Ferill 358. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 486  —  358. mál.




Skýrsla


Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins fyrir árið 2016.


1. Inngangur.
    Af þeim fjölmörgu og margþættu málum sem fjallað var um á vettvangi Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) á árinu 2016 eru nokkur atriði sem Íslandsdeildinni þykja standa upp úr með tilliti til markmiða sambandsins sem er að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi.
    Fyrst ber að nefna umræðu um stríðið í Sýrlandi og alvarlegt ástand mannúðarmála, sérstaklega í Aleppo. Rætt var um hlutverk þjóðþinga, alþjóðasamfélagsins og svæðisbundinna stofnana við að veita nauðsynlega vernd og aðkallandi stuðning við flóttamenn vegna stríðsástandsins og félagslegra aðstæðna, í samræmi við meginreglur alþjóðlegrar mannréttindalöggjafar og siðareglna. Málefni innflytjenda og flóttamanna voru mjög til umræðu á árinu. Sjónum var m.a. beint að mikilvægi siðferðilegra og efnahagslegra þátta fyrir sanngjarnari og mannúðlegri stefnu varðandi innflytjendur og flóttamenn. Áhersla var lögð á stuðning við flóttamenn frá Sýrlandi og nágrannaríki sem taka á móti hundruðum þúsunda flóttamanna frá landinu.
    Þá var ályktað um hryðjuverkastarfsemi og baráttuna gegn henni. Þar var lögð áhersla á nauðsyn þess að styrkja hnattrænt samstarf til að sporna við þeirri ógn sem hún er við lýðræði og réttindi einstaklingsins. Í umræðum um ályktun IPU um efnið voru nefndarmenn sammála um að hvers kyns hryðjuverk væru glæpir og að þau væru aldrei réttlætanleg, sama hver ástæðan og fremjandinn væru.
    Enn fremur var í brennidepli umræða um hvernig stuðla megi að auknu alþjóðlegu samstarfi um ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með sérstaka áherslu á konur sem drifkraft þróunar. Jafnframt afgreiddi þingið ályktun um frelsi kvenna til fullrar þátttöku í stjórnmálum og aukna samvinnu karla og kvenna til að ná því markmiði.
    Á vorþingi fór fram umræða um þær 230 milljónir barna sem njóta ekki borgaralegra réttinda í heiminum í dag og hvernig hægt sé að leysa þetta óásættanlega mannréttindavandamál sem er eitt það alvarlegasta á 21. öldinni. Í umræðum var lögð áhersla á nauðsyn þess að þjóðþing þrýstu á ríkisstjórnir sínar um að hefja tafarlaust aðgerðir sem upplýstu foreldra um mikilvægi þess að skrá börn sín við fæðingu og opna fyrir skráningu barna án tillits til þjóðernis, kynþáttar, trúarbragða eða stöðu innan samfélagsins.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á þingum IPU árið 2016 má nefna hvernig tryggja megi vernd gegn eyðileggingu og hnignun menningararfleifðar mannkyns, netvæðingu þjóðþinga, lýðræði og ungt fólk og hlutverk þjóðþinga við að koma í veg fyrir afskipti utanaðkomandi af málefnum fullvalda ríkja. Þá fór fram umræða um baráttuna gegn mannréttindabrotum í aðdraganda átaka og viðbragðsflýti þjóðþinga.
    Einnig ber að nefna mikilvægt starf IPU til að efla lýðræði en mörg aðildarþing sambandsins eru ekki lýðræðislega kjörin og í sumum fer ekkert eiginlegt löggjafarstarf fram. Sem dæmi um slíkt starf árið 2016 má nefna svæðisbundna málstofu um ný þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hringborðsumræðu um nýtingu vatns fyrir Mið-Austurlönd. Enn fremur gefur Alþjóðaþingmannasambandið út handbækur og skýrslur fyrir þingmenn til að hjálpa þeim að hafa áhrif í ólíkum málaflokkum. Á árinu 2016 var m.a. gefin út handbók fyrir þingmenn um alþjóðleg mannréttindalög.

2. Almennt um IPU.
    Aðild að IPU eiga nú 171 þjóðþing en aukaaðild að sambandinu eiga ellefu svæðisbundin þingmannasamtök. Markmið IPU er að stuðla að skoðanaskiptum þingmanna frá öllum heimshornum um alþjóðleg málefni, vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi. Áhersla er lögð á að standa vörð um mannréttindi í heiminum sem eins grundvallarþáttar lýðræðis og þingræðis. Þá vinnur IPU að styrkingu þjóðþinga og aðstoðar við þróun lýðræðislegra vinnubragða innan þeirra. Sambandið styður starfsemi Sameinuðu þjóðanna og á margvíslegt samstarf við stofnanir þeirra. Höfuðstöðvar sambandsins eru í Genf, en sambandið rekur jafnframt skrifstofu í New York.
    IPU heldur tvö þing á ári, að vori í einu af aðildarríkjum sambandsins og að hausti í Genf, nema annað sé ákveðið sérstaklega. Auk þess heldur sambandið alþjóðlegar ráðstefnur og málstofur á ári hverju, oft um málefni sem eru efst á baugi innan Sameinuðu þjóðanna hverju sinni og þá gjarnan í tengslum við tiltekna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Þá eru haldnar námsstefnur fyrir þjóðþing sem óska eftir slíku um ýmsa þætti löggjafarstarfsins og eflingu lýðræðis.
    Fjórar fastanefndir starfa innan Alþjóðaþingmannasambandsins:
    1. nefnd um friðar- og öryggismál,
    2. nefnd um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál,
    3. nefnd um lýðræði og mannréttindamál,
    4. nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna.
    Ráð IPU, sem í eiga sæti þrír fulltrúar frá hverri landsdeild (fulltrúum fækkar í tvo ef sendinefnd samanstendur ekki af fulltrúum beggja kynja í fleiri en þrjú þing í röð), markar stefnu samtakanna og hefur umsjón með starfi nefnda og vinnuhópa. Á milli funda hefur 17 manna framkvæmdastjórn umsjón með daglegum rekstri samtakanna, undirbýr fundi ráðsins og fylgir eftir ákvörðunum þess. Auk fastanefnda sambandsins skila aðrar nefndir og vinnuhópar sem starfa innan sambandsins skýrslum til ráðsins til afgreiðslu, en um er að ræða nefnd um málefni Sameinuðu þjóðanna, nefnd um mannréttindi þingmanna, nefnd um málefni Miðausturlanda, vinnuhóp um málefni Kýpur, nefnd til að auka virðingu fyrir alþjóðlegum mannúðarlögum, undirbúningsnefnd kvennafundar IPU og vinnuhóp um samstarf kynjanna. Nefnd um mannréttindi þingmanna vinnur mikið starf á milli þinga og gefur út skýrslu fyrir hvert þing IPU þar sem farið er yfir mál þingmanna sem mannréttindi hafa verið brotin á, hvort sem um er að ræða fangelsun, hótanir, barsmíðar, mannshvarf eða dauðsfall. Nefndin heimsækir viðkomandi ríki, ræðir við málsaðila og aflar gagna. Málum er fylgt eftir, oft árum saman, þar til niðurstaða fæst. Ráð IPU samþykkir á hverju þingi ályktanir sem grundvallast á skýrslu nefndarinnar.
    Ályktanir IPU eru ekki bindandi fyrir þjóðþing aðildarríkjanna. Þær endurspegla hins vegar umræðu um mikilvæg málefni sem hinar ýmsu þjóðir glíma við. Vegna virkrar þátttöku þingmanna í umræðum á þingum IPU og ólíkra sjónarmiða þeirra hafa alþjóðastofnanir lagt áherslu á að fylgjast vel með ályktunum IPU, enda hafa þær iðulega bent á nýjar leiðir og hugmyndir að lausn mála.

3. Skipan og starfsemi Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2016 Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Ásmundur Einar Daðason, varaformaður, þingflokki Framsóknarflokks, og Birgitta Jónsdóttir, þingflokki Pírata. Varamenn voru Helgi Hrafn Gunnarsson, þingflokki Pírata, Sigrún Magnúsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Valgerður Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Arna Gerður Bang var ritari deildarinnar. Íslandsdeildin hélt fjóra fundi á árinu 2016, en á þeim fór aðallega fram undirbúningur fyrir þátttöku í þingum IPU.

4. Yfirlit yfir fundi.
    Starfsemi Íslandsdeildar var með hefðbundnum hætti á árinu 2016. Íslandsdeildin var venju samkvæmt virk í starfi IPU á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndum og á þingum sambandsins. Hér á eftir verður gerð grein fyrir því sem fram fór á fundunum á árinu og öðrum störfum Íslandsdeildar.

Norrænt samstarf.
    Tveir norrænir samráðsfundir eru haldnir árlega til að fara yfir málefni komandi þings og samræma afstöðu Norðurlanda eins og hægt er. Norðurlöndin skiptast á að fara með formennsku í norræna hópnum og gegndi Finnland formennsku á árinu. Báðir fundirnir voru haldnir í Helsinki, sá fyrri í mars og sá síðari í október 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar sótti Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar, samráðsfundina. Fundirnir voru haldnir til undirbúnings þátttöku í 135. þingi IPU sem haldið var í Lúsaka 19.–23. mars 2016 og 136. þingi IPU sem haldið var í Genf 23.–27. október 2016. Hér á eftir fer stutt yfirlit yfir helstu málefni sem voru til umræðu á fundunum.
    Fyrri norræni samráðsfundurinn var haldinn í Helsinki 4. mars og var fyrsta mál á dagskrá umræða um niðurstöður þings IPU í Genf í október 2015 og annarra ráðstefna og funda sem nefndarmenn hafa sótt á vegum IPU-þingsins síðustu sex mánuðina. Þá var rætt um lausar stöður fyrir fulltrúa tólfplús-hópsins í embætti á vegum IPU en hópurinn er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja. Nefndarmenn voru sammála um mikilvægi þess að norrænu ríkin ættu fulltrúa á sem flestum fundum hjá IPU, ekki síst hjá ungum þingmönnum en sá umræðuvettvangur er mjög virkur og hefur vaxið á undanförnum misserum. Ásmundur Einar Daðason hefur tekið þátt í þeim fundum fyrir hönd Íslandsdeildar.
    Þá var rætt um lausar stöður fyrir fulltrúa tólfplús-hópsins í embætti á vegum IPU. Anti Avsan, varaformaður sænsku landsdeildar IPU, tók til máls en hann er formaður nefndar um málefni Sameinuðu þjóðanna hjá IPU sem er ein af fjórum fastanefndum sambandsins. Krister Örnfjäder, formaður sænsku landsdeildar IPU sem gegnir formennsku undirnefndar um fjármál IPU, skýrði frá vinnu nefndarinnar og helstu verkefnum. Kallað var eftir nýjum norrænum fulltrúa sem væri tilbúinn til að bjóða sig fram sem einn fjögurra fulltrúa tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn IPU og greindi norska þingkonan Gunvor Eldegard nefndarmönnum frá því að hún hygðist bjóða sig fram til embættisins.
    Enn fremur var farið yfir helstu umræðuefni þingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Umræðuefni fastanefndanna voru m.a. hryðjuverkastarfsemi, málefni innflytjenda og nauðsyn þess að styrkja samstarf á heimsvísu gegn ógn við lýðræði og hvernig tryggja mætti vernd gegn eyðileggingu og hnignun menningararfleifðar mannkyns. Jafnframt fór fram almenn umræða um lýðræði og ungt fólk. Árlegur kvennafundur var haldinn 20. og 22. mars þar sem m.a. var rætt um hryðjuverkastarfsemi og nauðsyn þess að styrkja alþjóðlegt samstarf í baráttunni gegn henni og til varnar lýðræði og réttindum einstaklingsins, með áherslu á þátttöku og eflingu kvenna í stjórnmálum.
    Formaður finnsku landsdeildar IPU bauð norrænu landsdeildunum til hádegisverðar mánudaginn 21. mars. Að lokum var rætt um framtíðarfyrirkomulag norrænu samráðsfundanna sem haldnir hafa verið tvisvar á ári, til skiptis í norrænu ríkjunum, til undirbúnings fyrir vor- og haustþing IPU. Voru nefndarmenn sammála um að núverandi fyrirkomulag væri ákjósanlegt, þar sem fundirnir væru haldnir í höfuðborgum viðkomandi formennskuríkis. Þá var jafnframt ákveðið að halda næsta norræna undirbúningsfund í Helsinki í október 2016 til undirbúnings fyrir 136. vorþing IPU í Genf, 21.–23. október 2016.
    Síðari norræni samráðsfundurinn var haldinn 7. október í Helsinki og var fyrsta mál á dagskrá umræða um niðurstöður vorþings IPU í Lúsaka í mars og annarra ráðstefna og funda sem nefndarmenn höfðu sótt á vegum IPU-þingsins síðustu sex mánuðina. Ragnheiður Ríkharðsdóttir greindi frá helstu niðurstöðum World e-Parliament ráðstefnu IPU sem fór fram í Valparaiso 28.–30. júní. Hún sagði helstu áhersluatriði ráðstefnunnar hafa verið kynning á útgáfu World e-Parliament-skýrslu og umræður um niðurstöður hennar. Skýrslan leiddi m.a. í ljós að með því að hafa gögn aðgengileg leiddi það til breytinga á samskiptum þjóðþinga og almennings þar sem almenningur færi úr hlutverki þess að vera viðtakandi og í hlutverk þátttakanda. Þá gæti upplýsingatækni haft jákvæð áhrif á þá þróun að þjóðþing yrðu gagnsærri og aðgengilegri. Ragnheiður sagði ráðstefnuna hafa verið afar lærdómsríka fyrir þátttakendur sem deildu m.a. reynslu sinni af því hvernig upplýsingatækni gæti komið að gagni við lagasetningu, aukið yfirsýn, gagnsæi og árangur þingmanna. Þá var vakin athygli nefndarmanna á hliðarviðburði um efnið sem tólfplús-hópurinn fyrirhugaði að halda 24. október í tengslum við haustþing í Genf. Einnig kom fram hugmynd um að taka málefnið sérstaklega upp í norræna IPU-hópnum í nánustu framtíð og deila norrænni reynslu af upplýsingatækni og hvernig best sé að nýta nýja tækni í þjóðþingunum.
    Næst greindi fulltrúi norræna hópsins í framkvæmdastjórn IPU, norska þingkonan Gunvor Eldegard, frá áherslum og umræðum framkvæmdastjórnar og stýrihóps tólfplús-hópsins. Þar var m.a. rætt um það hvort þiggja ætti boð Rússa um að vera í gestgjafahlutverki á haustþingi IPU 2017. Taka átti ákvörðun um það boð á haustþingi IPU síðar í mánuðinum. Skiptar skoðanir voru meðal nefndarmanna um málið í ljósi átakanna í Úkraínu og innlimun Krímskaga í Rússland. Jafnframt hefur fulltrúi Rússlands í framkvæmdastjórn IPU lagt fram breytingartillögu við starfsreglur sambandsins þar sem lagt er til að reglur um skilyrði fyrir vegabréfsáritun gestgjafalanda vegna viðburða IPU séu ítrekaðar. Í reglunum er það gert að skilyrði að gestgjafaland veiti öllum aðildarríkjum IPU vegabréfsáritun til að sækja viðburði sem sambandið skipuleggur. Undanfarin ár hafa Evrópuríki ekki getað boðað til funda á vegum sambandsins vegna þessa ákvæðis. Breytingartillagan verður rædd og afgreidd á næsta haustþingi.
    Þá tilkynnti sænski þingmaðurinn Krister Örnfjäder að Svíþjóð mundi ekki bjóða fram fulltrúa í stöðu formanns tólfplús-hópsins. Ástæða þess væri hár kostnaður við að gegna formennsku og halda úti starfsmönnum og skrifstofu. Í augnablikinu hefur eingöngu einn frambjóðandi frá Portúgal boðið sig fram til stöðunnar. Þá skýrði Örnfjäder frá vinnu undirnefndar um fjármál IPU þar sem hann gegnir formennsku. Hann sagði fjármál IPU hafa verið eitt aðalumræðuefni stjórnarnefndar tólfplús-hópsins síðastliðin ár með áherslu á niðurskurð sem hafi gengið eftir að mestu leyti. Örnfjäder greindi jafnframt frá því að hann hygðist bjóða sig fram í stöðu innri endurskoðanda IPU og vonaðist eftir stuðningi nefndarmanna. Nefndarmenn lýstu yfir vonbrigðum með að Örnfjäder gæfi ekki kost á sér í framboð til formanns tólfplús-hópsins en lofuðu honum stuðningi við framboð í stöðu innri endurskoðanda.
    Enn fremur var farið yfir helstu umræðuefni haustþingsins og skiptingu þingmanna í fastanefndir. Umræðuefni fastanefndanna voru m.a. hvernig stuðla mætti að auknu alþjóðlegu samstarfi um ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með sérstakri áherslu á konur sem drifkraft þróunar, hlutverk þjóðþinga við að koma í veg fyrir afskipti utanaðkomandi að málefnum fullvalda ríkja og frelsi kvenna til fullrar þátttöku í stjórnmálum og aukna samvinnu karla og kvenna til að ná því markmiði. Nefndarmenn lýstu yfir áhyggjum af þróun umræðu nefndar um frið og öryggi um hlutverk þjóðþinga við að koma í veg fyrir afskipti utanaðkomandi af málefnum fullvalda ríkja. Rússar hafa tekið virkan þátt í umræðunni sem hefur beinst gegn alþjóðlegum viðmiðum um afskipti af málefnum fullvalda ríkja. Voru nefndarmenn sammála um mikilvægi þess að fylgja sérstaklega eftir störfum nefndarinnar á haustþinginu og taka þátt í umræðum, atkvæðagreiðslu um breytingartillögur og afgreiðslu ályktunarinnar. Einnig var haldinn árlegur kvennafundur 23. og 26. október þar sem m.a. voru pallborðsumræður um það hvernig tryggja megi réttindi og framtíð kvenna og stúlkna í stríði og átökum. Ragnheiður tók þátt í fundinum fyrir hönd Íslandsdeildar.
    Á haustþinginu var almenn umræða um mannréttindabrot sem undanfara átaka og viðbragðsflýti þjóðþinga og hélt finnski þingmaðurinn Pekka Haavisto erindi um efnið. Hann sagði að þegar undanfarar átaka væru skoðaðir kæmi í ljós mikilvægi þess að taka viðvaranir alvarlega og bregðast fljótt við. Hlutverk þingmanna væri m.a. að bregðast við hatursáróðri og ögrunum, stuðla að friðarumleitunum í milliríkjaátökum og auknu samstarfi þjóðþinga. Þá sagði hann mikilvægt að horfa til frumkvæðis og framkvæmda heimamanna við friðargæslu. Í framhaldinu sköpuðust líflegar umræður meðal nefndarmanna og voru þeir sammála um að IPU ætti ekki að forðast að hafa málefni Sýrlands á dagskrá þingsins þó fulltrúar Sýrlands og Rússlands væru viðstaddir.
    Formaður finnsku landsdeildar IPU bauð norrænu landsdeildunum til hádegisverðar mánudaginn 24. október í Genf. Þá bauð Ragnheiður nefndarmenn velkomna til norræns undirbúningsfundar í mars 2017 í Reykjavík, en Ísland tók við formennsku í norræna hópnum að loknu haustþingi í Genf í október.

134. þing IPU í Lusaka 19.–23. mars.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sóttu fundinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, Ásmundur Einar Daðason, varaformaður, og Birgitta Jónsdóttir auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Helstu mál á dagskrá voru hryðjuverkastarfsemi, málefni innflytjenda og nauðsyn þess að styrkja samstarf á heimsvísu gegn ógn við lýðræði og hvernig tryggja megi vernd gegn eyðileggingu og hnignun menningararfleifðar mannkyns. Jafnframt fór fram almenn umræða um lýðræði og ungt fólk. Þá var utandagskrárumræða um þær 230 milljónir barna sem njóta ekki borgaralegra réttinda í heiminum í dag og hvernig leysa beri þetta uggvænlega vandamál sem er eitt það alvarlegasta á 21. öldinni. Um 1.200 þátttakendur sóttu þingið, þar af 634 þingmenn frá 125 ríkjum og 38 þingforsetar og varaþingforsetar.
    Enn fremur var haldinn árlegur kvennafundur 19. og 22. mars í tengslum við þingið. Umræðuefni fundarins var m.a. hryðjuverkastarfsemi og nauðsyn þess að styrkja alþjóðlegt samstarf í baráttunni gegn henni og til varnar lýðræði og réttindum einstaklingsins með áherslu á þátttöku og eflingu kvenna í stjórnmálum. Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók þátt í umræðum fundarins og hvatti þingmenn til að leggja áherslu á aukið kynjajafnrétti á öllum stigum samfélagsins. Þá lagði hún ríka áherslu á mátt menntunar og sagði hana lykil að samfélagslegum endurbótum. Hún áréttaði að drengir og stúlkur þyrftu að hafa jafnan aðgang að menntun og nauðsynlegt væri að innleiða þau réttindi í námsskrá ríkja heims. Birgitta Jónsdóttir tók einnig þátt í umræðunum og lagði áherslu á mikilvægi þess að standa vörð um lýðræðið og nauðsynlegt væri að gera það með lagasetningu á heimsvísu. Hún vísaði jafnframt til ályktunar á grundvelli málssóknar hennar gegn bandaríska ríkinu sem samþykkt var á ráðsfundi IPU í nóvember 2011. Mál Birgittu hefur verið til umfjöllunar hjá mannréttindanefnd IPU, m.a. á grundvelli tjáningarfrelsis sem hornsteins lýðræðis.
    Tólfplús-hópurinn, sem er samstarfsvettvangur vestrænna lýðræðisríkja, hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Formaður hópsins, Philippe Mahoux frá Belgíu, stýrði fundunum og lýsti því jafnframt yfir að hann byði sig ekki fram til áframhaldandi formennsku og kjósa þyrfti nýjan formann hópsins á haustþingi IPU í Genf í október. Fulltrúar tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn kynntu helstu niðurstöður síðustu funda. Þá var rætt um boð rússnesku landsdeildarinnar um að halda haustþing IPU 2017 í Rússlandi. Nefndarmenn voru almennt neikvæðir gagnvart því boði í ljósi brota Rússa á samþykktum um málefni Úkraínu. Þá var athygli tólfplús-hópsins vakin á því að 19 sendinefndir á þinginu væru eingöngu skipaðar karlmönnum og að á meðal þeirra væru þó nokkrar úr hópi tólfplús-ríkja. Voru nefndarmenn sammála um að aðildarríkin þyrftu að gæta að kynjajafnvægi í störfum þingsins og horfa skyldi í auknum mæli til samþykktar IPU frá 1996 þar sem lögð er áhersla á mikilvægi þess að landsdeildir séu skipaðar fulltrúum beggja kynja og refsing lögð við ef landsdeild sendir þrisvar í röð sendinefnd skipaða eingöngu körlum eða konum. Jafnframt skipulagði tólfplús-hópurinn hliðarviðburð um netvæðingu þjóðþinga og tók Birgitta Jónsdóttir þátt í umræðum. Hún lagði m.a. áherslu á mikilvægi þess að friðhelgi einkalífsins í hinum stafræna heimi nyti sömu lagalegu verndar og í raunheimi, það væri grundvöllur lýðræðis. Þá vísaði hún til ályktunar um lýðræðið á stafrænum tímum – ógnir gagnvart friðhelgi einkalífsins og einstaklingsfrelsi sem samþykkt var á haustþingi IPU 2015 og hún var höfundur að. Þar eru þjóðþing m.a. hvött til þess að endurskoða löggjöf sína svo koma megi í veg fyrir söfnun, greiningu og varðveislu persónulegra upplýsinga án upplýsts samþykkis viðkomandi einstaklinga eða gilds dómsúrskurðar.
    Fimm tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins. Fyrir valinu varð tillaga að ályktun um þær 230 milljónir barna sem eru ríkisfangslaus og hvernig leysa beri þetta uggvænlega ástand sem er eitt það alvarlegasta á 21. öldinni. Markmiðið með ályktuninni var að virkja þjóðþing og alþjóðastofnanir til að tryggja vernd og stuðning við þann fjölda barna undir fimm ára aldri sem er ríkisfangslaus. Lögð var áhersla á nauðsyn þess að þjóðþing þrýstu á ríkisstjórnir sínar að hefja tafarlaust aðgerðir til að upplýsa foreldra um mikilvægi þess að skrá börn sín við fæðingu og opna fyrir skráningu barna án tillits til þjóðernis, kynþáttar, trúarbragða eða stöðu innan samfélagsins. Birgitta Jónsdóttir var annar tveggja fulltrúa tólfplús-hópsins í undirbúningsnefnd sem vann að texta ályktunarinnar út frá fyrstu drögum sem lögð voru fram af landsdeildum Frakklands og Úrúgvæ. Undirbúningsnefndin fundaði um ályktunina og vann lokadrög sem lögð voru fyrir þingið til samþykktar. Ályktun þingsins endurspeglaði innihald umræðunnar og var hún samþykkt einróma.
    Almenn umræða fór fram um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum og sjónum beint að mikilvægi stjórnmálaþátttöku ungs fólks í lýðræðisríkjum og hvernig mætti virkja það enn frekar. Ásmundur Einar Daðason og Birgitta Jónsdóttir tóku þátt í umræðunum fyrir hönd Íslandsdeildar. Ásmundur sagði að til þess að auka áhuga ungs fólks á stjórnmálum þyrfti að gera breytingar á uppbyggingu og umhverfi stjórnmálanna. Tækniþróun og internetið hefði gríðarleg áhrif í stjórnmálum og ungt fólk á Íslandi nýtti sér það dags daglega. Ásmundur greindi frá því að þegar hann byrjaði feril sinn í stjórnmálum hefði hann fljótt áttað sig á því að best væri að ná til fólks í gegnum samfélagsmiðla, fyrst með bloggfærslum, síðan Facebook og þar á eftir Twitter og Snapchat. Það sama ætti við um aðra stjórnmálamenn á Íslandi þar sem flestir landsmenn hefðu aðgang að internetinu. Samfélagsmiðlar gegndu auknu hlutverki í starfi hvers stjórnmálamanns og stuðluðu að auknu upplýsingaflæði til kjósenda. Þrátt fyrir þessa þróun hefðu færri áhuga á þátttöku í stjórnmálum. Ásmundur sagði mikilvægt að nýta samfélagsmiðla, sem væru klárlega komnir til að vera enn betur en nú væri gert. Ekki væri nægjanlegt að horfa eingöngu á þá sem tól almannatengsla fyrir einstaka þingmenn heldur skoða víðtækari möguleika. Þá þyrftu stjórnmálaflokkar og þjóðþing að fylgja tækniþróuninni varðandi starfshætti sína en það hefði ekki verið gert nægilega hratt miðað við þróunina.
    Birgitta lagði áherslu á mikilvægi þess að ungir þingmenn mættu til leiks óhindraðir af hefðum og venjum og fengju rými til að finna leiðir til að bæta kerfið í takt við nútímatækni og þekkingu. Hugmyndafræðileg umbreyting ætti sér stað í nútímasamfélögum og nauðsynlegt væri að ungt fólk væri virkjað til þátttöku í hönnun nýs framtíðarskipulags. Nauðsynlegt væri að veita ungu fólki raunverulega ábyrgð til að skapa nýja samfélagsgerð til framtíðar.Við lok umræðunnar samþykkti þingið ályktun þar sem helstu atriði umræðunnar voru dregin saman.
    Fastanefndirnar tóku fyrirframákveðin mál til umfjöllunar og ályktunar. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var afgreidd tillaga að ályktun um hryðjuverkastarfsemi og nauðsyn þess að styrkja hnattrænt samstarf í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi til að sporna við þeirri ógn sem hún er við lýðræði og réttindi einstaklingsins. Þá var samþykkt að næsta umræðuefni nefndarinnar yrði hlutverk þjóðþinga við að koma í veg fyrir afskipti utanaðkomandi af málefnum fullvalda ríkja. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, var rætt hvernig tryggja mætti varanlega verndun gegn eyðileggingu og hnignun menningararfleifðar mannkyns og tillaga að ályktun um efnið samþykkt. Jafnframt var samþykkt að umræðuefni nefndarinnar yrði hvernig stuðla mætti að auknu alþjóðlegu samstarfi um ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með sérstakri áherslu á konur sem drifkraft þróunar. 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, samþykkti að umræðuefni næsta þings og ályktun yrði tileinkað frelsi kvenna til fullrar þátttöku í stjórnmálum og aukinni samvinnu karla og kvenna til að ná því markmiði. Þá lagði forseti IPU fram yfirlýsingu fyrir hönd sambandsins varðandi hryðjuverkaárásirnar í Brussel 22. mars og fordæmdi verknaðinn harðlega.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Nefnd um mannréttindi þingmanna kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráðið fjölmargar ályktanir um málið.

135. þing IPU í Genf 23.–27. október 2016.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar IPU sótti fundinn Einar K. Guðfinnsson þingforseti, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, og Ásmundur Einar Daðason, varaformaður, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar.
    Helstu mál á dagskrá voru hvernig stuðla mætti að auknu alþjóðlegu samstarfi um ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með sérstakri áherslu á konur sem drifkraft þróunar og hlutverk þjóðþinga við að koma í veg fyrir afskipti utanaðkomandi af málefnum fullvalda ríkja. Þá var tekin til umræðu og afgreiðslu ályktun um frelsi kvenna til fullrar þátttöku í stjórnmálum og aukna samvinnu karla og kvenna til að ná því markmiði. Jafnframt fór fram almenn umræða um baráttuna gegn mannréttindabrotum í aðdraganda átaka og viðbragðsflýti þjóðþinga. Þá fór fram utandagskrárumræða um stríðið í Sýrlandi og alvarlegt ástand mannúðarmála, sérstaklega í Aleppo. Enn fremur var haldinn kvennafundur dagana 23. og 26. október í tengslum við þingið þar sem m.a. var rætt um hvernig tryggja mætti réttindi og framtíð kvenna og stúlkna í stríði og átökum. Um 1.300 þátttakendur sóttu þingið, þar af 700 þingmenn frá 138 ríkjum, 67 þingforsetar og 41 varaþingforseti.
    Tólfplús-hópurinn hittist að venju flesta morgna meðan á þinginu stóð. Á þeim fundum var farið yfir helstu mál þingsins og afstaða sendinefnda samræmd eins og hægt var, auk þess sem valdir voru fulltrúar hópsins í embætti og störf á vegum IPU. Formaður hópsins, Philippe Mahoux frá Belgíu, stýrði fundunum. Fulltrúar tólfplús-hópsins í framkvæmdastjórn og stýrihópum IPU kynntu helstu niðurstöður síðustu funda stjórnarinnar og fundar stjórnarnefndar. Sænski þingmaðurinn Kristen Örnfjäder bauð sig fram í stöðu innri endurskoðanda IPU og hlaut stuðning nefndarmanna. Þá fór fram kosning til formanns tólfplús-hópsins og var eingöngu einn frambjóðandi frá Portúgal og tók hann við formennsku hópsins við lok haustþingsins.
    Átta tillögur að neyðarályktun voru lagðar fram við upphaf þingsins. Aðeins er hægt að taka fyrir eitt mál utan dagskrár á hverju þingi samkvæmt reglum IPU. Fyrir valinu varð sameiginleg tillaga frá Þýskalandi og Mexíkó um stríðið í Sýrlandi og alvarlegt ástand mannúðarmála, sérstaklega í Aleppo. Í ályktuninni var dauði hundruð þúsunda íbúa Sýrlands harmaður, en flestir voru þeir almennir borgarar. Þá var vakin athygli á að meira en 11 milljónir manna hafa misst heimili sín í Sýrlandi, þar af eru 6,5 milljón á flótta innan lands og 4,8 milljónir hafa flúið land. Jafnframt var rætt um hlutverk þjóðþinga, alþjóðasamfélagsins og svæðisbundinna stofnana við að veita nauðsynlega vernd og stuðning við flóttamenn vegna stríðsástandsins, í samræmi við alþjóðlega mannréttindalöggjöf og siðareglur. Miklar og erfiðar umræður voru um texta ályktunarinnar og voru þingmenn sýrlensku landsdeildarinnar ekki á eitt sáttir en féllust að lokum á ályktunina. Ályktun þingsins endurspeglaði kjarna umræðunnar og var hún samþykkt.
    Almenn umræða var um pólitískt, efnahagslegt og félagslegt ástand í heiminum og var sjónum beint að baráttunni gegn mannréttindabrotum í aðdraganda átaka og viðbragðsflýti þjóðþinga. Einar K. Guðfinnsson tók þátt í umræðunni fyrir hönd Íslandsdeildar. Lagði hann í ávarpi sínu sérstaka áherslu á baráttu gegn mannréttindabrotum gagnvart konum og börnum. Jafnframt lagði Einar áherslu á stöðu kvenna og barna á flótta. Þessi hópur væri í sérstakri hættu þegar stríðsátök geisuðu og flóttanum fylgdi mikið óöryggi og lítil vernd. Þá þakkaði hann stjórn og starfsmönnum Alþjóðaþingmannasambandsins gott samstarf, en Einar hefur átti sæti í Íslandsdeild Alþjóðaþingmannasambandsins um 14 ára skeið, þar af sjö ár sem formaður Íslandsdeildar.Við lok almennrar umræðu samþykkti þingið yfirlýsingu þar sem helstu áhersluatriði umræðunnar voru dregin saman.
    Fastanefndirnar tóku fyrirframákveðin mál til umfjöllunar. Í 1. nefnd, um frið og alþjóðleg öryggismál, var rætt um hlutverk þjóðþinga við að koma í veg fyrir afskipti utanaðkomandi af málefnum fullvalda ríkja. Í 2. nefnd, um sjálfbæra þróun, efnahags- og viðskiptamál, fór fram umræða hvernig stuðla mætti að auknu alþjóðlegu samstarfi um ný markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun með sérstakri áherslu á konur sem drifkraft þróunar. Í 3. nefnd, um lýðræði og mannréttindi, var ítarleg umræða og afgreiðsla á tillögu að ályktun um frelsi kvenna til fullrar þátttöku í stjórnmálum og aukna samvinnu karla og kvenna til að ná því markmiði. Þá var tekin ákvörðun um að umræðuefni næsta árs yrði tileinkað 20 ára afmæli alþjóðlegrar yfirlýsingar um lýðræði (Universal Declaration on Democracy) með áherslu á fjölbreytni mannlífsins.
    Ráð IPU kom tvisvar saman á þinginu og afgreiddi fjölda mála. Fjárhagsáætlun fyrir árin 2016 og 2017 voru ræddar og samþykktar auk þess sem yfirlit yfir skipulagða fundi var kynnt. Nefnd um mannréttindi þingmanna fagnaði 40 ára starfsafmæli sínu og kynnti skýrslur um brot gegn mannréttindum þingmanna og samþykkti ráðið ályktanir á grundvelli þeirra um þingmenn í 14 löndum. Þá samþykkti ráðið stefnumótun IPU fyrir árin 2017–2021. Einnig var útgáfa á handbók fyrir þingmenn um alþjóðleg mannréttindalög kynnt. Handbókin er unnin í samstarfi IPU og Alþjóðanefndar Rauða krossins (ICRC). Þá var tekin ákvörðun um að haustþing IPU 2017 yrði haldið í Pétursborg í Rússlandi. Mikil umræða skapaðist um boð landsdeildar Rússa um að vera í gestgjafahlutverki á því þingi og voru óánægjuraddir þó nokkrar þar sem bent var á brot Rússa á samþykktum um málefni Úkraínu. Landsdeild Úkraínu mótmælti fyrirkomulaginu harðlega en meiri hluti landsdeilda var hlynntur því að sækja þingið í Pétursborg og samþykkti ráðið þá ákvörðun við lok þingsins.

World e-Parliament-ráðstefna í Valpariso 28.–30. júní 2016.
    World e-Parliament-ráðstefna IPU, sem haldin er annað hvert ár, fór fram í Valparaiso 28.–30. júní. Af hálfu Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins sóttu ráðstefnuna Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður, og Birgitta Jónsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang, ritara Íslandsdeildar. Ráðstefnan stóð yfir í þrjá daga og sóttu hana rúmlega 200 þátttakendur, bæði þingmenn, embættismenn og sérfræðingar frá yfir 50 aðildarríkjum IPU og annarra stofnana. Þess má geta að hlutfall kvenna á ráðstefnunni var 27% og karlmanna 73%. Á ráðstefnunni var einnig unnið með opinn kóða (Hackathon) og þróuð frumgerð af snjallforriti sem auðvelda á aðgang almennings að tölfræðilegum upplýsingum, og eins konar hliðarráðstefna haldin (unconference) þar sem þátttakendur lögðu til umræðuefni samdægurs og stýrðu þeim hluta ráðstefnunnar.
    Helsta áhersluatriði ráðstefnunnar var kynning á umfangsmikilli útgáfu skýrslu World e-Parliament og umræður um niðurstöður hennar. Jafnframt deildu þátttakendur reynslu sinni af því hvernig upplýsingatækni (ICT) getur komið að gagni við lagasetningu og m.a. aukið yfirsýn, stuðlað að bættu aðgengi, gagnsæi, ábyrgð og árangri þingmanna. Skýrslan er unnin út frá upplýsingum frá 88 þjóðþingum og 33 ríkisstofnunum og inniheldur nákvæma sundurliðun á þeim úrbótum sem upplýsingatækni hefur leitt til, auk upplýsinga um notkun vefsvæða, samfélagsmiðla og opinna gagna (open data), bókasafna og skjalaþjónustu.
    Andy Williamson, sérfræðingur hjá IPU og höfundur World e-Parliament skýrslunnar kynnti helstu niðurstöður fyrir fundargestum og svaraði spurningum þeirra. Hann sagði ljóst að upplýsingatækni gæti haft jákvæð áhrif á þá þróun að þjóðþing yrðu gagnsærri og aðgengilegri en varaði jafnframt við að margt fleira þyrfti að koma til í þeirri þróun. Hann benti í því sambandi sérstaklega á að fátæk ríki ættu í erfiðleikum með að verja nægilegum kröftum í verkefnið. Þá sagði hann niðurstöður skýrslunnar sýna fram á að síðan fyrsta World e-Parliament-skýrslan kom út árið 2008 hefðu þjóðþing opnast, innra kerfi þeirra styrkst og notkun samfélagsmiðla til að ná til borgara aukist. Jafnframt væru vefsvæði þjóðþinga og tölvupóstkerfi í lykilhlutverki og bókasöfn ásamt upplýsinga- og rannsóknarþjónustum þinga mikilvæg uppspretta nýsköpunar. Lögð væri áhersla á þá stefnu að auðvelda aðgengi að upplýsingum í gegnum veraldarvefinn eða með svokölluðum opnum gögnum og heimila þannig notkun á upplýsingum þjóðþinga. Þá leiði skýrslan í ljós að með því að hafa gögn aðgengileg verði breytingar á samskiptum þjóðþinga og almennings þar sem almenningur fer úr hlutverki viðtakanda í hlutverk þátttakanda. Kallað væri eftir tillögum frá bæði þingmönnum og starfsfólki tæknideilda til að tryggja að stjórnmálalegum og verklegum/praktískum skuldbindingum væri fullnægt. Þá væri þörf á enn frekari stefnumótun og skuldbindingu stjórnmálamanna og stofnana.
    Megináskoranir sem eru útlistaðar í skýrslunni eru m.a. skortur á þekkingu og fjármagni, frekari skilningur á því hvernig nota megi samfélagsmiðla á sem gagnlegastan hátt og skortur á nýbreytni við að finna leiðir til að virkja almenning í löggjafarferlinu, þrátt fyrir tilraunir í sumum ríkjum. Þá er bent á skort á stuðningi innan þjóðþinga við aðgengi að gögnum, hugbúnaðarþróun og samfélagsmiðla. Þingmenn eru hvattir til að fagna m.a. tilkomu hópa eins og eftirlitssamtaka með þjóðþingum (PMO´s, parliamentary monitoring organizations), sem geta aðstoðað við að skýra upplýsingar og styðja við almenning. Jafnframt er því haldið fram að PMO geti á virkan og árangursríkan hátt náð til þess hóps sem þjóðþingin nái ekki til og treysti þannig enn frekar lýðræðið.
    Framkvæmdastjóri Alþjóðaþingmannasambandsins, Martin Chungong, hélt erindi á ráðstefnunni og sagði ljóst af niðurstöðum skýrslunnar að fjölmörg þjóðþing nýttu sér upplýsingatækni í auknum mæli sem leið til að nálgast almenning. IPU styður þá stefnu heilshugar. Þá sagði hann ekki ásættanlegt að fátækari ríki ættu í erfiðleikum með að halda í við þróun á þessum nauðsynlega hluta starfsemi þjóðþinga við að stuðla að gagnsæi, styrkingu og ábyrgð. Þá sagði hann tíma til kominn að alþjóðasamfélagið fjárfesti í þjóðþingum og gerði þeim kleift að taka fullan þátt í áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til 2030, til að tryggja að enginn drægist aftur út.
    Birgitta Jónsdóttir tók þátt í umræðum um hvernig virkja mætti almenning til þátttöku. Hún sagði m.a. frá því hvernig Píratar ættu í virkum samskiptum við almenning og hvernig virkja mætti grasrótina til að svara spurningum og eiga í samskiptum við kjósendur. Hún nefndi í því sambandi sérstaklega samfélagsmiðilinn Facebook sem væri gríðarlega vinsæll en sagði jafnframt mikilvægt að finna leiðir til að fá fólk til að nota aðra og öruggari miðla til samskipta. Erfitt væri að fá fólk til að fara nýjar leiðir en öryggið yrði að vera í fyrirrúmi og því þyrfti að endurhugsa samskiptin með það að leiðarljósi. Birgitta tók jafnframt þátt í umræðum um hvernig auka mætti þátttöku ungs fólks í kosningum. Þar lagði hún áherslu á mikilvægi þess að skilningur væri á menningu ungs fólks sem byggi m.a. við þann veruleika að hafa ótakmarkaðan aðgang að upplýsingum. Setja þyrfti áherslur þeirra og hugðarefni á dagskrá stjórnmálaflokkanna og í stefnumótun. Þannig yrði mögulegt að brúa bilið milli þeirra eldri og yngri. Stundum væri það einnig þannig að hefðir sköpuðu hindranir og þá væri þörf fyrir þingmenn sem væru tilbúnir til að stíga út fyrir boxið og hefðu þor til að ryðja þessum hindrunum úr vegi og skapa rými fyrir breytingar.

5. Ályktanir og yfirlýsingar IPU árið 2016.
    Ályktanir 134. þings IPU vörðuðu eftirfarandi efni:
          Hryðjuverkastarfsemi og nauðsyn þess að styrkja hnattrænt samstarf í baráttunni gegn hryðjuverkastarfsemi til að sporna við ógn hennar við lýðræði og réttindi einstaklingsins.
          Hvernig tryggja megi varanlega vernd menningararfleifðar mannkyns gegn eyðileggingu og hnignun.
          Þær 230 milljónir barna sem njóta ekki borgaralegra réttinda og hvernig leysa beri þetta uggvænlega ástand sem er eitt það alvarlegasta á 21. öldinni.

    Yfirlýsing forseta IPU á 134. þing:
          Hryðjuverkaárásirnar í Brussel 22. mars 2016 þar sem verknaðurinn er harðlega fordæmdur.
         Ályktun 135. þings IPU varðaði eftirfarandi efni:
          Stríðið í Sýrlandi og alvarlegt ástand mannúðarmála, sérstaklega í Aleppo.
          Frelsi kvenna til fullrar þátttöku í stjórnmálum og aukna samvinnu karla og kvenna til að ná því markmiði.

Alþingi, 28. mars 2017.

Birgir Ármannsson,
form..
Birgitta Jónsdóttir,
varaform.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.