Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 477  —  351. mál.




Fyrirspurn


til heilbrigðisráðherra um geðheilbrigðisþjónustu barna.

Frá Bjarna Jónssyni.


     1.      Hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að bæta og tryggja nauðsynlegt aðgengi barna að sálgæslu og geðheilbrigðisþjónustu, óháð búsetu, tekjum og fjölskylduaðstæðum fólks og ef svo er, hverra?
     2.      Hvaða leiðir sér ráðherra til að stytta eða afnema langan biðtíma barna sem þurfa á þjónustu sálfræðings eða geðlæknis að halda og hvenær og hvernig er ætlunin að hrinda ráðstöfunum til úrbóta í framkvæmd?
     3.      Telur ráðherra að gera þurfi betur í að jafna aðstöðumun og veita fjölskyldum, sem þurfa að sækja geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn um langan veg og dvelja fjarri heimili, faglegan og fjárhagslegan stuðning? Ef svo er, hvaða leiðir koma helst til greina? Ef svarið er neitandi óskast skýring á því.


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.

    Góð sálfræði- og geðlæknaþjónusta er mikilvægur þáttur í grunnheilbrigðisþjónustu landsmanna. Mörg börn og fjölskyldur þeirra þurfa að búa við óboðlega langan biðtíma til að komast að hjá sálfræðingum og geðlæknum. Þá er aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu víða á landsbyggðinni bágborið sem og faglegur og fjárhagslegur stuðningur við þær fjölskyldur sem þurfa á slíkri þjónustu að halda.