Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 505  —  376. mál.
Stjórnarfrumvarp.Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum (EES-reglur, losun frá iðnaði og skráningarskylda).


Frá umhverfis- og auðlindaráðherra.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Við bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Jafnframt er markmið laganna að koma í veg fyrir eða að draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg og koma í veg fyrir myndun úrgangs í því skyni að vernda umhverfið.
     b.      Greinin fær fyrirsögn, svohljóðandi: Markmið.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Lögin gilda ekki um rannsóknarstarfsemi, þróunarstarf eða prófanir á nýjum vörum og vinnsluferlum sem fellur undir viðauka I.
     b.      Greinin fær fyrirsögn, svohljóðandi: Gildissvið.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á undan 1. mgr. kemur ein ný málsgrein, sem verður 1. mgr., svohljóðandi:
                  Eftirlitsaðili er annaðhvort heilbrigðisnefnd sveitarfélaga eða Umhverfisstofnun.
     b.      6. mgr. orðast svo:
                  Besta aðgengilega tækni er áhrifaríkasta og þróaðasta stigið í framþróun starfsemi og tengdra rekstraraðferða sem gefur til kynna að nota megi tiltekna tækni sem hagkvæman grunn fyrir viðmiðunarmörk fyrir losun og önnur skilyrði fyrir starfsleyfi til að koma í veg fyrir eða, þar sem því verður ekki við komið, draga úr losun og áhrifum á umhverfið í heild:
              a.      ,,tækni“: sú tækni og þær aðferðir sem eru notaðar við hönnun, smíði, viðhald, rekstur og lokun stöðvar,
              b.      ,,aðgengileg tækni“: tækni sem hefur verið þróuð í þeim mæli að hægt sé að nota hana á hlutaðeigandi sviði iðnaðar, við skilyrði sem eru efnahagslega og tæknilega hagkvæm, að teknu tilliti til kostnaðar og ávinnings, óháð því hvort þessi tækni er notuð eða þróuð í hlutaðeigandi aðildarríki, að því tilskildu að rekstraraðilinn eigi tök á að nýta sér hana með góðu móti,
              c.      ,,besta tækni“: sú tækni sem er árangursríkust við að ná víðtækri, almennri vernd umhverfisins í heild.
     c.      Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                  BAT-niðurstöður er tilvísun til reglugerðar sem ráðherra setur, sbr. 5. gr., þar sem settar eru fram niðurstöður um bestu, aðgengilegu tækni, lýsing á henni, upplýsingar til að meta notkunarsvið hennar, losunargildin sem tengjast þessari bestu, aðgengilegu tækni, tengd vöktun, tengd notkunargildi og, eftir því sem við á, viðeigandi ráðstafanir til úrbóta á staðnum.
     d.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Stöð er staðbundin tæknieining þar sem fram fer ein eða fleiri tegundir starfsemi sem getur haft í för með sér mengun, sbr. viðauka I–IV, og öll önnur starfsemi á sama stað sem gæti haft áhrif á losun og mengun og tengist með beinum og tæknilegum hætti þeirri starfsemi sem tilgreind er í framangreindum viðaukum.
     e.      Greinin fær fyrirsögn, svohljóðandi: Orðskýringar.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Við 1. tölul. bætist: sbr. 7. gr., og skráningarskyldu, sbr. 8. gr.
     b.      Greinin fær fyrirsögn, svohljóðandi: Hollustuvernd.

5. gr.

    4. gr. a laganna fellur brott.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 5. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „starfsleyfi“ í 1. tölul. kemur: sbr. 7. gr., og skráningarskyldu, sbr. 8. gr.
     b.      Í stað orðsins „fáanlegrar“ í 1. tölul. kemur: aðgengilegrar.
     c.      Í stað orðanna „sbr. 6. gr. c“ í 6. tölul. kemur: sbr. 35. gr.
     d.      Í stað orðanna „sbr. 6. gr. e“ í 18. tölul. kemur: sbr. 62. gr.
     e.      Á eftir 18. tölul. koma 15 nýir töluliðir sem verða 19.–33. tölul., svohljóðandi, og breytist röð liða samkvæmt því:
              19.      útgáfu starfsleyfis, upplýsingar sem fram skulu koma í umsóknum um starfsleyfi og upplýsingar sem Umhverfisstofnun skal hafa aðgengilegar á vefsvæði sínu, sbr. 7. gr.,
              20.      skráningarskyldu, kröfur sem eiga að gilda um skráningarskyldan atvinnurekstur og umfang hans, skráningu atvinnurekstrar og staðfestingu Umhverfisstofnunar, sbr. 8. gr.,
              21.      starfsleyfisskilyrði, sbr. 9. gr.,
              22.      viðmiðunarmörk, setningu viðmiðunarmarka og undanþágur frá viðmiðunarmörkum, sbr. 10. gr.,
              23.      vöktun, sbr. 11. gr.,
              24.      endurskoðun starfsleyfisskilyrða, sbr. 15. gr.,
              25.      lokun svæðis, skýrslu um grunnástand og upplýsingar sem þar eiga að koma fram, sbr. 16. gr.,
              26.      upplýsingagjöf þegar um er að ræða áhrif yfir landamæri, sbr. 17. gr.,
              27.      að tiltekin starfsemi falli ekki undir lögin, sbr. 19. og 26. gr.,
              28.      samlegðarreglur vegna aðskilinna brennsluvera, sbr. 20. gr.,
              29.      viðmiðunarmörk fyrir brennsluver, bilanir brennsluvera og vöktun losunar, sbr. 21., 23., 24. og 25. gr.,
              30.      útskipti hættulegra efna og efnablandna, stjórnun og vöktun losunar, viðmiðunarmörk, skýrslugjöf og umtalsverðar breytingar á stöðvum í rekstri sem nota lífræna leysa, sbr. 27.–30. gr.,
              31.      stjórnun og vöktun losunar frá stöðvum sem framleiða títandíoxíð, sbr. 32. gr.,
              32.      eftirlit, eftirlitsáætlanir, framkvæmd eftirlits og frávik, sbr. 54. og 55. gr.,
              33.      viðmið um bestu aðgengilegu tækni, sbr. 13. gr.,
     f.      Greinin fær fyrirsögn, svohljóðandi: Mengunarvarnir.

7. gr.

    Í stað 5. gr. a og 6. gr. laganna koma fjórir nýir kaflar, II. kafli, Starfsleyfi, með þrettán nýjum greinum, 6.–18. gr., III. kafli, Sérákvæði fyrir brennsluver, með sjö nýjum greinum, 19.–25. gr., IV. kafli, Sérákvæði fyrir starfsemi sem notast við lífræna leysa, með fimm nýjum greinum, 26.–30. gr., og V. kafli, Sérákvæði um stöðvar sem framleiða títandíoxíð, með tveimur nýjum greinum, 31. og 32. gr.:

    a. (6. gr.)

Starfsleyfi.

    Allur atvinnurekstur, sbr. viðauka I–V, skal hafa gilt starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út, sbr. þó 8. gr. Óheimilt er að hefja atvinnurekstur hafi starfsleyfi ekki verið gefið út eða hann ekki verið skráður hjá Umhverfisstofnun. Starfsleyfi skal veitt starfsemi uppfylli hún þær kröfur sem til hennar eru gerðar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
    Starfsleyfi er ótímabundið. Umhverfisstofnun er heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi vegna breyttra forsendna, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út, ef breytingar verða á rekstrinum sem varðað geta ákvæði starfsleyfis, vegna tækniþróunar eða breytinga á reglum um mengunarvarnir, sbr. einnig 14. og 15. gr.
    Ef endurskoðun eða breyting á starfsleyfi leiðir til breytinga á starfsleyfisskilyrðum skal stofnunin auglýsa drög að slíkri breytingu að lágmarki í fjórar vikur.

    b. (7. gr.)

Útgáfa starfsleyfis.

    Umhverfisstofnun gefur út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, sbr. viðauka I–V, sbr. þó 8. gr.
    Rekstraraðilar skulu tryggja að nauðsynlegar upplýsingar um starfsemina komi fram í umsókn um starfsleyfi.
    Umhverfisstofnun skal vinna tillögur að starfsleyfi skv. 1. mgr. og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Umhverfisstofnunar innan fjögurra vikna frá auglýsingu.
    Umhverfisstofnun skal innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögur að starfsleyfi rann út taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Skal umsækjanda um starfsleyfi og þeim sem athugasemdir hafa gert tilkynnt um afgreiðsluna.
    Umhverfisstofnun skal auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa.
    Umhverfisstofnun skal hafa upplýsingar um umsóknir um starfsleyfi skv. 1. mgr., umsóknir um breytingu á starfsleyfi, starfsleyfi í endurskoðun, útgáfu starfsleyfa, ákvarðanir um þörf á endurskoðun, endurskoðuð starfsleyfi, breytt starfsleyfi, kæruheimildir, skráningar, sbr. 8. gr., sem og aðrar viðeigandi upplýsingar á vefsvæði sínu.

    c. (8. gr.)

Skráningarskylda.

    Ráðherra er heimilt að kveða á um í reglugerð að atvinnurekstur, sbr. viðauka II–V, sé háður skráningarskyldu í stað útgáfu starfsleyfis, sbr. 4. og 5. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð almennar kröfur fyrir starfsemi, sbr. viðauka I–V, sbr. 4. og 5. gr. Hvað varðar starfsemi í viðauka I skal miða við að þessar almennu kröfur tryggi samþættar mengunarvarnir og hátt umhverfisverndarstig sem jafngildir því sem hægt er að ná með sérstökum starfsleyfisskilyrðum fyrir hverja starfsemi og að þær byggist á bestu aðgengilegu tækni.
    Rekstraraðili atvinnurekstrar, sem er skráningarskyldur skv. 1. mgr., skal skrá starfsemi sína hjá Umhverfisstofnun áður en hún hefst. Umhverfisstofnun skal staðfesta skráningu rekstraraðila og leiðbeina honum um hvaða reglur gilda um starfsemi hans. Umhverfisstofnun skal upplýsa heilbrigðisnefndir um skráningar rekstraraðila.

    d. (9. gr.)

Starfsleyfisskilyrði.

    Umhverfisstofnun skal tryggja að í starfsleyfi, sbr. viðauka I og II, séu öll skilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja að farið verði að kröfum 12. og 38. gr., sbr. þó 8. gr. Starfsleyfisskilyrði skulu að lágmarki fela í sér ákvæði um:
     a.      viðmiðunarmörk fyrir losun fyrir mengandi efni,
     b.      viðeigandi kröfur sem tryggja vernd jarðvegs og grunnvatns og ráðstafanir varðandi vöktun og stjórnun úrgangs sem myndaður er í stöðinni,
     c.      viðeigandi kröfur um vöktun losunar,
     d.      upplýsingagjöf til útgefanda starfsleyfis,
     e.      viðeigandi kröfur um reglulegt viðhald og eftirlit,
     f.      ráðstafanir varðandi önnur skilyrði en venjuleg rekstrarskilyrði,
     g.      lágmörkun víðfeðmrar mengunar eða mengunar sem fer yfir landamæri, og
     h.      skilyrði fyrir mati á samræmi við viðmiðunarmörk fyrir losun.
    Umhverfisstofnun skal taka mið af BAT-niðurstöðum við útfærslu starfsleyfisskilyrða.
    Umhverfisstofnun er heimilt að setja strangari starfsleyfisskilyrði en BAT-niðurstöður ef kveðið er á um það í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 5. gr., og að uppfylltum skilyrðum sem þar koma fram. Umhverfisstofnun er jafnframt heimilt að setja starfsleyfisskilyrði á grundvelli bestu aðgengilegu tækni sem ekki er lýst í BAT-niðurstöðum ef kveðið er á um það í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 5. gr., og að uppfylltum skilyrðum sem þar koma fram.
    Umhverfisstofnun skal tilgreina í starfsleyfi, sbr. viðauka III og IV, rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar og stærð og skilyrði, auk ákvæða um viðmiðunarmörk, orkunýtingu, meðferð úrgangs, mengunarvarnir, tilkynningarskyldu vegna óhappa eða slysa, innra eftirlit, vöktun, eftirlitsmælingar og rannsóknir, svo og rekstur og viðhald mengunarvarnabúnaðar, eftir því sem við á hverju sinni. Ákvæði um mengunarvarnir skulu taka mið af BAT-niðurstöðum þegar þær liggja fyrir.
    Umhverfisstofnun skal tilgreina í starfsleyfi, sbr. viðauka V, rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, tegund hennar og skilyrði auk ákvæða um eftirlit, umgengni, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir, gæðastjórnun og innra eftirlit eftir því sem við á hverju sinni.

    e. (10. gr.)

Viðmiðunarmörk fyrir losun.

    Viðmiðunarmörk fyrir losun mengandi efna skulu gilda á losunarstað efnanna við stöðina. Þegar viðmiðunarmörk eru ákvörðuð skal ekki taka tillit til þynningar sem á sér stað áður en að losunarstað er komið.
    Umhverfisstofnun skal ákvarða viðmiðunarmörk fyrir losun í starfsleyfi í samræmi við ákvæði reglugerðar, sbr. 5. gr. Þó er Umhverfisstofnun heimilt í sérstökum tilvikum að ákvarða vægari viðmiðunarmörk fyrir losun að uppfylltum skilyrðum í reglugerð, sbr. 5. gr.
    Umhverfisstofnun er heimilt í starfsleyfi að veita tímabundnar undanþágur frá viðmiðunarmörkum um losun og frá a- og b-lið 38. gr. vegna prófana og notkunar á tækninýjungum fyrir tímabil sem ekki má vera lengra en níu mánuðir samfleytt, að því tilskildu að eftir tilgreint tímabil sé notkun tækninnar hætt eða starfsemin nái a.m.k. losunargildum sem tengjast bestu aðgengilegu tækni.

    f. (11. gr.)

Vöktun.

    Umhverfisstofnun skal byggja kröfur um vöktun eftir atvikum á BAT-niðurstöðum.
    Umhverfisstofnun skal ákvarða tíðni reglubundins viðhalds og eftirlits í starfsleyfi.

    g. (12. gr.)

Umhverfisgæðakröfur.

    Ef kveðið er á um strangari skilyrði um umhverfisgæði í reglugerð en hægt er að uppfylla með BAT-niðurstöðum skal Umhverfisstofnun taka tillit til þess við útgáfu starfsleyfis.

    h. (13. gr.)

Þróun á bestu aðgengilegu tækni.

    Umhverfisstofnun skal hafa aðgengilegar á vefsvæði sínu upplýsingar um útgáfu nýrra eða uppfærðra BAT-niðurstaðna.

    i. (14. gr.)

Breytingar á starfsemi.

    Rekstraraðili skal upplýsa Umhverfisstofnun um allar fyrirhugaðar breytingar á eðli, virkni eða umfangi starfseminnar sem geta haft afleiðingar fyrir umhverfið. Umhverfisstofnun skal endurskoða starfsleyfi, sbr. 6. gr., eftir því sem við á.
    Ef fyrirhuguð breyting sem rekstraraðili áformar, sbr. 1. mgr., er umtalsverð skal Umhverfisstofnun endurskoða starfsleyfið, sbr. 6. gr.
    Sérhver breyting á eðli, virkni eða umfangi starfseminnar skal teljast umtalsverð ef hún nær þeim viðmiðunargildum fyrir afkastagetu sem sett eru fram í viðauka I.

    j. (15. gr.)

Endurskoðun á starfsleyfisskilyrðum.

    Umhverfisstofnun skal endurskoða starfsleyfi reglulega, a.m.k. á 16 ára fresti.
    Rekstraraðili skal, sé þess óskað af Umhverfisstofnun, leggja fram allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að endurskoða starfsleyfisskilyrðin.

    k. (16. gr.)

Lokun svæðis.

    Umhverfisstofnun skal setja ákvæði í starfsleyfi fyrir atvinnurekstur, sbr. viðauka I og II, um lokun iðnaðarsvæðis þegar starfsemi er stöðvuð endanlega.
    Þegar starfsemi felur í sér notkun, framleiðslu eða losun tiltekinna hættulegra efna skal rekstraraðili, með hliðsjón af mögulegri jarðvegs- og grunnvatnsmengun á iðnaðarsvæði starfseminnar, taka saman og leggja fyrir Umhverfisstofnun skýrslu um grunnástand svæðisins áður en starfsemin hefst eða áður en starfsleyfi starfseminnar er uppfært.
    Skýrsla um grunnástand skal innihalda upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að ákvarða stöðu jarðvegs- og grunnvatnsmengunar eftir því sem kveðið er á um í reglugerð, sbr. 5. gr.
    Við endanlega stöðvun starfseminnar skal rekstraraðili meta stöðu jarðvegs- og grunnvatnsmengunar vegna hættulegra efna sem stöðin notar, framleiðir eða losar. Ef starfsemin hefur valdið umtalsverðri mengun í jarðvegi eða grunnvatni með hættulegum efnum samanborið við stöðuna sem staðfest er í skýrslu um grunnástand skal rekstraraðili grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að taka á þeirri mengun í þeim tilgangi að koma iðnaðarsvæðinu aftur í fyrra ástand. Í þeim tilgangi er heimilt að taka tillit til þess hvort slíkar ráðstafanir eru tæknilega framkvæmanlegar.
    Við endanlega stöðvun starfseminnar og þegar mengun jarðvegs og grunnvatns á iðnaðarsvæðinu veldur umtalsverðri áhættu fyrir heilbrigði manna eða umhverfið sem afleiðing af leyfðri starfsemi rekstraraðilans áður en starfsleyfið er uppfært skal rekstraraðili með tilliti til ástands iðnaðarsvæðisins grípa til nauðsynlegra ráðstafana. Þær skulu miða að því að fjarlægja, verjast, afmarka eða draga úr hættulegum efnum þannig að iðnaðarsvæðið, með tilliti til núverandi nota eða samþykktra nota í framtíðinni, valdi ekki lengur slíkri áhættu.
    Þar sem þess er ekki krafist að rekstraraðili taki saman skýrslu um grunnástand skal rekstraraðili við endanlega stöðvun starfseminnar grípa til nauðsynlegra ráðstafana sem miða að því að fjarlægja, verjast, afmarka eða draga úr hættulegum efnum þannig að iðnaðarsvæðið, með tilliti til núverandi nota eða samþykktra nota í framtíðinni, valdi ekki lengur umtalsverðri áhættu fyrir heilbrigði manna eða umhverfið vegna mengunar jarðvegs og grunnvatns sem leitt hefur af starfseminni og með tilliti til ástands iðnaðarsvæðisins.

    l. (17. gr.)

Áhrif yfir landamæri.

    Umhverfisstofnun skal, ef starfsemi er líkleg til að hafa umtalsverð neikvæð áhrif á umhverfi annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu, senda upplýsingar um starfsemina til ríkisins á sama tíma og almenningi er veittur aðgangur að þeim.
    Umhverfisstofnun skal tryggja að almenningur í ríki, sem líklegt má telja að verði fyrir umtalsverðum áhrifum., sbr. 1. mgr., hafi einnig aðgang að umsóknum um starfsleyfi þannig að hann öðlist rétt til að koma á framfæri athugasemdum um þær áður en Umhverfisstofnun tekur ákvörðun.
    Umhverfisstofnun skal upplýsa ríki, sbr. 1. mgr., um þá ákvörðun sem tekin var varðandi umsóknina og skal framsenda því viðeigandi upplýsingar.

    m. (18. gr.)

Tækninýjungar.

    Stuðlað skal, eftir því sem við á, að þróun og notkun tækninýjunga, einkum að því er varðar þær tækninýjungar sem tilgreindar eru í tilvísunarskjölum um bestu aðgengilegu tækni.

    n. (19. gr.)

Gildissvið.

    Þessi kafli gildir um brennsluver með heildarnafnvarmaafl sem er jafnt og eða meira en 50 MW, óháð þeirri eldsneytistegund sem notuð er, sbr. reglugerð skv. 5. gr.

    o. (20. gr.)

Samlegðarreglur.

    Ef úrgangsloft tveggja eða fleiri brennsluvera er losað um sameiginlegan reykháf skal líta á þau sem eitt brennsluver og leggja afkastagetu þeirra saman við útreikning á heildarnafnvarmaafli.

    p. (21. gr.)

Viðmiðunarmörk fyrir losun.

    Stjórna skal losun úrgangslofts frá brennsluverum með reykháfum með einni eða fleiri loftrásum. Við ákvörðun um hæð slíkra reykháfa skal markmiðið vera að vernda heilbrigði manna og umhverfið.
    Öll starfsleyfi fyrir brennsluver skulu bundin skilyrðum sem tryggja að losun frá þeim út í andrúmsloftið fari ekki yfir viðmiðunarmörk fyrir losun sem sett eru fram í reglugerð, sbr. 5. gr.
    Umhverfisstofnun getur veitt rekstraraðila brennsluvers, sem að öllu jöfnu notar eldsneyti með litlu magni af brennisteini, undanþágu í allt að sex mánuði frá kröfu um viðmiðunarmörk losunar á brennisteinsdíoxíði þegar rekstraraðilinn getur ekki uppfyllt viðmiðunarmörk vegna þess að aðföng á brennisteinslitlu eldsneyti hafa brugðist sökum alvarlegs skorts á því.
    Umhverfisstofnun getur veitt undanþágu frá kröfu um viðmiðunarmörk fyrir losun þegar rekstraraðili brennsluvers sem notar aðeins loftkennt eldsneyti verður í sérstöku undantekningartilviki að grípa til notkunar annars eldsneytis vegna skyndilegs rofs á framboði á gasi og brennsluverið þyrfti af þeim sökum að vera búið hreinsibúnaði fyrir úrgangsloft. Slík undanþága skal ekki veitt í lengra tímabil en tíu daga nema brýn þörf sé á áframhaldandi orkuöflun. Rekstraraðilinn skal tafarlaust upplýsa eftirlitsaðila um hvert einstakt tilvik sem um getur í 1. málsl.
    Þegar brennsluver er stækkað skulu viðmiðunarmörk fyrir losun gilda fyrir stækkaðan hluta versins sem breytingin hefur áhrif á og skal setja viðmiðunarmörkin með tilliti til heildarnafnvarmaafls alls brennsluversins. Ef um er að ræða breytingu á brennsluveri, sem getur haft afleiðingar fyrir umhverfið og hefur áhrif á hluta versins með 50 MW nafnvarmaafl eða meira, skulu viðmiðunarmörk fyrir losun gilda fyrir þann hluta versins sem hefur breyst með tilliti til heildarnafnvarmaafls alls brennsluversins.

    q. (22. gr.)

Geymsla koldíoxíðs í jarðlögum.

    Rekstraraðili brennsluvers, með rafmagnsaflgetu að nafngildi 300 MW eða meira, skal meta hvort eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
     a.      hæfileg geymslusvæði séu tiltæk,
     b.      flutningsaðstæður séu tæknilega og efnahagslega hagkvæmar,
     c.      ísetning endurbótahluta til föngunar á koldíoxíði sé tæknilega og efnahagslega hagkvæm.
    Ef skilyrði skv. 1. mgr. eru uppfyllt skal Umhverfisstofnun sjá til þess að hæfilegt svæði á stöðinni sé tekið frá fyrir nauðsynlegan búnað til föngunar og þjöppunar á koldíoxíði. Umhverfisstofnun skal ákvarða hvort skilyrði hafi verið uppfyllt, á grundvelli matsins skv. 1. mgr. og annarra fyrirliggjandi upplýsinga, sérstaklega varðandi verndun umhverfisins og heilbrigðis manna.

    r. (23. gr.)

Gangtruflun eða bilun í hreinsibúnaði.

    Umhverfisstofnun skal tryggja að ákvæði séu í starfsleyfum fyrir brennsluver um verklagsreglur varðandi truflun eða bilun í hreinsibúnaði.
    Rekstraraðili skal tilkynna Umhverfisstofnun um gangtruflun eða bilun í hreinsibúnaði.

    s. (24. gr.)

Vöktun losunar út í andrúmsloft.

    Vöktun loftmengandi efna skal fara fram í samræmi við ákvæði reglugerðar sem ráðherra setur, sbr. 2. mgr. Uppsetning og rekstur á sjálfvirkum vöktunarbúnaði skal vera háður eftirliti og árlegum eftirlitsprófunum. Umhverfisstofnun ákvarðar staðsetningu sýnatöku- eða mælipunkta sem nota skal fyrir vöktun losunar.
    Viðmiðunarmörkum fyrir losun í andrúmsloftið er náð ef uppfyllt eru skilyrði sem sett eru fram í reglugerð, sbr. 5. gr.

    t. (25. gr.)

Brennsluver sem brenna margs konar eldsneytistegundum.

    Ef brennsluver brennir margs konar eldsneytistegundum og notar samtímis tvær eða fleiri eldsneytistegundir skal Umhverfisstofnun setja viðmiðunarmörk fyrir losun í samræmi við ákvæði reglugerðar, sbr. 5. gr.

    u. (26. gr.)

Gildissvið.

    Þessi kafli gildir um starfsemi sem tilgreind er í viðauka III og, eftir atvikum, nær þeim viðmiðunargildum fyrir notkun sem sett eru fram í reglugerð, sbr. 5. gr.

    v. (27. gr.)

Útskipti hættulegra efna.

    Efnum eða efnablöndum, sem vegna innihalds þeirra af rokgjörnum, lífrænum efnasamböndum flokkast sem krabbameinsvaldar, stökkbreytivaldar eða efni eða blöndur með eiturhrif á æxlun, skal skipta út hið fyrsta eftir því sem mögulegt er með skaðminni efnum eða efnablöndum.

    x. (28. gr.)

Stjórnun og vöktun losunar.

    Rekstraraðili skal tryggja að losun rokgjarnra, lífrænna efnasambanda sé í samræmi við ákvæði reglugerðar, sbr. 5. gr. Að uppfylltum skilyrðum sem fram koma í reglugerð ráðherra getur Umhverfisstofnun heimilað að losun fari yfir viðmiðunarmörk fyrir losun að því tilskildu að ekki sé búist við umtalsverðri áhættu fyrir heilbrigði manna eða umhverfið og rekstraraðilinn sýni fram á að besta aðgengilega tækni sé notuð. Á sama hátt getur Umhverfisstofnun heimilað að losun frá húðunarstarfsemi, sem ekki er möguleg við stýrðar aðstæður, uppfylli ekki kröfur í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 5. gr., ef rekstraraðilinn hefur sýnt fram á að slíkt sé hvorki tæknilega né fjárhagslega framkvæmanlegt þrátt fyrir að besta aðgengilega tækni sé notuð.
    Rekstraraðili skal sjá til þess að mælingar á losun séu framkvæmdar í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 5. gr.
    Viðmiðunarmörkum fyrir losun í úrgangslofti er náð ef uppfyllt eru skilyrði sem sett eru fram í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 5. gr.

    y. (29. gr.)

Skýrslugjöf.

    Rekstraraðili skal, sé þess óskað, láta Umhverfisstofnun í té nauðsynlegar upplýsingar til að sýna fram á að hann uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til starfseminnar, eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 5. gr.

    z. (30. gr.)

Umtalsverð breyting á stöðvum í rekstri.

    Breyting á stöð í rekstri telst umtalsverð ef uppfyllt eru skilyrði sem ráðherra setur í reglugerð, sbr. 5. gr.

    þ. (31. gr.)

Gildissvið.

    Þessi kafli gildir um stöðvar sem framleiða títandíoxíð.

    æ. (32. gr.)

Stjórnun og vöktun losunar.

    Losun frá stöðvum í vatn skal ekki fara yfir viðmiðunarmörk fyrir losun sem sett eru fram í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 5. gr.
    Hindra skal losun sýrudropa frá stöðvum.
    Losun frá stöðvum í andrúmsloft skal ekki fara yfir viðmiðunarmörk fyrir losun sem sett eru fram í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 5. gr.
    Rekstraraðili skal tryggja vöktun losunar í vatn og í andrúmsloft eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 5. gr.

8. gr.

    Á eftir 6. gr. laganna kemur nýr kafli, VI. kafli, Sérákvæði fyrir atvinnurekstur vegna rannsókna og vinnslu kolefnis, með einni grein, 6. gr. a laganna, sem verður 33. gr. og fær fyrirsögn, svohljóðandi: Rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

9. gr.

    Á eftir 6. gr. a laganna kemur nýr kafli, VII. kafli, Grænt bókhald, með einni grein, 6. gr. b laganna, sem verður 34. gr. og orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Grænt bókhald.

    Færa skal grænt bókhald fyrir atvinnurekstur, sbr. viðauka I–IV, eins og nánar greinir í reglugerð, sbr. 5. gr.
    Í grænu bókhaldi skulu koma fram upplýsingar um hvernig umhverfismálum er háttað í viðkomandi starfsemi, þ.m.t. tölulegar upplýsingar um meginnotkun hráefnis, orku og vatns til starfseminnar, sem og helstu tegundir og magn mengandi efna sem losuð eru í loft, láð eða lög, koma fram í framleiðsluvöru eða falla til sem úrgangur. Ekki er þó skylt að setja í skýrslu um grænt bókhald upplýsingar sem starfsleyfishafi telur vera framleiðsluleyndarmál, enda séu slík atriði tilgreind og ekki gerðar athugasemdir við það af hálfu útgefanda starfsleyfis.
    Starfsleyfishafi ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu um grænt bókhald. Skýrsla um grænt bókhald skal endurskoðuð á sambærilegan hátt og fjárhagsbókhald fyrirtækja.
    Senda skal útgefanda starfsleyfis árlega skýrslu um grænt bókhald. Útgefandi starfsleyfis skal kanna hvort skýrsla um grænt bókhald fullnægi þeim formkröfum sem gerðar eru til skýrslna um grænt bókhald. Sé heilbrigðisnefnd útgefandi starfsleyfis skal hún því næst senda skýrsluna áfram til Umhverfisstofnunar.
    Umhverfisstofnun annast birtingu skýrslna um grænt bókhald og gerð leiðbeininga um grænt bókhald. Birting skýrslu um grænt bókhald felur ekki í sér viðurkenningu Umhverfisstofnunar á þeim upplýsingum sem þar koma fram.

10. gr.

    Á eftir 6. gr. b laganna kemur nýr kafli, VIII. kafli, Umhverfismerki, með einni grein, 6. gr. c laganna, sem verður 35. gr. og fær fyrirsögn, svohljóðandi: Umhverfismerki.

11. gr.

    Á eftir 6. gr. c laganna kemur nýr kafli, IX. kafli, Loftgæði, með einni grein, 6. gr. d laganna, sem verður 36. gr. og breytist svo:
     a.      Í stað orðanna „sem háður er starfsleyfi skv. 5. gr. a og“ í 1. mgr. kemur: sbr. viðauka I–IV, sem.
     b.      Í stað orðanna „sem háður er starfsleyfi skv. 5. gr. a“ í 2. mgr. kemur: sbr. viðauka I–IV.
     c.      Í stað tilvísananna „18. gr.“ og „13. gr.“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: 51. gr.; og: 47. gr.
     d.      Greinin fær fyrirsögn, svohljóðandi: Loftgæði.

12. gr.

    Á eftir 6. gr. d laganna kemur nýr kafli, X. kafli, Losun gróðurhúsalofttegunda, með einni grein, 6. gr. e laganna, sem verður 37. gr. og orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Losun gróðurhúsalofttegunda.

    Þegar um er að ræða losun gróðurhúsalofttegundar frá starfsemi sem tilgreind er í lögum um loftslagsmál skal starfsleyfi fyrir viðkomandi starfsemi ekki fela í sér viðmiðunarmörk fyrir losun að því er varðar beina losun á þeirri lofttegund, nema það sé nauðsynlegt til að tryggja að engin veruleg staðbundin mengun eigi sér stað.
    Við starfsemi sem tilgreind er í lögum um loftslagsmál er það undir Umhverfisstofnun komið hvort hún gerir kröfur um orkunýtni brennslueininga eða annarra eininga sem losa koldíoxíð á staðnum.
    Ef nauðsyn krefur skal Umhverfisstofnun gera breytingar á starfsleyfi eftir því sem við á, sbr. 1. og 2. mgr. sem og 14. gr.
    Framangreindar málsgreinar eiga ekki við um starfsemi sem tímabundið fellur ekki undir kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda, sbr. lög um loftslagsmál.

13. gr.

    Á eftir 6. gr. e laganna kemur nýr kafli, XI. kafli, Skyldur rekstraraðila, með þremur nýjum greinum, 38.–40. gr., svohljóðandi:

    a. (38. gr.)

Meginreglur um grundvallarskyldur rekstraraðila.

    Rekstraraðilar atvinnurekstrar, sbr. viðauka I–II, skulu tryggja að starfsemi þeirra sé rekin í samræmi við eftirfarandi meginreglur:
     a.      að gerðar séu allar viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengun,
     b.      að notuð sé besta aðgengilega tækni,
     c.      að starfsemin leiði ekki til umtalsverðrar mengunar,
     d.      að komið sé í veg fyrir myndun úrgangs í samræmi við lög um meðhöndlun úrgangs,
     e.      að úrgangur sem verður til sé útbúinn fyrir endurnotkun, endurunninn, endurheimtur eða, þar sem það er tæknilega eða fjárhagslega ómögulegt, honum fargað um leið og forðast er eða dregið úr öllum áhrifum á umhverfið,
     f.      að orka sé vel nýtt,
     g.      að nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar til að koma í veg fyrir slys eða takmarka afleiðingar þeirra slysa sem geta orðið,
     h.      að nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar þegar starfsemi er stöðvuð endanlega til að komast hjá allri hættu á mengun og koma staðnum, þar sem starfsemin fer fram, aftur í viðunandi horf eins og skilgreint er í 16. gr.

    b. (39. gr.)

Óhöpp og slys.

    Við óhöpp eða slys sem hafa umtalsverð áhrif á umhverfið skal hlutaðeigandi rekstraraðili, sbr. viðauka I–IV, í samræmi við ákvæði laga um umhverfisábyrgð:
     a.      upplýsa Umhverfisstofnun tafarlaust um óhappið eða slysið, og
     b.      grípa tafarlaust til ráðstafana til að takmarka afleiðingarnar fyrir umhverfið og til að fyrirbyggja frekari möguleg óhöpp eða slys.
    Umhverfisstofnun skal krefjast þess að rekstraraðilinn grípi til viðeigandi viðbótarráðstafana sem stofnunin telur nauðsynlegar til að takmarka afleiðingar fyrir umhverfið og til að fyrirbyggja frekari möguleg óhöpp eða slys.

    c. (40. gr.)

Leyfisskilyrði.

    Rekstraraðilar, sbr. viðauka I–V, skulu tryggja að starfsemi þeirra sé í samræmi við ákvæði laga þessara, reglugerða settra samkvæmt þeim, starfsleyfisskilyrði og almenn leyfisskilyrði, sbr. 8. gr.
    Ef frávik verða skal rekstraraðili upplýsa eftirlitsaðila tafarlaust um það og grípa tafarlaust til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að öllum kröfum vegna starfseminnar sé framfylgt eins fljótt og auðið er.

14. gr.

    7. gr. laganna, sem verður 41. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Undanþága ráðherra.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. a laganna, sem verður 41. gr. a:
     a.      Í stað „6. gr. b“ kemur: 34. gr.
     b.      Greinin fær fyrirsögn, svohljóðandi: Undanþága ráðherra varðandi grænt bókhald.

16. gr.

    8. gr. laganna, sem verður 42. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Álit heilbrigðisnefnda.

17. gr.

    9. gr. laganna, sem verður 43. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Stjórn mála.

18. gr.

    10. gr. laganna, sem verður 44. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Heilbrigðiseftirlit.

19. gr.

    11. gr. laganna, sem verður 45. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Eftirlitssvæði.

20. gr.

    12. gr. laganna, sem verður 46. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Fjárhagsáætlanir og gjaldskrár.

21. gr.

    13. gr. laganna, sem verður 47. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Hlutverk heilbrigðisnefnda.

22. gr.

    14. gr. laganna, sem verður 48. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Verkaskipting.

23. gr.

    15. gr. laganna, sem verður 49. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Heilbrigðisfulltrúar.

24. gr.

    16. og 17. gr. laganna verða ein grein, 50. gr., sem fær fyrirsögn, svohljóðandi: Þagnarskylda og upplýsingar.

25. gr.

    II. kafli laganna verður XII. kafli.

26. gr.

    18. gr. laganna, sem verður 51. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Eftirlit.

27. gr.

    19. og 20. gr. laganna verða ein grein, 52. gr., sem fær fyrirsögn, svohljóðandi: Samræming heilbrigðiseftirlits.

28. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna, sem verður 53. gr.:
     a.      Í stað „sbr. 18. gr.“ í 1. málsl. kemur: sbr. 51. gr.
     b.      Greinin fær fyrirsögn, svohljóðandi: Gjaldskrá Umhverfisstofnunar.

29. gr.

    III. kafli laganna verður XIII. kafli.

30. gr.

    Á eftir 21. gr. laganna kemur nýr kafli, XIV. kafli, Eftirlit með atvinnurekstri, með tveimur nýjum greinum, 54. og 55. gr., svohljóðandi, ásamt fyrirsögnum:

    a. (54. gr.)

Eftirlit.

    Eftirlit skal vera með atvinnurekstri, sbr. viðauka I–V, sem tekur til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipta sem og hollustuhátta.
    Rekstraraðili skal aðstoða eftirlitsaðila eins og nauðsyn krefur til að gera eftirlitsaðilanum kleift að framkvæma hvers kyns eftirlit með starfseminni, taka sýni og afla allra upplýsinga sem eru þeim nauðsynlegar við framkvæmd eftirlitsins.
    Umhverfisstofnun skal gera eftirlitsáætlun sem taki til atvinnurekstrar, sbr. viðauka I–V, og skal áætlunin endurskoðuð reglulega og uppfærð eftir því sem við á.
    Á grundvelli eftirlitsáætlana gerir eftirlitsaðili reglulega áætlanir um reglubundið eftirlit með atvinnurekstri samkvæmt viðaukum I–V, þ.m.t. um tíðni vettvangsheimsókna fyrir mismunandi starfsemi. Tímabilið milli tveggja vettvangsheimsókna skal byggjast á kerfisbundnu mati á umhverfisáhættu viðkomandi starfsemi og skal, fyrir starfsemi samkvæmt viðaukum I og II, ekki vera lengra en eitt ár fyrir starfsemi sem veldur mestri áhættu en þrjú ár fyrir starfsemi sem veldur minnstri hættu.
    Eftir hverja vettvangsheimsókn skal eftirlitsaðili taka saman skýrslu með lýsingu á því sem fram kom og skiptir máli varðandi það hvort starfsemin sé í samræmi við starfsleyfisskilyrðin og niðurstöðum um hvort frekari aðgerðir eru nauðsynlegar. Skýrslan skal gerð aðgengileg á vefsvæði eftirlitsaðila.

    b. (55. gr.)

Frávik.

    Eftirlitsaðili skal hafa eftirlit með atvinnurekstri, sbr. viðauka I–V, til að tryggja að farið sé að skilyrðum fyrir viðkomandi starfsemi.
    Ef frávik verða skal eftirlitsaðili krefja rekstraraðila um að gera hverjar þær viðeigandi viðbótarráðstafanir sem eftirlitsaðilinn telur nauðsynlegar til að koma reglufylgni á aftur.

31. gr.

    22. gr. laganna, sem verður 56. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Faggilding.

32. gr.

    23. gr. laganna, sem verður 57. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Innra eftirlit.

33. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 24. gr. laganna, sem verður 58. gr.:
     a.      Í stað orðanna „VI. kafla“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: XVII. kafla.
     b.      Greinin fær fyrirsögn, svohljóðandi: Framsal eftirlits.

34. gr.

    IV. kafli laganna verður XV. kafli og breytast númer kafla samkvæmt því.

35. gr.

    25. gr. laganna, sem verður 59. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Samþykktir.

36. gr.

    26. gr. laganna, sem verður 60. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Þvingunarúrræði.

37. gr.

    27. gr. laganna, sem verður 61. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Dagsektir og verk á kostnað.

38. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. laganna, sem verður 62. gr.:
     a.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Heilbrigðisnefnd sveitarfélaga er heimilt að beita úrræðum þessa kafla þegar um er að ræða færanlega starfsemi sem er stunduð á svæði nefndarinnar og er með starfsleyfi gefið út á öðru heilbrigðiseftirlitssvæði.
     b.      Greinin fær fyrirsögn, svohljóðandi: Heimildir eftirlitsaðila.

39. gr.

    29. gr. laganna, sem verður 63. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Stöðvun til bráðabirgða.

40. gr.

    30. gr. laganna, sem verður 64. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Málsmeðferð.

41. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna, sem verður 65. gr.
     a.      Í stað „32. gr.“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 66. gr.
     b.      Greinin fær fyrirsögn, svohljóðandi: Kærur.

42. gr.

    32. gr. laganna, sem verður 66. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Kæruheimild til ráðherra.

43. gr.

    33. gr. laganna, sem verður 67. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Sektir eða fangelsi.

44. gr.

    34. gr. laganna, sem verður 68. gr., fær fyrirsögn, svohljóðandi: Sektir lögaðila.

45. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I í lögunum orðast svo:
    Þrátt fyrir 6. og 7. gr. skulu heilbrigðisnefndir sveitarfélaga gefa út starfsleyfi fyrir starfsemi, sbr. viðauka IV–V, til og með 31. desember 2018, sbr. þó 8. gr. Heilbrigðisnefndir skulu afgreiða þær umsóknir um starfsleyfi sem hafa borist til nefndarinnar fyrir sama tíma.

46. gr.

    Í stað fylgiskjala I–III með lögunum koma fimm nýir viðaukar, viðaukar I–V, svohljóðandi:
VIÐAUKI I
Starfsemi A.
    Viðmiðunargildin, sem eru tilgreind hér á eftir, vísa almennt til framleiðslugetu eða afkasta. Ef margar tegundir starfsemi, sem fellur undir sömu starfsemislýsingu sem inniheldur viðmiðunargildi, eru reknar í sömu stöðinni er afkastageta þessara tegunda starfsemi lögð saman. Fyrir starfsemi við meðhöndlun úrgangs skal þessi útreikningur gilda fyrir starfsemi í lið 5.1 og a- og b-lið liðar 5.3.
1.    Orkuiðnaður.
1.1.    Brennsla eldsneytis í stöðvum með heildarnafnvarmaafl 50 MW eða meira.
1.2.    Hreinsun á jarðolíu og gasi.
1.3.    Koksframleiðsla.
1.4.    Gösun eða þétting á:
    a)    kolum,
    b)    öðru eldsneyti í stöðvum með heildarnafnvarmaafl 20 MW eða meira.
2.    Framleiðsla og vinnsla málma.
2.1.    Brennsla eða glæðing málmgrýtis (þ.m.t. brennisteinsgrýtis).
2.2.    Framleiðsla á hrájárni eða stáli (fyrsta eða önnur bræðsla), þ.m.t. samfelld málmsteypa, þar sem afkastagetan er meiri en 2,5 tonn á klukkustund.
2.3.    Vinnsla járnríkra málma:
    a)    starfræksla heitvölsunarvéla með vinnslugetu yfir 20 tonnum af hrástáli á klukkustund,
    b)    starfræksla smiðja með hamra þar sem slagkraftur hvers hamars er meiri en 50 kílójúl og þar sem notuð varmaorka er yfir 20 MW,
    c)    með því að nota hlífðarlag úr bræddum málmi þar sem ílagið er meira en 2 tonn af hrástáli á klukkustund.
2.4.    Starfræksla málmsteypa fyrir járnríka málma með framleiðslugetu yfir 20 tonnum á dag.
2.5.    Vinnsla járnlausra málma:
    a)    framleiðsla járnlausra hrámálma úr málmgrýti, hreinsuðu málmgrýti eða afleiddu hráefni með málmvinnsluaðferðum, efnafræðilegum aðferðum eða rafgreiningaraðferðum,
    b)    bræðsla, þ.m.t. sambræðsla járnlausra málma, þ.m.t. endurnýttra vara, og starfræksla málmsteypa fyrir járnlausa málma með bræðslugetu yfir 4 tonnum af blýi og kadmíumi á dag eða 20 tonnum af öllum öðrum tegundum málma á dag.
2.6.    Yfirborðsmeðferð málma eða plastefna með rafgreiningaraðferðum eða efnafræðilegum aðferðum þar sem rúmmál meðhöndlunartanka er meira en 30 m3.
3.    Jarðefnaiðnaður.
3.1.    Framleiðsla á sementi, kalki og magnesíumoxíði:
    a)    framleiðsla á sementsgjalli í hverfiofnum með afkastagetu sem er yfir 500 tonnum á dag eða í annars konar ofnum þar sem framleiðsluafköstin eru yfir 50 tonnum á dag,
    b)    framleiðsla á kalki í ofnum með framleiðslugetu yfir 50 tonnum á dag,
    c)    framleiðsla á magnesíumoxíði í ofnum með framleiðslugetu yfir 50 tonnum á dag.
3.2.    Framleiðsla á asbesti eða framleiðsla vara sem eru að stofni til úr asbesti.
3.3.    Framleiðsla glers, einnig glertrefja, þar sem bræðsluafköstin eru meiri en 20 tonn á dag.
3.4.    Bræðsla jarðefna, þ.m.t. framleiðsla steinefnatrefja með bræðslugetu yfir 20 tonnum á dag.
3.5.    Framleiðsla leirvara með brennslu, einkum þakflísa, múrsteina, eldfastra múrsteina, flísa, leirmuna eða postulíns með framleiðslugetu yfir 75 tonnum á dag og/eða rúmtak ofns er yfir 4 m3 og setþéttleika hvers ofns yfir 300 kg/ m3.
4.    Efnaiðnaður.
         
Að því er varðar þennan þátt merkir framleiðsla, í skilningi starfsemisflokkanna í þessum þætti, framleiðslu á iðnaðarmælikvarða með efnafræðilegri eða líffræðilegri vinnslu efna eða efnahópa sem eru taldir upp í þessum þætti.
4.1.    Framleiðsla lífrænna efna, svo sem:
    a)    einföld vetniskolefni (línuleg eða hringlaga, mettuð eða ómettuð, alifatísk eða arómatísk),
    b)    vetniskolefni sem innihalda súrefni, svo sem alkóhól, aldehýð, ketón, karboxýlsýrur, estrar og blöndur af estrum, asetötum, eterum, peroxíðum og epoxýresínum,
    c)    vetniskolefni sem innihalda brennistein,
    d)    vetniskolefni, sem innihalda köfnunarefni, svo sem amín, amíð, nitursambönd, nítrósambönd eða nítratsambönd, nítríl, sýanöt og ísósýanöt,
    e)    vetniskolefni sem innihalda fosfór,
    f)    vetniskolefni sem innihalda halógen,
    g)    lífræn málmsambönd,
    h)    plastefni (fjölliður, gervitrefjar og trefjar að stofni úr beðmi),
    i)    gervigúmmí,
    j)    leysilitir og fastlitarefni,
    k)    yfirborðsvirk efni.
4.2.    Framleiðsla ólífrænna efna, svo sem:
    a)    lofttegundir, svo sem ammoníak, klór eða vetnisklóríð, flúor eða vetnisflúoríð, koloxíð, brennisteinssambönd, köfnunarefnisoxíð, vetni, brennisteinsdíoxíð, karbónýlklóríð,
    b)    sýrur, svo sem krómsýra, flússýra, fosfórsýra, saltpéturssýra, saltsýra, brennisteinssýra, rjúkandi brennisteinssýra, brennisteinssýrlingur,
    c)    basi, svo sem ammóníumhýdroxíð, kalíumhýdroxíð, natríumhýdroxíð,
    d)    sölt, svo sem ammóníumklóríð, kalíumklórat, kalíumkarbónat, natríumkarbónat, perbórat, silfurnítrat,
    e)    málmleysingjar, málmoxíð eða önnur ólífræn efnasambönd, svo sem kalsíumkarbíð, kísill, kísilkarbíð.
4.3.    Framleiðsla á áburði sem inniheldur fosfór, köfnunarefni eða kalíum (eingildum eða fjölgildum áburði).
4.4.    Framleiðsla á plöntuvarnarvörum eða sæfivörum.
4.5.    Framleiðsla á lyfjum, þ.m.t. milliefnum.
4.6.    Framleiðsla á sprengiefnum.
5.    Meðhöndlun úrgangs.
5.1.    Förgun eða endurnýting á hættulegum úrgangi með afköstum yfir 10 tonnum á dag sem felur í sér eina eða fleiri eftirfarandi starfsemi:
    a)    líffræðilega meðhöndlun,
    b)    eðlis- og efnafræðilega meðhöndlun,
    c)    blöndun áður en einhver tegund starfsemi, sem tilgreind er í liðum 5.1 og 5.2, tekur við,
    d)    endurpökkun áður en einhver af þeim tegundum af starfsemi, sem taldar eru upp í liðum 5.1 og 5.2, fer fram,
    e)    endurheimt eða endurmyndun leysa,
    f)    endurvinnsla/endurheimt ólífrænna efna annarra en málma eða málmsambanda,
    g)    endurmyndun sýru eða basa,
    h)    endurnýting efnisþátta sem eru notaðir til að draga úr mengun,
    i)    endurnýting efnisþátta úr hvötum,
    j)    endurhreinsun olíu eða önnur endurnotkun olíu,
    k)    losun í yfirborðsvatn.
5.2.    Förgun eða endurnýting á úrgangi í sorpbrennslustöðvum eða í sorpsambrennslustöðvum:
    a)    fyrir hættulausan úrgang í stöðvum með afkastagetu yfir 3 tonnum á klukkustund,
    b)    fyrir hættulegan úrgang í stöðvum með afkastagetu yfir 10 tonnum á dag.
5.3.    a)     Förgun á hættulausum úrgangi í stöðvum með afkastagetu yfir 50 tonnum á dag sem felur í sér eina eða fleiri eftirfarandi starfsemi og að undanskilinni starfsemi sem fellur undir reglugerð um fráveitur og skólp:
        i.    líffræðilega meðhöndlun,
        ii.    eðlis- og efnafræðilega meðhöndlun,
        iii.    formeðhöndlun úrgangs fyrir brennslu eða sambrennslu,
        iv.    meðferð á gjalli og ösku,
        v.    meðferð málmúrgangs í tæturum, þ.m.t. á raf- og rafeindatækjaúrgangi og úr sér gengnum ökutækjum og íhlutum þeirra.
    b)    Endurheimt eða blanda af endurheimt og förgun á hættulausum úrgangi í stöðvum með afkastagetu yfir 75 tonnum á dag sem felur í sér eina eða fleiri eftirfarandi starfsemi og að undanskilinni starfsemi sem fellur undir reglugerð um fráveitur og skólp:
        i.    líffræðilega meðhöndlun,
        ii.    formeðhöndlun úrgangs fyrir brennslu eða sambrennslu,
        iii.    meðferð á gjalli og ösku,
        iv.    meðferð málmúrgangs í tæturum, þ.m.t. á raf- og rafeindatækjaúrgangi og úr sér gengnum ökutækjum og íhlutum þeirra.
         Ef starfsemi skv. 1. mgr. felur einungis í sér meðhöndlun úrgangs þar sem fram fer loftfirrð rotnun skulu viðmiðunargildin fyrir starfsemina vera 100 tonn á dag.
5.4.    Urðun, eins og hún er skilgreind lögum um meðhöndlun úrgangs, sem tekur á móti meira en 10 tonnum af úrgangi á dag eða með heildarafkastagetu yfir 25 000 tonnum, að undanskilinni urðun á óvirkum úrgangi.
5.5.    Bráðabirgðageymsla hættulegs úrgangs, sem ekki fellur undir lið 5.4, sem bíður einhverra þeirra tegunda af starfsemi, sem taldar eru upp í liðum 5.1, 5.2, 5.4 og 5.6, þar sem heildarrúmtak er yfir 50 tonnum að undanskilinni tímabundinni geymslu meðan söfnunar er beðið á þeim stað þar sem úrgangurinn verður til.
5.6.    Neðanjarðargeymsla á hættulegum úrgangi með heildarrúmtak yfir 50 tonnum.
6.    Önnur starfsemi.
6.1.    Framleiðsla í iðjuverum á:
    a)    deigi úr viði eða öðrum trefjaefnum,
    b)    pappír eða pappa í verum með framleiðslugetu yfir 20 tonnum á dag,
    c)    einni eða fleiri gerðum platna sem eru að stofni til úr viði: aspenítplötum, spónaplötum eða trefjaplötum í verum með framleiðslugetu yfir 600 m3 á dag.
6.2.    Formeðferð (aðgerðir eins og þvottur, bleiking, mersivinnsla) eða litun textíltrefja eða textílefna þar sem vinnslugetan er yfir 10 tonnum á dag.
6.3.    Sútun á húðum og skinnum þar sem vinnslugetan er yfir 12 tonnum af fullunninni vöru á dag.
6.4.    a)    Sláturhús í rekstri með framleiðslugetu yfir 50 tonnum af skrokkum á dag.
    b)    Meðferð og vinnsla, önnur en eingöngu pökkun, á eftirfarandi hráefnum, hvort sem er áður unnum eða óunnum, sem ætluð eru fyrir matvæla- eða fóðurframleiðslu úr:
        i.    hráefnum af dýrum eingöngu (öðrum en eingöngu mjólk) þar sem framleiðslugeta er yfir 75 tonnum af fullunninni vöru á dag,
        ii.    jurtahráefni eingöngu þar sem framleiðslugeta er yfir 300 tonnum á dag eða 600 tonnum á dag þar sem stöðin er ekki starfrækt lengur en í 90 daga í röð á neinu ári,
        iii.    hráefnum úr dýrum og jurtum, bæði í samsettum og aðskildum afurðum, þar sem framleiðslugeta á fullunninni vöru í tonnum er meiri á dag en:
            –    75 ef A er jafnt og 10 eða meira eða,
            –    [300- (22,5 . A)] í öllum öðrum tilvikum,
                þar sem „A“ er hluti efnis úr dýrum (sem hundraðshluti af þyngd) af framleiðslugetu á fullunninni vöru.
        Umbúðir skulu ekki taldar með í endanlegri þyngd vörunnar.
        Þessi stafliður skal ekki gilda þar sem hráefnið er eingöngu mjólk.
    c)    Meðferð og vinnsla mjólkur eingöngu, þar sem tekið er á móti meira en 200 tonnum af mjólk á dag (meðaltal á ársgrundvelli).
6.5.    Förgun eða endurvinnsla dýraskrokka eða dýraúrgangs þar sem afkastageta er yfir 10 tonnum á dag.
6.6.    Eldi alifugla eða svína:
    a)    með fleiri en 40.000 stæði fyrir alifugla,
    b)    með fleiri en 2.000 stæði fyrir alisvín (yfir 30 kg), eða
    c)    með fleiri en 750 stæði fyrir gyltur.
6.7.    Yfirborðsmeðferð efna, hluta eða afurða með lífrænum leysum, einkum fyrir pressun, prentun, húðun, fituhreinsun, vatnsþéttingu, þyngingu, málun, hreinsun eða gegndreypingu, þar sem notuð eru meira en 150 kg af lífrænum leysum á klukkustund eða meira en 200 tonn á ári.
6.8.    Framleiðsla kolefnis (fullbrenndra kola) eða skautgrafíts (e. electrographite) með brennslu eða umbreytingu í grafít.
6.9.    Föngun CO2-strauma frá stöðvum sem falla undir lög þessi til geymslu í jörðu samkvæmt lögum um loftslagsmál.
6.10.    Timbur og timburafurðir eru varin með efnum, þar sem framleiðslugeta er yfir 75 m3 á dag, að undanskilinni meðhöndlun eingöngu gegn grágeit (e. sapstain).
6.11.    Einkarekin meðhöndlun á skólpi og sem er losað af stöð sem fellur undir þennan viðauka.

VIÐAUKI II
Starfsemi B.
     1.      Fiskimjölsverksmiðjur.
     2.      Eldi sjávar- og ferskvatnslífvera.
     3.      Olíumalar- og malbikunarstöðvar.
     4.      Olíubirgðastöðvar.
     5.      Framleiðsla títandíoxíðs.
     6.      Glerullar- og steinullarframleiðsla, önnur en í viðauka I.
     7.      Sútunarverksmiðjur, önnur en í viðauka I.
     8.      Móttökustöðvar og meðferð úrgangs, önnur en í viðauka I.
     9.      Framleiðsla á pappír eða pappa í iðjuverum með framleiðslugetu, önnur en í viðauka I.
     10.      Rannsóknir og vinnsla kolefnis.

VIÐAUKI III
Starfsemi C.

     1.      Í hverjum eftirfarandi liða er innifalin í starfseminni hreinsun á búnaði en ekki hreinsun á vörum nema það sé sérstaklega tekið fram.
     2.      Límburður.
                 Öll starfsemi þar sem lím er borið á yfirborð, að undanskildum límburði og plasthúðun í tengslum við prentstarfsemi.
     3.      Húðunarstarfsemi.
                 Öll starfsemi þar sem sett er eitt eða fleiri samfelld lög af yfirborðsmeðferðarefni á:
             a)    eitthvert eftirfarandi farartækja:
                  i.    nýjar bifreiðar skilgreindar sem ökutæki í flokki M1 í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/46/EB frá 5. september 2007 um ramma um viðurkenningu á vélknúnum ökutækjum og eftirvögnum þeirra og á kerfum, íhlutum og aðskildum tæknieiningum sem ætlaðar eru í slík ökutæki og í flokki N1 þegar þær eru húðaðar í sömu stöð og M1 ökutæki,
                  ii.    hús á vörubifreiðum, skilgreind sem rými ökumanns, og öll sambyggð rými fyrir tæknibúnað á ökutækjum í flokkum N2 og N3 í tilskipun 2007/46/EB,
                  iii.    sendibifreiðar og vörubifreiðar, skilgreindar sem ökutæki í flokkum N1, N2 og N3 í tilskipun 2007/46/EB, en hús á vörubifreiðum eru þar ekki meðtalin,
                  iv.    almenningsvagna sem eru skilgreindir sem ökutæki í flokkum M2 og M3 í tilskipun 2007/46/EB,
                  v.    eftirvagna sem eru skilgreindir í flokka O1, O2, O3 og O4 í tilskipun 2007/46/EB,
             b)    málm- og plastyfirborð, þ.m.t. yfirborð á flugvélum, skipum, lestum o.s.frv.,
             c)    viðaryfirborð,
             d)    textíl-, vefnaðar-, filmu- og pappírsyfirborð,
             e)    leður.
                 Húðunarstarfsemi nær ekki yfir yfirborðsmeðferð þar sem flötur er málmhúðaður með rafdrætti eða hann er húðaður með efnasprautun. Ef húðunarstarfsemin felur í sér þrep þar sem prentað er á sama hlutinn, sama hvaða tækni er notuð, telst prentunarþrepið hluti af húðunarstarfseminni. Hins vegar er prentstarfsemi sem er rekin sem aðskilin starfsemi ekki meðtalin en getur fallið undir lög þessi ef prentstarfsemin fellur undir gildissvið hennar.
     4.      Rúlluhúðun.
                 Hvers kyns starfsemi þar sem stálþynnur, ryðfrítt stál, húðað stál, koparblendi eða álræmur eru húðaðar með himnumyndandi efni eða plasthúðaðar í samfelldu vinnsluferli.
     5.      Þurrhreinsun.
                 Hvers kyns iðnaðar- eða viðskiptastarfsemi þar sem rokgjörn, lífræn efnasambönd eru notuð í stöð til að hreinsa fatnað, áklæði og álíka neytendavörur, að undanskilinni handhreinsun bletta í textíl- og fataiðnaði.
     6.      Framleiðsla á skófatnaði.
                 Hvers kyns starfsemi sem felst í framleiðslu á fullgerðum skófatnaði eða hlutum hans.
     7.      Framleiðsla á yfirborðsefnablöndum, lökkum, farva og lími.
                 Framleiðsla á ofangreindum fullgerðum vörum og millistigsvörum þegar hún fer fram á sama stað, með blöndun á fastlitarefnum, resíni og límefnum við lífræna leysa eða önnur burðarefni, þ.m.t. framleiðsla á þeytum og forþeyttum blöndum, stillingu á seigju og litblæ og áfyllingu fullgerðrar vöru í ílát.
     8.      Framleiðsla á lyfjum.
                 Efnasmíði, gerjun, útdráttur, lögun og yfirborðsmeðhöndlun lyfja og, þegar hún fer fram á sama stað, framleiðsla millistigsvara.
     9.      Prentun.
                 Hvers kyns eftirtaka texta og/eða mynda þar sem farvi er yfirfærður á hvers kyns yfirborðsgerðir með notkun myndbera. Meðtalin er tengd tækni við lökkun, húðun og plasthúðun. Hins vegar falla einungis eftirfarandi undirferlar undir lög þessi:
             a)    flexóprentun – prentun þar sem myndberinn er úr gúmmíi eða fjaðrandi ljósfjölliðum og þar sem prentflöturinn er upphækkaður og notaðir eru fljótandi prentlitir sem þorna við uppgufun,
             b)    heitþornandi offsetprentun af streng – prentun af streng þar sem notaður er myndberi þar sem bæði prentflötur og óprentaðir fletir eru í sömu hæð, þar sem prentun af streng merkir að efnið, sem prentað er á, er matað í vélina af kefli en ekki sem stakar arkir. Óprentaða svæðið er meðhöndlað til að draga að vatn og hrindir því farva frá sér. Prentflöturinn er meðhöndlaður til að taka við og flytja farva til yfirborðsins sem prenta skal. Uppgufun á sér stað í ofni þar sem heitt loft er notað til að hita prentverkið,
             c)    plasthúðun sem tengist prentun – samlíming tveggja eða fleiri sveigjanlegra efna til að gera lagskipta afurð,
             d)    djúpprentun á gæðapappír – djúpprentun á pappír fyrir tímarit, bæklinga, verðlista eða annað áþekkt, þar sem notaður er farvi sem inniheldur tólúen,
             e)    djúpprentun – prentun þar sem myndberinn er sívalur, prentflöturinn er neðar en óprentaðir fletir og notaður er fljótandi farvi sem þornar við uppgufun. Hólfin eru fyllt með farva og umframfarvi er þurrkaður af óprentuðu flötunum áður en sá flötur, sem prenta skal á, snertir valsann og lyftir farvanum upp úr hólfunum,
             f)    valsasáldprentun – prentun af streng þar sem farvinn er færður á þann flöt sem prenta skal á með því að þrýsta honum í gegnum gropinn myndbera, þar sem prentflöturinn er opinn og aðrir fletir eru lokaðir, og notaður er fljótandi farvi sem þornar eingöngu við uppgufun. Prentun af streng merkir að efnið sem prenta skal á er matað í vélina af kefli en ekki sem stakar arkir,
             g)    lökkun – starfsemi þar sem lakk eða límlag er borið á þjált efni, ætlað í umbúðir, í því skyni að loka síðar umbúðunum.
     10.      Vinnsla gúmmís.
                 Hvers kyns starfsemi sem felst í blöndun, mölun, pressun í sléttipressu, útpressun og súlfun á náttúru- eða gervigúmmíi og hvers kyns aðrar aðgerðir sem eru notaðar til að breyta náttúru- eða gervigúmmíi í fullunna vöru.
     11.      Hreinsun yfirborðs.
                 Hvers kyns starfsemi, nema þurrhreinsun, þar sem lífrænir leysar eru notaðir til þess að fjarlægja óhreinindi af yfirborði efna, þar á meðal fituhreinsun. Starfsemi við hreinsun sem samanstendur af fleiri en einu þrepi fyrir eða eftir einhverja aðra starfsemi skal líta á sem eina starfsemi við yfirborðshreinsun. Þessi starfsemi vísar ekki til hreinsunar á búnaði heldur til hreinsunar á yfirborði vara.
     12.      Starfsemi við útdrátt jurtaolíu og dýrafitu og hreinsun jurtaolíu.
                 Hvers kyns starfsemi sem felst í útdrætti jurtaolíu úr fræjum og öðru plöntuefni, vinnsla þurra leifa til framleiðslu á fóðri, hreinsun á fitu og jurtaolíum úr fræjum, plöntuefni og/eða dýraefni.
     13.      Lakkviðgerðir ökutækja.
                 Hvers kyns iðnaðar- eða viðskiptastarfsemi sem felst í húðunarstarfsemi og tilheyrandi fituhreinsun þar sem framkvæmd er annaðhvort:
             a)    upphafleg yfirborðsmeðferð ökutækja, eins og skilgreint er í tilskipun 2007/46/EB, eða hluta þeirra með efnum til lakkviðgerða, að því tilskildu að starfsemin fari fram utan upphaflegu framleiðslulínunnar,
             b)    yfirborðsmeðferð eftirvagna (þ.m.t. festivagna) (O-flokkur í tilskipun 2007/46/EB).
     14.      Húðun vafvíra.
                 Hvers kyns yfirborðsmeðferð málmleiðara sem notaðir eru til að vefja rafspólur í spennubreytum, vélum o.s.frv.
     15.      Viðarfúavörn.
                 Hvers kyns starfsemi sem felst í meðhöndlun viðar með fúavarnarefni.
     16.      Viðar- og plastsamlíming.
                 Hvers kyns starfsemi sem felst í að líma saman við og/eða plast til framleiðslu á samlímdum vörum.

VIÐAUKI IV
Starfsemi D.
1.    Vinnsla úr járni og öðrum málmum.
1.1    Málmsteypur, aðrar en í viðauka I.
1.2    Stálsmíði og stálskipagerð.
1.3    Völsunar-, víra- og stangaverksmiðjur.
1.4    Nagla- og skrúfuframleiðsla.
1.5    Vélaframleiðsla.
1.6    Vinnsla á málmum í raftækniiðnaði, t.d. rafgeymaverksmiðjur og verkstæði.
1.7    Meðferð og húðun málma.
1.8    Vinnsla á hrájárni og stáli, önnur en í viðauka I.
1.9    Bræðsla og málmblanda sem ekki er járn- eða stálvinnsla, önnur en í viðauka I.
1.10    Yfirborðsmeðhöndlun með rafgreiningar eða efnafræðilegar aðferðir, önnur en í viðauka I.
1.11    Annar sambærilegur atvinnurekstur í málmiðnaði, rafiðnaði og tækjagerð.
2.    Vinnsla og úrvinnsla á kalki, leir, steinum og sambærilegum jarðefnum.
2.1    Steinmölun og framleiðsla á ofaníburði og fyllingarefnum.
2.2    Steinsmíði.
2.3    Steypustöðvar og steypueiningaverksmiðjur.
2.4    Leirmunaverkstæði, afkastageta önnur en tilgreind í viðauka I.
2.5    Steypueiningaverksmiðjur.
2.6    Vinnsla jarðefna, þ.m.t. malar-, vikur- og grjótnám.
2.7    Önnur sambærileg starfsemi með jarðefni.
3.    Efnaiðnaður.
3.1    Fyrirtæki sem geyma klórgas.
3.2    Lakksprautun.
3.3    Prentiðnaðarfyrirtæki.
3.4    Efnalaugar.
3.5    Snyrtivöruframleiðsla.
3.6    Framköllun t.d. á ljós-, röntgen- og kvikmyndum.
3.7    Átöppun og pökkun ýmissa efnasambanda.
3.8    Framleiðsla á aukefnum og hjálparefnum fyrir matvælaiðnað.
3.9    Hreinlætisvöruverksmiðjur.
3.10    Plastiðnaður.
3.11    Vinnsla með plast- og frauðefni.
3.12    Kælitæki, viðgerðir og nýsmíði.
3.13    Gleriðnaður og speglagerð.
3.14    Fúavörn á viði, önnur en í viðauka III, þar sem framleiðslugeta er yfir 75m3 á dag, að undanskilinni meðhöndlun eingöngu gegn grágeit (e. sapstain).
3.15    Tannlæknastofur.
3.16    Rannsóknarstofur þar sem notuð eru eða geymd hættuleg efni eða meðhöndluð sóttmenguð sýni.
3.17    Önnur starfsemi með sambærileg efni.
4.    Vinnsla og úrvinnsla á efnum úr jurta- og dýraríkinu.
4.1    Fóðurstöðvar.
4.2    Fóðurblöndur.
4.3    Gúmmívinnsla.
4.4    Trésmíðaverkstæði.
4.5    Sögunarmyllur.
4.6    Framleiðsla á spónaplötum, límtré og þess háttar.
4.7    Pappírsvöru- og pappakassaframleiðsla.
4.8    Leðurvinnsla.
4.9    Vefnaðar- og spunaverksmiðjur.
4.10    Litun og bleiking, önnur en í viðauka I og III.
4.11    Ullarþvottastöðvar.
4.12    Framleiðsla á mjöli og feiti úr sláturúrgang, önnur en í viðauka I.
4.13    Fitu- og lýsisvinnsla.
4.14    Fituhersla.
4.15    Önnur sambærileg starfsemi með vinnslu og úrvinnslu á efnum úr jurta- og dýraríkinu.
5.    Matvælavinnsla.
5.1    Sláturhús, önnur en í viðauka I.
5.2    Kjötvinnsla, önnur en í viðauka I.
5.3    Niðursuðuverksmiðjur.
5.4    Reykhús og reykofnar.
5.5    Vinnsla fisks og annarra sjávarafurða, önnur en í viðauka I.
5.6    Framleiðsla tilbúinna rétta, önnur en í viðauka I.
5.7    Heitloftsþurrkun fiskafurða.
5.8    Mjólkurstöðvar, aðrar en í viðauka I.
5.9    Framleiðsla mjólkurdufts.
5.10    Öl-, gos- og svaladrykkjagerðir.
5.11    Kaffibrennsla.
5.12    Smjörlíkisgerðir.
5.13    Kartöfluvinnsla, önnur en í viðauka I.
5.14    Framleiðsla á kartöflumjöli og sterkju.
5.15    Lauksteikingarverksmiðjur.
5.16    Mörbræðsla og tólgarframleiðsla.
5.17    Meðhöndlun, blöndun og mölun á korni, önnur en í viðauka I.
5.18    Kæli- og frystigeymslur.
5.19    Önnur sambærileg matvælavinnsla.
6.    Búfjár- og dýrahald.
6.1    Loðdýrarækt.
6.2    Eldi alifugla, annað en í viðauka I.
6.3    Eldi svína, annað en í viðauka I.
6.4    Kanínurækt.
6.5    Hestahald.
6.6    Dýraspítalar.
6.7    Hunda- og kattageymslur.
6.8    Gæludýraverslanir.
6.9    Önnur sambærileg starfsemi með búfjár- og dýrahald.
7.    Starfsemi er snertir vélknúin farartæki.
7.1    Kappaksturs-, æfinga- og kennslubrautir.
7.2    Alþjóðaflugvellir og flugvellir með eldsneytisafgreiðslu.
7.3    Flugvellir án eldsneytisafgreiðslu.
7.4    Bifreiða- og vélaverkstæði.
7.5    Bifreiðasprautun.
7.6    Ryðvarnarverkstæði.
7.7    Smurstöðvar.
7.8    Bensínstöðvar.
7.9    Vöruflutningamiðstöðvar.
7.10    Biðstöðvar leigubifreiða.
7.11    Bið- og endastöðvar strætisvagna.
7.12    Bón- og bílaþvottastöðvar.
7.13    Niðurrif bifreiða og bílapartasölur.
7.14    Sorpflutningar og sorphirða.
7.15    Verktakar með þungavinnuvélar, verkstæðisaðstaða.
7.16    Verkstæðisaðstaða hjá fyrirtækjum með ólíka starfsemi.
7.17    Önnur sambærileg starfsemi fyrir vélknúin farartæki.
8.    Meðferð skólps og úrgangs.
8.1    Skólphreinsistöðvar, útrásadælustöðvar og fráveitur:
    a.    fyrir meira en 150.000 pe,
    b.    fyrir meira en 10.000 pe og afrennsli til strandsjávar eða fyrir meira en 2.000 pe og afrennsli til ármynnis,
    c.    aðrar en í a- og b-lið.
8.2    Gámastöðvar.
8.3    Gámaflutningsaðilar og aðilar sem flytja spilliefni.
8.4    Aðilar sem sérhæfa sig í flutningi og hreinsun á seyru.
8.5    Önnur sambærileg starfsemi.
9.    Ýmislegt.
9.1    Virkjanir og orkuveitur:
    a.    2–10 MW,
    b.    10–50 MW,
    c.    yfir 50 MW, sem ekki eru brennslustöðvar,
    d.    jarðvarmavirkjanir á háhitasvæðum yfir 50 MW.
9.2    Stórar spennistöðvar.
9.3    Stórar vörugeymslur.
9.4    Líkbrennslur.
9.5    Skotvellir.
9.6    Skemmtigarðar, tívolí, fjölleikahús og þess háttar.
9.7    Æfingasvæði slökkviliðs.
9.8    Þvottahús.
9.9    Saltvinnsla.
9.10    Gasbirgðastöðvar.
9.11    Atvinnurekstur sem meðhöndlar asbest.
9.12    Viðhald og niðurrif skipa.
9.13    Rekstur aðstöðu í atvinnuskyni, þ.m.t. útleiga rýmis, fyrir hávaðasama starfsemi sem veldur truflun eða óþægindum.
9.14    Önnur sambærileg starfsemi.
10.    Tímabundinn atvinnurekstur.
10.1    Geymsla olíumalarefna og lagning utan fastra starfsstöðva.
10.2    Notkun seyru til landgræðslu- og skógræktar.
10.3    Áburðarframleiðsla úr lífrænum efnum ( t.d. þurrkaður hænsnaskítur o.fl.).
10.4    Jarðborun.
10.5    Flugeldasýningar, nema á tímabilinu frá með 28. desember til og með 6. janúar.
10.6    Brennur þar sem ætla má að bruni standi yfir í meira en tvo tíma (áramóta – Jónsmessu – ýmsir viðburðir).
10.7    Ýmiss konar tímabundin aðstaða, svo sem farandsalerni, farandeldhús og vinnubúðir sem tengjast tímabundnum framkvæmdum.
10.8    Niðurrif húsa og annarra bygginga.

VIÐAUKI V
Starfsemi E.

    Akstursíþróttasvæði.
    Almenningssalerni.
    Baðstofur og gufubaðstofur.
    Daggæsla í heimahúsum með sex börn eða fleiri.
    Dvalarheimili.
    Dýragarðar og umfangsmiklar dýrasýningar.
    Dýragæsla.
    Dýralæknastofur.
    Dýrasnyrtistofur.
    Dýraspítalar.
    Fangelsi og fangagæsla.
    Fjallaskálar, nema sæluhús.
    Fótaaðgerðastofur og fótsnyrtistofur.
    Frístundahúsasvæði.
    Garðaúðun.
    Gististaðir.
    Gæludýraverslanir.
    Gæsluvellir og opin leiksvæði.
    Götuleikhús og tívolí.
    Hársnyrtistofur.
    Heilsugæslustöðvar.
    Heilsuræktarstöðvar.
    Heimili og stofnanir fyrir börn og unglinga, með sex börn eða fleiri.
    Hestaleigur og reiðskólar.
    Húðflúrsstofur og stofur þar sem fram fer húðgötun, húðrof og fegrunarflúr.
    Íþróttahús.
    Íþróttamiðstöðvar.
    Íþróttavellir.
    Kírópraktorar.
    Leikskólar.
    Læknastofur.
    Meindýravarnir.
    Nálastungustofur.
    Nuddstofur.
    Sambýli þar sem veitt er þjónusta allan sólarhringinn.
    Samgöngumiðstöðvar og almenningssamgöngutæki.
    Samkomuhús.
    Sjúkrahús.
    Sjúkrastofnanir.
    Sjúkraþjálfun.
    Skólar og aðrir kennslustaðir fyrir börn eða sex eða fleiri fullorðna.
    Snyrtistofur.
    Sólbaðsstofur.
    Starfsmannabúðir.
    Starfsmannabústaðir.
    Sundstaðir.
    Tannlæknastofur.
    Tjald- og hjólhýsasvæði.
    Útihátíðir.
    Veitingastaðir.
    Verslunarmiðstöðvar.
    Vöruflutningamiðstöðvar.
    Önnur sambærileg starfsemi.

47. gr.

Innleiðing.

    Lög þessi eru sett til innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB frá 24. nóvember 2010 um losun í iðnaði.

48. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2017 nema k-liður 7. gr. (ný 16. gr. laganna) sem öðlast gildi 1. júlí 2018.

49. gr.

Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum:
     1.      Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
                  a.      2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
                  b.      Í stað orðsins „útgefandi“ í 3. málsl. 1. mgr. kemur: Umhverfisstofnun.
                  c.      2. mgr. orðast svo:
                      Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi fyrir móttökustöðvar og aðra meðferð úrgangs samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.
                  d.      Í stað orðanna „útgefanda starfsleyfis“ í 1. málsl. 4. mgr. og 5. mgr. kemur: Umhverfisstofnun.
                  e.      2. málsl. 4. mgr. fellur brott.
                  f.      Orðin „áður en gildistími þess er liðinn“ í 5. mgr. falla brott.
                  g.      Við bætast sex nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Ef endurskoðun eða breyting á starfsleyfi leiðir til breytinga á starfsleyfisskilyrðum skal stofnunin auglýsa drög að slíkri breytingu að lágmarki í fjórar vikur.
                      Starfsleyfi skal veitt starfsemi uppfylli hún þær kröfur sem til hennar eru gerðar samkvæmt lögum þessum og reglugerðum settum samkvæmt þeim.
                      Umhverfisstofnun skal vinna tillögur að starfsleyfi og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Umhverfisstofnunar innan fjögurra vikna frá auglýsingu.
                      Umhverfisstofnun skal innan fjögurra vikna frá því að frestur til að gera athugasemdir við tillögur að starfsleyfi rann út taka ákvörðun um útgáfu starfsleyfis. Skal umsækjanda um starfsleyfi og þeim sem athugasemdir hafa gert tilkynnt um afgreiðsluna.
                      Umhverfisstofnun skal hafa upplýsingar um umsóknir um starfsleyfi skv. 1. mgr., umsóknir um breytingu á starfsleyfi, starfsleyfi í endurskoðun, útgáfu starfsleyfa, endurskoðuð starfsleyfi, breytt starfsleyfi, kæruheimildir sem og aðrar viðeigandi upplýsingar á vefsvæði sínu.
                      Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessarar greinar, sbr. 43. gr.
     2.      Eftirfarandi breytingar verða á 16. gr. laganna:
                  a.      Orðið „gildistíma“ fellur brott:
                  b.      Við bætist ný málsgrein svohljóðandi:
                      Starfsleyfi er ótímabundið nema annað sé tekið fram í lögum þessum. Umhverfisstofnun skal endurskoða starfsleyfi reglulega, a.m.k. á 16 ára fresti.
     3.      Á eftir x-lið 43. gr. laganna koma fimm nýir stafliðir, y–ö-liður, svohljóðandi, og breytist röð liða samkvæmt því:
        y.    viðmiðunarmörk, mælibúnað og eftirlit með honum, sbr. 64. gr.,
        z.    upplýsingar sem Umhverfisstofnun á að hafa aðgengilegar á vefsvæði sínu, sbr. 14. gr.,
        þ.    samræmi við viðmiðunarmörk, sbr. 63. gr. b,
        æ.    hönnun, útbúnað, byggingu og starfrækslu brennslustöðva, sbr. 63. gr. c,
        ö.    afhendingu og móttöku úrgangs, sbr. 63. gr. d.
     4.      62. gr. laganna orðast svo:
                 Í umsókn um starfsleyfi fyrir brennslustöð skal auk þess sem fram kemur í 15. gr. gera grein fyrir ráðstöfunum sem eru fyrirhugaðar til að tryggja að:
                  a.      brennslustöðin sé hönnuð, búin og verið haldið við og rekin með þeim hætti að kröfurnar sem til hennar eru gerðar verði uppfylltar,
                  b.      varminn, sem myndast við brennslu- og sambrennsluferlið, sé endurheimtur eftir því sem við verður komið til framleiðslu varma, gufu eða orku,
                  c.      dregið verði úr magni og skaðsemi ösku og hún endurunnin eftir því sem við á, og
                  d.      förgun ösku verði í samræmi við lög þessi.
     5.      Eftirfarandi breytingar verða á 63. gr. laganna:
                  a.      Við 1. málsl. bætist: kröfur um pH-gildi, hitastig og rennsli að því er varðar frárennsli frá brennslustöð, sýnatöku- og mælingaaðferðir og leyfilegan hámarkstíma fyrir hvers konar tæknilega óumflýjanlegar stöðvanir, raskanir eða bilanir.
                  b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Umhverfisstofnun skal reglulega endurskoða starfsleyfi brennslustöðva og uppfæra ef nauðsyn krefur, sbr. einnig 14. gr.
     6.      Á eftir 63. gr. laganna koma fimm nýjar greinar, 63. gr. a – 63. gr. e, ásamt fyrirsögnum, svohljóðandi:
                  a.      (63. gr. a.)

Bilun.

                      Ef um bilun er að ræða skal rekstraraðili brennslustöðvar draga úr eða hætta starfsemi eins fljótt og auðið er þar til brennslustöðin getur hafið eðlilega starfsemi á ný.

                  b.      (63. gr. b.)

Samræmi við viðmiðunarmörk.

                      Líta skal svo á að farið sé að viðmiðunarmörkunum fyrir losun í andrúmsloft og vatn ef skilyrðin, sem ráðherra kveður á um í reglugerð, sbr. 43. gr., eru uppfyllt.

                  c.      (63. gr. c.)

Rekstrarskilyrði.

                      Brennslustöðvar skulu hannaðar, útbúnar, byggðar og starfræktar með þeim hætti að þær uppfylli kröfur laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim.
                      Ráðherra er heimilt í reglugerð, sbr. 43. gr., að setja nánari ákvæði um hönnun, útbúnað, byggingu og starfrækslu brennslustöðva.

                  d.      (63. gr. d.)

Afhending og móttaka úrgangs.

                      Rekstraraðili brennslustöðvar skal haga afhendingu og móttöku úrgangs eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 43. gr.

                  e.      (63. gr. e.)

Umtalsverð breyting.

                      Breyting á starfsemi brennslustöðvar sem meðhöndlar aðeins hættulausan úrgang, í brennslustöð sem felur í sér brennslu eða sambrennslu á hættulegum úrgangi telst umtalsverð breyting.
     7.      Eftirfarandi breytingar verða á 64. gr. laganna:
                  a.      Á undan 1. mgr. koma sjö nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Stýra skal losun úrgangslofts frá brennslustöðvum með reykháf en hæð hans er reiknuð með það í huga að vernda heilbrigði manna og umhverfið.
                      Losun út í andrúmsloftið frá brennslustöðvum skal ekki fara yfir viðmiðunarmörk í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 13. mgr.
                      Takmarka skal, eftir því sem við verður komið, losun skólps, sem fellur til við hreinsun úrgangslofts, í vatnsumhverfi og styrkur mengunarefna skal ekki fara yfir viðmiðunarmörk í reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 13. mgr.
                      Ekki má þynna skólp til að viðmiðunarmörk skv. 3. mgr. séu virt.
                      Svæði brennslustöðva skulu hönnuð og starfrækt þannig að komið verði í veg fyrir óheimila losun og losun sem verður fyrir slysni á hvers kyns mengandi efnum í jarðveg, yfirborðsvatn og grunnvatn.
                      Geymslurými skal vera til staðar fyrir mengað afrennsli regnvatns frá svæði brennslustöðvar eða fyrir mengað vatn sem á rætur að rekja til leka eða slökkvistarfa.
                      Brennslustöð skal ekki halda áfram að brenna úrgang lengur en í fjórar klukkustundir óslitið þegar farið er yfir viðmiðunarmörk fyrir losun.
                  b.      Á eftir 2. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Í brennslustöðvum skal vera sjálfvirkur mælibúnaður sem er háður eftirliti í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, sbr. 13. mgr.
                      Umhverfisstofnun ákveður staðsetningu sýnatöku- eða mælipunkta sem nota skal fyrir vöktun losunar.
                      Rekstraraðili brennslustöðvar skal skrá allar niðurstöður vöktunar, vinna úr og setja fram með þeim hætti að Umhverfisstofnun geti sannreynt að farið sé að rekstrarskilyrðum og viðmiðunarmörkum fyrir losun sem eru í starfsleyfinu.
                      Ráðherra er heimilt að kveða nánar í reglugerð um framkvæmd þessarar greinar, sbr. 43. gr.
     8.      Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir ákvæði 14. gr. skulu heilbrigðisnefndir sveitarfélaga gefa út starfsleyfi fyrir aðrar móttökustöðvar en förgunarstaði úrgangs og aðra meðferð úrgangs samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir til og með 31. desember 2018. Heilbrigðisnefndir skulu afgreiða þær umsóknir um starfsleyfi sem hafa borist til nefndarinnar fyrir sama tímamark.

Greinargerð.

1. Inngangur.
    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, vegna innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB frá 24. nóvember 2010 um losun í iðnaði. Samhliða eru lagðar til breytingar varðandi útgáfu starfsleyfa, m.a. með hliðsjón af innleiðingu tilskipunarinnar.
    Frumvarpið var samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Samtök heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi og Umhverfisstofnun. Nánar er fjallað um samráð í 5. kafla.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Megintilefni frumvarpsins er innleiðing á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB frá 24. nóvember 2010 um losun í iðnaði. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 229/2015 frá 25. september 2015. Ákvörðunin var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands. Alþingi samþykkti þingsályktun um afléttingu á stjórnskipulegum fyrirvara í maí 2016 og tók ákvörðunin gildi 1. ágúst 2016. Eftirlitsstofnun EFTA sendi aðvörun til Íslands í nóvember 2016 þar sem frestur Íslands til að innleiða tilskipunina var runninn út.
    Um alllangt skeið hefur verið kallað eftir endurskoðun á lögum nr. 7/1998, einkum hvað varðar verkaskiptingu Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Í byrjun október 2015 skilaði starfshópur um útfærslur á framkvæmd við leyfisveitingar og eftirlit samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir umhverfis- og auðlindaráðherra greinargerð með hugmyndum starfshópsins og sviðsmyndum um breytingar á fyrirkomulagi við leyfisveitingar og eftirlit samkvæmt lögunum. Ráðuneytið telur með hliðsjón af þeim sviðsmyndum sem fram koma í greinargerðinni og reynslu við framkvæmd laganna nauðsynlegt að leggja til frekari breytingar á lögunum, einkum hvað varðar verkaskiptingu Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Ráðuneytið hefur hafið vinnu að slíku frumvarpi og áformar ráðherra að leggja það fram á næsta löggjafarþingi. Jafnframt er það mat ráðuneytisins að ráðast þurfi í heildarendurskoðun á lögunum og er gert ráð fyrir að sú vinna hefjist á næstu misserum. Í frumvarpinu sem hér liggur fyrir er þó lögð til ein breyting hvað varðar verkaskiptingu Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda og varðar hún breytingu á útgáfu starfsleyfa eins og nánar er fjallað um í 3. kafla.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Meginefni frumvarpsins varðar fyrst og fremst innleiðingu á tilskipun 2010/75/ESB um losun í iðnaði. Í öðru lagi er lögð til breyting á útgáfu starfsleyfa með hliðsjón af innleiðingu tilskipunar 2010/75/ESB.

Tilskipun 2010/75/ESB.
    Tilskipun 2010/75/ESB um losun í iðnaði sameinar sjö eldri EES-gerðir um samþættar mengunarvarnir. Allar nema ein hafa verið teknar upp í EES-samninginn og innleiddar hér á landi. Tilskipun 2001/80/EB um takmörkun á losun tiltekinna mengunarefna frá stórum brennsluverum út í andrúmsloftið, sem nær yfir brennsluver sem framleiða rafmagn og eru yfir 50MW afli, var ekki innleidd þar sem sú starfsemi hefur ekki verið hér á landi. Hin nýja tilskipun felur í sér endurútgáfu og uppfærslu á viðkomandi EES-gerðum þar sem tilgangurinn er sá að auka skýrleika reglnanna. Með tilskipun 2010/75/ESB er kveðið á um samþættar aðferðir við mengunarvarnir sem varða tiltekna mengandi starfsemi og gengur hún lengra en eldri tilskipanir. Tilskipunin byggist á heildstæðri nálgun þar sem taka skal tillit til umhverfisins í heild, þ.e. draga úr losun út í andrúmsloft, vatn og jarðveg við meðhöndlun úrgangs og gera kröfur um orkunýtni og slysavarnir.
    Markmið tilskipunar 2010/75/ESB er að koma í veg fyrir og takmarka mengun frá tiltekinni starfsemi, svo sem með því að setja losunarmörk fyrir tiltekin efni. Sem dæmi um starfsemi sem fellur undir tilskipunina eru stór málmiðnaður, álver, járnblendi, kísilver og þess háttar, stórir urðunarstaðir, stór sláturhús og svokallað þauleldi. Lagt er til að tilskipunin verði innleidd í heild sinni þó svo að tiltekin starfsemi sem tilskipunin tekur til sé ekki hér á landi, svo sem títandíoxíðiðnaður og stór brennsluver. Þannig er tekinn af allur vafi um það hvaða kröfur gildi um slíkan iðnað verði hann hér á landi síðar meir.
    Meðal helstu nýmæla tilskipunarinnar eru ákvarðanir um bestu aðgengilegu tækni (BAT) og gildi þeirra með tilkomu svokallaðra niðurstaðna um bestu aðgengilegu tækni, þ.e. BAT-ákvarðanir (BAT Conclusions – BATC). Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins mun, í samráði við aðildarríkin og hagsmunaaðila, setja fram viðmið varðandi tiltekna starfsemi. Þessi viðmið verða sett sem sérstakar gerðir framkvæmdastjórnarinnar, þ.e. BAT-ákvarðanir. Segja má að með þessu móti sé tæknilýsingum úr BAT snúið yfir í bein fyrirmæli og losunarmörk. Samkvæmt tilskipuninni skal vísað beint til viðeigandi BAT-ákvarðana í starfsleyfum fyrirtækja. Gert er ráð fyrir að aðildarríkin eigi aðkomu að gerð framangreindra viðmiða og hefur Ísland því möguleika á að taka þátt í þróun þeirra. Nefna má að Ísland hefur í yfir 25 ár tekið virkan þátt í mótun BAT-viðmiða á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Hluti af verkefnum norræna BAT-hópsins hefur verið að gera skýrslur sem sendar hafa verið til evrópsku IPPC-skrifstofunnar í Sevilla, Joint Research Centre, sem heldur utan um gerð BAT-viðmiða fyrir framkvæmdastjórn ESB og miðlun upplýsinga milli aðildarríkja ( eippcb.jrc.ec.europa.eu/about/) og vinnur nánar úr þeim í samræmi við ákvæði 13. gr. tilskipunar 2010/75/ESB varðandi tilvísunarskjöl um bestu aðgengilegu tækni og upplýsingaskipti. Skýrslur norræna BAT-hópsins hafa einkennst af áherslum Norðurlandanna.
    Tilskipunin gerir ráð fyrir að tiltekin fyrirtæki skuli hafa leyfi frá lögbæru stjórnvaldi í viðkomandi aðildarríki en aðildarríkjum er þó heimilt að setja almenn leyfisskilyrði sem gilda um tiltekna starfsemi sem koma þá í stað leyfisútgáfu. Jafnframt er gert ráð fyrir að tiltekin starfsemi geti verið háð skráningarskyldu í stað leyfisútgáfu.
    Samkvæmt tilskipuninni skulu lögbær stjórnvöld í hverju aðildarríki hafa eftirlit með starfsemi sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar og eru settar fram lágmarkskröfur um hvernig því skuli til háttað.
    Í tilskipuninni er rík áhersla lögð á tengsl við tilskipun 2004/35/EB um umhverfisábyrgð, til að mynda með áherslu á vinnslu og skil á grunnskýrslum um ástand umhverfisins (e. baseline report). Þannig er gengið út frá því að við lok rekstrar séu gæði endurheimt, t.d. skal iðnaðarlóð skilað í sama ástandi og grunnskýrslan segir til um.
    Í frumvarpinu eru helstu efnisatriði tilskipunarinnar innleidd og kveðið á um heimildir ráðherra til að útfæra tiltekin atriði nánar í reglugerð til þess að ljúka innleiðingu tilskipunarinnar.

Útgáfa starfsleyfa og skráningarskylda.
    Með hliðsjón af greinargerð starfshóps um útfærslur á framkvæmd við leyfisveitingar og eftirlit samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og stefnu ríkisstjórnarinnar um að bæta viðmót og aðgengi að stjórnsýslu er mikilvægt að endurskoða og leggja mat á þörfina fyrir að tiltekin starfsemi sé háð starfsleyfi. Í því samhengi þarf að skoða hvort aðrar leiðir en starfsleyfisveitingar séu mögulega færar til að ná fram markmiðum um mengunarvarnir og hollustuhætti, svo sem skráningarskylda. Fyrirtæki bera ábyrgð á að starfa í samræmi við gildandi löggjöf hverju sinni og hafa stjórnvöld m.a. það hlutverk að leiðbeina þeim um gildandi reglur. Telja verður að þeirri leiðbeiningarskyldu sé í einhverjum tilvikum unnt að sinna nógu vel án þess að starfsleyfisskylda sé til staðar. Stjórnvöld hafa síðan eftirlit með starfseminni til að ganga úr skugga um að hún sé í samræmi við löggjöfina. Með hliðsjón af framangreindu er í frumvarpinu lagt til að dregið verði úr vægi starfsleyfiskyldu og miðað við að einungis verði gerð krafa um að starfsemi sé starfsleyfisskyld þegar þess er þörf með tilliti til umfangs og eðli starfseminnar. Af þeim sökum er lagt til að ráðherra hafi heimild til þess að kveða á um að tiltekin starfsemi skuli háð skráningarskyldu í stað starfsleyfis. Verði frumvarpið að lögum er því gert ráð fyrir að ráðuneytið, í samvinnu helstu hagsmunaaðila, fari yfir og meti í hvaða tilvikum skráningarskylda geti komið í stað starfsleyfis. Í frumvarpinu er einnig lagt til að allri starfsleyfisútgáfu verði sinnt af Umhverfisstofnun frá og með 1. janúar 2019. Lagt er til að Umhverfisstofnun taki við skráningum frá rekstraraðilum um rafræna gátt og upplýsi þá um þær reglur sem þeir þurfa að uppfylla. Í frumvarpinu er ekki lögð til breyting á framkvæmd eftirlits frá því sem nú er. Lagt er upp með að fyrirkomulag eftirlits verði endurskoðað í frumvarpi sem ráðherra áformar að leggja fram á næsta löggjafarþingi.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
    Frumvarpið hefur hvorki gefið sérstakt tilefni til mats á samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, né aðrar alþjóðlegar skuldbindingar en á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

5. Samráð.
    Frumvarpið var samið í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Ráðuneytið stofnaði óformlegan samráðshóp haustið 2015 með fulltrúum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi og Umhverfisstofnun í þeim tilgangi að ræða útfærslur í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir vegna innleiðingar á tilskipun 2010/75/ESB. Hópurinn hittist fimm sinnum og fékk nokkur drög að frumvarpinu til skoðunar og ræddi ýmis atriði frumvarpsins og mögulegar útfærslur. Auk þess fékk hópurinn til skoðunar drög að öðrum breytingum á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, m.a. um breytingar á fyrirkomulagi við framkvæmd eftirlits. Frumvarpið var síðan sett á vef ráðuneytisins til kynningar 15. janúar 2016 og var gefinn frestur til að koma að athugasemdum til 3. febrúar 2016. Frumvarpið var auk þess sent til umsagnar til Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins, Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og Umhverfisstofnunar. Ráðuneytinu bárust umsagnir um frumvarpið m.a. frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, einstökum heilbrigðisnefndum sveitarfélaga, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Umhverfisstofnun og Isavia. Þá er rétt að geta þess að ráðuneytið hefur undanfarið fundað með nokkrum heilbrigðisnefndum, að þeirra ósk, og kynnt þá vinnu sem er í gangi varðandi hugsanlegar breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Almennt má segja að það hafi einkum verið tvö atriði sem mest hafi verið fjallað um í umsögnum um frumvarpið. Hið fyrra var gagnrýni á fyrirhugaðar breytingar á útgáfu starfsleyfa og upptaka á skráningarskyldu í stað útgáfu starfsleyfa. Í nokkrum umsögnum var gagnrýnt að taka ætti upp skráningarskyldu og tekið fram að óþarfi væri að breyta núverandi kerfi sem hefur virkað vel að mati umsagnaraðila. Jafnframt var gagnrýnt að starfsleyfisútgáfa mundi færast til Umhverfisstofnunar frá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga. Enn fremur var tekið fram í nokkrum umsögnum að nokkur óvissa væri um hvernig skráningarskyldan yrði útfærð í framkvæmd. Í tveimur umsögnum var tekið vel í að taka upp skráningarskyldu í stað útgáfu starfsleyfa. Ljóst er að skiptar skoðanir eru um það að taka upp skráningarskyldu í stað útgáfu starfsleyfa. Með hliðsjón af stefnu ríkisstjórnarinnar um að bæta viðmót og aðgengi að stjórnsýslu er lagt til í frumvarpinu að draga úr vægi starfsleyfisskyldu og taka upp skráningarskyldu í miðlæga rafræna gátt. Síðara atriðið snýr að breytingu á framkvæmd eftirlits. Í frumvarpinu sem var birt til kynningar í janúar 2016 var lagt til að allt eftirlit með starfsleyfis- eða skráningarskyldri starfsemi yrði alfarið framkvæmt af heilbrigðisnefndum sveitarfélaga í stað þess að það skiptist á milli þeirra og Umhverfisstofnunar. Af umsögnum sem bárust er ljóst að skiptar skoðanir eru um þessa skipan mála og í nokkrum þeirra var lagt til að haft yrði frekara samráð um þær breytingar. Á þessar röksemdir var fallist og er því ekki lögð til í frumvarpinu breyting á framkvæmd eftirlits að svo stöddu. Ráðherra áformar að leggja til breytingar á framkvæmd eftirlits með frumvarpi á næsta löggjafarþingi að undangengnu samráði við heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, Umhverfisstofnun og hlutaðeigandi haghafa.

6. Mat á áhrifum.
    Frumvarpið hefur áhrif á atvinnurekstur sem fellur undir gildissvið laganna. Í frumvarpinu er lagt til að tilskipun 2010/75/ESB verði innleidd hér á landi. Tilskipunin byggist eins og áður segir á eldri tilskipunum um sama efni og hefur að meginstefnu ekki í för með sér auknar skyldur fyrir atvinnulífið. Það er einkum ný krafa um skýrslu um grunnástand lóðar sem mun hafa kostnaðaráhrif á atvinnulífið. Í frumvarpinu er lagt upp með að einfalda ferli við starfsleyfisveitingar með því að þær fari um eina miðlæga rafræna gátt. Auk þess er lagt upp með að draga úr vægi starfsleyfisskyldu og taka upp skráningarskyldu þess í stað. Við frumvarpsgerðina var haft að leiðarljósi að nýta þann sveigjanleika sem tilskipunin gefur færi á. Má þar nefna að lagt er til að gildistími starfsleyfa verði ótímabundinn og að ráðherra hafi heimild til þess að kveða á um skráningarskyldu í stað útgáfu starfsleyfa. Þó var í nokkrum tilvikum gengið lengra en tilskipunin gerir ráð fyrir og er þess getið sérstaklega í skýringum við einstakar greinar frumvarpsins. Á það einkum við um upplýsingar til almennings, svo sem birtingu eftirlitsskýrslna á vefsvæðum stjórnvalda.
    Frumvarpið hefur áhrif á stjórnsýslu Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Frumvarpið mun auka umfang vinnu Umhverfisstofnunar við útgáfu starfsleyfa og endurskoðun á starfsleyfum. Ekki er reiknað með þessu aukna umfangi í gildandi fjárlögum og ekki er gert ráð fyrir að það rúmist innan útgjaldaramma ráðuneytisins í fimm ára fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Kostnaður Umhverfisstofnunar vegna þessa er óverulegur eða um 5 m.kr. á ári. Gert er ráð fyrir að stofnunin innheimti gjöld til að mæta kostnaði við útgáfu starfsleyfa. Þannig verða engin fjárhagsáhrif hjá ríkissjóði af þessum sökum. Einnig þarf Umhverfisstofnun að hafa rafræna móttöku á umsóknum um starfsleyfi og skráningum frá rekstraraðilum. Enn fremur er aukið umfang hjá Umhverfisstofnun vegna aukinnar upplýsingagjafar á vefsvæði stofnunarinnar. Hjá stofnuninni eru til staðar upplýsinga- og skráningarsíður á netinu sem nota má í þessum tilgangi, svokallaðar „Mínar síður“, en auk þess er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun muni nýta sér rafrænar lausnir sem til eru hjá Þjóðskrá Íslands. Kostnaður er talinn óverulegur og rúmast innan núverandi fjárheimilda stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs haldist óbreytt verði frumvarpið samþykkt. Hjá heilbrigðisnefndum sveitarfélaga mun frumvarpið leiða til þess að umsvif þeirra við útgáfu starfsleyfa minnkar á næstu misserum og falla niður frá og með 1. janúar 2019. Um leið geta nefndirnar lagt meiri áherslu á að sinna eftirliti með markvissari hætti. Þá er lagt til í frumvarpinu að auknar skyldur verði lagðar á heilbrigðisnefndir varðandi upplýsingagjöf til almennings, m.a. með birtingu eftirlitsskýrslna á vefsvæði þeirra.
    Þá hefur frumvarpið áhrif á almenning þar sem lagðar eru auknar skyldur á stjórnvöld að hafa upplýsingar um tiltekin málefni á vefsíðum stjórnvalda.

Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að bætt verði nýju markmiði við núgildandi lög. Ákvæðið er efnislega samhljóða 1. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.

Um 2. gr.

    Í greininni er lögð til afmörkun á gildissviði laganna og að þau gildi ekki í ákveðnum tilvikum. Ákvæðið er efnislega samhljóða 2. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Sambærilegt ákvæði er að finna í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, sbr. I. viðauka við reglugerðina.

Um 3. gr.

    Í greininni er að finna skilgreiningar á nýjum hugtökum í frumvarpinu. Í fyrsta lagi er bætt við hugtakinu „eftirlitsaðili“ sem er haft um heilbrigðisnefndir sveitarfélaga eða Umhverfisstofnun. Tilgangurinn er fyrst og fremst að hafa eitt hugtak um þessi stjórnvöld til hægðarauka þegar fjallað er um þau. Í öðru lagi er lögð til efnisleg breyting á skilgreiningu á hugtakinu „besta fáanlega tækni“. Lagt er til að breytt heiti verið notað um hugtakið, þ.e., „besta aðgengilega tækni“, einkum þar sem skammstöfunin BAT er notuð um þetta hugtak. Ákvæðið er efnislega samhljóða 10. tölul. 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Í þriðja lagi er lagt til að skilgreiningu á hugtökunum „stöð“ og „BAT-niðurstöður“ verði bætt við lögin. Ákvæðið er efnislega samhljóða 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.

Um 4. gr.

    Í greininni er lagt til að bætt verði við lögin heimild fyrir ráðherra að útfæra nánar í reglugerð skráningarskyldu. Að öðru leyti er vísað til skýringa í 3. kafla greinargerðarinnar og við c-lið 7. gr. frumvarpsins.

Um 5. gr.

    Í greininni er lagt til að 4. gr. a laganna, um starfsleyfi, verði felld brott vegna breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu. Að öðru leyti er vísað til skýringa í 3. kafla greinargerðarinnar og við a–d-lið 7. gr. frumvarpsins.

Um 6. gr.

    Í a-lið er lagt til að bætt verði við lögin heimild fyrir ráðherra að útfæra nánar í reglugerð skráningarskyldu. Að öðru leyti er vísað til skýringa í 3. kafla greinargerðarinnar og við c-lið 7. gr. frumvarpsins.
    Í b-lið er lögð til breyting á orðalagi í samræmi við breytta hugtakanotkun sem lögð er til í 3. gr. frumvarpsins.
    Í c- og d-lið eru lagðar til breytingar á tilvísunum til greina laganna í samræmi við breytta númeraröðun greina sem lögð er til í frumvarpinu.
    Í e-lið er lagt til að bætt verði við lögin nýjum heimildum fyrir ráðherra að útfæra nánar í reglugerð tiltekin ákvæði sem frumvarpið kveður á um. Að öðru leyti er vísað til skýringa á einstökum greinum frumvarpsins þar sem þessi ákvæði er að finna.

Um 7. gr.

     Um a-lið (6. gr.).
    Í a-lið eru lagðar til breytingar á núverandi fyrirkomulagi við útgáfu starfsleyfa eins og fram kemur í 3. kafla greinargerðarinnar. Í frumvarpinu er lagt til að Umhverfisstofnun gefi út öll starfsleyfi sem gefin verða út á grundvelli laganna. Samkvæmt núgildandi lögum eru það heilbrigðisnefndir sveitarfélaga og Umhverfisstofnun sem gefa út starfsleyfi á grundvelli laganna. Þá er í frumvarpinu lagt til að tekin verði upp í áföngum skráningarskylda í stað útgáfu starfsleyfa í ákveðnum tilvikum, sbr. c-lið 7. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að unnt sé að taka upp skráningarskyldu fyrir flesta þá starfsemi sem heilbrigðisnefndir gefa út starfsleyfi fyrir, sbr. skýringar við c-lið 7. gr. frumvarpsins. Af þeim sökum er lagt til að Umhverfisstofnun gefi út þau starfsleyfi sem út af standa, þ.e. þau sem heilbrigðisnefndir sjá um samkvæmt núgildandi lögum, auk þess sem Umhverfisstofnun muni áfram gefa út starfsleyfi fyrir þá starfsemi sem hún gefur nú þegar út starfsleyfi fyrir. Með því að hafa útgáfu starfsleyfa hjá einu stjórnvaldi er betur tryggt að sömu starfsleyfisskilyrði verði sett fyrir sambærileg fyrirtæki óháð hvar þau eru starfrækt á landinu. Í frumvarpinu er lagt til að frá og með 1. janúar 2019 verði öll útgáfa starfsleyfa hjá Umhverfisstofnun, sbr. 45. gr. frumvarpsins. Um er að ræða innleiðingu á 4. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í a-lið er einnig lagt til að starfsleyfi skuli veitt starfsemi sem uppfyllir þær kröfur sem til hennar eru gerðar samkvæmt lögunum eða reglugerðum settum samkvæmt þeim. Rétt þykir að hnykkja á því að stjórnvöldum ber að veita tiltekinni starfsemi starfsleyfi uppfylli hún þær kröfur sem til hennar eru gerðar. Ef stjórnvald telur að tiltekin starfsemi uppfylli ekki þær kröfur sem til starfseminnar eru gerðar skal það leiðbeina rekstraraðilanum um það sem á skortir og beina því til rekstraraðilans að bæta úr því. Hafi rekstraraðilinn brugðist við ábendingum stjórnvaldsins skal án undantekninga veita rekstraraðilanum starfsleyfi. Hafi rekstraraðilinn hins vegar ekki brugðist við ábendingum stjórnvaldsins getur komið til álita að hafna umsókn rekstraraðilans. Þó er rétt að hafa í huga að greinin á ekki við í þeim tilvikum sem ráðherra hefur kveðið á um skráningarskyldu, sbr. c-lið 7. gr. frumvarpsins. Um er að ræða innleiðingu á 5. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í a-lið er enn fremur lögð til breyting á gildistíma starfsleyfa. Samkvæmt núgildandi lögum skal gefa starfsleyfi út til tiltekins tíma. Í framkvæmd hafa starfsleyfi almennt verið gefin út til 12–16 ára í senn, en styttri gildistími þekkist einnig. Í tilskipun 2010/75/ESB er ekki gerð krafa um að starfsleyfi skuli hafa tiltekinn gildistíma heldur er lögð skylda á stjórnvöld að endurskoða starfsleyfin reglulega. Af þeim sökum er lagt til að gerð verði breyting á núverandi framkvæmd og lagt til í greininni að starfsleyfi verði ótímabundin. Hins vegar er lagt til að Umhverfisstofnun verði skylt að endurskoða starfsleyfi reglulega og a.m.k. á 16 ára fresti, sbr. j-lið 7. gr. frumvarpsins. Ljóst er að bæði gallar og kostir eru við nýtt fyrirkomulag sem lagt er til í frumvarpinu en telja verður að kostirnir séu fleiri en gallarnir. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skráningarskylda í stað útgáfu starfsleyfa verði tekin upp í áföngum og ekki er gert ráð fyrir tímamörkum við framkvæmd hennar, þ.e. rekstraraðili þarf einungis að skrá starfsemi sína einu sinni. Eftir að rekstraraðili hefur skráð starfsemi sína getur hann starfað svo framarlega sem hann uppfyllir hlutaðeigandi kröfur sem gilda um starfsemina. Með því að hafa starfsleyfi ótímabundin verður ekki gerður aðstöðumunur á starfsemi hvort hún sé starfsleyfisskyld eða skráningarskyld. Þá mun nýja fyrirkomulagið draga úr álagi á stjórnsýsluna vegna þess að ekki verður lengur þörf á undanþágu frá starfsleyfi á meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu og gildistími eldra starfsleyfis er runninn út. Í nýja fyrirkomulaginu mun starfsleyfi gilda á meðan Umhverfisstofnun er að endurskoða starfsleyfið og endurskoðað starfsleyfi tekur síðan við af eldra starfsleyfi þegar endurskoðun þess er lokið. Með þessu móti þurfa fyrirtæki ekki að eiga á hættu að starfa án starfsleyfis vegna þess að gildistími starfsleyfis hafi runnið út. Eftir sem áður þurfa rekstraraðilar að uppfylla þær kröfur sem til starfseminnar eru gerðar. Þá ber að taka fram að starfsleyfi segir ekki til um hversu lengi tiltekin starfsemi skuli vera á tilteknum stað heldur einungis hvaða kröfur eru gerðar til starfseminnar á þessum tiltekna stað til þess að draga úr mengun frá starfseminni á staðnum. Rekstraraðili þarf að tryggja að hann geti verið með starfsemina á tilteknum stað með samningum við eiganda lóðar eða eiga lóðina sjálfur. Þá þarf starfsemin að vera í samræmi við skipulag. Uppsögn leigusamnings á lóð eða breytingar á skipulagi geta leitt til þess að starfsemin þurfi að víkja af tiltekinni lóð þrátt fyrir að rekstraraðilinn hafi starfsleyfi fyrir starfsemina þar.
     Um b-lið (7. gr.).
    Í b-lið er fjallað um hvernig standa skuli að útgáfu starfsleyfa og byggist ákvæðið að mestu leyti á 6. gr. núgildandi laga. Í frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á núverandi framkvæmd. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að einungis Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi frá og með 1. janúar 2019 eins og segir í a-lið 7. gr. frumvarpsins, sbr. 45. gr.
    Í öðru lagi er áréttuð skylda rekstraraðila sem sækja um starfsleyfi að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar um starfsemina komi fram í umsókn um starfsleyfi. Sambærilega kröfu er að finna í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Um er að ræða skyldu sem lögð er á rekstraraðila og af þeim sökum er nauðsynlegt að hún hafi fullnægjandi lagastoð. Ákvæðinu er jafnframt ætlað að innleiða 12. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Ráðherra mun kveða á um nánari útfærslu á ákvæðinu í reglugerð.
    Í þriðja lagi er lögð skylda á Umhverfisstofnun að hafa aðgengilegar upplýsingar um útgáfu starfsleyfa og önnur tilgreind atriði. Telja verður mikilvægt að hagsmunaaðilar og almenningur hafi greiðan aðgang að upplýsingum um framangreind atriði til að auðvelda þeim að koma á framfæri sjónarmiðum sínum við fyrirhugaðar ákvarðanir Umhverfisstofnunar. Um er að ræða innleiðingu á 24. og 25. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Í frumvarpinu er lagt til að Umhverfisstofnun skuli hafa aðgengilegar upplýsingar um alla starfsemi sem fellur undir gildissvið laganna, og því er gengið lengra í innleiðingu tilskipunarinnar en krafist er á grundvelli skuldbindinga Íslands sem leiðir af EES-samningnum.
    Í fjórða lagi er lagt til að stytta auglýsingatíma á tillögum að starfsleyfi úr átta vikum í fjórar vikur.
    Þá er lagt til að Umhverfisstofnun auki við upplýsingagjöf sína svo sem varðandi útgáfu starfsleyfa. Þannig er gert ráð fyrir að umsóknir um starfsleyfi, umsóknir um breytingar á starfsleyfum og upplýsingar um endurskoðun á starfsleyfum verði gerðar aðgengilegar á vefsvæði Umhverfisstofnunar. Telja verður að með þessu móti ættu aðilar, sem hafa áhuga á endurskoðun tiltekins starfsleyfis, að hafa aukin tækifæri á að kynna sér fyrirhugaða útgáfu á starfsleyfi eða endurskoðun starfsleyfis og undirbúa sig fyrir að koma með athugasemdir við starfsleyfistillögu. Af þeim sökum ættu fjórar vikur að duga þeim aðilum sem vilja gera athugasemdir við útgáfu á starfsleyfi eða endurskoðun þess.
    Að lokum er lagt til að Umhverfisstofnun skuli auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Samkvæmt núgildandi lögum skal Umhverfisstofnun auglýsa útgáfu starfsleyfa í Stjórnartíðindum. Talið er að ein helsta ástæðan fyrir framangreindri skyldu hafi verið sú að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um gildistöku tiltekinna starfsleyfa. Telja verður að unnt sé að ná fram framangreindu markmiði með öðrum hætti en með birtingu í Stjórnartíðindum. Af þeim sökum er lagt til að Umhverfisstofnun verði gert skylt að auglýsa á vefsvæði sínu útgáfu og gildistöku starfsleyfa. Almenningur mun því auðveldlega geta nálgast þessar upplýsinga á vefsíðu Umhverfisstofnunar.
     Um c-lið (8. gr.).
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núverandi fyrirkomulagi við útgáfu starfsleyfa, sbr. umfjöllun í 3. kafla greinargerðarinnar og skýringar við a-lið 7. gr. frumvarpsins.
    Í greininni er í fyrsta lagi lagt til að ráðherra hafi heimild til að kveða á um að tiltekin starfsemi sé skráningarskyld í stað þess að vera starfsleyfisskyld. Gert er ráð fyrir að unnt sé að taka upp skráningarskyldu fyrir flesta þá starfsemi sem heilbrigðisnefndir gefa út starfsleyfi fyrir. Samkvæmt reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun er ráðherra heimilt að gefa út lista yfir tiltekna starfsemi sem ekki er talin þörf á ítarlegri starfsleyfisgerð fyrir. Slíkur listi hefur verið birtur með auglýsingu nr. 582/2000. Umhverfisstofnun, í samráði við heilbrigðisnefndir, hefur gefið út samræmd starfsleyfisskilyrði sem gilda fyrir mismunandi starfsemi. Heilbrigðisnefndir hafa síðan vísað til samræmdra starfsleyfisskilyrða í starfsleyfum sem þær hafa gefið út. Í mörgum tilvikum bæta starfsleyfin ekki öðru við samræmdu starfsleyfisskilyrðin en upplýsingum um viðkomandi starfsemi, svo sem rekstraraðila, staðsetningu og umfang starfseminnar. Í öðrum tilvikum er frekari útfærsla í starfsleyfi viðkomandi starfsemi auk þess sem síðan er vísað til samræmdu starfsleyfisskilyrðanna sem gilda um viðkomandi rekstur. Af þeim sökum er raunhæft að ætla sem svo að unnt sé að útbúa almenn leyfisskilyrði sem gildi um tiltekna starfsemi og innihaldi kröfur eða tilvísanir til þeirra krafna sem til starfseminnar eru gerðar. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að ráðuneytið setji af stað vinnu við gerð almennra leyfisskilyrða í samráði við Umhverfisstofnun, heilbrigðisnefndir sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Í þeirri vinnu verður lagt mat á hvort viðkomandi starfsemi henti fyrir skráningarskyldu og ef svo er verður hafist handa við að útbúa almenn leyfisskilyrði. Fyrir einstaka starfsemi kunna að vera fyrir hendi gildar ástæður til að hafa starfsleyfi áfram.
    Í öðru lagi er í greininni lagt til að ráðherra sé heimilt að setja í reglugerð almennar kröfur fyrir starfsemi. Gert er ráð fyrir að útfærð verði í reglugerð almenn leyfisskilyrði sem gildi um tiltekna starfsemi og innihaldi kröfur eða tilvísanir til þeirra krafna sem til starfseminnar eru gerðar. Hér er einkum átt við almennar kröfur til þeirrar starfsemi sem verður skráningarskyld en ekki útilokað að heimildinni verði beitt í öðrum tilvikum, þ.e. þegar starfsemi er starfsleyfisskyld.
    Í þriðja lagi er lagt til í greininni að rekstraraðili skráningarskylds atvinnurekstrar skuli skrá starfsemi sína hjá Umhverfisstofnun áður en hún hefst. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að rekstraraðili, sem hyggst starfrækja tiltekna starfsemi, skrái fyrirhugaða starfsemi sína hjá Umhverfisstofnun í rafræna gátt. Gert er ráð fyrir að Umhverfisstofnun notist við sama kerfi og Þjóðskrá hefur komið á fót varðandi skráningu á heimagistingu hjá sýslumannsembættum. Rekstraraðili skráir sig inn í kerfið með Íslykli eða rafrænum skilríkjum og kerfið leiðir hann í gegnum skráningarferlið. Í ferlinu fær rekstraraðilinn leiðbeiningar um hvaða kröfur eru gerðar til fyrirhugaðrar starfsemi og þarf rekstraraðilinn að lýsa yfir að hann uppfylli þær við skráningu starfseminnar. Umhverfisstofnun staðfestir skráninguna og sendir upplýsingar um væntanlega starfsemi til viðkomandi heilbrigðisnefndar. Heilbrigðisnefnd móttekur upplýsingar um skráningu rekstraraðilans frá Umhverfisstofnun og skráir rekstraraðilann á lista heilbrigðisnefndarinnar um eftirlitsskyld fyrirtæki. Heilbrigðisnefnd mun síðan hafa eftirlit með rekstraraðilum til þess að ganga úr skugga um að starfsemi hans sé í samræmi við löggjöf. Heilbrigðisnefnd ákveður hvenær hún framkvæmir fyrsta eftirlit með rekstraraðila eftir að skráning hans berst. Gert er ráð fyrir að rekstraraðili geti hafið starfsemi um leið og hann hefur skráð starfsemi sína hjá Umhverfisstofnun enda hafi hann þá uppfyllt þær kröfur sem til starfseminnar eru gerðar. Heilbrigðisnefnd gengur svo úr skugga um að svo sé og verði misbrestur á því getur nefndin grípið til viðeigandi þvingunarúrræða.
     Um d-lið (9. gr.).
    Í d-lið er tilgreint hvaða atriði Umhverfisstofnun skuli tryggja að séu í starfsleyfi og verður það nánar útfært í reglugerð sem ráðherra setur. Um er að ræða innleiðingu á 14. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Skv. 14. gr. tilskipunar 2010/75/ESB er aðildarríkjum heimilt að fela stjórnvöldum í vissum tilvikum að kveða á um starfsleyfisskilyrði. Af þeim sökum er lagt til að ráðherra geti ef þörf er á veitt Umhverfisstofnun heimild til að setja starfsleyfisskilyrði að uppfylltum skilyrðum sem fram komi í reglugerð sem ráðherra setur. Hér er um að ræða valkvæða heimild sem verður ekki virk fyrr en kveðið hefur verið á um hana í reglugerð. Að lokum er kveðið á um hvaða atriði skuli að öðru leyti sett í starfsleyfi og eru þessi atriði efnislega samhljóða því sem er í núgildandi lögum.
     Um e–æ-lið (10.–32. gr.).
    
Í e–æ-lið er lagt til að nýjum greinum verði bætt við lögin vegna innleiðingar á tilskipun 2010/75/ESB. Ákvæðin byggjast að öllu leyti á tilskipuninni og eru efnislega samhljóða henni. Helstu efnisatriði tilskipunarinnar eru tekin upp í núgildandi lög og verða ákvæðin síðan nánar útfærð með reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli laganna.
    Í e-lið (10. gr.) er um að ræða innleiðingu á 15. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í f-lið (11. gr.) er um að ræða innleiðingu á 16. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í g-lið (12. gr.) er um að ræða innleiðingu á 18. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í h-lið (13. gr.) er um að ræða innleiðingu á 19. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Samkvæmt tilskipun 2010/75/ESB mun framkvæmdastjórn Evrópusambandsins vinna að og gefa út niðurstöðu um bestu, aðgengilegu tækni, BAT-niðurstöðu, fyrir hlutaðeigandi starfsemi. Framkvæmdastjórnin mun gefa út framangreindar niðurstöður út í formi ákvarðana sem munu verða innleiddar hér á landi í formi reglugerðar sem ráðherra setur. Verði frumvarpið að lögum er gert ráð fyrir að Umhverfisstofnun birti niðurstöður um bestu, aðgengilegu tækni á vefsvæði sínu og/eða tilvísun til reglugerða sem innleiða framangreindar niðurstöður.
    Í i-lið (14. gr.) er um að ræða innleiðingu á 20. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í j-lið (15. gr.) er um að ræða innleiðingu á 21. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Í ákvæðinu er lögð til breyting á gildistíma starfsleyfa og er vísað til umfjöllunar um a-lið 7. gr. frumvarpsins.
    Í k-lið (16. gr.) er um að ræða innleiðingu á 22. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Líkt og kemur fram í 3. kafla greinargerðarinnar er hér um að ræða nýmæli og ný skylda lögð á tiltekinn rekstraraðila. Í greininni er fjallað um grunnskýrslu um ástand umhverfisins (e. baseline report) og er tilgangurinn með ákvæðinu að tryggja að við lok rekstrar séu gæði endurheimt, t.d. skal iðnaðarlóð skilað í sama ástandi og grunnskýrslan segir til um. Umhverfisstofnun er ætlað að setja ákvæði í starfsleyfi um lokun iðnaðarsvæðis þegar starfsemi er stöðvuð endanlega. Í ákvæðinu felst að Umhverfisstofnun þarf að meta hvort rekstraraðili hafi gripið til nauðsynlegra ráðstafana ef starfsemin hefur valdið umtalsverðri mengun samanborið við stöðuna sem staðfest er í grunnskýrslunni.
    Í l-lið (17. gr.) er um er að ræða innleiðingu á 26. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í m-lið (18. gr.) er um er að ræða innleiðingu á 27. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Gert er ráð fyrir að núverandi stuðningur við nýsköpun hér landi á landi teljist nægjanlegur til þess að uppfylla ákvæði 27. gr. tilskipunar 2010/75/ESB og frumvarpið kalli ekki á frekari aðgerðir á þessu sviði.
    Í n-lið (19. gr.) er um að ræða innleiðingu á 28. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í o-lið (20. gr.) er um að ræða innleiðingu á 29. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í p-lið (21. gr.) er um að innleiðingu á 30. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í q-lið (22. gr.) er um að ræða innleiðingu á 36. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Rétt er að benda á að skv. 32. gr. a laga um loftslagsmál er óheimilt að geyma koldíoxíð í jarðlögum, sérefnahagslögsögu og á landgrunni. Framangreint bann tekur þó ekki til verkefna í rannsóknar-, þróunar- eða prófunarskyni ef um er að ræða verkefni þar sem ætlunin er að geyma minna en samtals 100 kílótonn koldíoxíðs.
    Í r-lið (23. gr.) er um að ræða innleiðingu á 37. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í s-lið (24. gr.) er um að ræða innleiðingu á 38. og 39. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í t-lið (25. gr.) er um að ræða innleiðingu á 40. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í u-lið (26. gr.) er um að ræða innleiðingu á 56. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í v-lið (27. gr.) er um að ræða innleiðingu á 58. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í x-lið (28. gr.) er um að ræða innleiðingu á 59. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í y-lið (29. gr.) er um að ræða innleiðingu á 62. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í z-lið (30. gr.) er um að ræða innleiðingu á 63. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í þ-lið (31. gr.) er um að ræða innleiðingu á 66. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í æ-lið (32. gr.) er um að ræða innleiðingu á 68.–70. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.

Um 8., 10., 14.–29., 31.–37. og 39.–44. gr.

    Í þessum greinum eru lagðar til ýmsar breytingar sem tengjast breyttri kaflaskipan og nýjum greinum og röð greina, sem og fyrirsögnum, og þarfnast ekki nánari skýringa.

Um 9. gr.

    Greinin er samhljóða 6. gr. b núgildandi laga utan þess að tilvísun til fylgiskjala með lögunum hefur verið breytt til samræmis við aðrar breytingar frumvarpsins.

Um 11. gr.

    Í a- og b-lið eru lagðar til breytingar á orðalagi til samræmis við breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Í c-lið eru lagðar til breytingar á tilvísunum til greina laganna í samræmi við breytta númeraröðun greina sem lögð er til í frumvarpinu.

Um 12. gr.

    Greinin er sett til innleiðingar á 9. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.

Um 13. gr.

     Um a–c-lið (38.–40. gr.).
    Í a–c-lið er lagt til að nýjum greinum verði bætt við lögin vegna innleiðingar á tilskipun 2010/75/ESB. Ákvæðin byggjast að öllu leyti á tilskipuninni og eru efnislega samhljóða henni. Helstu efnisatriði tilskipunarinnar eru tekin upp í núgildandi lög og verða ákvæðin síðan nánar útfærð með reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli laganna.
    Í a-lið (38. gr.) er um er að ræða innleiðingu á 11. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í b-lið (39. gr.) er um að ræða innleiðingu á 7. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í c-lið (40. gr.) er um að ræða innleiðingu á 8. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.

Um 30. gr.

     Um a-lið (54. gr.).
    Í a-lið er lagt til að nýrri grein verði bætt við lögin um eftirlit.
    Fyrstu tvær málsgreinar greinarinnar fela ekki í sér efnisbreytingar á núverandi fyrirkomulagi laganna. Atvinnurekstur sem fellur undir gildissvið laganna er háður eftirliti annaðhvort frá heilbrigðisnefndum eða Umhverfisstofnun og hafa eftirlitsaðilarnir heimildir til sýnatöku og að óska eftir upplýsingum.
    Með frumvarpinu er ætlunin að skerpa á núverandi framkvæmd eftirlits með starfsemi sem fellur undir lögin, m.a. með hliðsjón af innleiðingu tilskipunar 2010/75/ESB. Í 3. mgr. er lagt til að Umhverfisstofnun skuli gera eftirlitsáætlun sem taki til atvinnurekstrar sem fellur undir gildissvið laganna og skal áætlunin endurskoðuð reglulega og uppfærð eftir því sem við á. Þetta er nýmæli. Í 23. gr. tilskipunar 2010/75/ESB er gerð krafa um að hvert aðildarríki Evrópusambandsins útbúi eftirlitsáætlun sem nái til þeirrar starfsemi sem fellur undir gildissvið tilskipunarinnar. Gildissvið tilskipunarinnar er þrengra en gildissvið laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í frumvarpinu er lagt til að eftirlitsáætlun Umhverfisstofnunar nái til allrar starfsemi sem fellur undir gildissvið laganna, og því er gengið lengra í innleiðingu tilskipunarinnar en krafist er á grundvelli skuldbindinga Íslands sem leiðir af EES-samningnum. Að mati ráðuneytisins er nauðsynlegt að eftirlitsáætlun stjórnvalda nái til allrar starfsemi sem heyrir undir lögin. Tíðni eftirlits er í dag grundvölluð á reglugerð um mengunarvarnaeftirlit, sem sett var árið 1999, og ákvörðuð við útgáfu starfsleyfis. Ljóst er að framkvæmd og tíðni eftirlits tekur ekki að öllu leyti nægjanlega mikið tillit til þeirrar áhættu sem stafar af viðkomandi starfsemi. Af þeim sökum er lagt til að unnin verði eftirlitsáætlun af Umhverfisstofnun sem taki mið af þeirri áhættu sem stafar af viðkomandi starfsemi og tíðni eftirlits verði ákvörðuð með hliðsjón af áhættunni. Í 3. mgr. 23. tilskipunar 2010/75/ESB eru tilgreind þau atriði sem eiga að vera hluti af eftirlitsáætlun og mun það verða útfært í reglugerð sem ráðherra setur.
    Í 4. mgr. er lagt til að eftirlitsaðilar, þ.e. heilbrigðisnefndir sveitarfélaga og Umhverfisstofnun, geri reglulega áætlanir, á grundvelli eftirlitsáætlunar Umhverfisstofnunar, um reglubundið eftirlit með atvinnurekstri sem tilgreindur er í viðauka I–V, sbr. 46. gr. frumvarpsins. Heilbrigðisnefndir og Umhverfisstofnun munu skipuleggja tíðni eftirlits með hliðsjón af þeim viðmiðum sem fram koma í lögunum og í eftirlitsáætlun Umhverfisstofnunar. Í 4. mgr. 23. tilskipunar 2010/75/ESB eru tilgreind þau atriði sem taka á mið af við gerð áætlunar um reglubundið eftirlit á grundvelli eftirlitsáætlunar Umhverfisstofnunar. Ráðherra mun kveða á um þessi atriði í reglugerð.
    Í 5. mgr. er lagt til að eftirlitsaðili skuli eftir hverja vettvangsheimsókn taka saman skýrslu með lýsingu á því sem fram kom og skiptir máli varðandi reglufylgni starfseminnar við leyfisskilyrðin og niðurstöðum um hvort frekari aðgerðir eru nauðsynlegar. Ekki er um að ræða efnislega breytingu á núverandi fyrirkomulagi við framkvæmd eftirlits. Með frumvarpinu er ætlunin að kveða skýrar á um núverandi framkvæmd í lögunum, m.a. með hliðsjón af innleiðingu tilskipunar 2010/75/ESB. Jafnframt er í greininni lagt til að skýrslan verði gerð aðgengileg á vefsvæði eftirlitsaðila. Í 6. mgr. 23. gr. tilskipunar 2010/75/ESB er kveðið á um að eftirlitsskýrslur varðandi atvinnurekstur sem fellur undir viðauka I, sbr. 46. gr. frumvarpsins, skuli gerðar aðgengilegar fyrir almenning. Í frumvarpinu er lagt til að eftirlitsskýrslur varðandi atvinnurekstur sem fellur undir lögin skuli gerðar aðgengilegar og því er gengið lengra í innleiðingu tilskipunarinnar en krafist er á grundvelli skuldbindinga Íslands sem leiðir af EES-samningnum. Hafa verður í huga að unnt er að óska eftir aðgengi að eftirlitsskýrslum á grundvelli upplýsingalaga og um nokkurt skeið hefur Umhverfisstofnun birt eftirlitsskýrslur á vefsvæði sínu. Að mati ráðuneytisins mun opinber birting á niðurstöðum eftirlits skapa aukið traust á fyrirkomulagi eftirlits og stuðla enn frekar að því að fyrirtæki kappkosti að framfylgja gildandi löggjöf.
    Greinin er sett til innleiðingar á 23. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
     Um b-lið (55. gr.).
    Í b-lið er fjallað um viðbrögð eftirlitsaðila við frávikum í starfsemi rekstraraðila. Ekki er um að ræða efnisbreytingu á núverandi framkvæmd við eftirlit enda gerir núverandi fyrirkomulag ráð fyrir að atvinnurekstur sem fellur undir lögin sé háður eftirliti annaðhvort frá heilbrigðisnefndum eða Umhverfisstofnun. Ef eftirlit framangreindra aðila leiðir í ljós að einhverju sé ábótavant í hlutaðeigandi starfsemi hafa stjórnvöldin gert athugasemdir og eftir atvikum beitt þvingunarúrræðum til þess að bætt hafi verið úr ágöllum. Með frumvarpinu er ætlunin að kveða skýrar á um núverandi framkvæmd í lögunum, m.a. með hliðsjón af innleiðingu tilskipunar 2010/75/ESB. Um er að ræða innleiðingu á 8. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.

Um 38. gr.

    Í greininni er lagt til að nýrri málsgrein verði bætt við 28. gr. gildandi laga. Málsgreinin er samhljóða 6. gr. e laganna en þeirri grein er breytt með 12. gr. frumvarpsins. Betur fer á að hafa málsgreinina í kaflanum um þvingunarúrræði þar sem hún fjallar um heimildir heilbrigðisnefnda til að beita þvingunarúrræðum þegar um er að ræða færanlega starfsemi sem er stunduð á svæði nefndarinnar og er með starfsleyfi gefið út á öðru heilbrigðiseftirlitssvæði.

Um 45. gr.

    Líkt og rakið er í 3. kafla greinargerðarinnar, sem og skýringum við a-lið 7. gr. frumvarpsins, þarf að undirbúa upptöku skráningarskyldu í stað starfsleyfa. Af þeim sökum er lagt til að óbreytt fyrirkomulag verði á útgáfu starfsleyfa til og með 31. desember 2018. Jafnframt er lagt til að heilbrigðisnefndir afgreiði þær umsóknir um starfsleyfi sem berast þeim fyrir 1. janúar 2019, þ.e. til og með 31. desember 2018.

Um 46. gr.

    Í greininni er lagt til að fylgiskjöl I–III við lögin falli brott. Í stað þeirra koma fimm nýir viðaukar, sbr. 47. gr. frumvarpsins.
    Í viðauka I er tilgreindur atvinnurekstur sem tilgreindur er í viðauka I með tilskipun 2010/75/ESB. Í viðauka II er tilgreindur atvinnurekstur, sem er ekki að finna í viðauka I með tilskipun 2010/75/ESB og er starfsleyfisskyldur samkvæmt núgildandi lögum og Umhverfisstofnun veitir starfsleyfi. Í viðauka III er tilgreindur atvinnurekstur sem tilgreindur er í viðauka VII með tilskipun 2010/75/ESB. Í viðauka IV er tilgreindur atvinnurekstur sem er starfsleyfisskyldur samkvæmt núgildandi lögum og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga veita starfsleyfi. Viðaukinn er samhljóða fylgiskjali 2 með reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Í viðauka V er tilgreindur atvinnurekstur sem er starfsleyfisskyldur samkvæmt núgildandi lögum og heilbrigðisnefndir sveitarfélaga veita starfsleyfi. Viðaukinn er samhljóða fylgiskjali III með núgildandi lögum.
    Um er að ræða innleiðingu á viðauka I og VII með tilskipun 2010/75/ESB.

Um 47. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 48. gr.

    Lagt er til að lögin öðlist gildi 1. júlí 2017 fyrir utan eitt ákvæði laganna. Í k-lið 7. gr. frumvarpsins er lagt til að rekstraraðili skuli gera skýrslu um grunnástand. Rétt þykir að að gefa rekstraraðilum aðlögunartíma áður en þessi skylda verður á þá lögð. Af þeim sökum er lagt til að rekstraraðili þurfi ekki að taka saman skýrslu um grunnástand eða grípa til nauðsynlegra ráðstafana fyrr en eftir 1. júlí 2018.

Um 49. gr.

    Í greininni eru lagðar til breytingar á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, vegna innleiðingar á tilskipun 2010/75/ESB og samsvarandi breytingar á útgáfu starfsleyfa, endurskoðunar starfsleyfa og heimildar ráðherra til að kveða á um skráningarskyldu og lagðar eru til í frumvarpinu varðandi lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.
    Í 1. og 2. tölul. eru lagðar til breytingar á 14. og 16. gr. laganna til samræmis við aðrar breytingar í frumvarpinu. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á útgáfu starfsleyfa og endurskoðun þeirra og að skráningarskylda komi í stað starfsleyfa í ákveðnum tilvikum. Um þessi atriði er vísað til umfjöllunar í 3. kafla greinargerðarinnar sem og skýringa við a-lið 7. gr. frumvarpsins.
    Í 3. tölul. er lagt til að bætt verði við lögin nýjum heimildum fyrir ráðherra að útfæra nánar í reglugerð þau atriði sem eru tilgreind í greininni.
    Í 4. tölul. er lagt til að 62. gr. laganna verði breytt og bætt við hana tilteknum atriðum sem gerð er grein fyrir í greininni. Um er að ræða innleiðingu á 44. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í 5. tölul. er lagt til að 63. gr. laganna verði breytt og við hana bætt tilteknum atriðum sem gerð er grein fyrir í greininni. Um er að ræða innleiðingu á 45. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í 6. tölul. er lagt til að fimm nýjum greinum verði bætt við lögin. Í a-lið er um að ræða innleiðingu á 47. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Í b-lið er um að ræða innleiðingu á 49. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Í c-lið er um að ræða innleiðingu á 50. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Í d-lið er um að ræða innleiðingu á 52. gr. tilskipunar 2010/75/ESB. Í e-lið er um að ræða innleiðingu á 54. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í 7. tölul. er lagt til að 64. gr. laganna verði breytt og við hana bætt tilteknum atriðum sem gerð er grein fyrir í greininni. Um er að ræða innleiðingu á 46. og 48. gr. tilskipunar 2010/75/ESB.
    Í 8. tölul. er lagt til að nýtt ákvæði til bráðabirgða bætist við lögin. Líkt og rakið er í 3. kafla greinargerðarinnar, sem og skýringum við a-lið 7. gr. frumvarpsins, þarf að undirbúa upptöku skráningarskyldu í stað starfsleyfa. Af þeim sökum er lagt til að óbreytt fyrirkomulag verði á útgáfu starfsleyfa til og með 31. desember 2018. Jafnframt er lagt til að heilbrigðisnefnd afgreiði þær umsóknir um starfsleyfi sem hafi borist til nefndarinnar fyrir 1. janúar 2019, þ.e. til og með 31. desember 2018.