Ferill 383. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


146. löggjafarþing 2016–2017.
Þingskjal 512  —  383. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um þjóðaratkvæðagreiðslu um samningaviðræður við Evrópusambandið.


Flm.: Smári McCarthy, Birgitta Jónsdóttir, Björn Leví Gunnarsson, Gunnar Hrafn Jónsson, Halldóra Mogensen, Einar Brynjólfsson, Jón Þór Ólafsson, Gunnar I. Guðmundsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Ásta Guðrún Helgadóttir.


    Alþingi ályktar að fram fari þjóðaratvæðagreiðsla vorið 2018 um hvort hefja eigi að nýju samningaviðræður um aðild Íslands að Evrópusambandinu.
    Eftirfarandi spurning verði borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslunni:
    „Vilt þú að ríkisstjórnin hefji að nýju samningaviðræður við Evrópusambandið um hugsanlega inngöngu Íslands?
               Já.
               Nei.“

Greinargerð.

    Samningaviðræður við Evrópusambandið hófust í kjölfar þingsályktunar nr. 1/137 sem samþykkt var 16. júlí 2009. Viðræðum var síðan annaðhvort frestað eða slitið, án þess að skýrt væri hvort var, með einhliða ákvörðun utanríkisráðherra án heimildar Alþingis með bréfi til Edgars Rinkevics, utanríkisráðherra Lettlands sem þá fór með formennsku í Evrópusambandinu, og Johannesar Hahn, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, 1. mars 2015.
    Síðan þá hefur staða Íslands verið óskýr og sömuleiðis framtíð viðræðna. Hér er lagt til að vilji almennings í málinu verði fenginn fram með skýrum hætti til leiðbeiningar fyrir Alþingi og ríkisstjórnina um framhaldið.