþjóðlegum málefnum tengdum stöðu barna með það fyrir augum að tryggja að tillit væri tekið til sjónarmiða Evrópuráðsins við mótun þeirra alþjóðlegu samninga sem vinna á ráðstefnunni gæti leitt til. Ögmundur Jónasson tók þátt í umræðum um málið fyrir hönd síns flokkahóps. Hann sagðist hafa efasemdir um staðgöngumæðrun og vera undantekningalaust á móti staðgöngumæðrun í gróðaskyni. Staðgöngumæðrun væri hins vegar raunveruleiki, börn fæddust með staðgöngumæðrun og ekki væri hægt að líta fram hjá tilveru þeirra. Þingmenn hefðu engan rétt til að svipta slík börn mannlegri reisn.
    Í ályktun um samræmingu verndar fylgdarlausra ólögráða ungmenna í Evrópu hvatti þingið aðildarríki til að efla vernd slíkra ungmenna, bæði heima fyrir og með svæðisbundnu og alþjóðlegu samstarfi. Mælst var til þess að aðildarríki neituðu aldrei fylgdarlausum ólögráða ungmennum inngöngu, í samræmi við alþjóðleg mannréttinda-, mannúðar- og flóttamannalög. Aðildarríki voru hvött til að auka lögreglusamstarf á þessu sviði, tryggja að öll fylgdarlaus ólögráða ungmenni væru skráð við komu til Evrópu og að þeim væri útvegað húsnæði, heilbrigðisþjónusta og túlkaþjónusta ef þörf krefði. Aðildarríki voru jafnframt hvött til að tryggja að nægilegu fjármagni væri varið í umönnun og vernd fylgdarlausra ólögráða ungmenna, þar á meðal vernd gegn mansali og glæpastarfsemi. Ögmundur Jónasson tók þátt í umræðum um málið fyrir hönd félagsmálanefndar þingsins. Ögmundur sagði félagsmálanefndina almennt ánægða með ályktunardrögin en að hún legði til breytingartillögur sem fælu í sér aukna áherslu á vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi og misnotkun, úrræði fyrir börn sem hefðu orðið fyrir líkamlegum eða sálfræðilegum kvölum og forvarnir gegn því að þau endurupplifðu þjáningar sínar. Nefndin lagði einnig til að aðildarríki settu á fót sérstakar stofnanir sem tækju á móti og sæju um fylgdarlaus ólögráða ungmenni. Breytingartillögur nefndarinnar voru allar samþykktar.
    Af öðru sem var samþykkt á þinginu má nefna ályktun um áhrif aldursdreifingar í Evrópu á stefnu um fólksflutninga, limlestingar á kynfærum kvenna í Evrópu, samstarf við Alþjóðlega sakamáladómstólinn, réttarúrræði fyrir fórnarlömb mannréttindabrota á úkraínskum landsvæðum sem væru ekki undir yfirráðum stjórnvalda í Úkraínu og jafnt aðgengi að íþróttum.

5. Nefndarfundir utan þinga.
    Formaður Íslandsdeildar, Karl Garðarsson, sótti fundi stjórnmála- og lýðræðisnefndar í maí og september, fundi eftirlitsnefndar í maí og september, fund menningarmálanefndar í september, auk stjórnarnefndarfundar í maí og fund nefndar framkvæmdastjórnar Evrópuráðsþingsins um stöðu flóttamanna einnig í maí. Til viðbótar við almenna nefndarfundi tók Karl þátt í kosningaeftirliti í Kasakstan í mars. Ögmundur Jónasson sótti fundi flóttamannanefndar í júní, félagsmálanefndar í júní og september og fundi eftirlitsnefndar í mars og september. Ögmundur sótti jafnframt, fyrir hönd félagsmálanefndar þingsins, þingmannaráðstefnu um málefni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í júní og september og námskeið um getu þjóðþinga til að meta tæknilega þætti í október ásamt því að fara í vinnuheimsókn til Moldóvu í júní og sinna kosningaeftirliti þar í landi í október á vegum síns flokkahóps.

Alþingi, 20. mars 2017.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir,
form.
Vilhjálmur Árnason,
varaform.
Katrín Jakobsdóttir.



Fylgiskjal.


Ályktanir, tilmæli og álit Evrópuráðsþingsins árið 2016.


    Ályktun er ákvörðun Evrópuráðsþingsins eða yfirlýsing um afstöðu þess í tilteknu máli. Tilmæli eru tillögur sem alla jafna byggjast á ályktunum þingsins og er beint til ráðherranefndarinnar sem tekur þær til umfjöllunar og bregst við eftir atvikum með beinum aðgerðum eða tillögu að lagasetningu í aðildarríkjunum. Álit eru oftast gefin sem umsögn eða svör við spurningum sem ráðherranefndin beinir til þingsins, t.d. varðandi inngöngu nýrra aðildarríkja en einnig um fjárlög Evrópuráðsins og drög að nýjum Evrópusamningum.
    Eftirfarandi ályktanir, álit og tilmæli til ráðherranefndar Evrópuráðsins voru samþykkt á þingfundum og stjórnarnefndarfundum Evrópuráðsþingsins árið 2016:

Fyrsti hluti þingfundar 25.–29. janúar:
    –        Tilmæli 2083 um refsiaðgerðir gegn þingmönnum.
    –        Tilmæli 2084 um erlenda hryðjuverkamenn í Sýrlandi og Írak.
    –        Tilmæli 2085 um að styrkja vernd og hlutverk verndara mannréttinda í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
    –        Tilmæli 2086 um hvernig koma megi í veg fyrir óviðeigandi takmarkanir á störfum frjálsra félagasamtaka í Evrópu.
    –        Tilmæli 2087 um spillingu við dómstóla: brýn þörf á að innleiða tillögur Evrópuráðsþingsins.
    –        Ályktun 2085 um að íbúar á landamærasvæðum Aserbaídsjan séu vísvitandi sviptir aðgangi að vatni.
    –        Ályktun 2086 um beiðni frá þjóðþingi Jórdaníu um samstarfssamning við Evrópuráðsþingið.
    –        Ályktun 2088 um Miðjarðarhafið sem dyr að óreglulegum fólksflutningum.
    –        Ályktun 2089 um skipulagða glæpi og farandfólk.
    –        Ályktun 2090 um baráttuna gegn alþjóðlegum hryðjuverkum í samræmi við reglur og gildi Evrópuráðsins.
    –        Ályktun 2091 um erlenda hryðjuverkamenn í Sýrlandi og Írak.
    –        Ályktun 2092 um endurskoðun á kjörbréfum landsdeildar Moldóvu.
    –        Ályktun 2093 um nýlegar árásir gegn konum: þörfin fyrir heiðarlega skýrslugjöf og alhliða viðbrögð.
    –        Ályktun 2094 um stöðuna í Kósóvó og hlutverk Evrópuráðsins.
    –        Ályktun 2095 um að styrkja vernd og hlutverk verndara mannréttinda í aðildarríkjum Evrópuráðsins.
    –        Ályktun 2096 um hvernig koma megi í veg fyrir óviðeigandi takmarkanir á störfum frjálsra félagasamtaka í Evrópu.
    –        Ályktun 2097 um aðgengi allra barna að skólum og menntun.
    –        Ályktun 2098 um spillingu við dómstóla: brýn þörf á að innleiða tillögur Evrópuráðsþingsins.

Stjórnarnefndarfundur 4. mars:
    –        Álit 291 á drögum að bókun við sáttmála Evrópuráðsins um landslag.
    –        Álit 292 á endurskoðun á sáttmála Evrópuráðsins um samstarf við kvikmyndaframleiðslu.
    –        Ályktun 2099 um þörfina á að uppræta ríkisfangsleysi barna.
    –        Ályktun 2100 um bókasöfn og söfn í Evrópu á tímum breytinga.
    –        Ályktun 2101 um markvissa söfnun gagna um ofbeldi gegn konum.
    –        Ályktun 2102 um breytingar á starfsreglum Evrópuráðsþingsins.

Annar hluti þingfundar 18.–22. apríl:
    –        Tilmæli 2088 um ramma fyrir lýðræðisleg borgararéttindi.
    –        Tilmæli 2089 um hugverkarétt á stafrænum tímum.
    –        Tilmæli 2090 um stöðu fólks sem hefur verið tekið til fanga í stríðinu í Úkraínu.
    –        Tilmæli 2091 um rökin gegn því að Evrópuráðið leggi fram bókun sem felur í sér nauðungarráðstafanir í geðlækningum.
    –        Ályktun 2103 um forvarnir gegn því að börn og ungmenni aðhyllist öfgahyggju.
    –        Ályktun 2104 um ramma fyrir lýðræðisleg borgararéttindi.
    –        Ályktun 2105 um mat á samstarfssamningi Evrópuráðsþingsins og Þjóðarráðs Palestínu.
    –        Ályktun 2106 um endurnýjun á skuldbindingum í baráttunni gegn gyðingaandúð í Evrópu.
    –        Ályktun 2107 um sterkari viðbrögð við sýrlenska flóttamannastraumnum.
    –        Ályktun 2108 um mannréttindi flótta- og farandfólks: Ástandið á vestanverðum Balkanskaga.
    –        Ályktun 2109 um stöðu flóttamanna og farandfólks eftir undirritun samnings Evrópusambandsins og Tyrklands 18. mars 2016.
    –        Ályktun 2110 um hugverkarétt á stafrænum tímum.
    –        Ályktun 2111 um mat á aðgerðum sem ráðist hefur verið í til að auka stjórnmálaþátttöku kvenna.
    –        Ályktun 2112 um stöðu fólks sem hefur verið tekið til fanga í stríðinu í Úkraínu.
    –        Ályktun 2113 um brýna þörf til að taka á öryggisbrestum og efla evrópskt samstarf gegn hryðjuverkum, í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Brussel.
    –        Ályktun 2114 um hvernig takast á við alþjóðlegar ógnir gegn lýðheilsu.
    –        Ályktun 2115 um fólksflutninga vegna neyðar: ný áskorun.

Stjórnarnefndarfundur 27. maí:
    –        Ályktun 2116 um brýna þörf til að koma í veg fyrir mannréttindabrot við friðsamleg mótmæli.
    –        Ályktun 2117 um að efla samstarf borga á sviði menningar.

Þriðji hluti þingfundar 20.–24. júní:
    –        Tilmæli 2092 um baráttuna gegn kyngervingu barna.
    –        Tilmæli 2093 um menningu og lýðræði.
    –        Tilmæli 2094 um gagnsæi innan evrópskra stofnana.
    –        Tilmæli 2095 um friðhelgi þingmanna: áskoranir við mat á gildissviði sérréttinda og friðhelgi þingmanna Evrópuráðsþingsins.
    –        Ályktun 2118 um flóttamenn í Grikklandi: áskoranir og áhættur – ábyrgð Evrópu.
    –        Ályktun 2119 um baráttuna gegn kyngervingu barna.
    –        Ályktun 2120 um kvenkyns hermenn: að efla jafnrétti og binda enda á kynbundið ofbeldi.
    –        Ályktun 2121 um virkni lýðræðisstofnana í Tyrklandi.
    –        Ályktun 2122 um stjórnsýslulegt varðhald.
    –        Ályktun 2123 um menningu og lýðræði.
    –        Ályktun 2124 um mennta- og menningarnet farandfólks og samfélaga innflytjenda.
    –        Ályktun 2125 um gagnsæi innan evrópskra stofnana.
    –        Ályktun 2126 um umboð þingmanna Evrópuráðsþingsins.
    –        Ályktun 2127 um friðhelgi þingmanna: áskoranir við mat á gildissviði sérréttinda og friðhelgi þingmanna Evrópuráðsþingsins.
    –        Ályktun 2128 um ofbeldi gegn farandfólks.
    –        Ályktun 2129 um öryggi vega í Evrópu sem forgangsmál í lýðheilsu.

Fjórði hluti þingfundar 10.–14. október:
    –        Ályktun 2130 um þann lærdóm sem draga má af Panama-skjölunum.
    –        Ályktun 2131 um íþróttir fyrir alla: jafnrétti, samþætting og félagsleg aðild.
    –        Ályktun 2132 um pólitískar afleiðingar árásargirni Rússa í Úkraínu.
    –        Ályktun 2133 um lagaleg úrræði fyrir fórnarlömb mannréttindabrota á úkraínskum landsvæðum utan yfirráða úkraínskra stjórnvalda.
    –        Ályktun 2134 um samstarf við Alþjóðlega sakamáladómstólinn: í átt að markvissri og víðtækri skuldbindingu.
    –        Ályktun 2135 um limlestingar á kynfærum kvenna í Evrópu.
    –        Ályktun 2136 um samræmingu verndar fylgdarlausra ólögráða ungmenna í Evrópu.
    –        Ályktun 2137 um áhrif aldursdreifingar í Evrópu á stefnu um fólksflutninga.

Stjórnarnefndarfundur 25. nóvember:
    –        Tilmæli 2096 um ástandið í Aleppo.
    –        Ályktun 2138 um ástandið í Aleppo.
    –        Ályktun 2139 um að tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir öll börn í Evrópu.
    –        Ályktun 2140 um rannsóknir og nýtingu á óhefðbundnum vetniskolefnum í Evrópu.