Ferill 374. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 503  —  374. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum (rafræn undirritun sakbornings).

Frá dómsmálaráðherra.


1. gr.

    Við 1. mgr. 148. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir er orðast svo: Rafræn undirritun sakbornings telst fullgild undirritun samkvæmt þessari grein. Hafi skýrsla verið undirrituð rafrænt er lögreglu heimilt að afhenda hana með rafrænum hætti. Ráðherra getur kveðið nánar á um framkvæmd rafrænnar undirritunar og afhendingar skýrslu í reglugerð.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Frumvarp þetta var unnið af embætti ríkislögreglustjóra í samvinnu við embætti ríkissaksóknara og innanríkisráðuneytið. Með frumvarpinu er stefnt að því að auka skilvirkni við afgreiðslu smærri mála hjá lögreglu með því að einfalda framkvæmd og auka þannig afköst og hraða við meðferð mála.
    Forsaga frumvarpsins er sú að ráðist hefur verið í að búa lögreglubifreiðar spjaldtölvum. Sú tölvuvæðing er hluti af þróunarvinnu ríkislögreglustjóra sem miðar að því að auka notkun upplýsingatækni innan lögreglu og stuðla þannig að betri nýtingu mannafla og tækja lögreglu. Er þetta í samræmi við hlutverk ríkislögreglustjóra skv. d-lið 1. mgr. 5. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996. Einn þeirra möguleika sem þannig er orðinn að veruleika er aðgangur lögreglu að landskerfi lögreglu, eða LÖKE, úr lögreglubifreiðum. Er því orðið raunhæft að lögregla skrái skýrslur á vettvangi beint í LÖKE. Með rafrænni skráningu brota má ljúka skýrslugerð vegna þeirra brota er falla undir 148. gr. laga um meðferð sakamála á vettvangi. Er með þessu m.a. komið í veg fyrir margverknað í tengslum við skýrslugerð lögreglu.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Það verklag sem nú er viðhaft við skýrslugerð vegna brota þar sem sakborningur er staðinn að verki af lögreglu og hann gengst skýlaust við, sbr. 148. gr. laga um meðferð sakamála, er á þann veg að lögreglumenn rita skýrslu á vettvangi á þar til gerð eyðublöð sem svo þarf að færa handvirkt í tölvu þegar komið er á lögreglustöð. Með þessari framkvæmd er um að ræða tvíverknað, auk þess sem nokkur hætta er á að efni skýrslunnar kunni að misritast að einhverju leyti við slíka yfirfærslu. Sé farin sú leið að skrá endanlega skýrslu í tölvu á vettvangi er ljóst að komið verður í veg fyrir tvíverknað og með því móti er gert ráð fyrir verulega styttum heildarverktíma í tengslum við slík mál er hér um ræðir. Auk þessa sparast sá kostnaður er hefur hlotist af prentun hinna sérstöku eyðublaða sem fyllt hafa verið út á vettvangi.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir því að lögreglu verði heimilt að láta sakborning undirrita skýrslu rafrænt, m.a. með undirritun á þar til gerðan skjá, líkt og tíðkast hefur t.d. við útgáfu vegabréfa, eða með rafrænum skilríkjum. Sé um að ræða slíka rafræna undirritun heimilar það að sakborningi sé afhent skýrsla á rafrænan hátt. Mikilvægt er að undirritun sé óhrekjanleg og að afhending fari fram með öruggum og sannanlegum hætti. Af þeim sökum er þörf fyrir að kveðið sé á um nánari útfærslu rafrænna undirritana í reglugerð.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarp þetta er í samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar. Tilgangur frumvarpsins er m.a. að auka málshraða sem er í samræmi við 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

5. Samráð.
    Efni frumvarpsins snertir fyrst og fremst starf lögreglunnar í tengslum við smærri mál sem lokið er í samræmi við 148. gr. laga um meðferð sakamála, þ.e. brot sem heyra undir ákæruvald lögreglustjóra, sakborningur gengst skýlaust við og lögregla telur að hæfileg viðurlög við séu einvörðungu sekt sem fari ekki fram úr hámarksfjárhæð reglugerðar, sbr. 1. mgr. 151. gr. laganna.
    Samkvæmt 20. gr. laga um meðferð sakamála er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds, auk þess sem hann hefur eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá öðrum ákærendum, sbr. 21. gr. laganna. Við vinnslu frumvarpsins hjá embætti ríkislögreglustjóra var því haft samráð við embætti ríkissaksóknara sem fékk drög að frumvarpinu til skoðunar en engar athugasemdir voru gerðar af hálfu embættis ríkissaksóknara. Enn fremur var haft samráð við innanríkisráðuneytið á öllum stigum. Frumvarpið var jafnframt kynnt réttarfarsnefnd sem gerði ekki athugasemdir við það.

6. Mat á áhrifum.
    Það að horfið verði að mestu frá því verklagi sem nú tíðkast við skýrslugerð vegna brota þar sem sakborningur er staðinn að verki af lögreglu og lokið er skv. 148. gr. laga um meðferð sakamála mun hafa þau áhrif að komið verður í veg fyrir margverknað og með því móti er gert ráð fyrir verulega styttum heildarverktíma við meðferð þessara mála. Auk þess sparast sá kostnaður sem hefur hlotist af prentun hinna sérstöku eyðublaða sem fyllt hafa verið út á vettvangi. Með hliðsjón af framangreindu mun aðgengi borgaranna að lögreglu batna enda liggur fyrir að minni hluti af tíma lögreglu fer í afgreiðslu þessara umfangsminni mála og eru því nokkrir almannahagsmunir fólgnir í því að frumvarp þetta nái fram að ganga. Eins verður að telja nokkurt hagræði felast í því fyrir borgarana að hraðað sé afgreiðslu mála þeirra hjá lögreglu.
    Við gerð frumvarpsins fór fram áhættumat á notkun nettengds tölvubúnaðar í lögreglubifreiðunum. Var niðurstaða matsins sú að áhættan væri vel innan ásættanlegra marka.
    Það er mat þeirra aðila sem að frumvarpsvinnunni komu að töluverður ávinningur verði af samþykkt frumvarpsins.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er lögð til sú breyting að heimiluð verði rafræn undirritun skýrslna vegna brota sem ljúka má án ákæru, sbr. 148. gr. laga um meðferð sakamála, þ.e. brota sem heyra undir ákæruvald lögreglustjóra, sakborningur gengst skýlaust við og lögregla telur að hæfileg viðurlög við séu einvörðungu sekt sem fari ekki fram úr hámarksfjárhæð reglugerðar, sbr. 1. mgr. 151. gr. laganna. Enn fremur er lögð til sú breyting að slíkar skýrslur verði almennt afhentar með rafrænum hætti í stað pappírs. Með rafrænni undirritun sakbornings í skilningi greinarinnar er m.a. átt við undirritun á þar til gerðan skjá eða með rafrænum skilríkjum. Sé um að ræða slíka rafræna undirritun er gert ráð fyrir að sakborningi verði afhent skýrsla vegna þeirra brota er hér um ræðir á rafrænan hátt, þ.e. með tölvupósti, rafrænu skjali í heimabanka eða öðrum sambærilegum, tryggum og sannanlegum hætti. Gert er ráð fyrir að ráðherra kveði á um nánari útfærslu í reglugerð.

Um 2. gr.

    Greinin varðar gildistöku laganna og þarfnast ekki skýringa.