Ferill 323. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Prentað upp.

Þingskjal 442  —  323. mál.
Leiðrétting.




Skýrsla


Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2016.

1. Inngangur.
    Á vettvangi þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE-þingsins, bar á árinu 2016 hæst neyðarástandið í Úkraínu, hlutdeild Rússlands í átökunum og viðbrögð ÖSE. Flóttamannavandinn á Miðjarðarhafi var einnig ofarlega á dagskrá sem og mögulegt framlag ÖSE-þingsins til viðbragðsaðgerða ÖSE við átökum í Georgíu og hlutdeild Rússlands í þeim. Þá samþykkti ÖSE-þingið ályktunartillögu Íslandsdeildar um eflingu sambands ÖSE-þingsins við ÖSE-stofnunina á ársfundi ÖSE-þingsins í Tiblisi í júlí 2016.
    Í ályktun Íslandsdeildar er lagt til að framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins vinni í samstarfi við ÖSE-stofnunina aðgerðaáætlun um aukið og nánara samstarf stofnananna tveggja, sem og nýjar leiðir fyrir þingmenn til að taka á áþreifanlegan og árangursríkan hátt þátt í starfi þingsins við að efla lýðræði, réttarríki, öryggi og mannréttindi á ÖSE-svæðinu. Mælst er til þess að framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins leggi aðgerðaáætlunina fyrir ÖSE-þingið á haustfundi þess árið 2017.
    Á ársfundinum var jafnframt ályktað um mannréttindabrot á Krímskaga og í borginni Sevastopol. Rússnesk stjórnvöld voru hvött til að láta af árásargjarnri hegðun á landsvæði Úkraínu, taka til baka innlimun Krímskaga og uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Rússar voru jafnframt beðnir um að veita stofnunum ÖSE, Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna tafarlaust aðgang að Krímskaga, sem og verndurum mannréttinda og fjölmiðlum.
    Í ályktun um öryggismál tengd fólksflutningum voru aðildarríkin hvött til að gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að ná aftur stjórn á innstreymi farandverkafólks með því að skrá og gera öryggisleit á öllum sem koma óreglulega til Evrópu (e. irregular migrants). Lögð var áhersla á að framkvæmdastjóri ÖSE og formaður fastaráðs stofnunarinnar sæi til þess að öryggismál yrðu óaðskiljanlegur hluti af aukinni áherslu ÖSE á flóttamannavandann. Í ályktun um jafnrétti kynjanna í viðbrögðum við flóttamanna- og farandverkamannavandanum eru aðildarríki ÖSE beðin um að safna kynjuðum gögnum og gera kynjaðar greiningar á öllum áætlunum og stefnum í málefnum farandverkamanna og flóttamanna. Aðildarríkin eru jafnframt beðin um að senda jafnréttisfulltrúa í flóttamannabúðir og hrinda í framkvæmd ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um aðild kvenna að friðarumleitunum, -samningum og -uppbyggingu.
    Í ályktun um óheftan aðgang þingmanna ÖSE-þingsins að opinberum fundum og viðburðum þingsins eru aðildarríki ÖSE hvött til að tryggja að þingmenn ÖSE-þingsins geti sótt alla opinbera viðburði ÖSE og annarra þingmannasamtaka, með útgáfu vegabréfsáritana eða ferðaheimilda, nema þegar slíkt gangi gegn alþjóðalögum.
    Í ályktun um mögulegt framlag ÖSE-þingsins til þróunar á skilvirkum viðbrögðum við neyðarástandi og átökum var ÖSE hvatt til að nýta betur sérstaka fulltrúa og nefndir ÖSE-þingsins við aðgerðir til að fyrirbyggja átök og við hættustjórnun, m.a. með því að hrinda í framkvæmd hugmyndum ÖSE-þingsins í þá veru frá árinu 2012.
    Í ályktun um átök á hernumdum svæðum í Georgíu, Abkasíu og Suður-Ossetíu, eru rússnesk stjórnvöld hvött til að virða að fullu alþjóðalög og vopnahléssamning, taka til baka innlimun á framangreindum svæðum og hætta þar hernámi. Jafnframt eru rússnesk stjórnvöld beðin um að gefa heimild fyrir alþjóðlegum öryggisráðstöfunum á hernumdu svæðunum og að tryggja óheftan aðgang eftirlitssveitar Evrópusambandsins að svæðinu. ÖSE er beðið um að styrkja starf sitt í Georgíu til muna, þar á meðal að friðsamlegri lausn deilunnar.
    Á vetrarfundi ÖSE-þingsins ákvað stjórnarnefnd þingsins að setja á fót sérstaka nefnd um flóttamannamál. Hlutverk nefndarinnar er að vera þungamiðja starfs ÖSE-þingsins á sviði fólksflutninga, þróa tillögur að stefnu ÖSE-þingsins í málaflokknum, efla umræðu um málaflokkinn innan ÖSE-þingsins og vinna náið með stofnunum ÖSE og öðrum viðeigandi aðilum.

2. Almennt um ÖSE-þingið.
    Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE starfar á grundvelli Helsinki-sáttmálans (e. Helsinki Final Act) frá árinu 1975. Markmið ÖSE er að stuðla að friði, öryggi, lýðræði og samvinnu á starfssvæði sínu og standa vörð um virðingu fyrir mannréttindum og meginreglum réttarríkisins. ÖSE sinnir hlutverki sínu m.a. með baráttu gegn hryðjuverkum, mansali, þjóðernisofstæki, eiturlyfjasmygli og ólöglegri vopnasölu.
    Á leiðtogafundi ÖSE vorið 1990 var Parísarsáttmálinn samþykktur (e. Charter of Paris for a New Europe). Sáttmálinn kveður m.a. á um stofnun formlegs vettvangs fyrir þingmenn. ÖSE-þingið og ÖSE eru þannig greinar af sama meiði. Ólíkt öðrum fjölþjóðlegum stofnunum liggur hins vegar enginn hefðbundinn stofnsáttmáli þeim til grundvallar.
    Fyrsti fundur ÖSE-þingsins var haldinn í júlí 1992. Aðild að ÖSE-þinginu eiga 57 þjóðþing í Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Asíu. Þingið er skipað 323 fulltrúum. Þar af á Alþingi þrjá.
    Hlutverk ÖSE-þingsins er að hafa áhrif á stefnumótun og áherslur í starfi ÖSE og að hafa eftirlit með og meta árangurinn af starfi stofnunarinnar. Í málefnanefndum þingsins er unnið að undirbúningi ályktana. Þær eru síðan afgreiddar á ársfundi og þeim komið á framfæri við ráðherraráð ÖSE, sem er vettvangur utanríkisráðherra aðildarríkjanna, og fastaráð ÖSE en þar eiga sæti sendiherrar eða fastafulltrúar aðildarlandanna gagnvart ÖSE. Fastaráðið fundar vikulega í Vín. Í samspili við ÖSE er þingið hugmyndabanki fyrir áherslur í starfi ÖSE auk þess sem þingið veitir ÖSE bæði stuðning og aðhald með eftirliti sínu og umræðu um starf stofnunarinnar. Hvað viðvíkur formlegum samskiptum ÖSE-þingsins og ÖSE ávarpar formaður ráðherraráðs ÖSE-þingið og gefur skýrslu um verkefni sem unnið er að hjá ÖSE. Þá geta þingfulltrúar beint fyrirspurnum til ráðherrans. ÖSE-þingið tekur einnig þátt í því að þróa leiðir til að koma í veg fyrir ágreining milli ríkja og stuðla að eflingu lýðræðislegra stofnana á því svæði sem starfsemi ÖSE tekur til. Að lokum hefur kosningaeftirlit verið eitt helsta verkefni þingsins frá upphafi. Sú starfsemi hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár. ÖSE-þingið hefur samvinnu við lýðræðis- og mannréttindastofnun ÖSE (ODIHR) um kosningaeftirlit. Nokkur ágreiningur hefur ríkt um verkaskiptingu milli stofnananna þrátt fyrir samstarfssamning á milli þeirra frá árinu 1997. Einnig hefur ÖSE-þingið samvinnu um kosningaeftirlit við aðrar fjölþjóðlegar þingmannasamkundur, eins og Evrópuráðsþingið og Evrópuþingið.
    ÖSE-þingið kemur saman til ársfundar í allt að fimm daga í júlí. Einstök aðildarríki skiptast á að halda ársfund. Ársfundur afgreiðir mál úr öllum þremur málefnanefndum þingsins í formi ályktunar ársfundar. Auk þess geta einstakir þingmenn eða landsdeildir lagt fram ályktunartillögur sem verða hluti af ályktun ársfundar að gefnu samþykki í atkvæðagreiðslu.
    Málefnanefndirnar eru nefnd um stjórnmál og öryggismál (1. nefnd), nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál (2. nefnd) og nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál (3. nefnd). Formaður, varaformaður og skýrsluhöfundur hverrar málefnanefndar eru kjörnir af viðkomandi nefnd í lok hvers ársfundar. Skýrsluhöfundur nefndar velur málefnið sem tekið verður fyrir í nefndinni það árið í samráði við formann og varaformann viðkomandi nefndar. Síðan undirbýr skýrsluhöfundur skýrslu og drög að ályktun sem lögð er fyrir nefndina til umræðu og að lokum til umræðu og afgreiðslu á ársfundi. Málefnanefndir þingsins koma einnig saman á vetrarfundinum sem haldinn er í Vín í febrúar ár hvert. Þar fá þingmenn tækifæri til að hlýða á framlag fastafulltrúa og embættismanna ÖSE sem hafa aðsetur í Vín, eins og fyrr segir. Auk ársfundar og vetrarfundar er haldinn haustfundur þar sem stjórnarnefnd og framkvæmdastjórn þingsins koma saman auk þess sem árleg málefnaráðstefna þingsins fer fram.
    Þessu til viðbótar getur forseti þingsins skipað tímabundið sérstaka fulltrúa og stjórnarnefnd tekið ákvörðun um stofnun sérnefnda (e. ad hoc committees) til að ræða, taka afstöðu til og vera ráðgefandi um aðkallandi málefni eða úrlausnarefni. Einnig eru stofnaðir sérstakir vinnuhópar (e. working groups) og þingmannalið (e. parliamentary team) um ákveðin málefni. Sérnefndir hafa t.d. verið stofnaðar um málefni Abkhasíu, Kósóvó og fangabúðir bandaríkjahers í Guantánamo á Kúbu. Í dag eru starfandi sérstakar nefndir eða hópar um gagnsæi og endurbætur á starfi ÖSE, málefni Hvíta-Rússlands, Moldóvu og Úkraínu og flóttamannamál. Einnig er starfrækt sérstök undirnefnd um starfsreglur og vinnulag ÖSE-þingsins (sjá nánar hér á eftir). Starf sérnefndanna hefur oftar en ekki skilað miklum árangri við að fá deiluaðila að samningaborðinu og við að upplýsa mál og kynna fyrir almenningi. Forseti ÖSE-þingsins getur einnig skipað sérlega fulltrúa í tilteknum málum. Í dag eru starfandi sérstakir fulltrúar um sáttamiðlanir, gyðingahatur, kynþáttahatur og umburðarleysi, baráttuna gegn hryðjuverkum, málefni norðurslóða, landamæri ÖSE-svæðisins, jafnrétti kynjanna, mansal og málefni Miðjarðarhafsins, Suður-Kákásussvæðisins, Suðaustur-Evrópu og Mið- og Austur-Asíu.

3. Íslandsdeild ÖSE-þingsins.
    Á árinu 2016, fram að kosningum 29. október, voru aðalmenn Elsa Lára Arnardóttir, formaður, þingflokki Framsóknarflokks, Guðmundur Steingrímsson, varaformaður, þingflokki Bjartrar framtíðar, og Sigríður Á. Andersen, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Frosti Sigurjónsson, þingflokki Framsóknarflokks, Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Björt Ólafsdóttir, þingflokki Bjartrar framtíðar. Í september 2016 tók Vigdís Hauksdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, sæti Frosta Sigurjónssonar sem varamaður. Vilborg Ása Guðjónsdóttir var ritari Íslandsdeildar.
    Skipan málefnanefnda starfsárið 2016 var eftirfarandi:

1. Nefnd um stjórnmál og öryggismál Elsa Lára Arnardóttir
2. Nefnd um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál Sigríður Á. Andersen
3. Nefnd um lýðræðis- og mannréttindamál Guðmundur Steingrímsson

    Guðmundur Steingrímsson sat jafnframt í undirnefnd um starfsreglur og vinnulag ÖSE-þingsins frá vormánuðum til þingloka. Íslandsdeild stóð fyrir árlegum samráðsfundi Norðurlanda og Eystrasaltsríkja innan ÖSE-þingsins á nefndasviði Alþingis í maí 2016. Sjá nánar um fundinn hér á eftir. Þá fundaði Íslandsdeild ásamt þingmönnum allsherjar- og menntamálanefndar með forstöðumanni Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, Michael Georg Link, 20. júní 2016. Á dagskrá fundarins var kosningaeftirlit ÖSE og ÖSE-þingsins, lýðræðisuppbygging í ungum lýðræðisríkjum á ÖSE-svæðinu og staða mannréttinda í Aserbaídsjan og Hvíta-Rússlandi. Ályktunartillaga Íslandsdeildar fyrir ársfund ÖSE-þingsins í Tiblisi var jafnframt til umræðu. Íslandsdeild fundaði með framkvæmdastjóra ÖSE, Lamberto Zannier, 11. október 2016, ásamt þingmönnum utanríkismálanefndar. Á dagskrá voru öryggismál í Evrópu, starf ÖSE á vettvangi í Úkraínu og baráttan við hryðjuverk. Þá kynnti Guðmundur Steingrímsson ályktun Íslandsdeildar frá ársfundinum í Tiblisi.

5.     Fundir ÖSE-þingsins.
    ÖSE-þingið kemur saman til reglulegra funda þrisvar sinnum á ári. Yfirleitt er vetrarfundur haldinn í febrúar, ársfundur að sumri og haustfundur í október.

Vetrarfundur ÖSE-þingsins í Vín 25.–26. febrúar 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Elsa Lára Arnardóttir, formaður, Guðmundur Steingrímsson, varaformaður, og Sigríður Á. Andersen, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur alþjóðaritara. Fundinn sóttu um 239 þingmenn frá 54 ríkjum en að venju funduðu stjórnarnefnd og málefnanefndir þingsins með embættismönnum ÖSE, auk þess sem haldinn var sameiginlegur fundur málefnanefndanna. Meginefni vetrarfundarins voru flóttamannavandinn og mannréttindi flóttamanna á ÖSE-svæðinu og baráttan gegn hryðjuverkum. Á fundi stjórnarnefndar ÖSE-þingsins var ákveðið að stofna sérstaka nefnd um flóttamannamál. Hlutverk nefndarinnar er að vera þungamiðja starfs ÖSE-þingsins á sviði fólksflutninga, þróa tillögur að stefnu ÖSE-þingsins í málaflokknum, efla umræðu um málaflokkinn innan ÖSE-þingsins og vinna náið með stofnunum ÖSE og öðrum viðeigandi aðilum.
    Samhliða vetrarfundi kynnti Íslandsdeild drög sín að ályktun um samstarf ÖSE-þingsins við ÖSE fyrir nýjum framkvæmdastjóra ÖSE-þingsins, Roberto Montella, og þingmönnum landsdeilda Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Íslandsdeildin lagði ályktunartillöguna fram á ársfundi ÖSE-þingsins í Tiblisi 1.–5. júlí 2016. Í ályktuninni er lagt til að skrifstofa ÖSE-þingsins vinni í samstarfi við ÖSE-stofnunina aðgerðaáætlun um aukið og þéttara samstarf stofnananna tveggja, sem og nýjar leiðir fyrir þingmenn til að taka á áþreifanlegan og árangursríkan hátt þátt í starfi þingsins á vettvangi við að efla lýðræði, réttarríki, öryggi og mannréttindi á ÖSE-svæðinu. Skrifstofan var beðin um að leggja aðgerðaáætlunina fyrir ÖSE-þingið á haustfundi þess árið 2017. Guðmundur Steingrímsson var fyrsti flutningsmaður ályktunarinnar.
    Á fundi nefndar um stjórn- og öryggismál kynnti Cristian Istrate, formaður nefndar ÖSE um málaflokkinn og sendiherra Rúmeníu hjá ÖSE, vinnuáætlun nefndarinnar fyrir árið 2016, um ástandið í Úkraínu, hryðjuverkaógnina og flóttamannavandann. Hann sagði ályktun ársfundar ÖSE-þingsins frá árinu 2015 vera nefndinni mikil hvatning í þeirri vinnu. Þingið væri í einstakri stöðu til að styðja við framkvæmd markmiða ÖSE í aðildarríkjum stofnunarinnar og væri löggjafar- og eftirlitsstarf þjóðþinga aðildarríkja þannig hluti af styrk ÖSE. Á tímum óvissu og ólgu væri rík áhersla ÖSE á samræður og samstarf mikilvægari en nokkru sinni fyrr. Ríkisstjórnir og þjóðþing yrðu að vinna saman til að uppfylla væntingar fólks til stofnunarinnar. Á fundinum var sérstök umræða um hryðjuverk sem bar yfirskriftina „Fjölþjóðlegt öryggi á ÖSE-svæðinu: Baráttan gegn hryðjuverkum“. Erindi hélt Alexey Lyzhenkov, samræmingaraðili verkefna ÖSE gegn fjölþjóðlegum ógnum (e. OSCE Co-ordinator of Activities to Address Transnational Threats). Lyzhenkov kynnti áætlanir ÖSE í baráttunni gegn hryðjuverkum árið 2016 sem byggjast á yfirlýsingum ráðherraráðs ÖSE frá desember 2015. Fyrri yfirlýsingin, nr. 3/2015, snýr að því að styrkja baráttu ÖSE gegn hryðjuverkum í kjölfar nýlegra hryðjuverkaárása. Sú síðari, nr. 4/2015, snýr að því að koma í veg fyrir og berjast gegn ofbeldisfullri öfgahyggju og róttækni sem leiðir til hryðjuverka. Lyzhenkov lagði áherslu á mikilvægt hlutverk þingmanna í baráttunni gegn hryðjuverkum. Sem pólitískir leiðtogar væru þeir í lykilstöðu sem talsmenn innlendrar samstöðu gegn hvers kyns hryðjuverkum og talsmenn samstöðu og stuðnings við fórnarlömb. Sem löggjafar gegndu þeir einstaklega mikilvægu hlutverki við að styrkja alþjóðlegan lagaramma gegn hryðjuverkum. Þá væri aðild aðildarríkja ÖSE að mikilvægum alþjóðasamningum á þessu sviði afar áríðandi í baráttunni gegn hryðjuverkum. Einungis átta aðildarríki ÖSE væru aðilar að öllum meginsamningum gegn hryðjuverkum: Austurríki, Tékkland, Lettland, Liechtenstein, Holland, Noregur, Spánn og Sviss.
    Á fundi nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál kynnti Andreas Papadakis, formaður efnahags- og umhverfisnefndar ÖSE og fastafulltrúi Grikklands hjá ÖSE, vinnuáætlun efnahags- og umhverfisnefndar ÖSE fyrir árið 2016 en í henni er lögð áhersla á góða stjórnunarhætti, viðskiptaskilyrði og efnahagsleg tengsl. Á fundinum var sérstök umræða sem bar yfirskriftina „Stjórnun flóttamannastraums: tækifæri og áskoranir fyrir efnahag ÖSE-ríkja“. Erindi hélt dr. Halil Yurdakul Yigitguden sem stýrir verkefnum ÖSE á sviði efnahags- og umhverfismála. Yigitguden sagði mikilvægt að líta á flóttamannastrauminn sem tækifæri fyrir efnahagslega þróun og vöxt og þyrfti stefnumótun að taka mið af því. Í skuldbindingum ÖSE-ríkja á sviði flóttamannamála, sem ættu rætur að rekja til ákvarðana ráðherraráðs stofnunarinnar frá árunum 2005 og 2009, væri lögð áhersla á jákvæð tengsl farandflutninga og efnahagslegrar velsældar. Skilvirk kerfi sem auka hreyfanleika vinnuafls gætu hjálpað fólki að færa sig um set á öruggan hátt og gert þeim þannig kleift að leggja sitt af mörkum til þróunar þeirra samfélaga sem þeir flytja til.
    Á fundum nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál sagði Katja Pehrman, formaður nefndar ÖSE um málaflokkinn og sendiherra Finnlands hjá stofnuninni, frá áherslum nefndar ÖSE um lýðræðis- og mannréttindamál fyrir árið 2016, m.a. á réttindi minnihlutahópa, umburðarlyndi, Róma- og Sinti-fólk, jafnrétti kynjanna, réttindi fatlaðs fólks og verndun mannréttinda í baráttunni gegn hryðjuverkum. Á fundinum var sérstök umræða um mannréttindi farandverkamanna og flóttamanna. Erindi hélt Madina Jarbussynove, sérlegur fulltrúi og samræmingaraðili ÖSE gegn mansali. Í máli sínu lagði hún áherslu á tengsl milli flóttamannastraums og mansals. Flóttamenn væru sérstaklega varnarlausir og í hættu á að verða fórnarlömb mansals og misnotkunar. Stórtækar ráðstafanir ríkja gegn flóttamannastraumnum hefðu ófyrirhugaðar afleiðingar sem gætu aukið varnarleysi flóttamanna gagnvart mansali. Nauðsynlegt væri að samþætta nálgun ríkja og tryggja bæði öryggi ríkjanna sjálfra og flóttamannanna.
    Á sameiginlegum fundi málefnanefndanna þriggja var sérstök umræða sem bar yfirskriftina „Flóttamannavandinn á ÖSE-svæðinu: styrking sameiginlegra viðbragða“. Christos Stylianides, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði mannúðaraðstoðar og krísustjórnunar, ávarpaði fundinn. Hann sagði Evrópu bera sögulega skyldu til að aðstoða flóttamenn sem kæmu að landamærum hennar. Annars væri hætta á að stjórnmál ótta og sundrunar sneru aftur og álfan klofnaði á ný. Samhliða umræðunni gaf ÖSE-þingið út sérstaka skýrslu um flóttamannavandann á ÖSE-svæðinu. Í henni er að finna ráðleggingar til annars vegar ÖSE og hins vegar aðildarríkja stofnunarinnar. Í ráðleggingum til ÖSE leggur þingið m.a. til að stofnanir og skrifstofur ÖSE samræmi betur aðgerðir sínar á sviði flóttamannamála, vettvangsskrifstofur ÖSE fái aukið hlutverk á þessu sviði, stofnuð verði sérstök flóttamannaskrifstofa í því ESB-ríki sem flóttamannastraumurinn mæðir mest á og ÖSE-þingið haldi áfram að ræða um flóttamannamál og skiptast á reynslu og góðum starfsvenjum. Í ráðleggingum til aðildarríkja ÖSE er m.a. lagt til að þeim ríkjum sem deila landamærum með Sýrlandi sé veittur aukinn fjárhagslegur og pólitískur stuðningur. Einnig er lagt til að aðildarríki styðji betur við þær alþjóðastofnanir sem starfa að mannúðarmálum á svæðinu, íhugi að auka þann fjölda flóttamanna sem þau hyggjast taka á móti og þrói fleira löglegar og öruggar leiðir fyrir flóttamenn til að komast til ÖSE-ríkja.
    Dr. Hedy Fry, sérlegur fulltrúi ÖSE-þingsins á sviði jafnréttismála, ávarpaði einnig sameiginlegan fund málefnanefndanna. Hún sagði frá tilraunum ráðherraráðs ÖSE til að samþykkja viðauka við aðgerðaáætlun ÖSE á sviði jafnréttismála frá árinu 2004. Ráðinu hefði mistekist að komast að samkomulagi á fundum ráðherraráðsins árin 2014, 2015 og 2016. Ákveðin ríki hafi í öllum tilfellum reynt að veikja þær skuldbindingar sem drög að viðaukanum gerðu ráð fyrir og samkomulag því ekki náðst. Nú liti út fyrir að ekki yrðu gerðar frekari tilraunir til samþykktar viðaukans. Fry ræddi einnig um áherslu ársskýrslu sinnar fyrir árið 2016 á stöðu varnarlausra kvenna og stúlkna meðal flóttamanna á ÖSE-svæðinu.

Samráðsfundur Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna innan ÖSE-þingsins í Reykjavík 3. maí 2016.
    Fyrir hönd Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Elsa Lára Arnardóttir, formaður, Guðmundur Steingrímsson, varaformaður, og Sigríður Á. Andersen auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur, alþjóðaritara. Fundinn sóttu 16 þingmenn Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna innan ÖSE-þingsins. Á dagskrá var undirbúningur fyrir ársfund þingsins í Tiblisi í júlí 2016, ásamt þremur málstofum um áhrif aukinnar spennu á milli Rússlands og Vesturlanda á íslenska utanríkisstefnu, alþjóðlega hreyfingu stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (e. UN Women), HeForShe og flótta- og farandverkamannavandann í Evrópu, með áherslu á stefnu Íslands í málaflokknum.
    Guðmundur Steingrímsson kynnti ályktunartillögu Íslandsdeildar fyrir ársfund ÖSE-þingsins í Tiblisi, sem hann var fyrsti flutningsmaður að. Í ályktuninni er lagt til að framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins vinni í samstarfi við ÖSE-stofnunina aðgerðaáætlun um aukið og nánara samstarf stofnananna tveggja, sem og nýjar leiðir fyrir þingmenn til að taka á áþreifanlegan og árangursríkan hátt þátt í starfi þingsins við að efla lýðræði, réttarríki og öryggi og mannréttindi á ÖSE-svæðinu. Framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins var beðinn um að leggja aðgerðaáætlunina fyrir ÖSE-þingið á haustfundi þess árið 2017. Guðmundur sagði ályktunina mikilvægt skref sem veitti forustu ÖSE-þingsins lýðræðislegt umboð til aukins og betra samstarfs við ÖSE-stofnunina. Þingið ætti að vera lýðræðislegur burðarás ÖSE sem yki gildi stofnunarinnar. Einnig var rætt um mikilvægi þess að bæta innra starf ÖSE-þingsins. Til að mynda væri mikill skortur á gagnsæi við kjör í landsdeildir og embætti ÖSE-þingsins. Þá væri lýðræðið afar veikt í fjölda aðildarríkja sem drægi úr mætti ÖSE-þingsins.
    Varaformaður sænsku landsdeildarinnar kynnti ályktunartillögu um baráttu gegn spillingu á ÖSE-svæðinu. Í henni er kallað eftir að aðildarríki ÖSE verði í fararbroddi þegar kemur að baráttunni gegn spillingu. Lagt er upp með að aðildarríkin endurskoði löggjöf sína í því ljósi og að öll spilling verði refsiverð. Þá er hvatt til aukins alþjóðlegs samstarfs gegn spillingu og nánara samstarfs milli þjóðþinga um málaflokkinn.
    Í hringborðsumræðum um stöðu stjórnmála á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum sagði Sigríður Á. Andersen frá hræringum í íslenskum stjórnmálum síðustu mánuði, fór yfir stöðu efnahagsmála á Íslandi og sagði frá fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Fulltrúi Finnlands sagði frá nýrri skýrslu um áhrif mögulegrar aðildar Finnlands að Atlantshafsbandalaginu (e. NATO) sem og af því ef Svíþjóð gengi í bandalagið. Ekki væri gott fyrir annað ríkið ef hitt gengi í bandalagið. Því hefðu löndin tvö aukið samstarf sitt á sviði varnarmála. Fulltrúar Eistlands sögðu helstu ógn við öryggi Eistlands vera aðgerðir Rússlands nálægt landamærunum, í kringum Eystrasaltið og í Úkraínu. Nú þegar Rússar hefðu lokið hernaðaraðgerðum í Sýrlandi væri hætta á að þeir færu af meira afli inn í Úkraínu á ný. Fulltrúar Noregs sögðu lægra olíuverð á heimsmarkaði hafa skapað mikinn vanda í Noregi með stórauknu atvinnuleysi, sérstaklega á meðal ungs fólks. Flóttamannavandinn væri einnig mikil áskorun. Norðmenn vildu áframhaldandi samstarf við Rússland um málefni norðurslóða en Úkraínudeilan hefði auðvitað haft þó nokkur áhrif á samband Noregs og Rússlands. Fulltrúi Danmerkur sagði flóttamannavandann vera eitt helsta viðfangsefni Danmerkur nú. Illa gengi að aðlaga múslima að dönsku samfélagi. Fulltrúar Letta lögðu áherslu á þá öryggisógn sem utanríkisstefna Rússlands skapaði fyrir Lettland. Í viðleitni til að verjast þeirri ógn væru lettnesk stjórnvöld nú að byggja girðingu á austanverðum landamærum sínum, hefðu bannað útsendingar rússnesks sjónvarps sem og gætu Lettar af rússneskum uppruna sótt sér herþjálfun í Rússlandi. Flóttamannavandinn væri ekki stór í Lettlandi, það hefði sýnt sig að flóttafólk hefði ekki áhuga á að flytja til Austur-Evrópu. Ótækt væri að Evrópusambandið þvingaði aðildarríkin til að taka á móti ákveðnum fjölda flóttamanna. Fulltrúar Svíþjóðar sögðu árásargjarna hegðun Rússa á sænsku flugsvæði skapa mikla hættu og vera algjörlega óviðunandi. Ekki liti út fyrir að Svíþjóð yrði aðili að NATO á komandi árum. Flóttamannavandinn væri gríðarlega mikill í landinu en aðalatriðið í dag væri að ríki innan ESB gætu unnið saman að því að leysa þann vanda. Fulltrúar Litháen sögðu árásargjarna hegðun Rússa mikið vandamál og að Litháen væri að undirbúa vörn sína, herskylda hefði verið tekin upp á ný en fjöldi sjálfboðaliða væri einnig mjög mikill. Varnarsamstarf á vettvangi NATO væri það eina sem gæti hjálpað Litháen í þessari stöðu. Öryggis- og varnarmál væru þó ekki kjósendum í landinu efst í huga heldur efnahagsleg afkoma og heilbrigðis- og menntakerfið.
    Guðni Th. Jóhannesson, þáverandi dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands, hélt erindi um öryggis- og varnarmál Íslands frá 17. öld til dagsins í dag með sérstakri áherslu á heimsstyrjaldirnar tvær og kalda stríðið, veru bandaríkjahers á Íslandi og varnarmálasamning Íslands og Bandaríkjanna. Í umræðum var m.a. rætt um helstu öryggisógnir Íslands í dag og framlag landsins til alþjóðlegra öryggis- og varnarmála. Fram kom að helstu viðfangsefni Íslands tengdust náttúruhamförum en efnahagslegt öryggi væri einnig mikið til umræðu eftir efnahagshrunið árið 2008. Þá væri hryðjuverkaógnin til staðar á Íslandi eins og annars staðar. Helsta framlag Íslands til alþjóðlegra öryggis- og varnarmála væri í formi borgaralegrar friðargæslu. Ólíklegt væri að miklar breytingar yrðu á varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna í náinni framtíð en löndin þyrftu að finna út úr því hvernig þau vildu að samband þeirra þróaðist.
    Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastjóri UN Women, kynnti HeForShe, alþjóðlega hreyfingu UN Women sem hvetur sérstaklega karlmenn til að láta til sín taka í baráttunni fyrir kynjajafnrétti. Hún sagði frá uppruna verkefnisins, þróun þess á Íslandi og komandi verkefnum, m.a. áherslu á baráttuna gegn ofbeldi gegn konum á internetinu. Í umræðum var m.a. rætt um kynjaða fjárlagagerð sem fulltrúar Noregs og Íslands gátu deilt sinni reynslu af.
    Loks flutti Arndís Gunnarsdóttir, lögfræðingur hælisleitenda hjá Rauða krossi Íslands, erindi um flóttamannastefnu Íslands, helstu viðfangsefni og frumvarp um nýja löggjöf í málaflokknum. Hún sagði vandann ekki stóran á Íslandi enn þá en það gæti átt eftir að breytast. Rætt var um hvaða leiðir Ísland notaði til að koma í veg fyrir að glæpamenn kæmust óáreittir inn í landið, hvernig hælisumsóknir væru metnar og hvernig öryggi og réttindi barna sem kæmu ein til landsins væru tryggð. Loks var rætt um hvernig Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin tækju á málefnum stúlkna undir lögaldri sem kæmu til landanna sem flóttamenn í fylgd mun eldri eiginmanna.
    Ákveðið var að næsti samráðsfundur Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna innan þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu yrði í Helsinki í janúar 2017.

Ársfundur ÖSE þingsins í Tiblisi 1.–5. júlí 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Elsa Lára Arnardóttir, formaður, Guðmundur Steingrímsson, varaformaður, og Sigríður Á. Andersen, auk Vilborgar Ásu Guðjónsdóttur alþjóðaritara. Fundinn sóttu um 300 þingmenn frá 54 ríkjum en yfirskrift fundarins var „25 ár af þingmannasamstarfi: Uppbygging trausts í gegnum samræður“. Meginviðfangsefni fundarins var hlutdeild Rússlands í átökunum í Úkraínu, mannréttindabrot á Krímskaga, flóttamannavandinn á Miðjarðarhafi, aðgangur þingmanna ÖSE-þingsins að opinberum fundum og viðburðum þingsins og mögulegt framlag ÖSE-þingsins til viðbragðsaðgerða ÖSE við neyðarástandi og átökum. Þá lagði Íslandsdeildin fram ályktun um eflingu sambands ÖSE-þingsins við ÖSE-stofnunina.
    Guðmundur Steingrímsson var fyrsti flutningsmaður ályktunar Íslandsdeildar sem var samþykkt samhljóða án breytinga. Í ályktuninni er eins og áður sagði lagt til að framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins vinni í samstarfi við ÖSE-stofnunina aðgerðaáætlun um aukið og nánara samstarf stofnananna tveggja, sem og nýjar leiðir fyrir þingmenn til að taka á áþreifanlegan og árangursríkan hátt þátt í starfi þingsins við að efla lýðræði, réttarríki, öryggi og mannréttindi á ÖSE-svæðinu. Mælst var til þess að framkvæmdastjóri ÖSE-þingsins legði aðgerðaáætlunina fyrir ÖSE-þingið á haustfundi þess árið 2017. Guðmundur benti á að ÖSE-þingið hefði verið stofnað fyrir 25 árum til að auka áhrif og þátttöku þjóðþinga í starfi ÖSE. Allt frá árinu 1999 hefði ÖSE-þingið ítrekað falast eftir aukinni aðkomu þingsins að verkefnum ÖSE-stofnunarinnar en viðleitnin hefði skilað litlum árangri til þessa. Vaxandi mikilvægi ÖSE síðustu ár yki enn frekar þörfina á efldu samstarfi þingsins og stofnunarinnar, til hagsbóta fyrir stofnanirnar tvær og íbúa ÖSE-svæðisins. Aðgerðaáætlun væri mikilvægt skref í þá átt.
    Málefnanefndirnar þrjár tóku fyrir fram ákveðin mál til umfjöllunar með áherslu á yfirskrift ársfundarins. Elsa Lára Arnardóttir tók þátt í störfum 1. nefndar um stjórn- og öryggismál. Í ályktun nefndarinnar eru ríkisstjórnir aðildarríkja ÖSE hvattar til styrkja samstarf sitt gegn hryðjuverkum, þróa leiðir til að stöðva fjármögnun hryðjuverkahópa og tryggja öryggi og mannúðaraðstoð til kvenna á stríðssvæðum. Þingið hvetur aðila að Úkraínudeilunni til að framfylgja Minsk-samkomulaginu og leggur áherslu á alþjóðlegar friðargæsluaðgerðir á vegum ÖSE og Sameinuðu þjóðanna til að styðja við framkvæmd samninganna. Rússnesk stjórnvöld eru hvött til að láta af árásargjarnri hegðun í austurhluta Úkraínu og draga til baka ólöglega innlimun Krímskaga. Lýst er yfir áhyggjum af vaxandi spennu á Nagorno-Karabakh-svæðinu og þingmenn hvattir til að stuðla að gerð samnings milli deiluaðila um uppbyggingu trausts þeirra á milli til að draga úr líkum á frekari átökum.
    Sigríður Á. Andersen tók þátt í störfum 2. nefndar um efnahags-, vísinda-, tækni- og umhverfismál. Í ályktun nefndarinnar eru áréttuð jákvæð áhrif sem flóttamenn og innflytjendur geta haft í þeim löndum þar sem þeir leita skjóls. Bent er á að opnun vinnumarkaða fyrir flóttamönnum geti stuðlað að hagvexti og stutt við stefnu um aðlögun flóttamanna að viðkomandi gistiríki. ÖSE og aðildarríki stofnunarinnar eru hvött til að setja reglur um aflandsbanka og berjast gegn spillingu, skattsvikum, fjármálaglæpum og peningaþvætti.
    Guðmundur Steingrímsson tók þátt í störfum 3. nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál. Í ályktun nefndarinnar er lýst yfir áhyggjum af því að ÖSE-ríkin hafi ekki samþykkt ályktanir á málefnasviði 3. nefndar síðustu ár. Það bendi til skorts á hugmyndum og leiðtogafærni meðal ríkisstjórna aðildarríkja ÖSE. Enn fremur er lýst yfir áhyggjum af viðbrögðum margra ríkja við flóttamannavandanum, sem loki landamærum sínum í stað þess að takast á við vandann. ÖSE-ríkin eru hvött til að hætta að hefta för fólks sem flýr ofbeldi og vinna í stað þess að lausn flóttamannavandans. Hvatt er til þess að vinnumarkaðir verði opnir flóttamönnum og hælisleitendum eins fljótt og auðið er. Vakin er athygli á svokallaðri öryggisvæðingu (e. securitized) flóttmannavandans sem auki hættuna á að brotið sé á mannréttindum flóttamanna. Málsgrein í ályktunardrögum sem hvatti ÖSE-ríkin til að viðurkenna réttindi LGBT-fólks í samræmi við Helsinki-sáttmálann og aðra samninga ÖSE var felld á fundi nefndarinnar.
    Ályktanir nefndanna voru samþykktar á þingfundum ÖSE-þingsins og auk þess voru til viðbótar samþykktar 15 aukaályktanir en saman mynda þær yfirlýsingu ársfundarins. Á meðal aukaályktana var ályktun um mannréttindabrot á Krímskaga en í henni eru rússnesk stjórnvöld hvött til að láta af árásargjarnri hegðun á landsvæði Úkraínu, taka til baka innlimun Krímskaga og uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Rússar eru beðnir um að veita stofnunum ÖSE, Evrópuráðsins og Sameinuðu þjóðanna tafarlaust aðgang að Krímskaga, sem og verndurum mannréttinda og fjölmiðlum.
    Í ályktun um mögulegt framlag ÖSE-þingsins til þróunar á skilvirkum viðbrögðum við neyðarástandi og átökum er ÖSE hvatt til að nýta betur sérstaka fulltrúa og nefndir ÖSE-þingsins við aðgerðir til að fyrirbyggja átök og við hættustjórnun, m.a. með því að hrinda í framkvæmd hugmyndum ÖSE-þingsins í þá veru frá árinu 2012. Þær fela m.a. í sér aukið upplýsingaflæði á milli þingsins og ÖSE og aukna þátttöku sérlegs fulltrúa ÖSE-þingsins í Vín á fundum fastaráðs ÖSE, aðkomu ÖSE-þingsins að stefnumótun ÖSE á þessu sviði og þátttöku þingmanna ÖSE-þingsins í viðbragðsaðgerðum ÖSE.
    Í ályktun um átök á hernumdu georgísku svæðunum Abkasíu og Suður-Ossetíu eru rússnesk stjórnvöld hvött til að virða að fullu alþjóðalög og vopnahléssamning, taka til baka innlimun á framangreindum svæðum og hætta þar hernámi. Jafnframt eru rússnesk stjórnvöld beðin um að veita heimild fyrir alþjóðlegum öryggisráðstöfunum á hernumdu svæðunum og að tryggja óheftan aðgang eftirlitssveitar Evrópusambandsins að svæðinu. ÖSE er hvatt til að styrkja starf sitt í Georgíu til muna, þar á meðal að friðsamlegri lausn deilunnar.
    Í ályktun um öryggismál tengd fólksflutningum eru aðildarríkin hvött til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að ná aftur stjórn á innstreymi farandverkafólks með því að skrá og gera öryggisleit á öllum sem koma óreglulega til Evrópu (e. irregular migrants). Lögð er áhersla á að framkvæmdastjóri ÖSE og formaður fastaráðs stofnunarinnar sjái til þess að öryggismál verði óaðskiljanlegur hluti af aukinni áherslu ÖSE á flóttamannavandann.
    Í ályktun um Moldóvu segir að langvarandi átök í héraðinu Transnistríu í Moldóvu ógni öryggi og stöðugleika í Evrópu og á ÖSE-svæðinu. Lýst er yfir ánægju með viðleitni Þýskalands sem formennskuríkis ÖSE til að endurvekja friðarferli til lausnar deilunni.
    Í ályktun um jafnrétti kynjanna í viðbrögðum við flóttamanna- og farandverkamannavandanum eru aðildarríki ÖSE beðin um að safna kynjuðum gögnum og gera kynjaðar greiningar á öllum áætlunum og stefnum í málefnum farandverkamanna og flóttamanna. Aðildarríki eru jafnframt beðin um að senda jafnréttisfulltrúa í flóttamannabúðir og hrinda í framkvæmd ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um aukna þátttöku kvenna í friðarferli og friðaruppbyggingu að loknum átökum.
    Í ályktun um óheftan aðgang þingmanna ÖSE-þingsins að opinberum fundum og viðburðum þingsins eru aðildarríki ÖSE hvött til að tryggja að þingmenn ÖSE-þingsins geti sótt alla opinbera viðburði ÖSE og annarra þingmannasamtaka, með útgáfu vegabréfsáritana eða ferðaheimilda, nema þegar slíkt gangi gegn alþjóðalögum.
    Aðrar aukaályktanir sneru m.a. að samhæfingu löggæslu til að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi gegn og mansal á börnum, aðgerðum gegn spillingu á ÖSE-svæðinu, beiðni um að ÖSE bregðist af auknum mætti við ofbeldi og mismunun, réttindum flóttamanna, öryggi í Evrópu, kjarnorkuslysinu í Tsjernobyl árið 1986, eftirlitsbúnaði í flugvélum og auknu samstarfi um málefni Eystrasaltssvæðisins.
    Í lok ársfundar var austurríska þingkonan Christine Muttonen kjörin forseti ÖSE-þingsins til eins árs. Eftir fundinn er yfirlýsing ársfundar send áfram til utanríkisráðherra og þjóðþinga aðildarríkjanna með von um að hún hafi áhrif á ákvarðanir ráðherranefndar ÖSE og þar með pólitískar skuldbindingar aðildarríkjanna.

Haustfundur ÖSE-þingsins í Skopje 30. september – 2. október 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins sóttu fundinn Sigríður Á. Andersen, Björt Ólafsdóttir og Vigdís Hauksdóttir. Til viðbótar við hefðbundinn fund stjórnarnefndar ÖSE-þingsins var haldin ráðstefna um nýjar öryggisáskoranir og hlutverk þjóðþinga við að takast á við þær, fundur vettvangs Miðjarðarhafsríkja (e. Mediterranean Forum) og fundur undirnefndar þingsins um starfsreglur og vinnulag.
    Ráðstefnan bar yfirskriftina „Styrking góðra stjórnunarhátta og ráðstafana sem miða að því að vekja traust“ og var henni skipt í þrjá hluta. Í fyrsta hluta var sérstök áhersla á góða stjórnunarhætti sem grunn þess að styrkja efnahagsþróun á ÖSE-svæðinu. Í öðrum hluta var áhersla lögð á hlutverk ÖSE við þróun lýðræðisstofnana og mannréttinda í Suðaustur-Evrópu. Í þriðja hluta ráðstefnunnar var áhersla lögð á vernd mannréttinda við stýringu alþjóðlegra fólksflutninga. Á fundi vettvangs Miðjarðarhafsríkja var fjallað um eflingu öryggis og samstarfs við Miðjarðarhafið, með áherslu á flótta- og farandverkamannavandann, átök á svæðinu og þá ógn sem stafaði af ofbeldishneigðri öfgahyggju.
    Undirnefnd um starfsreglur og vinnulag ÖSE-þingsins fundaði samhliða haustfundi. Í kjölfar ársfundar ÖSE-þingsins árið 2016 óskaði formaður undirnefndarinnar eftir tillögum og athugasemdum frá þingmönnum landsdeilda um hvernig betur mætti standa að starfi þingsins. Vinnan byggist í grunninn á skýrslu forseta þingsins sem rædd var á ársfundinum í Tiblisi í júlí 2016. Tillögur landsdeilda og breytingartillögur við starfsreglur þingsins voru ræddar á fundi undirnefndarinnar samhliða haustfundi. Íslandsdeildin lagði til breytt fyrirkomulag funda ÖSE-þingsins. Markmið tillögunnar er að gera vinnu þingsins markvissari með því að fækka þeim málefnum sem hver málefnanefnd tekur fyrir ár hvert, dýpka umfjöllun um þau málefni sem verða fyrir valinu og gera þingmönnum betur kleift að taka virkan þátt í mótun ályktana um viðkomandi málefni. Í tillögunni er ekki gert ráð fyrir að einstakir þingmenn geti lagt fram ályktunartillögur utan málefnanefndanna. Vel var tekið í tillögu Íslandsdeildar og skrifstofu þingsins falið að skoða nánar mögulega framkvæmd hennar. Í tillögunni er lagt til að á ársfundum taki málefnanefndir til umfjöllunar tillögur um þemaefni nefndanna næsta árið. Þingmenn kynni tillögur sínar og í kjölfarið greiði nefndin atkvæði um hvaða tvö málefni verði til umfjöllunar á komandi ári. Sá þingmaður sem leggur fram tillögu sem hlýtur brautargengi verður framsögumaður nefndarinnar og undirbýr skýrslu og ályktun um málið. Á haustfundi þingsins fái málefnanefndirnar sérfræðinga á sinn fund til að fjalla um þemaefnin. Á vetrarfundi þingsins kynni framsögumenn fyrstu drög að skýrslum og ályktunum um þemaefnin í nefndunum þremur sem verði einnig rædd á þingfundi þar sem ráða- og embættismenn ÖSE-stofnana á viðkomandi sviðum sitji fyrir svörum. Lokadrög skýrslna og ályktana málefnanefndanna verði send út í byrjun aprílmánaðar hvert ár. Þingmenn sendi inn breytingartillögur sem starfsmenn nefnda taka saman í eitt skjal og senda á nefndarmenn eftir að fresti lýkur, tveimur vikum fyrir ársfund. Á ársfundi verði síðan umræða og atkvæðagreiðslur um breytingartillögur og lokaútgáfu ályktana í nefndum og umræða og atkvæðagreiðsla um lokaútgáfur ályktananna á þingfundi. Þessu til viðbótar lagði Íslandsdeildin til að þingmenn gætu óskað eftir að sérstök aðkallandi málefni yrðu rædd á hvort sem væri haustfundi, vetrarfundi eða ársfundi. Framkvæmdastjórn þingsins tæki afstöðu til þess konar beiðna. Eftir atvikum væri unnið að yfirlýsingu fundarins um viðkomandi málefni sem meiri hluti þingmanna þyrfti að samþykkja svo að hún hlyti brautargengi. Í breytingartillögum við starfsreglur þingsins var tekið á ýmsum vanköntum sem hafa valdið truflunum á starfi þingsins síðustu árin, þar á meðal hvað varðar gífurlegan fjölda breytingartillagna við ályktunartillögur fyrir ársfundi og eins verkferla þegar fleiri en 15 ályktunartillögur fá nægilegan fjölda undirskrifta til að fara fyrir ársfund. Gert er ráð fyrir að undirnefndin og þingið fjalli um og taki afstöðu til framangreindra málefna á árinu 2017.


Alþingi, 23. mars 2017.

Gunnar Bragi Sveinsson,
form.
Birgitta Jónsdóttir,
varaform.
Pawel Bartoszek.



Fylgiskjal.


Ályktanir ÖSE-þingsins árið 2016.


    Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á ársfundi ÖSE-þingsins árið 2016:
          Ályktun um að styrkja tengslin milli ÖSE-þingsins og ÖSE.
          Ályktun um óheft aðgengi þingmanna ÖSE-þingsins að opinberum fundum og viðburðum þingsins.
          Ályktun um mögulegt framlag ÖSE-þingsins til þróunar á skilvirkum viðbrögðum við neyðarástandi og átökum.
          Ályktun um átökin í Georgíu.
          Ályktun um öryggi í Evrópu.
          Ályktun um Moldóvu.
          Ályktun um aukið samstarf og ráðstafanir til að auka traust á Eystrasaltssvæðinu.
          Ályktun um aðgerðir gegn spillingu á ÖSE-svæðinu í viðleitni til að styrkja réttarríkið.
          Ályktun um kjarnorkuslysið í Tsjernobyl fyrir 30 árum.
          Ályktun um mannréttindabrot í sjálfsstjórnarlýðveldinu Krím og borginni Sevastopol.
          Ályktun um samhæfingu löggæslu til að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi gegn og mansal á börnum.
          Ályktun um ákall eftir aðgerðum á vegum ÖSE gegn ofbeldi og mismunun.
          Ályktun um réttindi flóttamanna.
          Ályktun um öryggisáskoranir tengdar fólksflutningum.
          Ályktun um kynjaðar greiningar í áætlana- og stefnugerð ÖSE-ríkja í viðbrögðum þeirra við farandverka- og flóttamannavandanum.
          Ályktun um eftirlitsbúnað í flugvélum.