Ferill 329. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 448  —  329. mál.




Fyrirspurn


til fjármála- og efnahagsráðherra um gjaldeyrisútboð og afnám gjaldeyrishafta.

Frá Birni Val Gíslasyni.


     1.      Telur ráðherra að það sé almenn skoðun innan ráðuneytisins að hægt hefði verið að eyða snjóhengjunni vorið 2016 á evrugenginu 165–170 kr. og ef svo er, á hverju er sú skoðun byggð?
     2.      Hverja telur ráðherra ástæðu þess að þáverandi stjórnvöld létu ekki verða af því að eyða snjóhengjunni vorið 2016 á evrugenginu 165–170 kr.?
     3.      Hversu mikið telur ráðherra að Íslendingar hefðu grætt á því ef erlendum krónueigendum hefði staðið til boða að flytja eignir sínar úr landi á evrugenginu 165–170 kr. samanborið við þau kjör sem þeim bjóðast nú?
     4.      Hve mikill kostnaður hefur fallið á Seðlabanka Íslands og/eða ríkissjóð vegna þess að það tækifæri sem gafst að mati ráðherra til að losna við snjóhengjuna vorið 2016 var látið ónotað?
     5.      Hefur verið hafin rannsókn á því innan ráðuneytisins, eða á öðrum vettvangi sem undir ráðherra heyrir, hvers vegna þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra og önnur stjórnvöld létu hjá líða að nýta það tækifæri sem gafst vorið 2016 til að ráða niðurlögum snjóhengjunnar? Ef svo er ekki, hvað veldur?
     6.      Telur ráðherra að þeir aflandskrónueigendur sem tóku þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabanka Íslands 16. júní 2016 og skiptu krónum í erlendan gjaldeyri í kjölfar þess á genginu 190 kr. fyrir eina evru geti átt rétt á bótum eða tilboði um sömu kjör og boðin eru aflandskrónueigendum nú, þ.e. 137,50 kr. fyrir eina evru? Lítur ráðherra svo á að yfirlýsingar hans í ræðu á þingfundi 13. mars sl. geti styrkt stöðu þeirra sem leystu krónur sínar út á evrugenginu 190 kr.?
     7.      Hvaða hagsmunir telur ráðherra að hafi legið til grundvallar ákvörðunum um krónuútboðið 2016? Lítur ráðherra svo á að aðrir hagsmunir, og þá hverjir, hafi ráðið för þegar síðustu ráðstafanir til afnáms gjaldeyrishafta voru gerðar?
     8.      Hyggst ráðherra leggja fram lagafrumvarp á yfirstandandi þingi um afnám gjaldeyrishafta?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Af ræðu fjármála- og efnahagsráðherra 13. mars sl. má ráða að það sé mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins að ekki hafi verið vel staðið að aflandskrónuútboði því sem haldið var um miðjan júní 2016 og hagsmunir almennings hafi ekki verið hafðir í fyrirrúmi sem kemur fram í því að ekki hafi verið tekinn sá kostur sem Íslendingar hefðu grætt mest á. Ljóst er að miklir fjármunir í eigu almennings voru í húfi og því brýnt að varpað verði skýru ljósi á þau mál sem ráðherra ýjaði að í ræðu sinni.