Ferill 377. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 506  —  377. mál.
Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um erfðafjárskatt, nr. 14/2004, með síðari breytingum (fyrirframgreiddur arfur).

Flm.: Teitur Björn Einarsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Njáll Trausti Friðbertsson, Valgerður Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Árnason, Vilhjálmur Bjarnason.


1. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: Ákvæði þetta gildir jafnframt um fyrirframgreiðslu arfs.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2017.

Greinargerð.

Markmið og meginefni frumvarpsins.
    Markmið þessa frumvarps er að lækka skattbyrði fólks við greiðslu á erfðafjárskatti þegar um er að ræða fyrirframgreiddan arf og koma á samræmi í framkvæmd við greiðslu erfðafjárskatts vegna annars vegar slita á dánarbúi og hins vegar fyrirframgreiðslu arfs.
    Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, kemur fram sú regla að engan erfðafjárskatt skuli greiða af fyrstu 1.500.000 kr. í skattstofni dánarbús. Hins vegar er tekið fram í sama ákvæði að frítekjumarkið gildi ekki um fyrirframgreiðslu arfs. Í frumvarpi þessu er lögð til sú breyting að sams konar frítekjumark skuli gilda fyrir fyrirframgreiðslu arfs og gildir um greiðslu úr dánarbúi.

Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Erfðafjárskattur er dæmi um skattlagningu við yfirfærslu eigna milli aðila. Má reyndar segja að erfðafjárskattur sé skattlagning á tilfærslu fjármagns á milli kynslóða. Þau verðmæti sem þarna um ræðir og mynda skattstofn erfðafjárskatts hafa þegar verið skattlögð áður, jafnvel mörgum sinnum, t.d. í formi launaskatta, fjármagnstekjuskatta og eignarskatta. Af þeim sökum hefur hin sérstaka skattlagning í formi erfðafjárskatts löngum verið talin ósanngjörn á grundvelli sjónarmiða um að sporna eigi gegn tvísköttun. Þau sjónarmið hafa vafalaust legið til grundvallar því hvað skattprósentan var höfð lág, eða 5%, við grundvallarbreytingu á álagningu erfðafjárskatts árið 2004 með setningu laga nr. 14/2004. Með lögum nr. 164/2010, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var erfðafjárskatturinn tvöfaldaður og prósentuhlutfallið hækkað úr 5% í 10% í ljósi sérstakra og erfiðra aðstæðna í ríkisfjármálum. Skatthlutfallið er enn 10% nú sjö árum seinna þrátt fyrir gjörbreytt landslag í ríkisfjármálum.
    Í þessu frumvarpi er ekki lagt til að skattprósenta erfðafjárskatts verði lækkuð eða erfðafjárskattur afnuminn, þótt full ástæða væri til þess að stefna að því að mati flutningsmanna. Slík breyting hefði nokkur áhrif á tekjuspá ríkisfjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar og því eðlilegra að það yrði skoðað í því samhengi og samhliða öðrum tekjuráðstöfunum í tengslum við framlagningu fjárlagafrumvarps.
    Full ástæða er þó nú til þess að breyta skattframkvæmd þegar um er að ræða fyrirframgreiddan arf með því að taka upp sams konar frítekjumark og gildir um greiðslur úr dánarbúi.
    Ekkert er því til fyrirstöðu í gildandi lögum að arfur sé greiddur erfingjum í lifanda lífi arfleifanda og greiðist af honum skattur með sama skatthlutfalli og ef um skipti á dánarbúi væri að ræða.
    Erfingjar fyrirframgreidds arfs geta verið annars vegar lögerfingjar og hins vegar þeir sem teljast erfingjar samkvæmt erfðaskrá. Arfleifandi getur þó ekki ráðstafað með erfðaskrá meira en 1/ 3 eigna sinna ef skylduerfingjar eru til staðar og taka arf. Skylduerfingjar eru maki og niðjar. Niðjar eiga rétt á 2/ 3 og maki 1/ 3 af arfi arfleifanda. Ef maka er ekki til að dreifa taka niðjar allan arf en hafi arfleifandi ekki eignast börn tekur maki allan arf.
    Fyrirframgreiðsla arfs, hvort sem hún er lítil eða mikil, er einföld og eðlileg leið fyrir einstaklinga til að koma fjármunum til skylduerfingja eða erfingja samkvæmt erfðaskrá. Ástæðan fyrir því kann að vera margvísleg. Til að mynda aðstoð af hálfu foreldra við kaup á íbúðarhúsnæði eða til að leysa erfið fjárhagsleg mál. Í þessu sambandi þarf ekki að fjölyrða um erfiða stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði um þessar mundir og getur eðlilegri hvati til fyrirframgreiðslu arfs skipt máli í því sambandi.
    Fyrirframgreiddur arfur getur jafnframt í mörgum tilvikum komið í stað óheppilegra lánveitinga og tengdra gjörninga með veð milli skyldra aðila eða að eignir séu færðar á milli aðila án þess að réttilega sé gerð grein fyrir þeim í samræmi við ákvæði skattalaga. Í slíkum tilvikum kunna skattyfirvöld að meta þess háttar eignayfirfærslur sem óeðlilegan gjafagerning og skattlagt í kjölfarið sem tekjuskatt.
    Þegar fyrirframgreiddur arfur er greiddur til skylduerfingja kemur sú greiðsla til frádráttar arfi hans við andlát arfleifanda og miðast frádrátturinn við gangverð þegar arfinum var veitt viðtaka, framreiknuðum til verðlags á þeim tíma sem frádráttur á sér stað við arfskipti. Skattur af fyrirframgreiddum arfi miðast við þann dag sem sýslumaður áritar erfðafjárskýrslu.
    Verði frumvarpið að lögum verður breytingin einungis sú að ekki reiknast erfðafjárskattur af fyrstu 1.500.000 kr. sem greiddar eru í fyrirframgreiddan arf. Skiptir þá ekki máli hvort arfleifandi fyrirframgreiði arf til sama erfingja mörgum sinnum á einhverju árabili. Frítekjumarkið endurnýjast ekki, t.d. milli skattára, né þegar kemur að endingu að greiðslum úr dánarbúi arfleifandans. Flutningsmenn telja mikilvægt að ekki líði langur tími frá því að frumvarpið verður samþykkt sem lög frá Alþingi þar til þau taka gildi vegna eðlis málsins.

Mat á áhrifum.
    Telja má að breytingin, ef af verður, hefði óveruleg áhrif á tekjuöflun ríkissjóðs. Það skýrist af því að eðlilegri hvati til frekari fyrirframgreiðslu á arfi umfram það sem nú er mun vega upp á móti áhrifum af lægri skattbyrði fólks vegna frítekjumarksins.