Ferill 322. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 440  —  322. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2016.


1. Inngangur.
    Á vettvangi NATO-þingsins árið 2016 bar hæst óstöðugleikann í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafs og í Norður-Afríku, ekki síst í tengslum við átökin í Sýrlandi, Írak og Líbíu sem hafa hrundið af stað öldu flóttamanna til nágrannasvæða og Evrópu og valdið víðtækum öryggisógnum í Miðausturlöndum. Lögð var áhersla á þann vanda sem blasir við nágrannaríkjum Sýrlands við móttöku flóttamanna og ákvörðun NATO um að veita stuðning við flóttamannavandann í Eyjahafi.
    Jafnframt var baráttan gegn hryðjuverkum í brennidepli á árinu og vaxandi áhrif hryðjuverkasamtaka eins og Íslamska ríkisins (Daesh). Hryðjuverkaárásirnar í París í nóvember 2015 og í Brussel í mars 2016 juku enn á áhyggjur aðildarríkjanna og leiddi m.a. til aukins þunga í sameiginlegri baráttu Bandaríkjanna og Evrópu gegn hryðjuverkum. Áhersla var lögð á þær áskoranir sem fylgja því að takast á við hryðjuverkastarfsemi sem er skipulögð á Vesturlöndum og fjármögnun hennar.
    Þá var rík áhersla lögð á ástandið í Úkraínu og kólnandi samskipti NATO og Rússlands eftir hernaðaraðgerðir Rússa í landinu. Viðbrögð NATO-þingsins við innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014 voru afgerandi og greiddi stjórnarnefnd þingsins einróma atkvæði með því að Rússar misstu stöðu sína sem aukaaðildarríki að NATO-þinginu. Áhersla var lögð á samstöðu með íbúum Úkraínu og að NATO yki stuðning sinn við úkraínsk stjórnvöld. Samskipti NATO við Rússland hafa ekki verið eins slæm frá lokum kalda stríðsins og versnuðu enn frekar í kjölfar aukinnar hernaðaríhlutunar Rússa í Sýrlandi. Í umræðum nefndarinnar var þó lögð áhersla á mikilvægi samræðna milli Rússa og NATO-þingsins.
    Umræða um aðgerð NATO í Afganistan, sem er sú umfangsmesta í sögu bandalagsins, var áberandi á árinu eins og undanfarin ár, ekki síst í ljósi brotthvarfs herafla NATO frá landinu við árslok 2014. Vel hefur gengið að byggja upp innlendar öryggissveitir sem hafa tekið við stjórn öryggismála í landinu. Eftir brottför fjölþjóðahersins þarf engu að síður að styðja mjög dyggilega við stjórnvöld í Afganistan til að tryggja þau í sessi. Til að bregðast við því hófst verkefnið „Einarður stuðningur“ (e. Resolute Support) í janúar 2015 og mun standa yfir í tvö ár.
    Þá var áhersla lögð á að draga þyrfti úr niðurskurði á fjármagni til varnar- og öryggismála í takt við skuldbindingar aðildarríkjanna. Nauðsynlegt væri að auka fjárframlög til varnarmála, ekki síst til að bregðast við öryggisógnum nálægt Evrópu og styrkja stöðu NATO gagnvart Rússum. Enn fremur var rætt um útfærslu NATO-þingsins og bandalagsins á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi.
    Af öðrum stórum málum, sem tekin voru til umfjöllunar árið 2016, má nefna samstarf og stefnu um að opna fyrir nýjum aðildarríkjum, kjarnorkuáætlun Írans, málefni Kína og spillingu og áhrif hennar á öryggi ríkja. Jafnframt hefur NATO-þingið fylgst vel með þeim málum sem hafa verið ofarlega á baugi í alþjóðlegri öryggismálaumræðu utan sem innan bandalagsins og snerta m.a. orkuöryggi, öryggi upplýsingakerfa eða netöryggi, eldflaugavarnir, baráttuna við áróðursárásir gegn vestrænum samfélögum og mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO-þingsins á tímum óróa og breytinga í landfræðipólitík og alþjóðastjórnmálum.

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hefur allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað í samræmi við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum í Mið- og Austur-Evrópu. Tíu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra, Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose-Roth-áætluninni styður þingið nú einnig þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum frá árinu 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum, stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna, þær fjalla um samtímamál sem upp koma á starfssviði þeirra og vinna um þau skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður-Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvarðanavald innan NATO og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þess við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins frá framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO-þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi kemur stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 257 þingmenn frá aðildarríkjunum 28. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls á 61 þingmaður frá 13 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, nema fundum stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn, en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd, en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins og starfsemi hennar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2016 Þórunn Egilsdóttir, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Össur Skarphéðinsson, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Kristján L. Möller, þingflokki Samfylkingarinnar, Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Þorsteinn Sæmundsson, þingflokki Framsóknarflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang, alþjóðaritari.
    Íslandsdeildin hélt tvo undirbúningsfundi fyrir fundi NATO-þingsins.
    Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2016 var eftirfarandi:

Stjórnarnefnd: Þórunn Egilsdóttir
Til vara: Össur Skarphéðinsson
Stjórnmálanefnd: Þórunn Egilsdóttir
Til vara: Þorsteinn Sæmundsson
Varnar- og öryggismálanefnd: Birgir Ármannsson
Til vara: Hanna Birna Kristjánsdóttir
Nefnd um borgaralegt öryggi: Birgir Ármannsson
Til vara: Hanna Birna Kristjánsdóttir
Efnahagsnefnd: Össur Skarphéðinsson
Til vara: Kristján L. Möller
Vísinda- og tækninefnd: Þórunn Egilsdóttir
Til vara: Þorsteinn Sæmundsson
Vinnuhópur um Miðjarðarhafssvæðið: Össur Skarphéðinsson

    Össur Skarphéðinsson var á árinu skýrsluhöfundur annarrar undirnefndar efnahagsnefndar NATO-þingsins um efnahagslegt samstarf yfir Atlantshaf.

4. Fundir NATO-þingsins.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Jafnframt kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars eða apríl ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2016 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, stjórnarnefndarfundi í París og vorfundi í Tírana. Hér á eftir fylgja í tímaröð frásagnir af fundum sem Íslandsdeildin sótti.

Febrúarfundir.
    Dagana 13.–15. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmála-, efnahags- og öryggis- og varnarmálanefndar. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Helstu mál á dagskrá fundarins voru málefni Rússlands og hvernig haga mætti varnaráætlunum bandalagsins með tilliti til aðgerða Rússa auk áhersluatriða bandalagsins fyrir næsta leiðtogafund NATO sem var haldinn í Varsjá í júlí 2016. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti Þórunn Egilsdóttir, formaður, fundina auk Örnu Gerðar Bang, ritara.
    Á fundunum var jafnframt rætt um hryðjuverkaógnina, viðbúnaðaráætlun bandalagsins (Readiness Action Plan, RAP), stöðu verkefna NATO í Afganistan eftir yfirfærslu öryggismála í hendur Afgana, stjórnmálastefnu bandalagsins, öryggishorfur í Evrópu og útfærslu NATO-þingsins og bandalagsins á ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi. Í opnunarávarpi sínu ræddi Michael Turner, forseti NATO-þingsins, um hryðjuverkaógnina, samskipti NATO við Rússa, ákvörðun NATO um að veita stuðning við flóttamenn í Eyjahafi og málefni Afganistans í ljósi viðbragða nágrannaríkja við brotthvarfi NATO og getu innan lands.
    Þá héldu erindi Didier Reynders, aðstoðarforsætisráðherra og utanríkisráðherra Belgíu, Gilles de Kerchove, ráðgjafi Evrópusambandsins um varnir gegn hryðjuverkum, og Jamie Shea, aðstoðarframkvæmdastjóri öryggisáskorana hjá NATO. Rætt var m.a. um það hvernig NATO gæti aukið samstarf við ESB og hraðari ákvarðanatöku innan bandalagsins, ekki síst í tengslum við ákvarðanir vegna viðbragðsliðs og alvarlegs ástands vegna straums flóttamanna til Evrópu. Lögð var áhersla á mikilvægi viðbúnaðar NATO og að 5. gr. væri ófrávíkjanlegur þáttur í starfsemi NATO. Þær áskoranir sem NATO stæði frammi fyrir bæði til suðurs og austurs væru hinn nýi veruleiki og ólíklegt að aðstæður breyttust til batnaðar á næstunni. Viðbúnaðaráætlun bandalagsins gegndi því lykilhlutverki sem viðbragð bandalagsins við ógnum og breyttu öryggisumhverfi. Einnig var rætt um stefnu bandalagsins um að opna fyrir ný aðildarríki (open door policy) og lögð áhersla á áframhaldandi stuðning við hana og mikilvægis samstarfsaðila NATO. Bandalagið stæði frammi fyrir ógnum sem ekki væri endilega hægt að mæta með hefðbundnum aðferðum eða þeim tækjum sem NATO réði yfir eingöngu. Þá væri brýnt að vinna náið með öðrum stofnunum, fjölþjóðasamtökum og ríkjum.
    Einnig tóku þrír sendiherrar NATO, þeir Jean-Baptiste Mattéi frá Frakklandi, Mehmet Fatih Ceylan frá Tyrklandi og Earle Litzenberger frá Bandaríkjunum, þátt í pallborðsumræðum með þingmönnum og svöruðu spurningum. Rætt var um öryggismál og þróun mála undanfarna mánuði með sérstakri skírskotun til Úkraínu. Þá hélt Marriet Schuurman, sérstakur fulltrúi málefna kvenna, friðar og öryggis hjá NATO, erindi um ályktun öryggisráðis Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi um tækifæri og áskoranir út frá sjónarhóli NATO og svaraði spurningum nefndarmanna. Áberandi var umræða um Rússland og mikilvægi þess að halda opnu sambandi við þá og viðræðum. Rússland væri viðkvæmt eftir efnahagsþvinganir og óstöðugleika í stjórnmálum en beitti á sama tíma ágengri utanríkisstefnu.
    Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram í höfuðstöðvum NATO 15. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum en umræðum stjórnaði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Stoltenberg sagði hryðjuverk og óvissu um fyrirætlanir Rússa auk yfirgangs þeirra hafa verið helstu viðfangsefni NATO síðastliðið ár. Viðbrögð bandalagsins hafi falist í aukinni áherslu á sameiginlegan varnarmátt og hvatningu til evrópskra bandalagsríkja um að auka útgjöld sín til varnarmála. Þá hafi bandalagið eflt varnarmátt sinn með því að hrinda í framkvæmd viðbúnaðaráætlun bandalagsins sem samþykkt var á leiðtogafundi NATO í Wales árið 2014. Í þeirri áætluninni felst m.a. að senda með hraði NATO-herafla til aðildarríkjanna austast í Evrópu, koma á fót litlum herstjórnarstöðvum í þessum ríkjum og fjölga orrustuþotum og ferðum þeirra við loftrýmisgæslu yfir Eystrasaltsríkjunum.
    Stoltenberg ræddi jafnframt helstu áhersluatriði bandalagsins fyrir leiðtogafund NATO í Varsjá í júlí 2016 og hvernig bandalaginu gengi að takast á við nýjar öryggisógnir. Hann sagði að tvö meginþemu leiðtogafundarins yrðu jafnvægi og aðlögun. Bandalagið þyrfti að tryggja jafnvægi milli þess að takast á við áskoranir sem koma frá austri annars vegar og suðri hins vegar. Þá þyrfti bandalagið einnig að tryggja jafnvægi milli varnaðaráhrifa og orðræðu við mótspilara sem deila ekki endilega megingildum NATO, þ.m.t. Rússland. Hann lagði áherslu á að sterk afstaða varðandi varnaðaráhrif fylgdi vilja bandalagsins til samræðna. Stoltenberg sagði að það að uppfylla skuldbindingar bandalagsins í varnarmálum frá leiðtogafundinum mundi hjálpa NATO að uppfylla nýverandi markmið sín.
    Þórunn Egilsdóttir spurði Stoltenberg hvort NATO horfði til Norðurslóða í ljósi aukinnar starfsemi og uppbyggingar Rússa á svæðinu. Þá spurði hún framkvæmdastjórann einnig hvort aukin áhersla á jafnrétti kynjanna og innleiðing ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi yrði á dagskrá bandalagsins í Varsjá. Stoltenberg svaraði því til að jafnréttismál væru honum mjög hugleikin og innleiðing ályktunarinnar yrði klárlega rædd í Varsjá. Það að skipa sérstakan fulltrúa málefna kvenna hjá NATO hefði verið liður í innleiðingunni og sú vinna héldi áfram. Sendiherra Noregs svaraði spurningu Þórunnar um málefni norðurslóða. Hann sagði NATO fylgjast vel með þróun mála á svæðinu og áhyggjur hefðu aukist af umsvifum Rússa á norðurslóðum. Málið væri í skoðun og yrði rætt á leiðtogafundinum í Varsjá og jafnvel fyrr ef þörf krefði.
    Þá var jafnframt rætt um ákvörðun NATO að veita aðstoð vegna flóttamannavandans í Eyjahafi og er það í fyrsta skipti sem NATO tekur þátt í slíkri aðgerð. Stoltenberg sagði að aðildarríki NATO, Þýskaland, Grikkland og Tyrkland, hefðu leitað til bandalagsins um aðstoð við að takast á við flóttamannavandann sem væri sá mesti í álfunni frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Flóttamannastraumur sem má rekja til átaka í Sýrlandi og annars staðar í Miðausturlöndum og Norður-Afríku er orðinn meiri háttar ógn við öryggi NATO-ríkjanna 28. Hann sagði verkefnið snúast um að grípa til víðtækrar öryggisgæslu svo hægt verði að stemma stigu við smygli á fólki og starfsemi glæpahringa.

Fundur stjórnarnefndar.
    Hinn árlegi fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins fór að þessu sinni fram í París. Á meðal helstu dagskrármála fundarins voru baráttan gegn hryðjuverkastarfsemi, ástandið í Úkraínu, samskipti NATO-þingsins við Rússa og jafnréttisáætlun NATO. Auk þess var umræða um starfsáætlun NATO-þingsins fyrir árið 2016 og fyrri hluta árs 2017 og fjárhagsáætlun auk stefnu Frakklands í öryggis- og varnarmálum. Fyrir hönd Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Þórunn Egilsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang ritara.
    Fyrsta mál á dagskrá var umræða um skriflegt svar framkvæmdastjóra NATO við stefnumarkandi tillögum og ályktunum NATO-þingsins sem samþykktar voru árið 2015. Framkvæmdastjórinn fagnaði ályktunum og tillögum NATO-þingsins og lagði m.a. áherslu á mikilvægi samstöðu aðildarríkja NATO-þingsins á tímum óróleika og breytinga í landfræðipólitík og alþjóðastjórnmálum. Lord Joplin, varaforseti NATO-þingsins, stýrði fundinum og lagði áherslu á samskipti NATO-þingsins við Rússa í ljósi atburða síðasta árið og mikilvægi samræðna.
    Næst kynnti hollenska þingkonan Angelien Eijsink skýrslu NATO-þingsins um jafnréttismál innan NATO-þingsins. Í skýrslunni er sjónum sérstaklega beint að kynjajafnvægi innan þingsins, þ.e. hvernig kynjahlutföll eru í starfi þingsins og uppbyggingu og hvernig jafnréttismál eru innleidd í stefnumótun NATO-þingsins. Þá eru tillögur að úrbótum og umræðu lagðar fram í skýrslunni. Eijsink sagði það hafa komið á óvart við vinnu skýrslunnar hvað þáttur kvenna í starfi NATO-þingsins sé rýr og að úrbóta sé klárlega þörf. Hún benti á að það hafi ekki verið fyrr en á stjórnarnefndarfundi NATO-þingsins í Reykjavík í október 2007 sem jafnréttismál náðu athygli nefndarmanna og fram kom krafa um að þau yrðu skoðuð sérstaklega og sett á dagskrá þingsins. Engin formlega ákvörðun var þó tekin á þeim fundi um hvernig málum skyldi háttað, framtakssemi var undir hverri landsdeild komin og engin eftirfylgni við málið. Í skýrslunni er m.a. skoðað hvað hefur áunnist í jafnréttismálum innan þingsins undanfarin ár, gerður samanburður við aðrar alþjóðastofnanir og lagðar fram tillögur að frekari úrbótum.
    Þórunn Egilsdóttir tók þátt í umræðum um skýrsluna. Hún fagnaði því að jafnréttismálum væri sýndur aukinn áhugi innan NATO-þingsins og lýsti yfir ánægju með tillögur skýrslunnar að úrbótum. Hún benti á sláandi niðurstöður hennar þar sem fram kemur að eingöngu 19% fulltrúa á NATO-þinginu séu konur og eingöngu tvær landsdeildir hafi konu sem formann sinnar og önnur þeirra sé landsdeild Íslands þar sem hún sitji sem formaður. Það þurfi klárlega að gera mun betur þegar horft sé til þátttöku kvenna í starfi þingsins. Þá sagði hún árlega yfirferð frá framkvæmdastjóra NATO fyrir stjórnarnefnd NATO-þingsins um þróun stöðu kvenna innan sambandsins mikilvægt hjálpartæki til eftirfylgni og frekari framfarar. Jafnframt benti hún á að ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi hafi beint athygli umheimsins í auknu mæli að málefnum kvenna í varnar- og öryggismálum og mikilvægi þátttöku þeirra þar, sem og á öðrum sviðum samfélagsins. Eitt af markmiðum ályktunarinnar væri að stuðla að sanngjarnri þátttöku og umboði bæði karla og kvenna í varnar- og öryggismálum þar sem þingmenn gegna lykilhlutverki. Þórunn sagði það því markmið allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna að stefna að jafnri þátttöku karla og kvenna í þjóðþingum og nefndarstörfum og að það sama gilti um starf NATO-þingsins.
    Þá var rætt um starfsemi, umræðuefni og áherslur NATO-þingsins fyrir seinni hluta ársins 2016 og fyrri hluta árs 2017. Síðustu ár hafa málefni Afganistan verið stærsta verkefni NATO og verður áfram mikilvægt viðfangsefni þótt þáttaskil hafi orðið í árslok 2014 með yfirfærslu öryggismála til Afgana. Önnur áherslumál hjá NATO-þinginu verða samstarf og stefna um að opna fyrir ný aðildarríki, norðurslóðamál, spilling og áhrif hennar á öryggi ríkja, kynjajafnrétti og öryggismál og samskipti þvert yfir Atlantshafið.
    Loks var farið yfir fjármál NATO-þingsins og ársreikning fyrir árið 2015 sem var samþykktur samhljóða. Þá var vakin athygli á því að fjárhagsáætlun NATO-þingsins hefur ekki hækkað síðastliðin fimm ár þrátt fyrir verðbólgu.

Vorfundur.
    Árlegur vorfundur NATO-þingsins var haldinn í Tírana dagana 28.–30. maí. Fyrir hönd Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn Þórunn Egilsdóttir, formaður, Össur Skarphéðinsson, varaformaður, og Birgir Ármannsson, auk Örnu Gerðar Bang, ritara. Á vorfundum NATO-þingsins vinna málefnanefndir skýrslur og eiga fundi með fulltrúum ríkisstjórna, alþjóðastofnana og sérfræðingum. Þá er þingfundur haldinn þar sem fjallað er um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu. Helstu umræðuefni fundarins voru ástandið í Úkraínu, kólnandi samskipti NATO og Rússlands, hryðjuverkaógnin og átökin í Sýrlandi og Írak. Einnig fór fram umræða um flóttamannavandann og útbreiðslu gjöreyðingarvopna. Um 250 þingmenn sóttu fundinn frá 28 aðildarríkjum.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins seinni hluta árs 2016. Afganistan hefur verið stærsta verkefni NATO undanfarin ár og verður áfram mikilvægt viðfangsefni þótt þáttaskil hafi orðið í árslok 2014 með yfirfærslu öryggismála til Afgana. Einnig var áhersla lögð á samstarf og stefnu um opnun fyrir ný aðildarríki, norðurslóðamál, spillingu og áhrif hennar á öryggi ríkja, kynjajafnrétti og öryggismál og samskipti þvert yfir Atlantshaf. Michael Turner, forseti NATO-þingsins, gerði jafnframt grein fyrir samskiptum sínum við rússneska þingið en á fundi stjórnarnefndarinnar sem haldinn var í París í apríl 2016 voru nefndarmenn sammála um að halda samskiptum við Rússa óbreyttum í samræmi við ákvörðun stjórnarnefndar þingsins í Ríga árið 2014 þar sem nefndarmenn greiddu einróma atkvæði með því að Rússar misstu stöðu sína sem aukaaðildarríki að NATO-þinginu eftir innlimun þeirra á Krímskaga. Þó lagði Turner áherslu á mikilvægi þess að samræður ættu sér stað milli Rússa og NATO-þingsins.
    Stjórnmálanefnd fjallaði um þrjár skýrslur á fundum sínum. Sú fyrsta fjallar um framkvæmd þeirra ákvarðana sem teknar voru á leiðtogafundi NATO í Wales árið 2014 og horfur fyrir leiðtogafundinn í Varsjá í júní 2016. Önnur skýrslan tekur fyrir málefni Kína á breyttum tímum og sú þriðja beinir sjónum að öryggismálum ríkja við Persaflóa. Þar kom fram að átökin í Sýrlandi, Írak og Líbíu og vaxandi styrkur Íslamska ríkisins sköpuðu víðtæka ógn við öryggi í Miðausturlöndum og mundi líklega krefjast hernaðarlegra og stjórnmálalegra viðbragða til að koma á stöðugleika. Vísinda- og tækninefnd ræddi um framtíð leyniþjónustu, vaxandi styrk Íslamska ríksins, framtíðaráskoranir og kjarnorkuáætlun Íran.
    Efnahagsnefnd NATO-þingsins fjallaði um skýrslur um fjárhagsleg áhrif nýrra áskorana í öryggismálum, samband spillingar og öryggismála og öryggis- og efnahagslegar afleiðingar flóttamannavandans þar sem Össur Skarphéðinsson er höfundur skýrslu. Hann benti í skýrslu sinni m.a. á að efnahagslegar afleiðingar af miklum fjölda flóttamanna væru oft vanmetnar. Í Evrópu væri skortur á vinnuafli sem gæti hamlað efnahagsvexti á komandi áratugum. Það væri vaxandi ójafnvægi með stækkandi hópi ellilífeyrisþega á móts við vinnuafl sem vega þyrfti upp á móti með auknu vinnuframlagi. Evrópa þyrfti að finna nýjar leiðir til að opna vinnumarkaði sína og fá fleira fólk til starfa. Það að ráða flóttamenn og aðra innflytjendur til starfa gæti leyst hluta þessa vanda.
    Í skýrslunni er bent á að flóðbylgja innflytjenda til Evrópu geti raunverulega haft í för með sér efnahagsleg tækifæri frekar en efnahagslegar byrðar. Það krefjist þó skýrrar stefnu þar sem vinnuaflið verði eins fljótt og auðið er aðlagað vinnumarkaðnum á félagslega ásættanlegan hátt. Það sé ekki auðvelt verkefni en gríðarlega mikilvægt. Leggja þurfi áherslu á gott aðgengi að tungumálakennslu og menntun sem hafi áhrif á bæði félagslega og efnhagslega samþættingu. Eða eins og Jean-Christophe Dumont, forstöðumaður innflytjendamála hjá OECD, sagði í erindi sínu „að líta bæri á aðlögun flóttamanna að samfélaginu sem fjárfestingu í hagvexti framtíðarinnar“.
    Þá fjallaði varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins um drög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um viðbragðsáætlun NATO í ljósi nýrra ógna, önnur um NATO og framtíðarhlutverk sjóhernaðar og þriðja um alþjóðlega baráttu gegn hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu. Í nefnd um borgaralegt öryggi var rætt um hvernig styrkja ætti Vestræna samvinnu í baráttunni gegn hryðjuverkum og ástandið í Úkraínu og leiðir til að tryggja sjálfstæði og innleiða endurbætur. Auk þess var rætt um málefni Vestur-Balkanskaga.
    Hinn eiginlegi þingfundur NATO-þingsins fór fram 30. maí þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Michael Turner, forseti NATO-þingsins, Ilir Meta, forseti albanska þingsins, Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu, Milo Djukanovic, forsætisráðherra Svartfjallalands og Alexander Vershbow, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO. Forseti NATO-þingsins setti fundinn og óskaði Svartfellingum sérstaklega til hamingju með aðild að NATO en skrifað var undir aðildarsamning þeirra 19. maí 2016 á fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna. Rússar hafa gagnrýnt aðild Svartfjallalands harkalega og yfirvöld í Moskvu m.a. sagt að um sé að ræða enn eitt dæmið um að NATO sé að beita sér gegn hernaðarlegum hagsmunum Rússlands. Fjöldi ríkja í Austur-Evrópu hefur gengið í NATO eftir að kalda stríðinu lauk. Svartfjallaland verður þriðja ríki gömlu Júgóslavíu til að ganga í bandalagið, en Slóvenía og Króatía hafa þegar fengið aðild. Þá ræddi Turner m.a. um ástandið í Úkraínu, nauðsyn þess að beina sjónum að ástandinu í Miðausturlöndum og Norður-Afríku, ekki síst átökunum í Sýrlandi, Írak og Líbíu sem hafa hrundið af stað öldu flóttamanna til nágrannasvæða og Evrópu. Hann lagði áherslu á að eingöngu væri hægt að leysa flóttamannavandann með því að varanlegur friður kæmist á í Sýrlandi og þyrftu þjóðir heims að beita þrýstingi til að svo yrði. Í ávarpi sínu sagði Alexander Vershbow, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO, að stefna bandalagsins um opnun fyrir ný aðildarríki væri öflugt verkfæri til að stuðla að óskiptri, frjálsri og friðsælli Evrópu. Þá sagði hann aðild Svartfjallalands sýndi að bandalagið stæði nýjum aðildarríkjum opið þótt ferlið væri flókið.

Nefndarfundir.
    Össur Skarphéðinsson sótti fund efnahagsnefndar NATO-þingsins í janúar í Riyadh, í júní í Kænugarði og í september í Ottawa, Bath og Boston. Birgir Ármannsson sótti fundi öryggis- og varnarmálanefndar í janúar í Washington og Miami og í júní í Skopje og Aþenu.

Alþingi, 23. mars 2017.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir,
form.
Lilja Alfreðsdóttir,
varaform.
Jón Steindór Valdimarsson.



Fylgiskjal.



Ályktanir NATO-þingsins árið 2016.


Ársfundur í Istanbúl, 18.–21. nóvember:
          Ályktun 428 um hvernig sigra megi hryðjuverksamtökin Íslamska ríkið.
          Ályktun 429 um baráttuna gegn hryðjuverkum.
          Ályktun 430 um áframhaldandi stuðning við Afganistan.
          Ályktun 431 um stuðning við framkvæmd ákvarðana NATO sem teknar voru á leiðtogafundi bandalagsins í Varsjá 2014.
          Ályktun 432 um útgjöld NATO til varnarmála.
          Ályktun 434 um leyniþjónustu og öryggisgæslu.